Hafnarfjörður - Garðabær - 17.10.2014, Blaðsíða 2
2 17. Október 2014
Gera tilboð í Þýskubúð
Hafnarfjarðarbær hyggst gera til-boð í eyðibýlið Þýskubúð við
Straumsvík. Fram kemur í gögnum
bæjarins að landið sem um ræðir sé 2
hektarar og að fasteignasali hafi metið
landið á tíu milljónir króna. Fasteigna-
matið sé hins vegar umtalsvert lægra,
eða ríflega ein milljón króna, rúm hálf
milljón króna á hektara. Bæjarráð
hefur falið bæjarstjóra að gera tilboð í
landið, sem miðist við fasteignamatið.
„Verðmat fasteignasalans er líklega
miðað við mat á sumarbústaðarlandi,
en sumarbústaðarland á þessum stað
er líklega ekki mikils virði,“ segir Bjarki
Jóhannesson, skipulags- og byggingar-
fulltrúi Hafnarfjarðar í minnisblaði til
bæjarráðs, svæðið sé aðeins nýtilegt
sem útivistarsvæði.
Svæðið er á náttúruminjaskrá,
sem þýðir að allar framkvæmdir eru
háðar leyfi Umhverfisstofnunar. Bú-
seta er hins vegar óheimil á svæðinu,
vegna þess að það er innan þynn-
ingarsvæðis álversins í Straumsvík.
Af sömu ástæðum er landbúnaður og
matvælaframleiðsla bönnuð á landinu.
Því, segir í gögnum bæjarins, sé hæpið
að líta á landið sem sumarbústaðaland.
Þau verðmæti sem liggja í landinu
fyrir Hafnarfjarðarbæ liggja fyrst og
fremst í útivistargildi þess, segir Bjarki
í minnisblaðinu, aðgengi að strönd og
verndargildi þess, en nokkrar forminjar
eru á svæðinu. „Það væri því ákjósan-
legt fyrir Hafnarfjarðarbæ að eignast
landið eins og aðliggjandi land,“ segir
í minnisblaðinu. Ekki sé mælt með því
að hærra verð verði greitt fyrir landið
en verðmat fasteignasalans, en bærinn
hyggst, líkt og framan greinir, bjóða tíu
sinnum lægri upphæð.
• Minnkar upptöku á fitu
• Styður við vöðvauppbyggingu • Án örvandi efna
• Eykur fitubrennslu
www.usn.is
Fæst hjá Hagkaup Garðabæ
Útboð notuð til að
halda launum niðri
Hótanir um útboð eru not-aðar í kjaraviðræðum við vagnstjóra Strætó bs. Fullyrt
er að við kjarasamningagerð komi
ávallt upp slík umræða og fulltrúar
byggðasamlagsins Strætó bendi á að
vilji stéttarfélagið taka harkalega á í
kjaraviðræðum, þá væri hægt að bjóða
út allar ferðir.
Bæði Hafnarfjörður og Garðabær
eru aðilar að byggðasamlaginu og á
hvor bær sinn stjórnarmann. Reykjavík
er hins vegar stærsti eigandi byggða-
samlagsins.
„Útboð eru í eðli sínu gerð til að ná
fram hagræði í rekstri. Það er alveg ljóst
að ekinn kílómetri í útboðnum akstri er
lægri en ekinn kílómetri í okkar eigin
akstri. Þannig að við erum bara sem
stjórn að gæta hagsmuna eigenda og sjá
til þess að hægt sé að reka Strætó með
sem hagkæmasta hætti,“ segir Bryndís
Haraldsdóttir, stjórnarformaður Strætó
bs. og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
í Mosfellsbæ.
- Þú ert þá að segja að þið eruð með-
vituð um það að hluti kostnaðarins
við hægræðingu er borinn á herðum
óbreyttra starfsmanna Strætó í formi
verri starfskjara?
„Já, ég þekki bara ekki þær tölur. Ég
veit bara að einkaðaðilar hafa getað gert
þetta með hagkvæmari hætti en við. “
Sjá ítarlega umfjöllun bls. 8.
Íslendingur í hópi hluthafa
Frh. af forsíðu.
Í drögum að viljayfirlýsingunni segir enn fremur að í þessu geti falist at-vinnutækifæri fyrir Hafnrfirðinga,
auk þess sem Aqua Couture muni halda
á lofti gæðum hafnfirska ferskvatnsins.
Vatnsveitustjóra Hafnarfjarðar hefur
verið falið að ræða áfram við fyrirtækið.
Stefnt er að því, samkvæmt viljayfir-
lýsingunni, að viðræðum verði lokið
fyrir áramót. Í viljayfirlýsingunni segir
að rætt sé um að fyrirtækið fái sem
nemur 3 sekúndulítrum af ferskvatni
frá Hafnarfjarðarbæ.
Aqua Couture var stofnað á Írlandi
26. nóvember í fyrra. Stjórnendur og
helstu eigendur, samkvæmt ársreikn-
ingi 2013 eru nefndir tveir. Alexander
Titomirov og Melody Sanger. Þau eru
bæði skráð til heimils í Flórída í Banda-
ríkjunum og hafa hvorugt áður stýrt
fyrirtækjum á Írlandi.
Auk þeirra eru skráðir hluthafar
Bruno Delahaye í Frakklandi, Michael
McNamara í Mónakó og Davíð Stef-
ánsson, sem skráður er til heimilis í
Reykjavík.
Hlutafé í Aqua Couture nemur 121
þúsund evrum, eða sem nemur um 18
milljónum króna. Hlutafé skiptist í A
og B hluta. A hlutir eru 2.100.000 og B
hlutir 10.000.000. Á Davíð Stefánsson
500.000 B hluti samkvæmt reikningi
félagsins fyrir síðasta ár. Hver hlutur
er eitt evrusent að nafnvirði.
Íslandsvinur?
Alex Titomirov, annars stærstu hlut-
hafanna í Aqua Couture, er þekktur
auðmaður. Hann fæddist árið 1960 í
Rússlandi en flutti seinna til Banda-
ríkjanna þar sem hann hefur aðsetur.
Hann auðgaðist af líftækniiðnaði, en
hann er stofnandi félagsins Informax
auk þess að hafa staðið að fleiri fé-
lögum í líftækniiðnaði, ef marka
má Wikipediu. Titomirov er ekki
ókunnur Íslandi. Hann kom hingað
til lands árið 2005 í fylgd með skák-
meistaranum Boris Spassky til þess
að hitta Bobby Fischer, en hermt er
að Titomirov sé mikill skákáhuga-
maður.
Vatnsdraumar sem ekki rættust
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hafn-
firðingar hafa gert áætlanir um að selja
vatn til erlendra aðila, því bæjarstjórn
Hafnarfjarðar samþykkti um mitt ár
2008 að fyrirtækið Glacier World ehf.,
fengi 1,5 hektara lóð í Hellnahrauni
undir vatnsverksmiðju. Þetta var gert
á grundvelli viljayfirlýsingar.
Bakhjarlar Glacier World voru sá-
dí-arabískir fjárfestar. Ekkert varð af
framkvæmdum. Glacier World fram-
lengdi viljayfirlýsingu sína tvisvar, síð-
ast til ársins 2011, en síðan mun ver-
kefnið hafa sofnað svefninum langa.
Vatnsverksmiðuverkefni hafa
einnig verið í vinnslu á Ísafirði og á
Snæfellsnesi, án þess að orðið hafi úr
framkvæmdum.
Fimm af sex fulltrúum
úr Sjálfstæðisflokknum
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks-ins í borgarráði Reykjavíkur hafa lagt til að minnihlutinn í
borgarstjórn fái sérstakan fulltrúa í
stjórn Sorpu. Reykjavík er lang stærsti
eigandi byggðasamlagsins, sem er í
sameign sveitarfélaga á höfuðborgar-
svæðinu.
„Við höfum fullt traust á okkar full-
trúa í stjórninni,“ segir Halldór Hall-
dórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í
borgarstjórn og formaður Sambands
sveitarfélaga. „Þetta er sett fram í sam-
hengi við almenna umræðu um þessi
byggðasamlög. Þau eru fjarlæg okkur
kjörnum fulltrúum,“ segir Halldór og
tekur sem dæmi að menn fái lítið út
úr því að lesa einungis fundargerðir
stjórnar byggðasamlagsins. „Þess
vegna veltum við því upp hvort minni-
hlutinn ætti ekki líka að fá fulltrúa, líka
í því ljósi að Reyjavík er lang stærsti
eigandinn.“
Halldór segir jafnframt að sjálfstæð-
ismenn vilji gjarnan að þessi fulltrúi
kæmi úr þeirra röðum.
Sex sitja í stjórn Sorpu, en hvert
sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu á
sinn fulltrúa í stjórn. Sjálfstæðisflokk-
urinn er ýmist með hreinan meirihluta
eða á í meirihlutasamstarfi í öllum
sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins,
utan Reykjavíkur.
Halldór Auðar Svansson, Pírati, er
fulltrúi Reykjavíkur í stjórninni. Allir
hinir fimm fulltrúarnir koma hins
vegar úr Sjálfstæðisflokknum.
Spurður um þessa staðreynd segir
Halldór Halldórsson: „Ég hafði raunar
ekki velt því fyrir mér þegar ég horfi
yfir nöfnin, hvaðan þau koma, en Sjálf-
stæðisflokkurinn er með meirihluta
eða í meirihlutasamstarfi í þessum
sveitarfélögum.“
Stjórn Sorpu
Halldór Auðar Svansson fyrir
Reykjavík – Píratar - varafor-
maður
Guðmundur Geirdal
Kópavogi – Sjálfstæðisflokkur
Rósa Guðbjartsdóttir
Hafnarfirði – Sjálfstæðisflokkur
Jóna Sæmundsdóttir
Garðabæ – Sjálfstæðisflokkur
Hafsteinn Pálsson
Mosfellsbæ – Sjálfstæðisflokkur
Bjarni Torfi Álfþórsson
Seltjarnarnesi –Sjálfstæðisflokkur
– formaður
Bjartsýnn á
nýtt knatthús
Málið er í vinnslu hjá bæjar-yfirvöldum þar sem verið er að kortleggja kosti og
fleira,“ segir Almar Guðmunds-
son, formaður knattspyrnudeildar
Stjörnunnar um knattspyrnuhús sem
félagið hefur lengi kallað eftir. „Ég er
bjartsýnn á að málið komist í farveg
á næstu mánuðum,“ segir Almar um
málið.
Starfshópur barna og unglinga-
ráðs knattspyrnudeildar Stjörnunnar
í Garðabæ sem skilaði skýrslu til fé-
lagsins síðasta vetur, telur „gríðarlega“
þörf fyrir knatthús í bænum.
Fjallað var um málið á félagsfundi
hjá knattspyrnudeild Stjörnunnar í
byrjun árs. Hópurinn taldi mikilvægt
að knatthús yrði sett niður á Ásgarðs-
svæðinu. Fram kom á fundinum að
lágmarkskostnaður við slíka fram-
kvæmd yrði á bilinu 2-300 milljónir
króna, en það færi eftir því hvernig
húsið yrði gert úr garði. Byggingatími
yrði sennilega um eitt ár.
Ekki á fjárhagsáætlun
Erling Ásgeirsson, þá bæjarfulltrúi og
formaður bæjarráðs, sagði ef marka
má fundargerð félagsfundarins sem
haldinn var í janúar, að umræðan um
knatthús í Garðabæ væri ekki ný. En
upplýsti að verkefnið hefði þá ekki
verið á þriggja ára fjárhagsáætlun
Garðabæjar.
Almar Guðmundsson fjallaði um
árangur félagsin á fundinum og taldi
nauðsynlegt að byggja frekar upp að-
stöðu til knattspyrnuiðkunar í bænum.
Miklu skipti að viðunandi aðstaða væri
fyrir hendi fyrir tækniþjálfun yngri og
eldri flokka. Yfirbyggð aðstaða skipti
verulegu máli við að efla gæði þjálf-
unar og knattspyrnulega getu iðkenda
Stjörnunnar. Því væri brýn þörf á því
að reisa knattspyrnuhús svo að iðk-
endur gætu eins og knattspyrnufólk
í nágrannasveitarfélögum spilað og
notið þjálfunar yfir vetrartímann við
bestu mögulegu aðstæður. Í kjölfarið
var skorað á bæjarstjórn Garðabæjar
að setja málið í forgang.
Blaðið hefur frá byrjun september
beint ítrekuðum fyrirspurnum um
málið til Gunnars Einarssonar bæjar-
stjóra Garðabæjar, en ekki fengið svar.
Fjallað er um Þýskubúð í 7. bindi ritraðarinnar eyðibýli á Íslandi. Nafnið er til
komið vegna verslunarumsvifa Þjóðverja á 15.-17. öld. Mynd: eydibyli.is