Akureyri - 08.05.2014, Page 8
8 17. tölublað 4. árgangur 8. maí 2014
VILTU SEGJA SKOÐUN ÞÍNA?
Akureyri vikublað óskar eftir að komast í samband við bæjabúa sem
sjaldan eða aldrei hafa veitt viðtöl en væru til í að segja skoðun sína í
blaðinu eða veita stutt viðtöl. Vinsamlegast sendið okkur tölvu-
póst á bjorn@akureyrivikublad.is eða hringið í síma 862 0856.
LOF OG LAST VIKUNNAR
LAST fær Akureyrarbær sem hefur
efni á 100 milljóna rennibraut en skerðir
þjónustu á Punktinum þar sem spara þarf
2.2 milljónir!!!! Svo mælir útsvarsgreiðandi
og notandi Punktsins á Akureyri í pósti til
blaðsins.
LOF fær „veðurguðinn sem gaf okkur
blíðviðrið 1. maí“. Svo mælir glaðlynd kona
á Brekkunni.
LAST fá strætisvagnar Akureyrarbæjar
fyrir að hætta að leyfa hjól í strætó. Svo
skrifar kona á Akureyri í bréfi til blaðsins.
„Get skilið það ef vagninn væri yfirfullur en
ekki þegar er lítið af fólki í vagninum. Var
vön að fara með strætó aðra leið og hjóla
svo heim.“
LOF fær starfsmaður Greifans, ungur
þjónn, kona, sem hljóp út á eftir fjölskyldu
sem hafði gleymt hálsfesti 3ja ára stúlku sl.
sunnudag. Starfsmaðurinn lagði mikið á sig
til að hafa uppi á fólkinu sem hafði lagt bíl
sínum nokkuð frá, gerði miklu meira til að
koma í veg fyrir ama litlu stúlkunnar af því að
gleyma hálsfestinni en hægt er að fara fram
á, segir þakklátur karl sem hafði samband
við blaðið...
LAST vikunnar fær fólk sem fer með
hunda í kirkjugarðinn því það er bannað.
Svo segir í bréfi til blaðsins. „Meira LAST
fær fólkið sem sleppir hundunum sínum
lausum í kirkjugarðinum, því þetta er jú ekki
hundasvæði. Og versta lastið fær svo fólkið
sem tekur ekki upp skítinn eftir hundana sína
í kirkjugarðinum, sýnið nú smá virðingu kæru
hundaeigendur og hættið að skemma fyrir
þeim hundaeigendum sem standa sig vel.“
LAST fær forstöðumanneskja Sundlaugar
Akureyrar „þar sem hvorki var flaggað þar á
sumardaginn fyrsta né 1. maí.“ Svo skrifar
fastagestur laugarinnar...
Akureyrarbær fær LAST fyrir að „vera að
murka lífið úr Leikfélagi Akureyrar, einni elstu
og virtustu menningarstofnun bæjarins í nær
heila öld. Því miður hafa þeir ekki þroska
til að skammast sín en ég treysti því að ný
bæjarstjórn beri gæfu til að blása lífi í hræið
svo LA megi blómstra á ný“ segir kona á
Akureyri í bréfi til blaðsins.
AKUREYRI VIKUBLAÐ 17. TÖLUBLAÐ, 4. ÁRGANGUR 2014
ÚTGEFANDI Fótspor ehf. ÁBYRGÐARMAÐUR Ámundi Ámundason 824 2466, amundi @ fotspor.is.
FRAMKVÆMDASTJÓRI Ámundi Steinar Ámundason, as @ fotspor.is.
AUGLÝSINGASTJÓRI Ámundi Steinar Ámundason, as @ fotspor.is. 578-1193.
RITSTJÓRI Björn Þorláksson, bjorn @ akureyrivikublad.is, 862 0856 MYNDIR Björn Þorláksson, Völundur Jónsson og fleiri.
UMBROT Völundur Jónsson PRENTUN Ísafoldarprentsmiðja - Svansmerkt prentun. DREIFING
14.500 EINTÖK ÓKEYPIS – UM ALLT NORÐURLAND
Klanhyggja hins
bjarta norðurs
Það er gaman að kvikna til vorsins með bænum okkar. Bærinn hefur verið kosinn sá fegursti á landi hér og
víst er að þótt fleiri uppkomnir Akureyringar en færri
þurfi að flytja á brott til þess að finna sín tækifæri vegna
skorts á tækifærum í hinu bjarta norðri vöknar flestum
brottfluttum bæjarbúanum um augu þegar hann snýr
heim í fríum og lítur þessa vin gróðurs, sjávar, fjalla,
og góðs mannlífs augum eftir langt hlé.
Akureyri er eins og önnur íslensk sveitarfélög,
tengsl, völd, ættir og uppruni ráða nokkru hvort fólk
fær framgang, hvort það hlýtur starf við hæfi, nýtur
virðingar, blandast samfélaginu vel eða ekki. Í borgum
þar sem ókunnugleiki fólks á millum þykir norm er
einfaldara að auglýsa tækifærin og leggja hlutlægt
mat á hver sé hæfastur í ráðningarferli. Ísland allt býr
við slíkan nálægðarvanda vegna fámennis að halda má
fram að sjaldnast sé gengið frá nokkurri ráðningu hér á
landi án þess að einhver sem hefur með ráðningarvald
að gera þekki þann persónulega sem stendur til að
ráða hinum megin við borðið. Klanhyggjan á sér ýmis
heiti sem ganga dags daglega undir ýmsum nöfnum, í
þeim hópi eru Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur,
L-listinn, Björt framtíð, Samfylking, Vinstri grænir,
Píratar og svo framvegis. Um leið og við kynnumst
fólki, um leið og við treystum fólki, um leið og við för-
um að samsama okkur gildum sumra en annarra ekki
verður til félagshugsun sem leiðir til þess að þau sem
hafa völdin fá færi á að veita öðrum hlutdeild í völdun-
um. Þar er spurt um tengsl og persónulega eiginleika
umfram annað. Á við um hið bjarta norður sem aðra
íslenska bæi og ekki verður Reykjavík undanskilin.
Færa mætti rök fyrir að tengslahyggjan sé óhjá-
kvæmileg í 320.000 manna dvergríki. Það mætti einnig
færa rök fyrir að tengslahyggan reynist okkur dýr. Hvað
verður um þá sem kjósa að lifa frjálsir og sjálfstæðir,
halla sér aldrei að einu klíkubandi umfram annnað?
Hvað verður um þá sem trúa því að alþjóðleg menntun
og hugmyndafræðilegir verðleikar séu meira virði en
að ganga í einn íslenskan flokkshóp og styðja einn til
að geta sjálfur notið stuðnings síðar?
Akureyri nýtur þess að hér varð umpólun valda fyrir
fjórum árum. Ekkert sveitarfélag hefur gott af því að
vera eign sama stjórnmálahópsins áratugum saman.
Enginn á Akureyri frá einu kjörtímabili til annars.
Það er fallegt á Akureyri en það gæti orðið enn fal-
legra að búa hér ef þeir sem hafa völdin myndu átta sig á
að vinur er sá er til vamms segir. Ólíkt fólk kemst oft að
bestu niðurstöðunni, í kjölfar rökræðu. Þótt fólk greini á
um leiðir til að halda gunnfánum lýðræðis á lofti er það
ekki sjúkleikamerki heldur merki um heilbrigt lýðræði.
Hvað sem kemur upp úr kjörkössunum í vor væri
gaman ef næsta kynslóð bæjarfulltrúa gæti hugleitt
leiðir út úr klanhyggjunni sem þó er mikil áskorun í
landi fámennisins.
Þannig myndum við gera góðan bæ enn betri.
Björn Þorláksson
TVÍFARAR VIKUNNAR ERU listamaðurinn Hlynur Hallsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Sjónlistamiðstöðvarinnar á Akureyri,
og blaðamaðurinn góðkunni, sjálfur Tinni. Hlynur og Tinni eru ekki bara með svipaða hárgreiðslu heldur er hreinlyndi augna þeirra
svipaðrar gerðar sem og andlitsfall. Lesendur sem hafa gaman af tvífaramyndum mega gjarnan leggja í púkkið og senda ritstjóra
ábendingar á netfangið bjorn@akv.is. Í síðasta blaði vakti tvífari Prebens Péturssonar, varaþingmanns Bjartrar framtíðar, mikla athygli
en hann þykir fjallmyndarlegur sænskur leikari...
TVÍFARAR VIKUNNAR
AÐSEND GREIN SR. SVAVAR ALFREÐ JÓNSSON
Kveðja til frambjóðenda og kjósenda þeirra
Kvót: „Átthagahyggja getur verið nei-
kvæð. Henni fylgir gjarnan þröngsýni,
hroki og fordómar í garð þeirrar tegund-
ar manna sem nefnast aðkomumenn.“
Á Ítalíu er talað um
kampanílisma. Það er dreg-
ið af orðinu campanile sem
þýðir klukkuturn. Slík
mannvirki eru gjarnan mest
áberandi byggingar borga,
bæja og þorpa. Kampanílist-
ar eru hugfangnir af heima-
bæ sínum og líður best svo
lengi sem þeir sjá klukku-
turninn sinn.
Átthagahyggja getur
verið neikvæð. Henni fylgir
gjarnan þröngsýni, hroki
og fordómar í garð þeirrar
tegundar manna sem nefnast
aðkomumenn eða forestiero
á ítölsku.
Þó er alls ekki bara neikvætt að
þykja vænt um bæinn sinn og sakna
kirkjuturnanna þegar fjarskinn hefur
gleypt þá.
Heimurinn verður sífellt minni og
örlög íbúa hans samtvinnaðri. Engu að
síður eigum við enn mest undir nærum-
hverfinu. Til að okkur farnist vel þarf
það að vera þannig úr garði gert að
helstu þörfum okkar sé sinnt þar. Í
sveitarfélaginu okkar viljum við hafa
öll skilyrði til að geta lifað mannsæm-
andi lífi með reisn. Við viljum
líka geta haft áhrif á það til
að tryggja að samfélagið sé
að okkar óskum.
Þessvegna eru fáar kosn-
ingar þýðingarmeiri en sveit-
arstjórnarkosningar. Það
skiptir máli hvernig heima-
byggð okkar er stjórnað. Ak-
ureyri á sér allnokkra sögu
þar sem reynt hefur verið að
þróa samfélagið þannig að
það sé fært um að sinna þörf-
um íbúanna. Sú saga heldur
áfram og nú liggur fyrir að
rita næstu kafla hennar.
Í komandi bæjarstjórnar-
kosningunum er um marga lista að velja.
Þeir eru allir skipaðir sveitungum okkar
sem bjóða fram krafta sína í þágu okkar
íbúanna. Frambjóðendurna greinir á um
margt en eitt af því sem sameinar þá er
viljinn til að verða sveitarfélaginu að
gagni og borgurunum til blessunar.
Að sjálfsögðu þurfa þeir aðhald sem
völd hafa. Lýðræðið þrífst ekki án þess
að fólk skiptist á skoðunum. Hin þjóð-
félagslega umræða getur orðið óvægin.
Þegar fólki er mikið niðri fyrir er ef til
vill skiljanlegt að hún sé stundum án yf-
irvegunar. Það er samt hvorki lýðræðinu
né tjáningarfrelsinu til framdráttar ef
umræðumenningin er svo ruddaleg og
persónuleg að fólk veigrar sér við að
kveðja sér hljóðs eða taka þátt í stjórn-
málum.
Ég dáist að þeim sem nú bjóða sig
fram til starfa fyrir borgarana í sveitar-
félaginu Akureyri. Ekki er ég endilega
alltaf sammála þeim öllum en efast ekki
um heilindi frambjóðendanna og vilja
þeirra til að gera samfélagið betra.
Það er okkur íbúunum mikilvægt
að vandaðar manneskjur veljist til for-
ystu fyrir sveitarfélagið, fólk sem elskar
þorpið sitt, eyjuna sína og bæinn sinn
og vill halda áfram að þróa samfélagið
þannig að þar sé þörfum borgaranna
sinnt.
Við skulum endilega takast á um
málefni og leiðir en höfum andrúms-
loftið þannig að velviljuðu fólki finnist
eftirsóknarvert að taka að sér þjónustu-
starf bæjarfulltrúans.
Höfundur er sóknarprestur á Akur-
eyri.
SR. SVAVAR ALFREÐ
Jónsson