Akureyri


Akureyri - 08.05.2014, Page 12

Akureyri - 08.05.2014, Page 12
12 17. tölublað 4. árgangur 8. maí 2014 AÐSEND GREIN EDWARD H. HUIJBENS Bæjarmyndin til framtíðar – græna Akureyri Í stefnuskrá vinstrihreyfingarinnar græns framboðs (VG) á Akureyri er lögð fram skýr sýn á þróun Akureyr- ar til framtíðar í þágu fjölbreyttra samgöngumáta, þar sem fólki er gert kleift að komast sinna ferða gang- andi, hjólandi, með barnavagna eða í hjólastól. Til þess að svo megi verða þarf byggðin að vera þétt. Þjónusta, vinnustaðir og skólar þurfa að vera í hjarta hverfanna og skipulögð þannig að fjölbreytt aðgengi sé að þeim, ekki bara fyrir bíla. Byggðin á Akureyri er byrjuð að bera þess merki að hún dreifist um of. Nýtt Hagahverfi er nýjasta birtingar- mynd þess. Á þessari útþenslu vilj- um við hægja og þess í stað hefja uppbyggingu á skipulögðum reitum miðbæjarins og Drottningarbrautar- reits og hefja af krafti skipulag og uppbyggingu byggðar á Oddeyrinni. Til langrar framtíðar er sýn okkar sú að starfsemi vöruflutninga og stærri hafnsækin starfsemi verði á Dysnesi, eins og lýst er í svæðisskipulagi og Oddeyrartangi verði hafnarhverfi. Skipulag nýrra hverfa á að okkar viti að byggja á hugmyndafræði mið- bæjarskipulags sem nú er verið að samþykkja, þar sem íbúðir blandast smærri verslun og þjónustu í grænu og gönguvænu umhverfi og húsa- myndir hafa yfirbragð eldri húsa, sem Akureyri er þekkt fyrir. Þétting byggðar og uppbygging fjölbreyttra samgöngumöguleika er undirstaða grænnar Akureyrar. Í fyrsta lagi að gera fólki frekar kleift að fara gangandi eða hjólandi minnkar hávaða, dregur úr mengun af völdum útblásturs og svifryks og stækkar græn svæði, þar sem minna fer undir malbik. Akureyri er í okk- ar huga eitt stórt grænt svæði. Þau eiga ekki að vera aðskilin götum og byggingum á sérmerktum reit- um, heldust blandast byggð og fjöl- breyttum samgönguleiðum. Í öðru lagi stuðlar þétting byggðar að hagkvæmni í uppbyggingu innviða og bættri nýtingu þeirra. Vatnsveita, fráveita og rafmagn þarf að leiða um skemmri veg og dreifi- og dælustöðv- ar verða færri og öflugri. Þetta dregur úr sóun og tapi á þessum verðmætu auðlindum sem heitt og kalt vatn og rafmagn eru. Það að þétta byggð gerir uppbygginu fráveitu hagkvæm- ari, en uppbygging hennar og öflugra hreinsimannvirkja teljum við í VG forgangsmál og höfum talað fyrir í nú rúm 12 ár. Í þriðja lagi viljum við í VG gera fólki kleift að ganga og hjóla þar sem það stuðlar að bættri lýð- heilsu þar sem það eykur möguleika fólks á að hreyfa sig. Heilsa og um- hverfisvernd þættast þannig saman við skipulag byggðar á Akureyri og því viljum við í VG hafa þessa þætti í forgrunni þegar skipulagsmál eru rædd á Akureyri. Í huga okkar í VG er bæjarmynd Akureyrar til framtíðar þétt byggð með hlýlegu yfirbragði. Þar á fólk að getað notið vandaðrar hönnunar, gangandi, hjólandi eða á hægri bíl- ferð umlukið gróðri í grænum skrúða vors og sumars, hvítum kjólum vetr- ar eða litadýrð haustsins. Höfundur skipar 2. sætið á fram- boðslista VG á Akureyri fyrir kom- andi sveitarstjórnarkosningar AÐSEND GREIN JÓN ÞORVALDUR HEIÐARSSON Er hann náttúruverndarsinni? Hann notar handsláttuvél, honum finnst ekki verjandi að brenna bens- íni til að slá garðinn. Honum finnst þó koma til greina að nota rafmagns- sláttuvél. Hann sleppir aldrei terpentínu út í náttúruna en hann þarf stund- um að nota terpentínu til að hreinsa pensla. Hann nýtir sér að terpentín- an hreinsar sig sjálf ef hún stendur nógu lengi, málningin sest til botns, hann er því með nokkrar flöskur og hellir á milli eftir þörfum. Hann hengir allan þvott á snúru í stað þess að nota þurrkara. Til hvers að nota dýrmæta orku heimsins til að þurrka eitthvað sem þornar af sjálfu sér á nokkrum klukkutímum? Þvílík orkusóun! Almennt er sóun eitur í hans beinum, sérstaklega sóun á orku. Hann á hóflegan fjölskyldubíl sem gengur fyrir bensíni. Hann er mjög áhugasamur um að kaupa metanbíl þegar það verður val- kostur. Hann vill sem minnst vera ábyrgur fyrir brennslu jarðefna- eldsneytis. Hann styður háa skatta á það. Honum finnst holur hljómur í náttúruverndarmálflutningi þeirra sem snattast innanbæjar á 3 tonna bensínbílum. Hann telur að það væri til þæginda að eiga annan bíl til nota innanbæjar, en það þyrfti þá helst að vera rafmagnsbíll eða jafnvel raf- magnsvespa. Innanbæjar skiptir lítil drægni ekki máli. En honum finnst líka góður kostur að ganga, hjóla eða taka strætó. Hann er reyndar á nagladekkj- um á veturna því hann treystir ekki nægilega öðrum lausnum. En hann er með vetrardekkin á sér felgum og tekur þau strax und- an að vori um leið og götur eru orðnar auðar. Ef tíðin breytist og vetraraðstæður myndast aftur set- ur hann vetrardekkin einfaldlega undir aftur. Það er smá verk en í sjálfu sér lítið mál. Hann er hrifinn af rafmagnsbílum og öðru sem má knýja með rafmagni því honum finnst að rafmagnið sem framleitt er í virkjunum landsins sé umhverfisvænt. Í raun finnst hon- um vatnsaflið vera frábær leið til að framleiða orku. Hann er eiginlega skotinn í vatnsafli. Hann vonar að með sæstreng til Skotlands verði óumdeilt að íslensk orka sé örlítið lóð á vogarskál orkumála heimsins og minni kolefnislosunar. Hann telur samfélagslega skyldu sína að flokka ruslið sem best. Hann hafði lengi beðið eftir því að lífrænt sorp yrði meðhöndlað sérstaklega. Að sama skapi er hann sár og reið- ur þegar hann sér virðingarleysi annarra fyrir sorpflokkun, t.d. þegar plasti er hent inn í söfnunargám fyrir pappír. Verst þykir honum þegar fólk hendir rusli á víðavangi. Honum finnst það alveg ömurlegt, þá sýður á honum. Hins vegar finnur hann til einhverrar þrjósku að fara og tína þetta rusl, honum finnst að aðrir eigi ekki að geta hent rusli á víðavangi í trausti þess að hann eða aðrir tíni það upp. Hann tekur sem minnst af inn- kaupapokum í búðum. Þegar hann verslar fer hann með innkaupapoka með sér. Hann lítur upp til þeirra sem hafa sleppt plastpokunum alveg og nota eingöngu innkaupatöskur. Hann telur það almennt í þágu umhverfisins að nýta hluti vel. Hann vill nýta föt sem best og vill helst nota þau þar til þau eru nánast gat- slitin. Af þessum sökum kemst hann stundum í kast við tískulögregluna þegar hann er í fötum sem eru ekki alveg eftir nýjustu straumum. En hann lætur það yfir sig ganga. Alveg frá barnsaldri hefur það verið honum runnið í merg og bein að það væri eitthvað mjög rangt við það að henda mat. Hann vill ekki kaupa mat til að henda honum. Það finnst honum óverjandi sóun. Hann er eig- inlega hálfgerður matarrusladallur á heimilinu. Borðar það sem aðrir vilja ekki. Hann kann sér samt hóf, hann er ekki hlaupinn í spik, enda fyndist honum það einnig vera sóun að borða meiri mat en hann þarf. Honum finnst skelfilegt að heyra að 30% af öllum mat á Íslandi sé hent. Þar hlýtur þjóðin að geta gert betur hugsar hann. En hvað má segja um þennan mann? Er hann græningi? Er hann náttúruverndarsinni? Hann myndi jaðra við það að teljast græningi ef hann byggi á meginlandi Evrópu. Þ.e. teljast náttúruverndarsinni. En það er svo skrýtið að á Íslandi er hann ekki settur í þann flokk. Á Íslandi hefur nefnilega mælikvarðinn á náttúru- vernd verið að vera á móti virkjunum. Þeir sem eru á móti virkjunum eru náttúruverndarsinnar en aðrir ekki. Virkjanaumræðan hefur verið svo fyrirferðarmikil að allt annað sem fólk getur lagt af mörkum í daglegu lífi hefur oft fallið í skuggann. Ég er samt náttúruverndarsinni hugsar hann, hvað sem þið segið! Höfundur er lektor við HA og skipar 6. sæti á lista BF til sveitar- stjórnarkosninga á Akureyri AÐSEND GREIN ODDUR HELGI HALLDÓRSSON Fjárhagur Akureyr- ar er mjög traustur Við lok kjörtímabils og framlagningu ársreikning fyrir 2013 er verðugt að bera saman tölurnar á milli árs- reikninga 2009 og 2013, eða hvernig þróunin hefur verið á kjörtímabilinu. Ljóst var strax að mjög mikil aukning yrði á útgjöldum bæjar- ins, þar sem þrjú stór mannvirki voru tekin í notkun árið 2010. Þetta eru Hof, Íþróttasvæðið á Þórsvelli og Fimleikahús við Giljaskóla. Þessi þrjú mannvirki kalla á árlegan kostnaðarauka í rekstri upp á um 500 milljónir. Það var alveg ljóst að í kjölfar hrunsins yrði erfitt að ná endum saman í rekstrin- um, en með mikilli aðhalds- semi og þrautseigju starfs- fólks hefur tekist að halda uppi góðu þjónustustigi í bænum. Reynt var að hlífa fræðslu og velferðarmálum við hagræðingu eins og hægt var. Má segja að það hafi tekist, en samt hef- ur heldur ekki tekist að bæta þar í. Eru fjárframlög til þessara tveggja stærstu málaflokka nánast á pari við framlög 2009 á verðlagi ársins. Við lögðum strax höfuðáherslu á það við áætlun verklegra framkvæmda að kostnaðaráætlanir væru raunhæfar og að þær ættu að standast. Oft var það mikil vinna að sjá til þess að áætlanir stæðust og það hefur tekist við flestar framkvæmdir. Nefni ég hér þær helstu: Kostnaður við Hjúkrunarheimilið Lögmannshlíð var áætlaður um 1200 milljónir, en kostnaður varð um 1100 milljónir. Við erum búinn að leggja í áfram- haldandi uppbyggingu Naustaskóla um 1 milljarð frá 2010 og er það í samræmi við áætlanir. Áætlanir um gervigrasvöll á KA- -svæði gerðu ráð fyrir 260 milljónum. Raunin varð rétt tæpar 260 milljónir. Að kaupa Húsmæðraskólann og breyta honum fyrir núverandi starf- semi átti að vera um 200 millj- ónir. Raunin varð 204 milljónir. Okkur hefur tekist að afsanna það sem áður var talið allt að því ófrávíkjan- leg regla að opinberar fram- kvæmdir fari alltaf langt fram úr áætlunum. Við áramót 2009-2010 voru skuldir bæjarins 23,5 milljarðar. Framreiknaðar til verðlags um áramót 2013-2014 með neysluverðsvísitölu er núvirði þessara skulda um 27,5 milljarðar. Skuldir bæjarins í árslok 2013 eru 23,3 milljarðar. Við höfum því lækkað raunskuldir bæjarins um rúma 4 milljarða eða amk 15%. Samkvæmt reglum um fjár- hagsleg viðmið sveitarfélaga, mega skuldir, sem hlutfall af tekjum ekki fara yfir 150%. Þetta hlutfall hefur breyst hjá okkur frá því að vera yfir 140% árið 2009 í það að vera 112% árið 2013. Af framansögðu er því ljóst að fjárhagsstjórnun bæjarins hefur verið mjög góð á kjörtímabilinu og fjárhagur bæjarins er mjög traustur. Höfundur er bæjarfulltrúi L-listans „ ODDUR HELGI HALLDÓRSSON Honum finnst skelfilegt að heyra að 30% af öllum mat á Íslandi sé hent. Þar hlýtur þjóðin að geta gert betur hugsar hann.Jón Þorvaldur Heiðarsson Byggðin á Akureyri er byrjuð að bera þess merki að hún dreifist um of. Nýtt Hagahverfi er nýjasta birtingarmynd þess. EDWARD H. HUIJBENS

x

Akureyri

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Akureyri
https://timarit.is/publication/1079

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.