Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.06.2010, Blaðsíða 7

Neytendablaðið - 01.06.2010, Blaðsíða 7
Góðir lesendur Ég vil byrja á að þakka tækifærið að fá að deila með ykkur örfáum augnablikum úr hverdagsleikanum. Hversdagsleikinn sem mig langar að fjalla um snýst um matarinnkaup. Matarinnkaup fyrir og eftir hrun. Fyrst ber að geta þess að ég er í raun nýgræðingur í þeirri frómu íþrótt sem það óneitanlega er að kaupa vel og skynsamlega í matinn. Fyrir bankahrun sýndi ég sjaldan fyrirhyggju heldur göslaðist áfram með innkaupakerruna á tíu km hraða. Tilviljun og duttlungar réðu að mestu hvað fór ofan í ef ég á annað borð neyddist til að ná í mat eða annað til heimilisins. Ég sótti þær búðir einkum heim þar sem hraðast gekk að afgreiða mig, þ.e. klukkubúðirnar svokölluðu. Allt fram að þeim degi þegar kexið kom fyrir mig vitinu. Áður en ég útskýri það verður að geta þess að fyrir bankahrun hafði ég vanist því að hafa ekki áhyggjur af peningum. En í upphafi kreppunnar missti ég vinnuna og fékk enga vinnu úti. Við konan höfðum þá hlutverkaskipti en hún hafði unnið heima um skeið. Hún fékk draumastarf í safnabransanum en ég fór að gera það sem hún hafði gert; vinna heimilisstörfin og annast ársgamlan son okkar. Hluti af skyldunum var að sjá um matarinnkaupin. Fyrst reyndi ég að færast undan því; ég var til í að hlaupa inn í 10­11 við og við en nennti ekki að eyða heilu dögunum með litla drengnum okkar í Bónus. Mér var þá enn alveg sama þótt kaffipakkinn væri eitthvað dýrari í klukkubúðunum en í hinum svokölluðu „lágvöruverðsverslunum“. Orðskrípi sem það annars er. En konan hafði í nógu að snúast þannig að mér varð engrar undankomu auðið. Hægt og rólega jókst þrýstingurinn að kaupa skynsamlega inn. Huga að hverri krónu. Kvöld eitt fengum við svo óvæntan gest í heimsókn, gamlan vin að sunnan. Meðan hann lagði frá sér frakkann horfði konan á mig með „eigum við ekki örugglega eitthvað að bjóða honum svipnum“. Við áttum það en þó vantaði örlítið upp á. Húsfreyjan Björn Þorláksson átti sumsé sultu handa gestinum, camenbert­ost og kaffi en það vantaði kexið. Þess vegna sendi ég einn krakkann út í klukkubúð með þúsundkall til að kaupa pakka af ritzkexi. Nokkrum mínútum síðar sneri barnið aftur. Ritzkexpakkinn, sem kostað hafði 99 krónur nokkrum dögum áður, hafði á einni nóttu hækkað upp í 344 krónur. Hafði hækkað um 250%! Jafnvel kolómögulegur karlfauskur sá að framið hafði verið rán í beinni útsendingu á fjölskyldu minni. Maður þakkaði þó fyrir að barninu skyldi ekki hafa verið stolið líka. Stóra Ritzkexmálið varð til þess að ég fór að horfa betur í kringum mig og bera saman verð í einni búð til annarrar. Smám saman breyttist ég. Smám saman kom að því að ég gat ekki lengur fengið það af mér að kaupa inn í okurbúðunum þar sem ég hafði verið fastagestur áður. Gilti þá einu þótt þær væru opnar allan sólarhringinn. Frekar sleppti ég því að kaupa vöruna en hendast út í búð. Maður þarf ekkert alltaf að eiga kex handa óboðuðum gesti. Óboðinn gestur skilur það. Svoleiðis er það bara. Og um leið og ég vandi mig af ósiðunum fór innkaupakostnaðurinn lækkandi. Ég fór að gera það sem amma og mamma höfðu alltaf gert. Ég fór að skrifa innkaupamiða, skilgreina þarfir heimilisins, hamstra þegar tækifærin gáfust, kaupa lítil plastbox undir afganga. Allt skilaði þetta góðum árangri. Miklum sparnaði. Í dag nenni ég ekki að menga alla daga með því að fárast yfir fákeppni hins íslenska verslunarlandslags. Við hjónin greiðum hins vegar atkvæði með fótunum og förum helst ekki í búðir þeirra sem valdið hafa samfélaginu mestu tjóni. Það er ekki nóg að vera meðvitaður í orði; afstaða í verki er vænlegri til árangurs. Að borða gull í desert og kaupa Ritz á 344­kall er ættað af sama vitleysistrénu þótt önnur athöfnin sé vissulega úrkynjaðri en hin. Ein spurning að lokum fyrir okkur sem ekki var boðið gull að éta: Því ættum við að láta gráðuga kaupmenn misþyrma okkur lengur með glórulausu okri? Gleymum ekki að í krafti samstöðu geta okkur allir vegir opnast. Hugsum áður en við eyðum peningunum okkar. Látum ekki fara illa með okkur. Kexið sem kom fyrir mig vitinu Björn Þorláksson 7 NEYTENDABLA‹I‹ 2. TBL. 2010

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.