Lögmannablaðið - 01.06.2009, Blaðsíða 23

Lögmannablaðið - 01.06.2009, Blaðsíða 23
LÖGMANNABLAÐIÐ – 2 / 2009 > 23 Af Merði lögmanni Merði er öllum lokið. Þrátt fyrir að eiga kunningja í Þingholtunum á Mörður enga vini svo heitið geti. Þá er heldur engin meyjan þessi dægrin þótt sú hafi verið tíðin að hann hafi þótt heitasti bitinn í sinni sveit. Þótti vænlegur til framtíðarsköffunar þegar fréttist að hann ætlaði að leggja fyrir sig Fræðin. Á skólaárum Marðar var ekki hægt að verða sér úti um lagagráðu í hverri sundlaug á landinu eins og nú og því þótti enn tíðindum sæta hjá heimasætunum ef sveitungur ætlaði sér í Fræðin. Sér í lagi þótti slíkt tíðindi ef um var að ræða framsóknarmann enda þekkt staðreynd að útskrifuð eintök úr þeim ranni þurftu ekki að sýna fram á vott af einu né neinu til að tryggur væri farboði til framtíðar í gegnum opin og gagnsæ úthlutunarferli flokksbræðra. Þó að engir séu vinirnir eða meyjan er Mörður þó málkunnugur nokkrum kollegum og þekkir til nokkurra til viðbótar. Nú er svo komið að allir þeir sem hann þekkir til úr stéttinni hafa verið skipaðir í einhverskonar slita- eða skilanefndir yfir hræi bankastofnunar eða til aðstoðar einhverjum af þeim mýmörgu „fjárfestingafélögum“ sem ekki hikuðu við að bjóða fulltrúum lífeyrissjóða í þyrluflug upp á toppinn á Hvannadalshnjúk þar sem framreiddur var dýrasti kavíar af barmi hreinna meyja við undirspil strengjasveitarinnar sem spilaði á dekki Titanic þegar það sökk. Því fer fjarri að Mörður skilji hvert sé hlutverk þessara nefnda, hvað þá hvernig menn úr hans stétt geti hugsanlega haft þekkingu eða yfirsýn til að stjórna þeim. Það sem Mörður skilur hinsvegar er að skipun í nefndir af þessu tagi virðist jafngilda áskrift á tímaskráningar, í mörg ár, á dónagjaldinu, með ríkisábyrgð fyrir greiðslu og ef einhver spyr þá virðist nægja að segja að þú sért að bíða eftir því að menn klári skiptinguna milli hræjanna og „nýju“ hræjanna. Þetta finnst Merði fín tilhugsun. Hann hefur því beðið rólegur eftir því, síðan allt hrundi í haust, að flokksskírteinið skili sér sæti í einhverri slitskilanefndinni eða titli sem umsjónar og/ eða tilsjónarmaður yfir svoleiðis nefnd. Ekkert gerist og er Mörður farinn að óttast að fljótlega verði erfitt að skálda upp ný heiti á embættum til að skipa lögmenn í og nú þegar sé búið að skipa slitskilatilsjónarmenn fyrir allan peninginn. Hann hefur því líklega misst af þessum smjörbát. Það finnst Merði bölvanlegt en hefur hingað til huggað sig við það að það hljóti bara að vera tímaspursmál þar til góður og heilbrigður kunningsskapur Marðar við lykilmenn við Lækjatorg skilar honum einhverju stórþrotabúinu þó að það virðist vera eins og að símanúmerið hans hafi afmáðst af lista héraðsdómstólana eða jafnvel að dómstólarnir þekki ekki faxnúmerið hans. Mörður er ekki með netfang. Það er heilbrigð íhaldssemi. Sími og símbréf eru samskiptatæki sem að dugðu vel á sinni tíð og gera enn. Menn þurfa ekki að elta uppi allar nýjungar. Mörður stóð fyrir utan græðgisvæðinguna, veðsetti ekki innyflin í sér til að kaupa blöðrur. Menn töldu það gamaldags. Það hefur nú sannað sig að viðhorf Marðar var traust í þeim efnum og það sama á við um netföng og fleira tölvudót. Reyndar hefur hann nýlega heyrt um einhverja heimasíðu þar sem þykir viðurkennd hegðun að kollegar, síst meira frambærilegir en hann eða mikið yngri, eigi opinber daðurssamskipti við tugi ungra kvenna samtímis. Þar þykir Merði loks komin raunveruleg ástæða til að kaupa sér „internetið“!

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.