Feykir - 14.12.1981, Blaðsíða 7
Eg legg metnað minn í
að vera góður bóndi, en
er þakklátur fyrir að hafa
söngröddina að láni“
Tilbúinn aö taka lagið.
Jóhann Már Jóhannsson er þekktur
orðinn fyrir söng sinn. Það er
söngur í ætt hans. Faðir Jóhanns er
sá landsþekkti söngvari Jóhann
Konráðsson, systrungur hans er
Magnús Jónsson óperusöngvari, og
bróðir hans er Kristján Jóhanns-
son, sá sem nú síðustu misserin
hefur vakið mikla athygli fyrirsöng
og unnið til ótal verðlauna. Margir
muna eftir plötu sem út kom í fyrra
þar sem fjögur systkini sungu ein-
söng eða tvísöng, ásamt foreldrum
sínum. Jóhann Már, bóndi í Kefla-
vík í Hegranesi, er einn þessara
fjögurra systkina og syngur m a.
lagið Glerbrot eftir Maríu
Brynjölfsdóttur. Ásamt Svavari
bróður sinum syngur hann Vorljóð
eftir Jón á Hafsteinsstöðum. Þessi
plata seldist í um fjögur þúsund
eintökum.
Jóhann býr í Keflavík ásamt
konu sinni Þóreyju Jónsdóttur frá
Stóra-Dal í Svínavatnshreppi, og
þremur börnum. Fréttamaður fór
einn fimmtudag nálægt miðjum
nóvember og var síðdegisstund
með þeim hjónum í góðu yfirlæti,
hélt þeim frá vinnu, drakk með
þeim kaffi og hlustaði á plötur.
Þetta var ein af þessum góðu
stundum þegar enginn leit á
klukkuna og engum lá neitt á. Ég
hafði orð á því við Jóhann þegar ég
fór, að ég hefði tekið frá honum
allan eftirmiðdaginn. Jóhann svar-
aði því á þá leið að það kæmi ekk-
ert álag á vinnuna þó hann nuddaði
eitthvað eftir kvöldmat.
Hann er að smíða bát úti í bíl-
skúr. Þetta er báturinn Fanney,
skírður í höfuðið á móður Jóhanns,
Fanneyju Oddgeirsdóttur. Jóhann
er lærður skipasmiður og vann við
þá iðn á Akureyri í átta ár. Sveins-
stykki hans var 2!ó tonna trilla sem
líka hét Fanney. Þeir voru saman í
náminu hann og Pétur Pétursson
frá Álftagerði, yfirsmiður hjá K.S.,
og gerðu ýmsar rósir, og hafa
væntanlega tekið lagið saman. Þeir
náðu aftur saman löngu seinna í
Karlakór Sauðárkróks. Þann kór
áttu þeir Jóhann Már og Árni
Gunnarsson frá Reykjum mestan
þátt í að endurvekja fyrir tveimur
árum, og gárungarnir voru fljótir
að finna á hann nafn: Jóreykur.
Jóhann sagði að því miður væru
allar líkur á að kórinn ætlaði að
lúlla á koddanum í vetur vegna
þess að söngstjóri hefði ekki feng-
ist. Síðastliðið vor var kórinn kom-
inn vel af stað undir stjórn Ingimars
Pálssonar og söng fyrsta maí í Bif-
röst við góðar undirtektir. Lokaæf-
inguna hafði kórinn haldið í
Félagsheimili Rípurhrepps fyrir
fullu húsi Hegranesbúa á öllum
aldri. Jóhann hefur gert það oftar
að beina tónlist og gleði að félags-
heimilinu í Hegranesi. Nú í haust
voru töðugjöld haldin þar með að-
stoð frá Siglufirði og Akureyri.
Allir tóku virkan þátt, bæði ungir
og gamlir. Daginn eftir var sólskin í
fyrsta sinn í langan tíma. Maðurinn
lifir ekki á brauðinu einu saman.
„Menn hugsa orðið allt of mikið
um milljónirnar og stritið," sagði
Jóhann. „Líttu á Feyki: Þetta er allt
um atvinnuástand og atvinnuhorf-
ur, milljónir hér og milljónir þar.“
Talið barst að bátnum í bíl-
skúrnum. „Ég hef alltaf verið veik-
ur fyrir trillum og sjó. Fer alltaf
niður á bryggju ef ég kem í sjávar-
pláss. Var á síldarbátum og togur-
um í gamla daga og drakk mig fyrst
fullan úti í Bremerhafen og hélt þá
að ég væri að fá flensu, og talaði
um það við félaga mína. Eftir tvö ár
á togara dró karl faðir minn mig í
land og sagðist vera búinn að fá
pláss handa mér í skipasmíðanámi.
Jú, það er gaman að smíða báta.
bátur er svo mikill persónuleiki.
Það er eins og maður sé með lifandi
hlut í höndunum. öll fjölskyldan er
í þessu með mér. Krakkarnir eru
þegar komin á handfæri og farin að
draga þorsk í gríð og erg. Það spyrja
mig flestir sem koma í skúrinn og
sjá bátinn: Er ekki gaman að þessu?
Það spyr enginn hvort gaman sé að
byggja hús. — Það gæti verið gott
búsílag að grípa í bátasmíði yfir
veturinn með fjárbúskapnum.
Næsti bátur verður auðveldari en
þessi. Ég vanda þennan auðvitað
eins og ég get og læt hann fljóta við
bryggju á Króknum og sé til hvort
ég fæ pantanir.“
Hvernig stóð d að sjóarinn og
bátasmiðurinn gerðist bóndi?
„Ég var mikið í hestamennsku,
og fékk svo allt í einu tilboð um að
koma til Blönduóss og temja hesta.
Ég sló til. Gömlu góðu vinirnir
höfðu verið að ganga í hjónabandið
hver af öðrum, og ég stóð loksins
einn eftir og var farið að leiðast á
Akureyri. Eftir tvo vetur á tamn-
ingastöðinni var ég orðinn land-
búnaðarlega sinnaður, enda búinn
að ná mér í konu úr sveit, og ég
stakk upp á því að við færum að
búa. Við bjuggum svo á Hrafna-
björgum í þrjú ár, fremsta bænum í
Svínadal. Þar var svo til ekkert um
gestakomur á vetuma vegna
ófærðar. Ég held það lengi ævina
að vera á svona stöðum. Það var
ómetanlegt að hlusta á þögnina á
veturna. Það heyrðist ekki einu
sinni í ánni. Þama væri heilsulind
fyrir „stressað“ fólk. En við vorum
ekki alveg einangruð. Við áttum
jeppa sem flaut ofan á snjónum.
Við vorum með jörðina á leigu
og var sagt upp eftir þjrú ár. Eig-
andinn þóttist ætla að fara að búa.
Ég var á símstöðinni á Blönduósi
að tala við lögfræðinginn um hvað
gera skyldi, þegar kona hringdi að
sunnan og spurði hvort ég væri að
leita að jörð. — Ég mundi hvorki
nafnið á konunni né jörðinni eftir
að ég hafði lagt tólið á, en komst að
því við eftirgrennslan að jörðin
væri Keflavík í Hegranesi. Við
vorum flutt þangað eftir viku.
Komum í jeppanum með allan
bústofninn með okkur: hund, kött
og fjórar hænur. Kindurnar mátti
ekki flytja austur.“
Það er merkileg tilviljun að Jó-
hann er kominn til „föðurhúsanna"
þar sem er Hegranesið. Langa-
langafi hans var sá mæti maður
Jónas í Hróarsdal, og Jóhann bóndi
á enn fimm langafasystkini á lífi í
Hegranesinu. Helmingurinn af
bæjunum í „Nesinu“ er byggður
fólki af Hróarsdalsættinni.
Nú barst talið að söngnum. Jó-
hann Már á góðar minningar frá
veru sinni í Karlakór Bólstaðar-
hlíðarhrepps. Þar var söngurinn að
visu stundum númer tvö. Númer
eitt var að mæta og eiga þennan
félagsskap. Karlamir þöndu sig,
urðu blásvartir í framan bara af
ánægju. Menn lögðu jafnvel á sig
að aka tugi kílómetra til að komast
á æfingu. I Geysi á Akureyri var
það algeng afsökun fyrir að mæta
ekki ef bíllinn fór ekki í gang. Samt
var kannski ekki nema tiu mínútna
gangur á æfingu.
„Það var með Geysi sem ég
byrjaði að syngja rúmlega tvítugur,
og þar var ég í fimm ár. Við vorum
á tímabili þrír feðgarnir i kórnum,
pabbi, Kiddi bróðirog ég. Það voru
hörkufínir söngmenn í Geysi þá, og
12-14 manns í fyrsta tenór. Ég tísti
bara í takt við hina. Það reyndi
meira á einstaklinginn í Karlakór'
Bólstaðarhlíðarhrepps. — Það er
nú margt betra hægt að gera við
röddina en að syngja 1. tenór í
karlakór fullum hálsi í þrjú ár. En
með Karlakór Bólstaðarhlíðar-
hrepps söng ég mína fyrstu sóló,
Hallarfrúna eftir Jón Björnsson á
Hafsteinsstöðum."
fiú lœrðir söng?
„Ég fór í tíma hjá Sigurði Dem-
enz í gamla daga en náði einhvern
veginn aldrei sambandi við Dem-
enz þá. Fyrir þremur árum sótti ég
svo tíma hjá honum í heilan vetur.
Þá var eins og þetta lægi opnara
fyrir mér, og Sigurður sagði að
röddin hefði lagast. Auðvitað hef
ég búið að því sem ég lærði hjá
honum fyrst. Röddin er alltaf að
þroskast. Ég kemst t.d. núna mörg-
um tónum hærra en ég gerði fyrir
þremur til fjórum árum. Ég er oft
að taka skalann hérna úti í skúr og
hleyp svo inn til að ná í melódíkuna
til að athuga hvað ég hef farið hátt.
Um daginn tók ég háa d-ið leikandi
létt. En það er ekki sama hvert lág-
ið er: h-ið í Bikamum er erfiðara en
h-ið í Hamraborginni.
fiað er orðið algengara að þú sért
beðinn að syngja?
„Það eykst með hverju ári. Við
höfum komist upp í 10 þorrablót
sama veturinn, og þá er ég búinn að
fá nóg af hangikjötinu. Undirtekt-
imar? Mér er oftast tekið vel.
Skemmtilegast er að syngja fyrir þá
sem eru á mínu reki og yngri. Það
er eins og yngra fólkið sé betri
hlustendur en þeir sem eru eldri og
reyndari. Jú Eyfirðingar taka mér
alltaf vel. Hestamannaböll í Hlið-
arbæ 1 Kræklingahlíð eru mér
einna minnisstæðust. Einnig und-
irtektir á Siglufirði og í Reykjavík.
Á Siglufirði býr undirleikari minn,
Guðjón Pálsson sem er afburða-
snjall píanóleikari. Við náðum
saman strax. Eftir fyrstu æfinguna
sagði hann við mig: Það er greini-
legt að við tölum sama tungumál.
Jú maður er alltaf með skrekk
fyrir söngskemmtanir og þetta er
álag. En launin eru afslöppunin á
eftir. Maður er búinn að gefa allt.
Þá vil ég helst fara heim, þegar
aðrir eru að byrja að skemmta sér
og drekka eftir átveisluna. Ef ég á
að ná mér upp við svoleiðis að-
stæður verð ég að sturta í mig hálfri
flösku eða svo.
Það er ótrúlegt hvað manni er
stundum boðið upp á í sambandi
við sönginn. Maður þarf stundum
að vera,,diplómat“. Þú veist að það
má hallmæla konum hestamanna,
en aldrei hestunum þeirra. Þannig
er það kannski líka með söng-
mennina. Einu sinni var ég beðinn
að syngja á framboðsfundi Vigdís-
ar vegna forsetakosninganna. Ég
átti að syngja tvö eða þrjú lög, og
þeir sem báðu mig um þetta ætluðu
að útvega mér píanóleikara. Ég átti
bara að taka til nótur handa hon-
um. Svo kom kona að sækja nót-
urnar. Ég hafði valið ein 6 lög, og
átti píanóleikarinn að velja úr þau
sem hann réði best við. Konan rak
upp stór augu þegar hún sá nót-
urnar: Hva, ætlarðu að syngja þetta
allt, það er nóg að syngja bara eitt
eða tvö lög. Svo rak hún augun í
Lindina eftir Eyþór Stefánsson, og
þá sagði hún: Nei, ekki syngja
Lindina hans Eyþórs, það er svo
fallegt lag. Auðvitað söng ég hvorki
Lindina né nokkurt annað lag í það
skiptið.
Það er rétt, menn hafa oft sagt
við mig: Þú ættir að vera í óperu-
húsum. Meðan ég átti kost á að fara
í söngnám, var það alls ekki á blaði
hjá mér. Ég fór ekki að syngja fyrir
alvöru fyrr en ég var orðinn fjöl-
skyldumaður. Ég lít á búskapinn
sem mitt aðalstarf og legg metnað í
að vera góður bóndi, en er þakk-
látur fyrir að hafa söngröddina „að
láni“, eins og pabbi orðaði það
stundum.
Jóhann á eftir að sækja björg i bú á þessum báti.
Feykity£í7