Feykir


Feykir - 13.08.2009, Blaðsíða 6

Feykir - 13.08.2009, Blaðsíða 6
6 Feykir 29/2009 Rúnar Gíslason hefur snúió aftur heim í Skagafjöró Hér er alla vega vinnu aö fá Rúnar Gíslason á ættir sínar að rekja í Akrahreppinn en 1 árs gamall flutti hann í Varmahlíð þar sem hann sleit barnsskónum. Eftir að hafa prófað eitt og annað lá leið Rúnars á dögunum aftur heim í fjörðinn en hingað er hann fluttur ásamt eiginkonu sinni Hugrúnu Ósk Ólafsdóttur og tveimur dætrum, Ástrós Hind og Bergdísi Hebu. Síðar á árinu er síðan von á syni i heiminn. Feykirhittiá Rúnar og forvitnaðist örlítið um hvað á daga hans hefur drifið frá því hann ungur að árum yfirgaf Skagafjörð. -Ég er uppalinn í Varmahlíð, sonur hjónanna Gísla Frosta- sonar og Ernu Geirsdóttur en 16 ára gamall hélt ég austur í Reykjadal þar sem ég settist á skólabekk á Laugum. Þar var ég á veturna en sumrunum eyddi ég í Kaupfélaginu hér heima, útskýrir Rúnar þegar ég bið um örlitla útskýringu á hans bakgrunni. Eftir að skólagöngu á Laugum lauk hélt Rúnar til borgarinnar þar sem hann fór í háskóla og síðan að vinna í Pennanum. -Þar var ég í sjö ár eða þangað til ég fór til Danmerkur þar sem ég lærði hugbúnaðar- og viðskiptaverkfræði. Nú er straumurinn að sögn frekar úr landi en ekki inn í landið. Hvað kom til að þú ákvaðst að koma aftur heim? -Ég var búinn með skólann úti og ætlaði að fá mér vinnu þar en það er kreppa í Danmörku eins og annars staðar í heiminum og þegar ég var búinn að reyna í 6 mánuði að finna vinnu þá fannst mér komið gott. Ég er með danska menntun og tala reiprennandi dönsku en engu síður fékk ég bara nei nei nei. Ég set líka spurningamerki við þessa alla sem eiga að vera að flytja úr landi. Ég vorkenni þessu fólki ef það er að flytja út án þess að vera komið með vinnu og kann kannski ekki mál heimamanna. Sjálfur ákvað ég að prófa hér heima eftir að vera orðinn vonlítill þarna úti og það gekk miklu betur að finna vinnu hér. Þegar konan stakk síðan upp á því að skoða Skagafjörð varð maður bara að æða af stað og fékk ég fljótlega vinnu við mitt hæfi hjá Skýrr, svarar Rúnar. Aðspurður um hvernig sé að vera kominn heim segist Rúnar líklega ekki vera búinn að fatta það alveg enn þá. -Ég hef alltaf komið heim á sumrin til þess að vinna og okkur líður svolítið eins og við séum enn þá í sumarfríi. Ég held að það verði ekki fyrr en rútínan byrjar aftur núna í haust, skólinn og síðan snjórinn, að maður fari að fatta þetta betur. Eins og er, er alla vega mjög gott að vera kominn heim. Hefói ekki getaó lifaó af námslánum Rúnar var búsettur í Dan- mörku þegar allt hrundi síðast liðið haust. Aðspurður segir hann að þau hafi verið heppin og náð að millifæra peninga kvöldið áður en allt lokaðist. -Við náðum að rífa út peninga á öllum hugsanlegum stöðum og með því að lifa spart þá dugði það okkur á meðan ástandið var sem verst. Við vorum á þessu tíma að vinna við að þýða fyrir Bauhaus sem ætlaði að opna búð á íslandi fyrir hrun og vorum þess vegna að fá danskar tekjur, það tel ég að hafi bjargað okkur algjörlega. Ef við hefðum þurft að treysta eingöngu á námslánin tel ég að þetta hefði ekki verið hægt fjárhagslega. Það hefði einfaldlega ekki gengið upp að ætla bæði að halda áfram í námi og lifa á námslánum, útskýrir Rúnar. Á þessum tíma var mikið rætt um í íslenskum fjölmiðlum að illa væri komið fram við íslendinga í Danmörku en við það vill Rúnar alls ekki kannast; -Ég og við fundum bara fyrir góðu viðhorfi í okkar garð og það vildu allir allt fyrir okkur gera. Það var verið að bjóða okkur mat ef við yrðum matarlaus, meira að segja kennarar barnanna okkar buðust til þess að aðstoða ef við þyrftum á að halda. Ef eitthvað þá pirraði mig þessi frétta-flutningur á þessum tíma um það hvað allir væru vondir við ísland og íslendinga. Nú erbara að horfa brosandi fram á veginn og trúa þvi að við getum byggt landið okkar upp. En við getum það ekki ef allir ætla að flýja land. Rúnar og fjölskylda fluttu heim um miðjan júní en fengu ekki strax leiguhúsnæði á Króknum enda hefúr það verið af skornum skammti. Rúnar vill sjálfur meina að sú staðreynd að þekkja til hafi hjálpað þeim mikið og því hafi þau fljótlega fengið húsnæði. Þannig að fyrstu vikurnar hafi þau búið í Varmahlíð hjá foreldrum Rúnars. í haust byrjar síðan eldri stelpan í öðrum bekk í Árskóla en sú yngri sem er rúmlega þriggja ára er á biðlista eftir að komast inn á leikskóla og búið að segja þeim að alls ekki sé víst að hún komist inn fyrr en á næsta ári. Þetta er hálf bagalegt ástand, sú yngri er mikill orkubolti sem finnst ekkert skemmtilegra en að hafa mikið fyrir stafni. Auk þess er það bara hluti af því að þroskast að kynnast fólki og umgangast börn á sama aldri. Það er því vonandi að einhver lausn finnist á þessum vanda og hún komist sem fyrst á leikskóla, þó það væri ekki nema hálfan daginn, segir Rúnar. Alltaf langaö aó vera blaóamaóur Samhliða vinnu sinni hjá Skýrr og í raun samhliða námi síðustu ár hefúr Rúnar skrifað inn á vefinn Karfan.is en skrif hans þar inn komu til fyrir hálfgerða tilviljun. -Ég hafði lengi haft áhuga á blaða- mennsku og skrifaði mína fyrstu grein í DV árið 1994 þar sem ég var lengi lausa- penni. Síðan er ég hálfgerður körfuboltafíkill og var dómari í mörg ár, hætti því í raun ekki fyrr en í Danmörku. Þaðan var ég svolítið í því að reyna að koma á framfæri við íslenska fjölmiðla um gengi strákanna sem voru að spila erlendis og í því stússi öllu kynnist ég Jóni Birni, eiganda Körfunar.is. Fyrr en varð var ég farinn að skrifa á fullu fyrir þá og um leið að uppfylla að hluta til gamla drauma um að fá að skrifa. Ég fæ að vísu ekki krónu fyrir þar sem vefurinn er rekinn í sjálfboðavinnu en þetta er ofboðslega gaman. Ætlar þú að verða eitthvað virkur í körfuboltastarfinu hér heima? -Það eru allir að spyrja mig að því hvort ég ætli að koma aftur að dæma eða hvort ég ætli að fara í stjórn Tindastóls en þessu fólki svara ég öllu því sama. Ég er nýlega fluttur hingað með konu og börn sem eru ekki uppalin hér eins og ég og þekkja því fáa. Þau eru í fyrsta sæti og kannski detta þau bara inn í körfuboltann eða annað félagsstarf og þá veit maður aldrei hvað gerist, auk þess mun ég halda áfram að skrifa fyrir Körfuna.is, segir Rúnar að lokum.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.