Bændablaðið - 25.06.2015, Blaðsíða 14
14 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. júní 2015
Laugardaginn í tólftu viku
sumars – 11. júlí nk. – mun
Landbúnaðarsafnið á Hvanneyri
gangast fyrir fornsláttunámskeiði.
Um er að ræða örnámskeið til
að kynna þátttakendum fornslátt,
sláttuamboð og hvernig menn búa
þau sér í hendur – og síðan að
leiðbeina um frumatriði sláttar með
orfi og ljá. Áhersla verður lögð á
skemmtandi fræðslu, holla útivist
og notalega afþreyingu í fallegu
umhverfi.
Fornsláttar-örnámskeiðið mun
standa frá kl. 10–12.30. Leiðbeinandi
verður Bjarni Guðmundsson en
líka er gert ráð fyrir því að um
jafningjafræðslu verði að ræða – að
vanari sláttumenn leiðbeini hinum
óvanari. Æskilegt er að þátttakendur
hafi með sér amboð: orf og ljá.
Námskeiðið hentar jafnt körlum og
konum sem náð hafa 145 cm hæð.
Stundaskrá námskeiðisins er
þrískipt: A: Fjallað um sláttuamboð,
slægju og sláttuhætti; B: Búið í
hendur sér, brýnt og borið út, og loks
C: Sláttuæfingar. A-liður fer fram í
Landbúnaðarsafninu, en B- og C-liðir
í hlaðvarpanum á Hvanneyri og/eða
á Hvanneyrarfit, allt eftir sprettu
og ástandi slægna. Námskeiðinu
lýkur með rabarbaragraut og rjóma
kl. 12.30 (en þá taka við ýmis
dagskráratriði Hvanneyrardags, sjá
þar).
Þar sem hér er um tilrauna-
námskeið að ræða verður fjöldi
þátttakenda í því miðaður við 10
manns að hámarki. Verði eftirpurn
meiri og takist námskeiðið bærilega
verður það endurtekið fljótlega.
Námskeiðsgjaldið er kr. 5.000,-
og í því felst kennsla, kaffisopi og
rabarbaragrautur.
Nánari upplýsingar um nám-
skeiðið verða veittar í síma Land-
búnaðar safnsins 844 7740. Þar þurfa
væntanlegir þátttakendur að skrá
sig, eða á tölvupóstinum bjarnig@
lbhi.is. Á heimasíðu safnsins verða
einnig og eftir þörfum birt nánari
tíðindi af námskeiðinu, www.
landbunadarsafn.is.
Ljósmyndina, sem fylgir
greininni, tók Vigfús Sigurgeirsson
nokkru fyrir miðja síðustu öld.
Hún sýnir fimm vaska sláttumenn
búa sig undir þrælaslátt á
Hvanneyrarengjum. /Bj.Guðm.
Fréttir
Landbúnaðarsafnið á Hvanneyri:
Fornsláttunámskeið á Hvanneyri 11. júlí
Það mun hafa verið í fjórða
draumi Guðrúnar Ósvífursdóttur
að hjálmur hennar steyptist í
Hvammsfjörð og skoluðust þá
margir laxar í loftköstum upp á
fjallstoppana. Þeir störðu furðu
lostnir upp í himininn og flýttu sér
í næsta fljót, enda geyma nú flestar
ár sem falla í Hvammsfjörð marga
fiska sem veiðimenn hafa yndi af
að eltast við. Hér eru veiðistöðvar
Auðar djúpúðgu sem tók bú í
Hvammi eftir eiginmann sinn,
Írlandskonunginn Ólaf hvíta, og hér
fæddist síðar Snorri Sturluson, sem
lærði í Hvammi að vera veiðimaður
og fanga fiska með höndunum.
Umhverfið er yndislegt og hleypir
rækt í viðkvæmt sálarlíf þegar sól
skín hátt og sumargrónir dalir anga
af birkikjarri og vaxandi berjum.
Á tánni þar sem Stykkishólmurinn
gengur út frá Vigrafirði eru
nokkur smávötn, Helgafellsvatn,
Hofstaðavatn, Ögurvatn og
Skjaldarvatn, og í þeim er einhver
fiskur. Á þessum slóðum börðust
Eyrbyggjar við Þorbrandssyni
úr Álftafirði með miklu blóði og
hetjuskap. Í Berserkjahrauni sendi
Víga-Styr Leikni og Halla að moka
götu en þar réð Snorri goði þeim
bana og hirti jafnframt af þeim
vinnulaunin, Ásdísi Styrsdóttur.
Þvílíkur motherfucker.
Út með Skógarströndinni, inn
í Hvammsfjörðinn og vestur með
Fellsströndinni norðan megin eru
svo margar laxveiðiár að Björn
austræni hefði hæglega getað unað
þar alla ævi sinnar daga án þess að
gera nokkuð nema veiða. Á meðal
ánna eru í þessari röð: Setbergsá,
Dunká, Skrauma, Hörðudalsá,
Miðá, Haukadalsá, Laxá í
Dölum, Fáskrúð, Sælingsdalsá og
Flekkudalsá, og eru þá ónefndar
ýmsar lítt þekktari ár sem einnig
eru sumardvalarstaðir laxfiska.
Setbergsá fellur um Litla-Langadal
og sameinast þar kvísl sem kemur
úr Stóra-Langadal, fornri bújörð
Ásláks Þorbergssonar mannasættis.
Í henni er nokkur silungsveiði en
þessar ár mynda saman Ósá úti við
sjó. Árlega veiðast í þeim nokkrir
tugir og stundum hundruð fiska,
og þaðan eru margar sögur, ein
ansi skemmtileg af þeim bræðrum
Gunnari og Ásmundi Helgasonum,
sem svona er í frásögn Gunnars:
„Ási bróðir er sá sem ég veiði
langmest með og kannski er
eftirminnilegasti laxinn okkar sá
sem hann fékk fyrst. Þá vorum við
sjö ára gamlir í Setbergsá. Ási setti
í fisk og við gerðum allt til að koma
honum upp á land þar sem planið
var að rota hann með hnullungi og
rífa úr honum tálknin áður en hann
gæti sagt hrogn og lifur. Það gekk
hins vegar frekar illa þar sem klettar
og stallar einkenndu svæðið sem
við vorum á. Að lokum leiddist
mér þófið og ég braut einu regluna
sem pabbi hafði kennt okkur: tók í
línuna og kippti skrattanum á land.
Við það fór fiskurinn vitaskuld af
önglinum og spriklaði um kletta
og klungur í dágóða stund með
tvo sjö ára gutta á eftir sér. Ég hef
aldrei séð neinn fisk svona frávita
af hræðslu og hlýt að álykta sem
svo að það hafi stafað af því að við
vorum nákvæmlega eins klæddir.
Laxinn hafði náttúrlega aldrei séð
tvíbura áður svo hann gerði allt
til að forða sér. Hann spriklaði að
lokum ofan í lítinn poll sem var
rétt við ána. Við hlupum í hringi
á eftir laxinum þannig að gusurnar
gengu yfir okkur báða og brutum
þá einu regluna sem mamma hafði
kennt okkur: ekki vaða upp fyrir
stígvélin! Þá var Ása nóg boðið.
Hann stöðvaði leikinn og kannaði
aðstæður rétt sem snöggvast. Hann
tók eftir því að það rann vatn í og
úr pollinum. Hann skipaði mér því
að standa ofan í frárennslinu og
góma laxinn ef hann fengi þá flugu í
höfuðið að forða sér þá leiðina (plan
b), en sjálfur ætlaði hann að dáleiða
laxinn og ná að handsama hann í
rólegheitunum með höndunum
(plan a). Það gekk ekki vel og von
bráðar var hann kominn í sama
eltingarleikinn og við höfðum
báðir staðið í skömmu áður. En
nú var laxinum nóg boðið. Hann
tók eftir því sjálfur að það rann úr
pollinum og gerði sér lítið fyrir og
klobbaði mig, stökk á milli fóta
mér út í ána og frelsið. Ég reyndi
að grípa hann en það endaði með
því að ég tók sjálfan mig í kleinu
og endaði á bakinu í pollinum.
Ég hafði semsagt klúðrað fyrsta
laxinum hans í tvígang! Ég er enn
að biðjast afsökunar á þessu.“
Ár, vötn og veiði
– Sölvi Björn Sigurðsson
Gunnar Helgason.
Skógarströnd
og Dalir norður
í Gilsfjörð
Mynd / Vigfús Sigurgeirsson.
Eins og mörg undanfarin ár verður
Hvanneyrardagur haldinn í ár,
að þessu sinni laugardaginn 11.
júlí. Dagskrá mun standa frá
kl. 13–17 og verður ýmislegt í
boði til fræðslu og afþreyingar.
Landbúnaðarsafnið verður á
sínum stað sem og Ullarselið og
Hvanneyrarkirkja. Skemman
– kaffihús verður opið og
hið ómissandi vöfflukaffi
Kvenfélagsins 19. júní.
Fornbílafjelag Borgarfjarðar
kemur í heimsókn með glæsifáka
sína, þjóðlegt handverk verður
haft í hávegum, gróðurgöngur,
sögugöngur og aðrar kynningar og
húsdýr munu heilsa upp á gesti.
Listsýningar verða í boði, léttir
leikir og smákeppnir. Áhersla er sem
fyrr lögð á það að maður sé manns
gaman og að gestir geti í rólegheitum
notið samveru, sumarblíðu og hins
söguríka umhverfis á Gamla staðnum
á Hvanneyri.
Þá verður þess sérstaklega minnst
að 70 ár eru nú liðin frá því fyrstu
Farmal-dráttarvélarnar komu til
landsins en með þeim hófst vélsláttur
íslenskra túna og engja fyrir alvöru.
Þess vegna eru eigendur Farmal-
dráttarvéla boðnir sérstaklega
velkomnir að Hvanneyri þennan dag,
einkum þeir er haft geta sláttuvél
meðferðis. Við hátíðlega athöfn mun
þá nefnilega verða slegið með slíkum
fornvélum. Splunkunýr Farmall mun
væntanlega mæta á svæðið.
Hvanneyrardagur
Frá Hvanneyrardegi 2014.