Skólavarðan - 01.08.2007, Page 12

Skólavarðan - 01.08.2007, Page 12
12 FRÆÐSLA FYRIR FORELDRA SKÓLAVARÐAN 5.TBL. 7. ÁRG. 2007 Um þessar mundir byrja skólar landsins vetrarstarfið og mörg þúsund nýir nemendur hefja skólagöngu í fyrsta sinn. Flest sex ára börn hafa beðið spennt eftir að ná þessum áfanga á meðan önnur kunna að kvíða honum. Kolbrún Baldursdóttir hefur í starfi sínu sem skólasálfræðingur orðið vör við að foreldrar eru oft óöruggir andspænis þessari breytingu á lífi barna sinna. Hún settist því niður í sumar og skipulagði fræðslufyrirlestur sem skólastjórar geta pantað fyrir foreldrahópa. Skólavarðan fékk Kolbrúnu til að segja frá því hvað hún fjallar um í fyrirlestrinum. Í starfi mínu sem skólasálfræðingur hefur mér fundist að foreldrar barna sem eru að hefja skólagöngu í fyrsta sinn gætu haft gagn af fræðslu sem miðar sérstaklega að því að undirbúa barnið sitt fyrir skólagönguna. Því hef ég sett saman um það bil klukkustundar fyrirlestur sem fjallar um eftirfarandi málefni: Breytingar í samfélaginu og ágrip af þroskasálfræði 3-6 ára barna Í þessum hluta er fjallað um helstu þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa undanfarin ár og hvernig sumar þeirra hafa haft áhrif á foreldrahlutverkið, barnauppeldi og samskipti almennt séð. Einnig er farið í helstu þætti þroska- sálfræði barna á þessu aldursskeiði. Algeng vandamál Hér fjalla ég um helstu vandamál sem sum börn á þessum aldri kunna að stríða við. Rætt er um feimni og aðskilnaðarkvíða. Einnig eru tekin dæmi af algengustu vandamálum af líffræðilegum toga og tilfinninga - og félagslegum toga. Rætt er um náms- örðugleika og lesblindu, ofvirkni og athyglisbrest og hvaða áhrif það hefur á börn ef vandamál eru á heimili þeirra. Fyrirmyndir og forvarnir Foreldrar eru helstu fyrirmyndir barna sinna og því mikilvægt að þeir séu meðvitaðir um það. Með því að vera góðar fyrirmyndir eru þeir að leggja grunn að seinni tíma forvörnum. Rætt er um uppbyggingu sjálfsmyndar og sjálfsöryggis og að sterk sjálfsmynd er öflugasta varnarkerfi einstaklingsins gegn ytri vá. Farið er í leiðir sem foreldrar geta nýtt sér til að hjálpa barni sínu að bygga upp sterka sjálfsmynd. Í þessu sambandi tala ég um offituvandann og hvernig huga þarf að því að leyfa honum helst aldrei að festa rætur. Ég ræði um hvað foreldrar geta gert í þeim efnum og hversu mikilvægt er að þeir séu sjálfir góðar fyrirmyndir og meðvitaðir um neysluvenjur fjölskyldunnar. Í þessum hluta er jafnframt rætt um forvarnargildi hreyfingar og íþrótta og hvað skiptir máli þegar kemur að vali á íþróttagrein- um. Rætt er um brottfall úr íþróttum og hvernig hægt er að sporna við því. Agi og agavandamál Hér er talað um ytri og innri aga, jákvæðan og neikvæðan aga og afleiðingar þess að beita neikvæðum þrýstingi. Talað er um agavandamál og hvernig skuli bregðast við þeim. Fyrirmælagjöf og algengustu grunnreglur uppeldis eru ræddar ásamt því að nefna hvaða þættir auðvelda styrkingu jákvæðrar hegðunar. Nefnd eru dæmi um afleiðingar (hegningar), hvort og hversu mikil áhrif þær hafa og mikilvægi þess að þær séu ávalt mildar og notaðar sparlega. Loks er farið í hvaða úrræði standa til boða ef agavandamál eru þrálát. Kjarni góðra samskipta Hér er farið í grunnþætti þess að geta átt í góðum og uppbyggilegum samskiptum hvort sem er í fjölskyldunni eða annars staðar. Einnig hvaða hegðun framkallar neikvæð samskipti og að foreldrar verði einnig að geta horft í eigin barm t.d. beðið börn sín afsökunar ef þau hafa komið fram við þau með neikvæðum hætti og útskýrt eigin hegðun ef neikvæð. Að byrja í skóla Í þessum þætti ræði ég m.a. andlegan undirbúning þess að byrja í skóla og hvað það er sem foreldrar þurfa að leggja áherslu á við börn sín áður. Sem dæmi er gott ef foreldrar útskýra fyrir börnum sínum hugtök á borð við stundvísi, samkennd, að engan megi skilja út undan, heiðarleika og kurteisi svo fátt eitt sé nefnt. Eins ræði ég um mikilvægi þess að brýna fyrir börnum sínum að segja frá ef eitthvað alvarlegt gerist og/eða þeim líður illa. Undirbúningur undir íþrótta,- og sund- kennslu felst í að gera börnin bjargfær í búningsklefum, m.a. að þau geti klætt sig og reimað skóna. Ég ræði um hvernig foreldrar geta þjálfað börn sín hvað þetta varðar áður en skólaganga hefst og hver sé ávinningurinn. Samskipti foreldra og skóla Hér legg ég áherslu á reglulegt samband foreldra og skóla. Að foreldrar fylgist með framvindu náms barna sinna t.d. með því að líta á afraksturinn þegar barnið hefur lokið við daglegt heimanám. Áhugi foreldra á námi og námsframvindu gefur barninu aukna vissu um að menntun er mikilvæg. Loks nefni ég fleiri þætti og kringumstæður þar sem foreldrar þurfa e.t.v. að vera í meira sambandi við skólann en hin venjubundnu samskipti krefjast. Telji foreldrar t.d. að barnið fái ekki viðeigandi hvatningu og örvun í skólanum eða að námsefnið sé ekki nægjanlega við hæfi er mikilvægt að hafa samband við kennara. Aðrir þættir sem kallað geta á frekari samskipti foreldra við skólann umfram venjubundin samskipti er ef stórvægilegar breyt- ingar eru í aðsigi, ef fjölskyldan hefur orðið fyrir einhverjum áföllum eða ef vandamál eru á heimilinu sem foreldrar telja að sé mikilvægt að skólinn viti um. Hafi skólastjórar áhuga á að fá fræðslu sem þessa fyrir foreldra sex ára barna þá er hægt að hafa samband í síma eða með tölvupósti. Símar: 899-6783 og 5682488. Netfang: kolbrunb@hive.is Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur www. kolbrun.ws Við upphaf skólagöngu Fræðsla fyrir foreldra sex ára barna Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur Lj ó sm y n d f rá h ö fu n d i

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.