Morgunblaðið - 30.06.2016, Side 38
38 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 30. JÚNÍ 2016
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Stórleikarinn Ólafur Darri Ólafsson
mátti svo til ekkert segja um hlut-
verk sitt í kvikmynd Stevens Spiel-
berg, The BFG, þegar blaðamaður
ræddi við hann fyrir rúmu ári, enda
myndin þá skammt á veg komin og
mikil leynd yfir öllu saman, eins og
vaninn er í kvikmyndabransanum.
En núna er búið að frumsýna mynd-
ina, heimsfrumsýningin fór fram á
kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí
sl. og Ólafur Darri var viðstaddur
frumsýningu í Hollywood fyrir
skemmstu. Almennar sýningar á
henni hér á landi hefjast á morgun í
Sambíóunum og Ólafi Darra því
frjálst að tjá sig um myndina og sam-
starfið við Spielberg.
Handrit myndarinnar er byggt á
samnefndri barnabók enska rithöf-
undarins Roalds Dahl og segir í
henni af ungri, munaðarlausri
stúlku, Sophie, sem numin er á brott
af risa sem fer með hana heim til sín í
Risaland. Í fyrstu er hún dauðhrædd
við risann, óttast að hann ætli að éta
hana, en fljótlega kemur í ljós að
hann er hinn vinalegasti (The BFG
er skammstöfun á „The big, friendly
giant“, þ.e. stóri, vinalegi risinn).
Risinn er þeim hæfileika gæddur að
geta fangað drauma og verða þau
Sophie miklir vinir. Fljótlega lenda
Sophie og risinn í lífshættu þegar
aðrir óvingjarnlegir risar komast að
því að mannsbarn sé í Risalandi, ris-
ar sem eru sólgnir í mannakjöt.
Líkt leikhúsi
Ólafur Darri fer með hlutverk risa
í myndinni, mannæturisa sem nefn-
ist The Maidmasher. Sá er ekki vina-
legur, enda bara einn vinalegur risi í
Risalandi. Risinn birtist á hvíta tjald-
inu, ásamt öðrum, í tölvuteiknaðri út-
gáfu sem unnin er með sk. „motion
capture“-tækni sem var m.a. beitt í
Lord of the Rings til að búa til kvik-
indið Gollri og í Avatar þar sem leik-
urum var breytt í bláar geimverur.
„Þá fer maður í sérstakan galla sem
er ekkert rosalega „flattering“, alla
vega ekki fyrir svona stóra og feita
menn eins og mig. Svo fær maður
rosalega marga punkta á sig og
punktar eru líka málaðir á andlitið,“
segir Ólafur Darri um aðferðina.
„Þessar senur okkar voru skotnar á
svona „sound stage“ sem er í raun-
inni bara stúdíó og þar eru kannski
50-70 kamerur í loftinu. Punktarnir
eru hvítir, gallarnir gráir og þessar
myndavélar nema endurskinið frá
punktunum þannig að þær lesa
hreyfingar leikarans. Svo ertu með
hjálm og ein kamera tekur mynd af
andlitinu á þér allan tímann.
Það skrítna við að leika í svona er
að það er að mörgu leyti líkara því að
leika í leikhúsi en í bíómynd. Ástæð-
an er einfaldlega sú að þegar þú ert í
tökum er myndavélin aldrei á ein-
hverjum einum, hún er alltaf á öllum
allan tímann. Þegar þú stendur á
sviði eru áhorfendur að horfa á allt
sem þú gerir en í kvikmynd getur
leikstjórinn valið á hvaða móment er
verið að horfa í hvert skipti,“ segir
Ólafur Darri um þessa frumraun
sína í „motion capture“-leik.
Hann segir það hafa tekið sig dá-
litla stund að venjast þessum að-
stæðum og að vinna með þessum
hætti. „Ég hafði í rauninni ekki þá
grunnþekkingu sem ég þurfti fyrr en
ég var búinn að prófa þetta eitthvað.
Þá fór ég að átta mig á því hvernig
þetta virkar. En þetta var mjög
skemmtilegt og ég væri alveg til í að
prófa þetta aftur.“
Falleg saga
-Og hvernig er svo útkoman?
„Ég er bara stoltur af henni. Þetta
er ofboðslega falleg mynd, bókin er
mjög falleg og mér finnst myndin ná
að fanga einhvern kjarna í henni,
hún nær í skottið á honum. Þetta er
mynd um einmanaleika, þarna eru
tvær aðalpersónur sem báðar eru
mjög einmana. „The big friendly gi-
ant“ er eini vinalegi risinn og er þ.a.l.
mjög einmana og stelpan býr á mun-
aðarleysingjahæli og er líka ein-
mana. Þetta er mynd um einmana-
leika, vináttu, hugrekki, gömul og
góð gildi,“ segir Ólafur Darri.
Vinalega risann leikur Mark Ryl-
ance, Ruby Barnhill leikur Sophie og
meðal þeirra sem leika vondu risana
eru Bill Hader, Michael David
Adamthwaite, Daniel Bacon og
Adam Godley. „Við risarnir vorum
eiginlega alltaf saman í tökum, sem
var svolítið skemmtilegt, maður var
ekki mikið einn. Þetta var ekki eins
og þegar menn eru að leika fyrir
framan „green screen“ eða „blue
screen“ eða þannig,“ segir Ólafur
Darri, spurður að því hvort risarnir
hafi verið teknir upp hver í sínu lagi
eða saman.
Breytilegar stærðir
Hann segir galdurinn við „motion
capture“-tæknina m.a. þann að hægt
sé að stækka og minnka leikarana að
vild. Þannig er Rylance miklu minni
risi en mannæturisarnir, svo dæmi
sé tekið, og segir Ólafur Darri að
Rylance hafi verið á hnjánum þegar
hann var að leika á móti mannætu-
risunum, sem hafi verið nokkuð
skondið. Þá sé Sophie auðvitað pínu-
lítil í heimi risa og enn minni þegar
hún standi frammi fyrir mannætu-
risum. Stærðarhlutföllin séu því
breytileg eftir því hvort atriðin fari
fram í mannheimum eða heimi risa.
-Mér sýnist og heyrist á öllu að
þessi mynd sé mikið tæknilegt þrek-
virki?
„Já, hún er ofboðslega fallega unn-
in,“ segir Ólafur Darri, augljóslega
hrifinn og svo sem ekki við öðru að
búast af meistara Spielberg. „Og
frammistaða þessara tveggja aðal-
leikara er mögnuð. Rylance er nýbú-
inn að fá Óskarsverðlaun og er bara
einn besti leikari í heimi og stelpan
nær manni algjörlega.“
Skemmtilega fáránlegir dagar
-En hvernig var að leika fyrir
Spielberg? Dálítið súrrealískt,
kannski?
„Jú, þetta voru skemmtilega fá-
ránlegir dagar í vinnunni, að vinna
með Spielberg. Manninum sem er
búinn að gera margar af stærstu
kvikmyndum æsku manns. Ég
nefndi það við einhverja blaðamenn
að þetta væri maðurinn sem eyði-
lagði sumarfrí á Spáni fyrir mér, ég
var svo skíthræddur um að hvítháfur
kæmi og æti mig þannig að ég þorði
aldrei að fara út í sjó,“ segir Ólafur
Darri og hlær innilega. „En það var
bara ótrúlega gaman [að vinna með
Spielberg], hann er svo ljúfur og auð-
mjúkur listamaður, það var æð-
islegt.“
Ólafur Darri hefur nóg að gera,
svo vægt sé til orða tekið. Á vefnum
Internet Movie Database (IMDb)
má finna langan lista yfir kvikmyndir
og sjónvarpsþætti sem hann hefur
leikið í á undanförnum árum. Ein
kvikmyndanna, The White King, var
frumsýnd fyrir fáeinum dögum á
kvikmyndahátíð í Edinborg og er Jo-
nathan Pryce meðal aðalleikara í
henni. Ólafur Darri segist fara með
lítið hlutverk í myndinni líkt og í The
BFG.
-En margt smátt gerir eitt stórt …
„Já, já, erum við ekki að horfa á
akkúrat það núna með íslenska
landsliðið á EM? Það skiptir ekki
máli hvort maður er mest eða minnst
með boltann heldur að liðið vinni og
maður geti haldið áfram,“ segir Ólaf-
ur Darri og hlær.
Gott að geta valið úr
Af þeim erlendu sjónvarpsþáttum
sem Ólafur Darri hefur leikið í ný-
verið má nefna Emerald City sem
frumsýndir verða í haust. Hann segir
efnivið þeirra sóttan í heim Galdra-
karlsins í Oz, bókasyrpuna Land of
Oz eftir L. Frank Baum. „Þeim er
leikstýrt af geggjuðum leikstjóra,
Tarsem Singh, hann er algjörlega
brilljant,“ segir Ólafur Darri.
Önnur bandarísk þáttaröð sem
Ólafur Darri leikur í og verður líka
frumsýnd í haust nefnist The
Quarry. „Það eru þættir sem voru
teknir upp í fyrrasumar og eru
byggðir á sk. „pulp fiction“ bókum,“
segir leikarinn um þá röð en í henni
segir af hermanni sem snýr heim úr
Víetnamstríðinu.
-Svo verður mögulega framhald á
Ófærð?
„Já, eða ég held að allir voni það.“
-Ertu ekki að lenda í sama vanda
og Baltasar Kormákur, að hafa allt of
mikið að gera, vera með of mörg járn
í eldinum?
Ólafur Darri hlær sínum vingjarn-
lega risahlátri. „Það er alltaf gott að
geta valið úr. Ég hef enga trú á öðru
en að ég og Baltasar og allir aðrir
sem komu að gerð Ófærðar finni sér
tíma til að gera meira af því. Það
heppnaðist vel.“
Spielberg eyðilagði sumarfríið
Ólafur Darri leikur óvingjarnlegan mannæturisa í nýjustu kvikmynd Steven Spielberg, The BFG
Tölvuteiknaður með „motion capture“-tækni Æðislegt að vinna með Spielberg, segir leikarinn
Ógnvekjandi Vinalegi risinn er hálfgert peð í samanburði við vondu risana í The BFG. Ólafur Darri leikur risann The Maidmasher.
Morgunblaðið/Halldór Kolbeins
Í Cannes Spielberg á frumsýningu með aðalleik-
urum The BFG, Ruby Barnhill og Mark Rylance.
AFP
Þrír stórir Ólafur Darri á frumsýningu The BFG í Hollywood 21. júní sl. með tveimur leikurum kvik-
myndarinnar, Bill Hader og Jemaine Clement, sem leika mannæturisa líkt og hann sjálfur.
VÍKURVAGNAR EHF.
Víkurvagnar ehf. | Hyrjarhöfða 8 | 110 Reykjavík
Sími 577 1090 | vikurvagnar.is | sala@vikurvagnar.is
Einnig mikið úrval varahluta
í Ifor Williams og aðrar gerðir af kerrum,
ásamt úrvals viðgerðarþjónustu.
Kerrur
frá Ifor Williams
í öllum stærðum
og útfærslum