Dagblaðið Vísir - DV - 22.12.2015, Blaðsíða 30

Dagblaðið Vísir - DV - 22.12.2015, Blaðsíða 30
30 Menning Á r hvert skellur stórflóð á bókaþjóðinni. Í jólabóka­ flóðinu alræmda flæða hins vegar ekki einungis orð, textar og sögur yfir landann heldur einnig bókarkápur, myndir, leturgerðir og umbrot fjölmargra hönnuða. Þessi órjúfanlegi hluti bókarinnar fær hins vegar yfirleitt varla meiri umfjöllun í fjölmiðlum en sem samkvæmisleikur þar sem teknar eru saman bestu og verstu bókarkápurnar. DV fékk þrjá grafíska hönnuði til að rýna í bókarkápuflóðið í ár – Lóa Auðunsdóttir, Snæfríð Þorsteins og Arnar Freyr Guðmundsson hittust á kaffihúsinu í bókabúð Eymunds­ son og spjölluðu við blaðamann um bókahönnun. Þröngur rammi Öll hafið þið fengist við bókahönnun, en kannski helst á stórum bókum og bókverkum – sem er kannski ólíkt skáldsögunum. Hvernig nálgist þið hönnun á bókum og hvað finnst ykkur vera góð hönnun á bók? SÞ: „Mér finnst mikilvægast að hún hæfi efninu. Þegar maður vinn­ ur að stórum bókum og bókverkum þá vinnur maður kápuna einnig sem part af því. Þetta vinnst eiginlega samhliða, maður fær efni í hendurn­ ar og reynir að finna einhverja leið til að túlka innihaldið.“ AFG: „Ég held að lykillinn fyrir hönnuð sé að skilja innihaldið og ná einhverri tengingu við það. Sjálf­ ur geri ég kápuna yfirleitt síðast. Ég byrja að hanna innsíðurnar, þá verð­ ur til einhver leikur eða „konsept“ og í kjölfarið kemur kápan eiginlega af sjálfri sér. Hún er þá bara rökrétt framhald af því sem er inni í bókinni.“ SÞ: „Maður byrjar að skoða inni­ haldið og setja upp, en smám saman tekur efnið yfirhöndina og vill fara í einhvern ákveðinn farveg.“ Fá hönnuðir yfir- leitt nægan tíma til að sökkva sér ofan í efnið? LA: „Ég held að það sé mjög mis­ jafnt eftir gerð bóka. Ég held að það sé oft lítill tími hjá þeim sem hanna skáld­ sögurnar. Þar eru líka oft fyrirfram gefnar hugmyndir um hvern­ ig tilteknar tegundir bóka eigi að líta út og hönnuðum því settur svo­ lítið þröngur rammi. Það hafa skapast ákveðnar hefðir um út­ litið: „spennu­ sögur eiga að vera svona og ævisögur hinsegin.“ Mig grunar stund­ um að þessar hefðir séu svo­ lítið strangari hér en erlendis. Ef maður fer í bókabúðir erlendis, þá er eins og þar ríki meira frelsi.“ Frelsi til að dansa á „tacky“ línunni Getið þið eitthvað greint hvernig þessar óskrifuðu reglur eða útlits- hefðir eru – til dæmis í spennusögun- um – þær eru kannski oft svona myrkar og í dökkum litum? LA: „Já, og eiga það til að dansa á einhverri svona „tacky“ línu. Þær hafa frelsi til þess.“ AFG: „Mér finnst þær oft sýna at­ burð á einhvern óljósan hátt.“ Þær eru þá nánast eins og stilla úr bíómynd? LA: „Já, bókarkápan er náttúr­ lega „trailerinn“ fyrir innihaldið. Það er hennar sögulega hlutverk, að minnsta kosta í skáldsögum. Svo eru ævisögurnar náttúrlega yfirleitt með þessa hefð­ bundnu andlitsmynd af viðkomandi á kápunni.“ Sjáið þið einhverjar aðrar línur eða „trend“ í hönnun- inni í ár – fyr- ir utan þessar hefðbundnu bókategunda- línur? Eitt sem ég var búinn að taka eftir og skrifa um í DV voru skuggamynd- ir af andlitum þar sem nátt- úrumyndir fylla í andlitin. AFG: „Ég hef tekið eftir því að það er svolítið mikið um svart­ ar kápur með silfurfólíu – og ég er sjálfur sekur! Kannski er bara eitthvað í loftinu, en mér fannst það bara passa við bókina [Nína S. eftir Hrafnhildi Schram]. En svo tók ég eftir að það er fullt af öðrum bókum sem notast við þetta. Það er líka ákveðin leið, til dæm­ is fyrir þá sem hanna kiljur til að fá almennilega áferð á hana. Um leið og það er komið eitthvað annað en pappírsáferð þá ertu búinn að segja meira, hún er orðin meira elegant.“ LA: „Annað sem maður tekur eft­ ir er að margir höfundar eru orðnir að sínu eigin vörumerki, Yrsa og Jón Kalman til dæmis. Það er komið ákveðið útlit sem er bara fyllt inn í með hverri nýrri bók.“ Bókaflokkur Yrsu er kominn með svo einkennandi útlit að maður sér í raun ekki nafnið hennar á bókarkáp- unni en samt þekkir maður hana. AFG: „En svo er líka áhuga­ vert augna­ blikið þegar nafn höf­ undarins er orðið stærra en titill bók­ arinnar. Þú sérð ARNALD­ UR IND­ RIÐASON áður en þú veist hvað bók­ in heitir.“ LA: „Það er orðið aukaatriði.“ AFG: „Það mikilvæga er að þessi bók sé eftir Arnald.“ Átakalítið bókaflóð SÞ: „Það er kannski ekki margt sem stendur upp úr í ár og heilt yfir línuna finnst mér þetta heldur átakalítið, en það er samt ekki af því að hönnuðirnir séu slæmir. Það eru bara ákveðnar vörður á mörg­ um stöðum á leiðinni sem þarf að fylgja. Það er komin hefð á ákveðið útlit á ákveðnar tegundir bóka og ætlast til að henni sé fylgt, forlögin eru þá kannski hrædd við að brjóta það upp. Svo koma bókabúðirnar og hafa líka sterka rödd í þessu sam­ tali – bækurnar þurfa að passa inn í þeirra rekka. Það sem fer út fyrir hina hefðbundnu stærð og umbrot er óþægilegt fyrir búðirnar. En bóka­ búðirnar eru að fyllast af alls konar gjafavörubókum og ágætis bókum að utan. Þannig að mér finnst dá­ lítið skrýtið að þessi mikla bókaþjóð gangi ekki aðeins lengra almennt í hönnuninni.“ AFG: „Maður finnur hvernig bók­ verkin eru alltaf að færast aftar og aft­ ar í bókabúðunum. Í Eymundsson í Austurstræti eru þær til dæmis komn­ ar al­ veg út í horn: þú gengur alltaf fyrst í gegn­ um ís­ lenskt nammi og boli sem á stendur „ég tala ekki ís­ lensku,“ næst gengur þú fram­ hjá venjuleg­ um bókum og svo loksins stóru bókunum.“ SÞ: „Kannski er heldur ekki mik­ ið af stórum verkum og fræðibók­ um að koma út núna miðað við undanfarin ár. Kannski er að koma út meira af bókum sem fara aðeins út fyrir rammann jafnt yfir árið, bækur sem eru að koma út í tengsl­ um við sýningar og annað slíkt. Það er kannski tekinn minni séns á þess­ um árstíma. En manni þætti gaman ef það væri gengið aðeins lengra í þessum almennu bókum – að það sé ekki bara í þessum dýru gjafabók­ um sem er dansað á línunni.“ LA: „Ég hugsa að fólk sé alveg tilbúið í það og það verði enginn hræddur. Fólk hefur nú séð ýmis­ legt.“ SÞ: „Það væri bara gaman að sjá fólk ganga lengra, en spurningin er: hver varðar leiðina? Það er oft eins og við séum að eltast við það útlit sem við höldum að markaðurinn vilji, frekar en að leyfa þeim sem eru menntaðir í faginu að hafa aðeins meira að segja og stýra vinnunni – aðeins þannig fæðast nýir hlutir.“ LA: „Ég held einmitt að það sé svolítið mikil klisja að tala um hvað markaðurinn vill í sambandi við út­ lit á hlutum og eitthvað slíkt. Fólk er spennt fyrir því að sjá alls konar hluti og lærir að meta.“ AFG: „Þegar hönnuðir leyfa sér meira þá vekur það meiri athygli. Oft sjá verkkaupar eftir á að það er þess virði að fara aðeins út fyrir normið.“ Kiljur henta tíðarandanum SÞ: „Það kemur mér svolítið á óvart hversu mikil áhersla er ennþá á harðspjaldakápurnar. Mér finnst kiljurnar ekkert síður spennandi og góðar að handfjatla. En þarna kemur markaðurinn kannski aftur inn, hann segir að það sé við hæfi að gefa bók með harðspjaldakápu í jólagjöf. En mér finnst að það mætti skoða hvað sé við hæfi hverju sinni – og hvort kiljur henti ekki tíðarand­ anum í dag. Það þykir kannski merkilegri upplifun að gefa og lesa harða og þunga bók? Jólablað 22.–28. desember 2015 n Grafískir hönnuðir rýna í jólabókaflóðið n Mættum vera djarfari í hönnuninni jólakápuflóðið Kristján Guðjónsson kristjan@dv.is Silfurfólía Arnar Freyr bendir á að svartar kápur með silfurfólíu séu áberandi í íslenskri bókaútgáfu í ár. Nafnið er vörumerki Nöfn vinsælustu höfundanna eru stærri en titlar bókanna „Það er kannski ekki margt sem stendur upp úr í ár og heilt yfir línuna finnst mér þetta heldur átakalítið Snæfríð Þorsteinsdóttir Rabbað um bókarkápur Arnar Freyr Guðmundsson, Lóa Auðunsdóttir og Snæfríð Þorsteinsdóttir, hönnuðir.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.