Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands - 01.12.1968, Page 5
>
—^=_/OZ 1968
Við höfum öll okkar ákveðnu hugmyndir um hvað sé „jólalegt." Sumt
af því eru viðteknar venjur, annað það sem auglýsendur hafa lætt inn
hjá okkur. Margt það sem okkur þykir jólalegast er e.t.v. fjarlægast
því sem felst í sjálfum jólunum. Listamenn hafa sveipað jötuna í Betle-
hem yndisþokka og fegrað fjárhúskofann í huga okkar, en jatan var
allt annað en yndisleg, hún var köld og nöturleg. Það fæðir engin kona
á íslandi nú barn við slíkar aðstæður.
Þannig fæddist Jesúbarnið, ung móðir bjó um drenginn sinn, reyndi
að veita honum hlýju og öryggi.
— í lágan stall var lagður hann
þótt lausnarinn heimsins væri —
Fátækir, ólæsir hirðar voru fyrst kallaðir til, það kennir okkur
sitthvað um verðmætamat Guðs. Er við nú höldum jól við jötu Krists,
hlýtur allt sem skapar þjóðfélagsstöðu okkar að leggjast til hliðar.
Fjármunir okkar eða menntun færir okkur ekki hótinu nær honum.
Kennir einmitt ekki jatan okkur þann sannleik? Að halda fæðingu frels-
arans hátíðlega er einfaldlega að tengjast honum enn á ný með opnu
hjarta.
— vil ég mitt hjartað vaggan sé —
Jólahaldið okkar er oftast fólgið í því að skiptast á gjöfum, veizlum,
kveðjum og kortum. Það er sannarlega ekkert slæmt, en það er ekki að
halda jól. Ef umbúðirnar verða allt, — ef jatan gleymist, þá höfum við
misst af jólunum.
í Rómaveldi hinu forna voru mikil hátíðahöld um miðjan vetur.
Þeir kölluðu það fæðingarhátíð sólarinnar, því að þá urðu skil í baráttu
ljóss og myrkurs. Sólin kom ögn fyrr upp en daginn áður. Það var
sannarlega tilefni hátíðarhalda.
Auðvitað var veturinn ekki afstaðinn, raunar var harðasti tími hans
framundan. En fólkið vissi að endurkoma sólarinnar boðaði að vor var
í vændum. Þegar kristnir menn hófu jólahald, var ekki lengur vitað,
hvaða dag Jesús var fæddur. Þeir völdu 25. desember, því að þann dag
breytti sólin göngu sinni samkvæmt fornu tímatali.
Því að — þann dag, sem Jesús fæddist, urðu skil í sögunni. Vetrar-
myrkur mannlegra þjáninga og eigingirni voru þó engan veginn að baki.
Við lifum sannarlega í kaldri, grimmri veröld. Það er enn hungur í
heimi og styrjaldir milli bræðra. En út við sjóndeildarhring mótar fyrir
dögun, því að í fæðingu Jesúbarnsins í jötunni felst vonin um ríki Guðs
á jörðu.
Gleðileg jól.
Séra Bernharður Guðmun ’sson.
TÍMAKIT II.JÚKKUNARFÉLAGS ÍSLANDS 81