Norðurslóð - 17.12.1997, Side 11

Norðurslóð - 17.12.1997, Side 11
NORÐURSLÓÐ —11 Að vera sjálfum sér trúr Aldarminning Stefáns Hallgrímssonar að er vandasamt að fjalla opinberlega um fólk sér nákomið. Samt langar mig að minnast hér í Norður- slóð kjörföður míns, Stefáns Hall- grímssonar skrifstofustjóra, í til- efni þess að á árinu var öld liðin frá fæðingu hans. Er mér víst ekki vandara um í þessu en mörgum öðrum sent birt hafa þætti um for- eldra sína í bókunum Faðir minn, bóndinn. kennarinn, læknirinn, presturinn o.s. frv. og Móðir mín húsfreyjan. Það fennir fljótt í slóð manna, en eitt af hlutverkum Norðurslóðar, og sómi blaðsins á tuttugu ára ferli, hefur verið að halda á loft minningu um líf og störf genginna Svarfdælinga.Til þess að fylla þá mynd sem ég ætla að bregða hér upp af föður mínum styðst ég við afmælis- og minning- argreinar sem um hann voru skrif- aðar af kunnugu samferðafólki. I Stefán Baldvin Hallgrímsson fædd- ist á Hrafnsstöðum 4. október 1897. Svo taldi hann sjálfur en kirkjubók segir hann fæddan 19. október. Hann var sonur Hallgríms Sigurðssonar og Þorláksínu Sig- urðardóttur sem bjuggu á Hrafns- stöðum um þrjátíu ára skeið, en síðan á Dalvík. Þau voru bæði Svarfdælingar að uppruna, Hall- grímur frá Syðra-Holti, en Þor- láksína frá Olduhrygg. Þau hjón eignuðust sex syni en tveir létust í bemsku. Upp komust, í aldursröð: Gunnlaugur, skólastjóri á Sval- barðsströnd og síðast skrifstofu- maður í Reykjavík, Stefán, sem hér segir frá, Gunnar, tannlæknir á Akureyri og Snorri, prófessor og yfirlæknir við Landspítalann í Reykjavík. Reyndust þeir allir hin- ir nýtustu menn, hver á sínu sviði. Stefán ólst upp á Hrafnsstöðum við venjuleg sveitastörf að þeirrar tíðar hætti. Sú vinna átti vel við hann og minntist hann einkum hjá- setunnar á Böggvisstaðadal með ánægju. Alla tíð var hann rnjög tengdur landbúnaðinum þótt ekki yrði hann bóndi. Stefán átti gott með nám og stundaði það vel eins og annað sem hann fékkst við. Hann var einn af fyrstu nemendum Snorra Sigfússonar, síðar náms- stjóra, þegar hann stofnaði til ung- lingaskóla í Svarfaðardal nýkom- inn frá Noregi. Tókst vinátta með kennara og nemanda sem entist meðan báðir lifðu. Stefán vann búi foreldra sinna á Hrafnsstöðum fram undir tvítugt, en fór síðan í Gagnfræðaskólann á Akureyri. Þar var hann samferða Helga Símonar- syni á Þverá og urðu þeir ævivinir. Hefur Helgi lýst honum vel í Is- lendingaþáttum Tímans 20. sept. 1968. - Stefán hafði sérstakan áhuga á tungumálanámi og vafa- laust hæfileika til að leggja það fyrir sig lengur en raun varð; hann rifjaði það stundum upp að hann hóf eitt sinn þýskunám hjá séra Stefáni Kristinssyni á Völlum. En eftir gagnfræðapróf vorið 1919 var lokið formlegri skólagöngu föður míns. Gagnfræðaprófið varð að nægja mörgum norðlenskum ung- mennum á þessum tíma og Stefán lagði ekki í frekara skólanám þótt hann hefði hug á því. Aratug síðar var skólinn á Akureyri orðinn menntaskóli; þess nutu yngri Hrafnsstaðabræðumir tveir sem báðir luku þar stúdentsprófi og fóm síðan til háskólanáms. Eftir prófið fékkst Stefán við ýmis störf. Hann var heimiliskenn- ari hjá presthjónunum á Völlum einn vetur og hefur Sigríður Thor- lacius brugðið upp fallegri mynd af því hve hún, sem þá var þar á Stefán Hallgrímsson. bamsaldri, dáði þennan unga kenn- ara, ekki síst fyrir viðmót hans. „Það er hið sama við barnið sem aðra - óbrigðul prúðmennska, hlýr hlátur, geislandi glettni í bláum augum, hljómfögur rödd í ræðu og söng.“ Sigríður lýsir Stefáni svo að hreinlyndið hafi virst sterkasti eig- inleiki í fari hans alla tíð, „hrein- leiki þess sem ekki hefur neina til- hneigingu til að lúta að því lága.“ (ísl.þ. Tímans 24. jan. 1969) A æskuárum föður míns vom ungmennafélögin á blómaskeiði með þjóðinni og hann tók veru- legan þátt í starfi Ungmennafélags Svarfdæla. Hann var ungmennafé- lagi ævilangt og mat mikils þá þjálfun og lífsfyllingu sem sá fé- lagsskapur veitti honum. Bindind- isheit félagsins tók hann alvarlega og hvorki neytti áfengis né veitti það öðmm. A vegum ungmennafé- lagsins var hann allmikið í leik- starfsemi og þótti góður áhuga- leikari og fjölhæfur. Hann hafði enda ágætan smekk fyrir leiklist og átti mikinn þátt í að efla áhuga minn á þeirri grein. Oft talaði hann um þann tíma þegar Ungmennafé- lagið sýndi Skugga-Svein, en þar lék hann Ketil skræk á móti Kristni Jónssyni sundkennara í Skugga. I minnum var þó ekki síst höfð túlk- un Stefáns á Lénharði fógeta. Stærsta einstaka verkefnið sem hann vann að á vegum félagsins var vafalaust bygging Sundskálans en þar var hann einn helstu for- ustumanna og annaðist fjárreiður. Síðasta starf föður míns fyrir Ung- mennafélagið var umsjón með gróðrarreitnum á Holtsmóum og minnist ég margra góðra stunda með honum þar í æsku. Annar vettvangur þar sem ég naut þess sérstaklega að vinna með honum var í Bókasafni Dalvíkur, en hann var lengi formaður Lestrarfélags- ins sem rak safnið. II Víkjum aftur að eiginlegum starfs- ferli Stefáns. Ungur var hann um ársskeið skrifari hjá Halldóri Júlí- ussyni sýslumanni Strandamanna á Borðeyri. Þá vann hann við fisk- verkun á Isafirði hjá Jóhanni Ey- firðingi. Snorri Sigfússon var þá fluttur vestur á Flateyri og segir í afmælisgrein að hann hafi hitl Stefán þar vestra. „Eg vissi hve prýðilega hann kynnti sig þar og var metinn," segir Snorri. „Þóttist ég þó skilja, að hugur hans stefndi heim. Gladdi það mig þá innilega ef æskustöðvarnar fengju að njóta slíks efnismanns." (Tíminn 7. okt. 1967) Heim sneri Stefán og réðst til útibús Kaupfélags Eyfirðinga á Dalvík sem þá hafði starfað í fáein ár, hlaut verslunarleyfi 1918. Mun faðir minn hafa byrjað störf hjá útibúinu 1922 en ekki „um 1925“ eins og stendur í Svarfdælingum. Þessari stofnun vann hann upp frá því meðan ævin entist. Framan af var Stefán jöfnum höndum við afgreiðslu og bókhald en þegar frá leið varð hann skrif- stofustjóri og þá næstur útibús- stjóranum. Fyrstu árin starfaði hann með Jóhanni Jóhannssyni en síðan, í fjóra áratugi, með Baldvin syni hans. Þeir Baldvin og Stefán voru ólíkir menn að skapferli en bættu hvor annan upp og var sam- starf þeirra jafnan heilt og traust. Það var viðurkennt af öllum sem til þekktu að Stefán var helsta kjöl- festa útibúsins alla sína starfstíð, enda samviskusemin óbrigðul. „Var alltaf á sínum stað, viðbúinn að gefa upplýsingar um hvaðeina viðkomandi reikningsviðskiptum og leysti úr erindum manna af prúðmennsku, öryggi og festu,“ segir Gestur Vilhjálmsson í Bakka- gerði. (ísl.þ. Tímans, 4. okt. 1968) Sjálfur taldi faðir minn sig aldrei leysa annað af hendi en það sem honum bar. Skyldurækni hans verður vart betur og sannar lýst en í grein Þórarins Eldjáms um Stefán sextugan: „Aldrei spurt um kaup. Aldrei litið á klukkuna til að vita hvort ekki væri nú nóg unnið, heldur aðeins spurt um það, hvað eftir er af því sem Ijúka verður í dag og þá að vinna það ef eitthvað er. - Þannig er Stefán Hallgríms- son, hinn kröfuharði maður við sjálfan sig í starfi og viðskiptum við menn og málefni." (Dagur, 4. des. 1957). Því má bæta við að auk starfa sinna sem skrifstofustjóri var faðir minn umboðsmaður Sam- vinnutrygginga á Dalvík. I það fór mikil vinna sem hann mun aldrei hafa fengið neina sérstaka greiðslu fyrir. Fyrir mitt minni hafði hann setið í hreppsnefnd og fleiri nefnd- um á vegum sveitarstjómar, en til æviloka var hann í fulltrúaráði Sparisjóðs Svarfdæla. Stefán kvæntist 27. desember 1926 Rannveigu Stefánsdóttur í Sogni, fæddri 6. mars 1902 í Brattahlíð á Arskógsstönd. Þau bjuggu fyrst í Sogni en frá 1932 í húsi sem þau byggðu og nefndu Haukafell, nú Sognstún 2. Þar áttu þau heima þar til Stefán lést, 20. júlí 1968. Rannveig kenndi á sín- um tíma stúlkum handavinnu. Hún bjó sín síðustu ár á Dalbæ og lést árið 1993. Kjörsonur þeirra er greinarhöfundur, fæddur 1946, og frænku Stefáns, Jónínu Amadótt- ur, fædda 1924, ólu þau upp frá ellefu ára aldri. III Það var ekki á margra vitorði að heilsa föður iníns var engan veginn sterk og mörg síðustu árin þurfti hann á öllu sínu þreki að halda til að geta sinnt starfi á skrifstofunni í samræmi við þær kröfur sem hann gerði til sjálfs sín. En hvað gaf hon- um kraft til að standa á verðinum meðan dagur var, ganga að slítandi og að því er virðist tilbreytingar- litlum skrifstofustörfum áratug eft- ir áratug? Svarið er ekki nema eitt og ég ber það fram þótt það þyki ef til vill gamaldags á markaðs- hyggjuöld: Það var hugsjónin, sú fullvissa að hann með trúmennsku sinni í starfi hjálpaði til að bæta mannlífið í kringum sig. Stefán Hallgrímsson var heilsteyptur hug- sjónamaður, hafi ég nokkum mann þekkt sem slíka einkunn verð- skuldar. Hann mótaðist til fram- búðar af uppeldi góðra foreldra, hreifst ungur af ungmennafélags- anda, gekk síðan til liðs við sam- vinnuhreyfinguna og þjónaði henni alla tíð. Þá kom af sjálfu sér að hann var framsóknarmaður og jafntrúr flokki sínum og öllu öðru sem hann hafði einu sinni bundist, hvort sem voru menn eða málefni. Tryggðin var helsta skapgerðar- einkenni hans, tryggðin við fjöl- skyldu sína og átthaga, starf sitt og hugsjónir. Þegar grannt er skoðað snýst þetta allt um sjálfsvirðingu, að vera sjálfum sér trúr, og það var hann. Séð frá annarri hlið er tryggðin íhaldssemi og vissulega sýnir allur ferill föður míns að hann var hreint ekki gefinn fyrir umrót og breyt- ingar í lífi sínu. Að þessu vék Helgi Símonarson í grein sinni og nefndi fastheldni hans á gamlar venjur í starfinu. Hún var í sam- ræmi við lífsskoðun hans, segir Helgi. Raunar voru hinir róman- tísku ungmennafélagar í upphafi aldarinnar öðrum þræði íhalds- samir þótt þeir væru líka fulltrúar nýs tíma. Að því er föður minn varðar held ég að hann hafi að eðlisfari verið nokkuð tortrygginn á nýjungar eins og þeir sem hafa föst siðferðileg viðmið í lífi sínu. Kannski skorti hann einhverja teg- und af sjálfstrausti og dirfsku. Hann var umfram allt strangur við sjálfan sig, en ekki metnaðargjam eins og það orð er yfirleitt skilið. Það var honum líka fjarri skapi að tefla í tvísýnu og því rann líf hans áfram í sama lygna farvegi frá Gunnar Stefánsson skrifar upphafi til loka. Þótt hann væri vissulega skapmikill og viðkvæm- ur réð rótgróin gætni og varúð jafnan viðbrögðunt hans þegar á reyndi. IV Ungum fannst mér að maður sem var jafn fær í starfi sínu og pabbi ætti að vinna á stærra sviði og gegna hærri stöðu en raun var. En nú lít ég öðru vísi á það mál. Faðir minn fann að hann gerði gagn þar sem hann var. Hann vann fyrir þann atvinnuveg sem hann var tengdur frá unga aldri, fyrir hreyf- ingu sem hann hafði trú á og heimabyggðina sem hann bar ætíð fyrir brjósti. Hann þurfti ekki að lifa hnignun landbúnaðarins og hrun Sambandsins. Hvort tveggja hefði honum fallið þungt. En ég veit það hefði glatt hann að Kaup- félag Eyfirðinga virðist standa traustum fótum og vonandi þjónar það Dalvíkingum og Svarfdæling- um vel eins og faðir minn vildi að það gerði. Mér verður hugsað til sextugs- afmælis pabba fyrir fjörutíu árum. Þá var ég á ellefta ári. Fjöldi manna heimsótti hann, ntikið sungið og mér fannst ógurlega gaman enda fékk ég að vaka langt fram á nótt sem yfirleitt leyfðist nú ekki. Tveim mánuðum eftir af- mælið birti Þórarinn á Tjörn grein- ina sem að framan var vitnað til. Hann sagði þar í upphafi að það væri Iíklega smitun frá Stefáni sjálfum, hógværð hans og yfirlæt- isleysi, sem hefði valdið því að ekki var skrifað um hann fyrr. Þór- arinn kveðst ætla að hlífa honum við löngum lestri um hann sjálfan, en draga fram það eitt sem ekki sæmi að þegja um og bein skylda sé að láta koma fram. En það er að þeir sem meira vinna en skyldan býður og spyrja ekki um laun fyrir séu mennirnir sem beri þjóðfélög- in og menninguna uppi. „Einn þessara ágætu manna er Stefán Hallgrímsson," sagði Þórarinn. „Eg undirstrika það.“ Föður mínum hefur áreiðanlega þótt vænt um afmælisgrein Þórar- ins. Samt var hann svo frábitinn því að láta hæla sér að hann hlaut að segja um leið og hann þakkaði Þórarni fyrir, að hann hefði ekki átt að gera þetta. Sama myndi hann eflaust vilja segja við mig nú, að ég ætti ekki að vera að hlaða hann lofi á opinberum vettvangi. Eg gæti þá svarað eins og Þórarinn, að sumt sé ekki sæmandi að þegja um. Eg minnist þess manns sem mest og varanlegast hefur mótað mig. Það er að sönnu einkamál og ekki myndi honum að skapi að ég hefði mörg orð um slíkt. En ég er þess fullviss að minning hans á erindi við fleiri en þá sem næst stóðu. Svo er raunar um alla þá sem auðga samtíðina með návist sinni, fordæmi sínu og ósérplægnu starfi í annarra þágu. Yfir mynd Stefáns Hallgrímssonar er fágæt heiðríkja og í henni felst hvatning og birtugjafi fyrir okkur öll sem vissum hvílíkur maður hann var.

x

Norðurslóð

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.