Morgunblaðið - 03.05.2017, Síða 19
19
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 3. MAÍ 2017
Þeysireið Þessi einbeitti piltur þeysti af stað á rugguhesti í Reiðhöllinni í Víðidal um helgina þegar sýningin Æskan og hesturinn var haldin þar í tilefni af hestadögum, helgi íslenska hestsins.
Árni Sæberg
Sjálfstæði atvinnu-
rekandinn á enn undir
högg að sækja. Það
hefur ekki tekist að
hrinda atlögunni sem
staðið hefur yfir linnu-
lítið í mörg ár. Fjand-
skapur ríkir gagnvart
einkaframtakinu og
það gert tortryggilegt.
Árangur í rekstri er lit-
inn hornauga.
Á Íslandi starfa þúsundir lítilla og
meðalstórra fyrirtækja. Eigendur
hafa sett allt sitt undir en hafa aldrei
farið fram á að njóta sérréttinda, að-
eins að sanngirni sé gætt og reglu-
verk ríkis og sveitarfélaga sé stöð-
ugt.
Hið opinbera sækir að framtaks-
manninum – litla atvinnurekand-
anum – með ýmsum hætti. Í sam-
keppni við einkaframtakið hafa
ríkisfyrirtæki komið sér fyrir á
prentmarkaði, tekið að sér vöru-
dreifingu, vöruhýsingu og bretta-
þjónustu. Ríkið er sælgætissali og
umsvifamikill seljandi leikfanga, sel-
ur undirfatnað kvenna, heilsuvörur
og er stærsti smásali snyrtivara á
Íslandi. Umsvif ríkisins á fjölmiðla-
markaði koma í veg fyrir framgang
frjálsra fjölmiðla, sem standa veik-
burða í ósanngjarni samkeppni.
Skattheimta og nokkur þúsund
milljóna forgjöf tryggir yfir-
burðastöðu ríkisins við miðlun upp-
lýsinga og frétta.
Alið á fjandskap
Í Reykjavík er skipulega og með
einbeittum hætti sótt að einka-
rekstri. Komið er í veg fyrir að
einkafyrirtæki geti
safnað lífrænum úr-
gangi frá heimilum.
Grafið er undan þekk-
ingarþorpi flugsins á
Reykjavíkurflugvelli,
þar sem er aðsetur
flugskóla, flugklúbba
og fleiri fyrirtækja.
Kaupmenn í miðborg-
inni eiga undir högg að
sækja, þar sem borg-
arstjórn hefur unnið
skipulega að því að
draga úr umferð með
þrengingum, sumarlokunum og
fækkun bílastæða. Engu er líkara en
að það sé einörð stefna meirihluta
borgarstjórnar að bola rótgrónum
verslunum og fyrirtækjum úr mið-
borginni.
Í þingsal er alið á fjandskap í garð
einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu.
Margir fjölmiðlungar eru duglegir
við að sá fræjum tortryggni og óvild-
ar í garð þeirra sem hafa haslað sér
sjálfstæðan völl í heilbrigðisþjón-
ustu. Góð reynsla af einkarekstri
skiptir litlu, fjölbreyttari og betri
þjónusta er aukaatriði, lægri kostn-
aður ríkisins (skattgreiðenda) er
léttvægur. Stytting biðlista eftir að-
gerðum er ekki aðalatriðið, heldur
að komið sé í veg fyrir einkarekstur,
jafnvel þótt það leiði til þjóðhags-
legrar sóunar og lakari lífsgæða ein-
staklinga sem þurfa að bíða mán-
uðum saman eftir úrlausn sinna
mála. Fjandmenn einkarekstrar
vilja miklu fremur senda sjúklinga
til annarra landa en tryggja aðgengi
almennings að nauðsynlegri þjón-
ustu hér á landi. Í stað þess að
tryggja öllum landsmönnum góða og
trausta heilbrigðisþjónustu er
rekstrarformið mikilvægast – trúar-
atriði. Hinir „sanntrúuðu“ leiða aldr-
ei hugann að mikilvægi einkarekstr-
ar s.s. á sviði heilsugæslu, sérfræði-
þjónustu, endurhæfingar og
hjúkrunarheimila.
Óvild í garð einkarekinna skóla er
sama marki brennd og afleiðingar
eru minni samkeppni og fábreyttari
valkostir. Kostnaðinn bera nem-
endur, kennarar og samfélagið allt.
Aflvaki breytinga
Framtaksmaðurinn er og hefur
alltaf verið drifkraftur framfara og
þar með bættra lífskjara. Hann er
aflvaki breytinga – kemur auga á
tækifærin, býður nýja vöru og þjón-
ustu, skapar störf og eykur lífsgæði
samferðamanna sinna. Með nýrri
hugsun og nýjum aðferðum ógnar
framtaksmaðurinn hinum stóru og
knýr hjól samkeppninnar.
Við Íslendingar erum svo gæfu-
samir að hafa átt fjölda frumkvöðla –
athafnamenn sem rutt hafa nýjar
brautir og skapað fjölbreyttari tæki-
færi. Dugnaðarforkar í sjávarútvegi
hafa byggt upp arðbærasta sjávar-
útveg í heiminum. Snjallir hugvits-
menn hafa þróað tæki og nýjar að-
ferðir í matvælaiðnaði, komið með
byltingarkennda gervilimi, hannað
nýja tegundir báta, haslað sér völl í
hugbúnaðar- og tölvuleikjagerð. Af
myndarskap hafa bændur náð að
samþætta heilbrigði matvæla og
aukna framleiðni.
Á síðustu árum höfum við orðið
vitni að því hvernig frumkvöðlarnir
hafa gripið tækifærin og byggt upp
lítil fyrirtæki – oft fjölskyldufyrir-
tæki – á sviði ferðaþjónustu. Nýjum
stoðum hefur verið skotið undir ein-
staka byggðir, mannlífið er litríkara
og menningarlífið hefur blómgast.
Fjölbreytnin er óendanleg; gisting,
ævintýraferðir á sjó og landi, þyrlur,
fjallaskíði, sjóstöng, jöklar, snjósleð-
ar, jeppar, jarðböð, sjóböð, hellar,
snjóbílar, hvalir, selir, fuglar, matur,
íslensk saga, tónlist og menning.
Þannig má lengi telja.
Sjálfstæðir atvinnurekendur eru
ekki sérlega kröfuharðir gagnvart
öðrum en sjálfum sér. Þúsundir
karla og kvenna sem stunda sjálf-
stæðan atvinnurekstur í landbúnaði,
sjávarútvegi, ferðaþjónustu, iðnaði,
hugbúnaði, verslun og þjónustu,
hafa borið þá von í brjósti að ríkis-
valdið, en þó ekki síður stjórn-
málamenn, sýni í verki skilning á
stöðu þeirra sem reka lítil og meðal-
stór fyrirtæki. Vonin er að tími
skilningsleysis og andúðar sé að
baki og með því verði gildi borgara-
legs samfélags aftur hafin til vegs og
virðingar og það gert eftir-
sóknarvert að stunda sjálfstæðan at-
vinnurekstur.
Öflugra einkaframtak
En jafnvel þótt athafnafólkið um
allt land geri ekki miklar kröfur ætl-
ast það til þess að borgaraleg ríkis-
stjórn undir forystu Sjálfstæðis-
flokksins leggi ekki steina í götur
þess og kippi ekki stoðum undan
rekstrinum. Gjörbreyti ekki reglu-
verki, sköttum og gjöldum með
litlum fyrirvara. En Sjálfstæðis-
flokkurinn ætlar að gera gott betur
eins og Bjarni Benediktsson, for-
maður flokksins og forsætisráð-
herra, undirstrikaði vel í setning-
arræðu landsfundar árið 2013:
„Við munum skapa íslensku efna-
hagslífi og atvinnuvegum hvetjandi,
örugg og traust starfsskilyrði og við
ætlum að eyða pólitískri óvissu um
grunnatvinnuvegina. Þá tekur at-
vinnulífið við sér „eins og jurt sem
stóð í skugga en hefur aftur litið
ljós“. Á grundvelli þessara horn-
steina hefst nýtt og kraftmikið fram-
faraskeið í þágu heimila landsins þar
sem stöðugleiki og vöxtur verða
aðalsmerkin. Þetta er leið Sjálf-
stæðisflokksins.“
Eyjólfur Konráð Jónsson [Eykon]
hafði skýra sýn á atvinnulífið. Í ræðu
árið 1977 skilgreindi hann stefnu
Sjálfstæðisflokksins í atvinnumálum
ágætlega í einni setningu:
„Inntakið er meira frjálsræði,
minni ríkisafskipti, öflugra einka-
framtak, minni ríkisumsvif.“
Eykon benti á að orð hefðu litla
þýðingu ef þeim væri ekki fylgt eftir
með því að hrinda þeim í fram-
kvæmd. Það væri hlutverk þeirra
sem valist hefðu til trúnaðarstarfa
fyrir Sjálfstæðisflokkinn að tryggja
framkvæmdina: „Okkur er kannski
ekki hægt að draga til ábyrgðar,
þótt okkur mistakist, en það er hægt
að gera okkur ábyrg fyrir því að
hafa ekki gert það, sem í okkar valdi
stendur til að ná árangri.“
Þessi orð Eykons ramma inn
hvernig við sjálfstæðismenn eigum
að haga störfum okkar í ríkisstjórn á
næstu árum.
Eftir Óla Björn
Kárason »En jafnvel þótt at-
hafnafólkið um allt
land geri ekki miklar
kröfur ætlast það til
þess að ríkisstjórn leggi
ekki steina í götur þess.
Óli Björn Kárason
Höfundur er þingmaður
Sjálfstæðisflokksins.
Óvild í garð framtaksmannsins