Víkurfréttir - 30.12.2003, Qupperneq 14
14 VÍKURFRÉTTIR Á NETINU I www.vf.is I LESTU NÝJUSTU FRÉTTIR DAGLEGA!
➤ R E Y K J A N E S B R A U T I N
Vel kæst Matarlystar-skata
Skatan var ljúffeng og kæst á mörgum heimilum og veitingastöðum á
Þorláksmessu. Hér má sjá nokkrar mis kæstar myndir frá skötuveislunni
sem var hjá Axeli Jónssyni og félögum. Athugið; það gæti verið „ilmur“
af myndunum. Prófið bara að færa nefið nær!!
Á rið sem nú er að líða er það svartasta isögu Reykjanesbrautarinnar. Sex einstak-lingar hafa látist í umferðaslysum á árinu
þar með talinn ungur varnarliðsmaður sem lést
nokkrum vikum eftir að hann slasaðist alvarlega
í umferðarslysi á Strandarheiði. Samkvæmt
Umferðarstofu er talning látinna á brautinni
fimm en ekki sex því í alþjóðlegri skilgreiningu á
dauðsföllum eru þeir einir taldir með er látast
innan þrjátíu daga frá slysi. Aðrar ábendingar
eða aðstoð hefur umrædd stofnun ekki átt við
áhugahóp um örugga Reykjanesbraut. Á fundi
áhugahópsins í febrúar 2001 með Sólveigu Pét-
ursdóttur þáverandi dómsmálaráðherra lofaði
fulltrúi Umferðarráðs, eins og það hét á þeim
tíma, umferðarfræðslu í sjónvarpi varðandi axl-
ir/hjáleiðir á Reykjanesbrautinni. Enn í dag hef-
ur vinnsla þessara þátta ekki verið hafin þrátt
fyrir slysaöldu þessa árs. Þetta er eitt af þeim
verkefnum sem áhugahópurinn vinnur að.
Á síðustu þremur árum hefur áhugahópur um ör-
ugga Reykjanesbraut unnið ötullega að jákvæðri og
uppbyggilegri umræðu og fylgt stíft eftir loforðum
ráðamanna á hinum ýmsu sviðum m.a. frá fjöl-
mennum borgarafundi í Stapa 11. janúar 2001. Fjöl-
margir fundir hafa verið haldnir síðan m.a. með
samgöngu- og dómsmálaráðherra, þingmönnum
auk sýslumanna, lögreglu, Umferðarráði, Vegagerð
og verktökum. Umferðarskilti hafa verið sett upp,
bílabænum, jólakortum og skilboðum dreift svo
eitthvað sé nefnt. Þá hefur hópurinn séð um borg-
arafund, vígsluathafnir og birt fjölmargar auglýsing-
ar. Heildarkostnaður vegna baráttu hópsins er þegar
orðin vel á fjórðu milljón króna án þess að opinberir
styrkir hafi þar komið við sögu. Á þessu sést hve
kraftur þeirra fyrirtækja og einstaklinga sem stutt
hafa þetta mikilvæga verkefni er mikill. Í dag köll-
um við eftir samstöðu og fjárstuðningi til að leiða
þessa baráttu til enda því að mörgu leyti finnst okk-
ur sem veitum hópnum forstöðu að málið sé aftur á
byrjunarreit - að minnsta kosti hvað varðar seinni
verkáfanga.
Tölulegar staðreyndir
Á síðustu fjörutíu árum hafa sextíu einstaklingar
látið lífið á Reykjanesbrautinni. Þá hefur fjöldi
þeirra sem látast eða slasast alvarlega aukist hlut-
fallslega mest á síðustu þremur árum eins og sjá má
á töflunni hér að neðan. Ástæðurnar eru án efa auk-
in umferð og umferðarhraði sem hvoru tveggja eru
þættir sem magna áhættu þegar bifreiðar mætast úr
gagnstæðri átt. Í þessu samhengi má t.d. nefna
aukningu ferðamanna til Keflavíkurflugvallar sem í
dag eru yfir 300.000 og þurfa þeir eðli málsins sam-
kvæmt að keyra fram og tilbaka á þessum líklega
fjölfarnasta þjóðvegi Íslands.
Þróun síðustu ára:
Á árunum 1963-2003 60 látnir
að meðaltali einn með 300 daga millibili.
Á árunum 2000-2003 11 látnir
að meðaltali einn með 99 daga millibili.
Árið 2003 6 látnir
að meðaltali einn með 60 daga millibili.
Barátta áhugahópsins hefur m.a. einkennst af góðu
samstarfi við samgönguráðherra og verktaka. Sá
ávinningur kemur m.a. fram í tilkynningu verktaka
um verklok á fyrstu 11,8 km kaflanum í byrjun júní
sem eru sex mánuðum á undan áætlun. Þetta eru
miklar gleðifréttir þar sem ætla mátti af þeirri miklu
umræðum sem hafa verið á Alþingi um lokaáfanga
tvöföldunar Reykjanesbrautarinnar að lokið yrði við
þessa framkvæmd í beinu framhaldi af fyrsta
áfanga. Svo virðist því miður ekki vera raunin á.
Ljóst er að hálfnuð braut skapar ákveðna hættu eins
og gefur að skilja. Fyrst eru 8 km keyrðir frá Kefla-
víkurflugvelli á einfaldri braut og síðan næstu 11,8
km á tvöfaldri braut og síðan aftur síðustu 4 km til
Hafnarfjarðar á einfaldri braut. Þetta fyrirkomulag
er engan veginn bjóðandi og má undir engum kring-
umstæðum sætta sig við að framkvæmdir stöðvist.
Þau svör sem áhugahópurinn hefur fengið frá ráða-
mönnum um framhald verksins er að framkvæmdir
stöðvist sjálfkrafa í byrjun sumars, við verklok
fyrsta áfanga, enda ekkert viðbótarfjármagn á fjár-
lögum. Framhald verksins er því í uppnámi og frek-
ari framkvæmdir ekki til umræðu fyrr en við endur-
skoðun vegaáætlunar í haust! Þetta er skelfileg
staða sem ekki er hægt að sætta sig við og leggur
áhugahópur um örugga Reykjanesbraut því fram
nýjar kröfur í ljósi stöðunnar í dag.
Kröfur áhugahópsins í dag
Að beiðni áhugahópsins hafa verktakar sem nú
vinna við framkvæmdir við Reykjanesbraut sent inn
tilboð í 2 km til viðbótar þeim 11,8 km sem nú er
verið að vinna við. Hljóðar tilboð þeirra upp á sömu
einingarverð og nú eru í gangi og voru aðeins um
60% af kostnaðaráætlun. Þessi aukakafli er því vel
undir 200 milljónum króna sem ekki er há upphæð
þegar hin háa dánartíðni á þessum vegakafla er höfð
í huga. Að auki lofa þeir verklokum á þessum kafla
þegar í september nk. og eru tilbúnir að lána heild-
arupphæðina þar til vegaáætlun liggur fyrir. Með
þessu geta ráðamenn tryggt hagkvæmni um leið og
tryggt er að framkvæmdum við tvöföldun Reykja-
nesbrautar stöðvist ekki eins og nú er útlit fyrir. Við
endurskoðun vegaáætlunar í september gefst tæki-
færi til að bjóða út þá 10,2 km og þau mislægu
gatnamót sem eftir verða og tryggja þannig verklok
árið 2005 eins og loforð hafa verið gefin um. Önnur
niðurstaða er í raun óhugsandi.
Samstaða allt til enda
Á borgarafundinum þann 11. janúar 2001 lofuðu
þingmenn, allir sem einn, að ljúka við tvöföldun
Reykjanesbrautar í síðasta lagi á árinu 2005 og hlýt-
ur það að vera okkar krafa að þeir fylgi þessum lof-
orðum eftir og láti í sér heyra. Víst má telja að vilji
þingmanna sem þá voru við stjórnvölinn, svo og
þeirra sem nú sitja við völd, sé samhljóða kröfum
hópsins um flýtingu verksins og tími á áætluð verk-
lok séu að engu leyti metnaðarminni. En þessum
vilja sínum verða þeir að koma á framfæri í umræð-
um m.a. á Alþingi þannig að samstaða þingmanna
svæðisins sé skýr og öllum ljós.
Í fyrstu viku nýs árs hefur áhugahópurinn bókað
nokkra fundi m.a. með samgöngu- og dómsmála-
ráðherra, verktökum, Umferðarstofu, lögreglu og
þingmönnum. Þar ætlum við að ítreka kröfur um
flýtingu framkvæmda, tryggja frekari umferðar-
gæslu og kalla eftir skilningi á þessu mikilvæga
verkefni. Þá mun tillaga hópsins og fjárhagsaðstoð
vegna áberandi skiltis sem sýna á fjölda látinna árið
2003 samanborið við árið 2004 verða rædd og von-
andi sett í framkvæmd sem fyrst. Við köllum nú eft-
ir samstöðu því nú er þörf á krafti fjöldans sem
lætur þetta mál sig skipta og vill láta verkin tala!
Hvort nýr borgarafundur verður haldinn skýrist á
viðbrögðum ráðamanna á næstu dögum og vikum.
Að lokum sendum við ökumönnum ábendingar í
upphafi nýs árs að fara að öllu með gát og þannig
tryggja saman slysalaust ár á Reykjanesbraut 2004.
Fleiri slys á brautinni getum við einfaldlega ekki
sætt okkur við!
Gleðilegt nýtt ár.
F.h. áhugahóps um örugga Reykjanesbraut.
Steinþór Jónsson, formaður.
Berjumst áfram að settu
marki og látum verkin tala!
1. tbl. 2004 24p 29.12.2003 15:35 Page 14