Víkurfréttir


Víkurfréttir - 12.04.2017, Side 6

Víkurfréttir - 12.04.2017, Side 6
6 miðvikudagur 12. apríl 2017VÍKURFRÉTTIR Sólborg Guðbrandsdóttir solborg@vf.is Hin tvítuga Azra Crnac hefur búið á Íslandi alla sína ævi en er ættuð frá Bosníu. Áður en hún flutti til Keflavíkur árið 2011 bjó hún á Ólafsvík, þar sem hún ólst upp. Azra er með stúdentspróf frá Fjöl- brautaskóla Suðurnesja og starfar í Apóteki Suðurnesja. Azra aðhyllist íslam eða múslimska trú en aðspurð um trúna segir hún hana snúast um frið og sátt. „Íslam snýst bara um það sama og önnur trúarbrögð. Að lifa í sátt og samlyndi og að koma vel fram við aðra. Þetta er ekki það sem margir halda.“ Orðið fyrir aðkasti á netinu Hún segist persónulega ekki verða fyrir miklum fordómum, en þegar fólk komist að trúnni hennar breytist hlutirnir svolítið. „Ég er nefnilega svo einstaklega „heppin“ að ég er frekar hvít á hörund. Ég er ekkert frábrugðin öðrum Íslendingum, annað en það að ég er frekar dökkleit hvað varðar hárið og augun til dæmis. En svo þegar fólk veit hvað ég heiti eða á hvað ég trúi á þá breytist það stundum hvernig fólk lítur á mig. Ég upplifi alveg þessa fordóma, en þeir eru meira á bak við mig, á netinu. Fólk leyfir sér að segja svo margt þar. Ég hef alveg orðið fyrir aðkasti. Ef ég nefni eitt dæmi, þá sendi ákveðinn einstaklingur mömmu minni persónuleg skilaboð á facebook þar sem hún var beðin um að vera ekki að ala upp fleiri Breivik hér á landi og vísaði þá í mig. Þetta eru örugglega þau ummæli sem sitja hvað mest eftir í mér. En annars þegar ég upplifi for- dómana í persónu þá er þeim oftast ekki beint til mín, heldur heyri ég fólk tala um aðra múslima til dæmis, án þess að það átti sig á því hver ég sé og hvaðan ég komi,“ segir hún. Telur fjölmiðla hræða Azra segir fréttamiðla hafa mikil áhrif á það hvernig fólk líti almennt á minnihlutahópa í samfélaginu. „Fyrirsagnir í fjölmiðlum eða það sem pólitíkusar segja hefur mikil áhrif á skoðanir fólks. Ef einhverjir hátt settir í samfélaginu tala niður til ákveðins hóps af fólki gefur það til kynna að það sé bara í lagi að gera það. Fréttamenn reyna líka oft að koma trúnni að þó hún skipti ekki máli. Ef ég myndi gera eitthvað af mér sem færi í fjölmiðla, hvort yrði fyrirsögnin; „Ung kona…“ eða „Ung, múslimsk kona…“? En svo hins vegar, ef einhver kristin, ung kona myndi gera eitthvað af sér væri hún bara talin eitthvað veik á geði vegna slæmrar æsku og titluð þann- ig í fjölmiðlum. Ef einhver pólitíkus á Íslandi myndi tala opinlega niður til samkynhneigðra yrði það aldrei leyft. Það myndi aldrei komast í gegn í okkar samfélagi. En samt einhvern veginn finnst sumu fólki í lagi að tala niður til innflytjenda, þó þeir hafi svo margt upp á að bjóða. Það þarf fólk alls staðar,“ segir Azra. Kommentakerfin full af fordómum Hún benti blaðamanni Víkurfrétta á grein sem hún hafði lesið fyrir stuttu sem fjallaði um það að meirihluti þeirra sem krafist væri gæsluvarð- halds yfir í Kaupmannahöfn væru út- lendingar. „Af hverju er þetta frétt? Þetta yrði aldrei fréttnæmt ef um væri að ræða Dani í Kaupmannahöfn. Það er líka alveg örugglega hægt að sjá fjöldann allan af athugasemdum tengdar þessari grein frá fólki sem tekur undir þessa fordóma gagnvart útlendingum og þar er bókað ein at- hugasemd frá Sigurði, búsettum í Kaupmannahöfn, sem vill sko ekki fá fleiri útlendinga þangað. Þú getur ekki talað um þig sem einhvern Dana, þegar þú ert aðfluttur einstaklingur, og talað svo niður til hinna, sem kannski líta ekki alveg eins út og Danir, og talað um þá sem útlendinga.” Azra segir trúna vera menningu sína og að hún skilgreini hana ekki. „Trúin mín er bara hluti af mér. Ég klæð- ist ekki búrku, ég drekk áfengi og ég djamma. Ég er bara mjög „venjuleg“. Ég er Íslendingur. Þó að foreldrar mínir séu frá öðru landi þá er ég fædd hérna og uppalin og ég hika ekki við að segja fólki að ég sé múslimi,” segir hún. Vildi ekki rífast við stuðningsmenn Trump Fyrir stuttu síðan var Azra að skemmta sér ásamt vinkonum sínum þar sem þær kynntust hópi af strákum frá Bandaríkjunum. Þegar einn þeirra spurði Özru hvort hún vildi ekki kíkja til Bandaríkjanna á næstunni svaraði hún því að hún hefði ekki áhuga á því sökum allra fordómanna sem mús- limar í Bandaríkjunum verða fyrir þessa dagana vegna áróðurs forseta landsins og sagði stráknum að hún sjálf væri múslimi. „Hann bað mig bara vinsamlegast að vera ekki að ræða þetta við þá og að vera ekki að byrja með einhver leiðindi því vinir hans væru stuðningsmenn Donald Trump. Ég sætti mig bara við það. Ég nenni ekki að þurfa að rífast við ein- hvern fyrir það að vera sú sem ég er.“ Bjargar ekki heiminum á einni nóttu Hún segir það oft vera betra að þegja heldur en að tjá sig um þessi mál. „Því miður er það bara svoleiðis. Þetta kemur líka oft frá einhverjum ein- staklingum sem þú þekkir ekki og þá er þetta bara ekki þess virði. Það er svo leiðinlegt að upplifa að eitthvað sé ekki þess virði þegar það er baráttu- mál fyrir þig. Stundum þarf maður bara að hugsa um geðheilsuna sína og stíga til hliðar. Ég get ekki bjargað heiminum á einni nóttu. En ég hvet fólk til þess að skoða þetta með gagn- rýnni hugsun, skoða hvað sé í gangi í heiminum. Því þegar þú lítur á þetta allt saman með opnum hug þá sérðu alla þessa klikkun sem er í gangi.“ Aðspurð út í það hvað Azra myndi segja við þá sem vitna í Kóraninn, sér til stuðnings, um að múslimsk trú sé slæm svarar hún blaðamanni fullum hálsi: „Einmitt, hvað segir Biblían?“ Mömmu sagt að búa ekki til annan Breivik ●● „Ég●hika●ekki●við●að●segja●fólki●að●ég●sé●múslimi,”●segir●Azra●Crnac. Faðir minn, Magnús Guðbergsson, var fæddur á Húsatóftum í Garði þann 4. janúar 1955. Hann var næst yngstur af níu systk- inum og bjó allan sinn aldur í Garðinum utan síðustu áranna á Hringbraut í Kefla- vík. Pabbi átti góða og heilbrigða æsku og ólst upp í góðu yfirlæti hjá foreldrum sínum Guðbergi Ingólfssyni og Magnþóru Þórarinsdóttur á Húsa- tóftum í Gerðum. Pabbi var hæfileika- ríkur maður, sniðugur og orðheppinn með eindæmum, eins og hann átti kyn til. Hann starfaði lengst af ævi sinnar við bílaviðgerðir og þótti bæði hand- laginn og lúnkinn í sínu fagi. Fyrir 20 árum síðan tók faðir minn, Magnús Guðbergsson, stóra ákvörðun í sínu lífi. Honum fannst sér betur borgið í landi guðs og féll fyrir eigin hendi 7. apríl 1997. Öll börn, sem sjá foreldra sína undir áhrifum áfengis, upplifa mikið óör- yggi. Tilfinning eins og veröldin sé að hrynja og engin geti komið þér til bjargar. Ég var 9 ára gamall er ég sá föður minn í fyrsta sinn undir áhrifum. Hann kallaði á mig úr herbergi sínu og ég heyrði strax að eitthvað var öðruvísi en vanalega. Hann lá í rúminu um há- bjartan dag (sem var ekki vanalegt) og bað mig að tala við sig. Ég steig rólega inn um dyrnar á herberginu og sá að hann teygði sig í skúffu í náttborðinu og náði í pening. Því næst bað hann mig að fara út í búð og kaupa fyrir sig samloku. Ég hafði aldrei neitað að gera neitt sem hann bað mig um að gera, en í þetta sinn sagði ég strax: „Nei. Ég geri það ekki fyrir þig.“ Ég man lítið meira fyrr en síðar um kvöldið. Þá komu bræður hans og konur þeirra og reyndu að tjónka við honum og ég heyrði strax að þetta var ekki í fyrsta skipti sem það var gert. Þau reyndu að fá hann til þess að hella úr flöskunni, sem gekk ekki vel og svona gekk þetta langt fram eftir. Það var töluvert áfall að sjá fyrirmynd sína í þessu ástandi, fram að þessu hafði mig ekki grunað að faðir minn drykki áfengi, eða gerði nokkur mis- tök. Hann var einstaklega góður pabbi, kunni mikið af sögum, og var duglegur að finna einhvað fyrir okkur að gera. Hvort sem það var að fara í bíltúr eða heimsækja vini hans, sem er mér ein- staklega minnisstætt. Einhvern tímann hafði mamma reynt að fá hann til að minnka sælgætisátið. En það stoppaði hann ekki við að koma við í sjoppunni í hver einasta skipti sem við fórum í bíltúr til að kaupa staur og kók. Hann pabbi passaði sig líka á því að ef við mættum nú mömmu í göngutúr, að heilsa henni með kókinu eða súkku- laðinu, henni til mikillar ánægju. Það má segja að þarna hafi orðið þátta- skil í mínu lífi er ég gekk inn um dyrnar á svefnherberginu. Fljótlega skildu for- eldrar mínir og ég fór ásamt bróður mínum í helgarheimsóknir til pabba öðru hvoru. Það var greinilegt að pabbi reyndi að standa sig á þessum tíma og halda sig frá áfenginu, en margir í kringum hann reyndu að hafa áhrif á hann. Í stað þess að halda honum frá víninu þá var reynt að halda því að honum og ég var vitni að því mörgum sinnum. Ég man að kona ein í plássinu hringdi látlaust í hann og bað hann að kíkja í heimsókn. Hann svaraði aftur og aftur að hann væri með börnin sín og að hann væri að reyna að hætta þessu. Um nóttina vaknaði ég og það hafði tekist hjá vinum hans. Pabbi var farinn út. Pabbi átti líka í samböndum með konum sem áttu við sama vandamál að stríða, sem gerði auðvitað illt verra. Slík var drykkjan að það var engu lík- ara en að þær konur væru andsetnar og mér er full alvara. Hvernig hægt er að koma svo miklu af áfengi niður er mér ómögulegt að skilja. Fólk í þannig ástandi sem reynir að gefa manni for- eldraleg ráð er eitthvað sem mun sitja í mér það sem eftir er. Ég er ekki að kenna neinum öðrum um neitt en eftir þetta var ekki aftur snúið hjá pabba. Oft var ástandið á honum það slæmt að hann gerði hluti sem hann hefði aldrei undir neinum öðrum kringumstæðum gert og ég læt ósagt hér. En það er nokkuð, sem ég þarf að lifa með í höfðinu það sem eftir er. Eftir að pabbi flutti til Keflavíkur reyndi ég að fylgjast með honum, þrátt fyrir að geta lítið gert fyrir hann. Enda bara barn. Ég hjólaði til Keflavíkur til að athuga með hann. Ef hurðin var læst gat ég fylgst með gegnum skrárgatið til að athuga hvort það væri í lagi með hann. Í barns- minninu er flöskuhaf á gólfinu og allt í kringum hann flöskur sem innihéldu löglegt vímuefni. Mér er sagt að pabbi hafi verið ungur að árum er hann ánetjaðist áfengi og strax við fyrsta sopann. Hann fór í margar meðferðir á hinar ýmsu stofnanir og heimili. Það var skrítin tilfinning að heimsækja pabba á slíka stofnun. Þar sem hann mætti mér í hvítum slopp eins og sjúklingur, sem hann var. Hann skammaðist sín fyrir það og það var erfitt að sjá hve illa honum leið. Pabbi var skemmtilegur maður og ég held að hann hafi verið fljótur að kynnast fólki, sem var honum að skapi. Það var eins og hann hafi þekkt aðra vist- menn heimilisins í mörg ár. Þar voru þjóðþekktir menn og ég man sérstak- lega eftir einum manni sem var kall- aður „Hringur“ og var útigangsmaður. Honum og pabba virtist vera vel til vina. Pabbi kynnti mig sérstaklega fyrir honum og ég man að puttarnir á honum voru allir krepptir í hring. Síðasta skiptið sem ég hitti pabba var á Hringbrautinni í Keflavík. Hann var þá á leiðinni í meðferð og endanlega búinn að brenna allar brýr að baki sér. Það er eins og hann hafi vitað að þetta væri búið. Hann gat ekki sleppt mér eitt andartak á meðan pakkað var niður í tösku fyrir hann. Hann grátbað mig að koma og vera með sér í bílnum á leiðinni í meðferð, en ég neitaði. Mig grunaði ekki að þetta væri síðasta skiptið sem ég myndi hitta hann. Hann var hræddur og þurfti augljóslega á mér að halda en ég gat ekki látið það eftir honum, vegna þess að ég var svo reiður við hann. En það verð ég að lifa með. Ég man jarðarförina eins og hún hefði gerst í gær. Það er nefnilega svo merkilegt að fólk sem lét sig ekki varða það að ungur strákur væri að reyna hvað hann gat til að koma föður sínum til bjargar, leyfði sér að segja við mig að ég væri tilfinningalaus. Af því að ég sýndi engin viðbrögð í jarðarförinni. Það er líka merkilegt að það var allt fullorðið fólk sem var með fordóma, ekki bekkjarfélagar eða krakkar í skól- anum. Kona á níræðisaldri sagði eitt sinn að pabbi væri heiðarlegasti maður sem hún hefði kynnst. Uppnuminn að heyra það, þar til hún bætti við: „Hann borgaði alltaf flöskuna daginn eftir, sem hann fékk lánaða“. Hvað fær fólk til að segja svona verður það að eiga við sig og líklega er því ekki bjargandi, komið á þennan aldur og ekki náð meiri þroska en þetta.Þegar áfengis- frumvarpið hefur komið til umræðu get ég ekki annað en vorkennt þeim sem það styðja. þetta veika frumvarp. Að vilja menga matvöruverslanir með sölu á löglegu vímuefni er enn eitt skrefið niður á við í okkar þjóðfélagi. Það sem börn alkóhóllista þurfa að þola er í flestum tilfellum neikvætt og þau eiga erfitt með að öðlast innri ró. Skömmin, sektarkenndin, kvíði, reiði og þunglyndi hefur fylgt mér fram á fullorðinsár. Þegar fyrirmyndin manns fer á þennan hátt, hefur maður ósjálf- rátt sjálfur tilhneigingu að hugsa á sama veg. Maður hugsar að sjálfsvíg sé eina lausnin við erfiðu vandamáli, ósjálfrátt. En auðvitað er það ekki. Ekkert sem ég hef reynt til að kom- ast yfir þetta hefur gengið. Sú slæma mynd sem lifir í höfði mér vegur meira á vogarskálinni en það góða. Það eitt er aðeins ein af afleiðingum þess sem þessi skæði sjúkdómur hefur haft í för með sér sem þessi góði maður og hans fjölskylda varð að gjalda fyrir. En maður reynir og vonandi mun það góða sigra að lokum. Guðmundur Magnússon Veröld í heimi Bakkusar „Það●var●snemma●sem●ég●lærði●Æðruleysisbænina“ Magnús●Guðbergsson●-●(1955-1997)

x

Víkurfréttir

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.