Feykir


Feykir - 08.06.2016, Blaðsíða 2

Feykir - 08.06.2016, Blaðsíða 2
2 22/2016 Ekki eru liðin mörg ár síðan Strætó fór sína jómfrúarferð út fyrir höfuðborgarsvæðið og tók upp áætlunarferðir á lands- byggðinni. Fyrsta ferðin til Akureyrar, með viðkomu víða um Norðurland vestra, var farin í september 2012. Fólk virðist almennt vera ánægt með viðbótina og yfirhöfuð að fá þessa þjónustu. Frábært! Hins vegar finnst mér að þjónustan mætti vera meira á pari við það sem íbúum höfuðborgarsvæðisins stendur til boða, sérstaklega hvað varðar tíða notendur þjónustunnar. Ég hef verið að kynna mér þessi mál undanfarna daga þar sem það liggur fyrir að ég mun þurfa að fara með reglulegu millibili til Reykjavíkur næst- komandi haust. Ég ákvað því að skoða þessa umhverfisvænu leið og ef til vill spara smá aur í bensín. Þá sá ég fyrir mér að ég gæti nýtt tímann á leiðinni í lestur eða annað uppbyggilegt. Mér datt í hug að samgöngukort gæti verið góður kostur, það hlyti að vera ágætis sparnaður en á vef Strætó segir einmitt um samgöngukortið: „Almenningssamgöngur eru mikilvægur þáttur í að fækka einkabílum á götunum og létta umferð fólks og farartækja. Færst hefur í vöxt að fyrirtæki móti sér samgöngu- stefnu þar sem starfsfólk er hvatt til að tileinka sér vistvænar samgöngur með það að leiðarljósi að efla lýðheilsu starfsmanna, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, draga úr kostnaði við eignarhald og viðhald bílastæða og stuðla að bættri landnýtingu. Strætó bs. vill sýna sína ábyrgð í verki með því að styðja við bakið á þeim fyrirtækjum sem tileinka sér slíka samgöngustefnu með útgáfu sérstakra Samgöngukorta til notkunar í leiðakerfi Strætó bs. á vistvænum kjörum.“ Þetta fannst mér hljóma stórvel þannig að ég fletti því upp á vefnum. Þar kom fram að Bláa kortið (9 mánaða kort) á Vestur- og Norðurlandi kostar 997.900 krónur. Þetta er ekki inn- sláttarvilla, þið lásuð rétt - það kostar semsagt tæpa milljón. Til samanburðar þá kostar Bláa kortið (með sama gildistíma) innan höfuðborgarsvæðisins 58.700 krónur og því talsverður verðmunur á milli kortanna eftir því hvort ferðast á innan höfuðborgarsvæðisins eða á landsbyggðinni. Til að bæta gráu ofan á svart þá gilda kortin ekki á milli svæða. Þannig að ef ég ætla ekki að fara fótgangandi allra minna leiða eftir að ég er komin suður þá þarf ég líka að kaupa Bláa kortið fyrir höfuðborgarsvæðið og kostnaðurinn þá kominn vel yfir milljónina. Ég hringdi í Strætó og spurði hvort þetta gæti staðist. Viðmælandinn minn hafði tölurnar ekki fyrir framan sig en sagði að þetta væri flókinn útreikningur á milli svæð- anna en þótti það ekki ólíklegt. Ég spurði hvort þeir hefði einhver afsláttarkjör fyrir námsmenn. Nei, því miður - það er bara fullt fargjald 14.280 kr. fram og tilbaka. Niðurstaðan er semsagt sú að það er ódýrara að keyra sjálfur. Með þessum orðum mínum vil ég hvetja forsvarsmenn Strætó til að skoða með hvaða hætti hægt væri að gera samgöngukort að fýsilegum kosti fyrir íbúa á landsbyggðinni. Ef verðið á kortinu væri eitthvað í samanburði það sem íbúum höfuðborgarsvæðisins býðst þá er ég handviss um að Strætó yrði fullur af sælu landsbyggðarfólki. Berglind Þorsteinsdóttir ritstjóri Útgefandi: Nýprent ehf., Borgarflöt 1, Sauðárkróki Póstfang Feykis: Borgarflöt 1, 550 Sauðárkrókur Ritstjóri & ábyrgðarmaður: Berglind Þorsteinsdóttir – berglind@feykir.is & 455 7176, 694 9199 Blaðamenn: Kristín Sigurrós Einarsdóttir – kristin@feykir.is & 867 3164 Óli Arnar Brynjarsson – oli@feykir.is Áskriftarverð: 530 kr. hvert tölublað með vsk. Lausasöluverð: 650 kr. með vsk. Áskrift og dreifing: Nýprent ehf. Sími 455 7171. Umbrot og prentun: Nýprent ehf. Óháð fréttablað á Norðurlandi vestra - alltaf á fimmtudögum LEIÐARI Þjónusta Strætó er alveg milljón! Vill setlaug við smábátahöfnina Siglingaklúbburinn Drangey Siglingaklúbburinn Drangey hefur óskað eftir að fá að setja niður heitan pott við smábáta- höfnina við Suðurgarð á Sauðárkróki. Pottinum er ætlað það hlutverk að þjóna börnum og unglingum á siglinganámskeiðum og öðrum þeim sem heimsækja klúbbinn og vilja nýta sér aðstöðu hans. Þetta kemur fram í fundargerð Skipulags- og byggingarnefnd- ar Sveitarfélagsins Skagafjarð- ar frá því á mánudaginn. Í fundargerð segir að utan þess tíma sem fyrrgreind notkun kveður á um verður potturinn lokaður með palli sem settur verður yfir hann og honum tryggilega læst. Fyrir liggur að Umhverfis- og sam- göngunefnd hefur samþykkt erindið. Þá samþykkti Skipulags- og byggingarnefnd jafnframt erindið og leggur áherslu á að potturinn verði tryggilega læstur utan notkunartíma, gengið verði snyrtilega frá um- hverfinu í kring og Siglinga- klúbburinn tilgreini ábyrgðar- aðila fyrir aðstöðunni. Umrætt svæði er í deiliskipulagsmeð- ferð og er því aðeins um tímabundið leyfi að ræða. /BÞ Góðar gjafir frá Bjarma Leikskólinn Ásgarður Fulltrúar frá Lionsklúbbnum Bjarma, þeir Guðmundur Haukur Sigurðsson og Eggert Karlson, komu færandi hendi og gáfu leikskólanum Ásgarði barnahjól, fjögur til nota utandyra og tvö til nota innandyra. „Það ríkti mikil eftirvænting hjá nemendum leikskólans þegar þau fengu að opna pakkann. Þessa dagana er mikill áhugi hjá nemendum að komast í Útgarð og hjóla enda leikur veðrið við okkur,“ segir í frétta- tilkynningu frá leikskólanum. „Við sendum félagsmönnum í Lionsklúbbnum Bjarma bestu þakkir fyrir höfðinglega gjöf til skólans, það er ómetanlegt að eiga ykkur að,“ segir ennfremur í tilkynningunni frá nemendum og starfsfólki Ásgarðs. /BÞ Við afhendingu gjafanna. MYND: LEIKSKÓLINN ÁSGARÐUR Leynigestinum Ásgeiri Trausta vel fagnað Húnaþing vestra Nýstofnað Menningarfélag Húnaþings vestra stóð fyrir sínum fyrsta viðburði, sem voru Sumartónleikar í Sjávarborg á Hvamms- tanga, sl. laugardagskvöld. Að sögn Vilhelms Vilhelms- sonar, stjórnarmanns í félaginu, gengu tónleikarnir ákaflega vel og fóru í alla staði vel fram. Rúmlega 120 miðar seldust og skiluðu félaginu um 250 þúsund krónum í tekjur, en tilgangur þess er að hlúa að hvers kyns menningar- starfsemi í héraðinu og skapa umgjörð fyrir fólk til að iðka menningarstarf og skipuleggja viðburði. Meðal þeirra sem fram komu voru þau Sigurbjörg Friðriksdóttir, Þorbjörg Inga Ásbjarnardóttir og Einar Georg Einarsson sem lásu ljóð. Tónlistaratriði fluttu Harpa Þorvalds, Hrafnhildur Ýr, Kings of the Stone Age og Ásgeir Trausti, en sá síðast nefndi hafði verið auglýstur sem leynigestur. Mæltist leynigesturinn vel fyrir, enda langt síðan hann hefur komið fram í sínu heima- héraði. Að tónleikum loknum spilaði DJ Heiðar fyrir dansi fram á rauða nótt. /KSE Óskað eftir tillögum að nafni Grunnskóli Húnaþings vestra Grunnskóli Húnaþings vestra óskar eftir tillögum að nafni á skólann og eru allir þeir sem áhuga hafa hvattir til að koma með tillögur sem eru lýsandi og þjálar fyrir skólann, samfélag og umhverfi skólans. Tillögum er hægt að koma á framfæri á vefsíðum skólans og Húnaþings vestra, undir tenglinum Nafnatil- lögur grunnskóla 2016. Opið er fyrir innsendingar á tillögum til 12. júní. Að þeim tíma liðnum verður farið yfir tillögurnar og 1-4 tillögum stillt upp til kosninga um nafn á skólann. /KSE Rann á kyrrstæðan bíl Umferðaróhapp á Sauðárkróki Helgin var róleg hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra, og allt með kyrrum kjörum, þrátt fyrir hátíðarhöld vegna sjómannadagsins. Á sunnudagskvöldið fór ungur bílaáhugamaður á Sauðárkróki inn í kyrrastæðan bíl og setti hann í „drive“, með þeim afleiðingum að hann rann á kerru og síðan á kyrrstæðan bíl. Eitthvað tjón varð á bílunum en engan sakaði. /KSE Af vettvangi. MYND: SIGRÍÐUR MAGNÚSDÓTTIR

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.