Feykir


Feykir - 08.06.2016, Blaðsíða 8

Feykir - 08.06.2016, Blaðsíða 8
8 22/2016 Hilmar Sverrisson / aðallega hljómborð Það bara gerðist eitthvað! ( TÓN-LYSTIN ) oli@feykir.is Hilmar Sverrisson (Himmi Sverris) hefur víða komið við í músíkinni, enda telur hann það vera helsta afrek sitt í tónlistinni að vera á lífi og hafa getað haft tónlist sem aðalatvinnu síðustu 30-35 ár og fengið að starfa með flestum bestu tónlistarmönnum landsins. Himmi fæddist á Króknum árið sem rokkið varð til (1956), ólst upp í Viðvík til átta ára aldurs en flutti þá á Krókinn og bjó þar ansi lengi. Kona hans er Vestur- Húnvetningurinn Jenný Ragnarsdóttir og búa þau nú í Kópavogi. Hljóðfæri: Aðallega ýmiskonar hljómborð. Helst píanó í dag, Hammond hérna áður meðan ég nennti að bera það. Annars hef ég verið bassaleikari, gítarleikari, trommari og harmonikuleikari í böndum. Ég hef aldrei þolað neitt sem heitir synthesizer, þar set ég mörkin. Syntinn var allsráðandi í "80 og einhvernvegin var ég ekki að fíla það tímabil. Hvaða lag varstu að hlusta á? Núna... Lets Face the Music and Dance með Diana Krall. Uppáhalds tónlistartímabil? Tímabilið alveg fram að diskó- inu, eftir það varð allt eitthvað svo svart/hvítt músíklega. Reyndar margt gott að gerast í dag og frábærir einstaklingar að koma fram til dæmis hér á landi og er það mikið Tónlistarskóla FÍH að þakka. Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Gott proggrokk gamalt og nýtt. Er til dæmis mjög stoltur af því sem sonur minn er að gera sem bassaleikari í Agent Fresco. Það virkar sem einskonar blanda af allskonar proggi sem ég hlustaði mikið á. Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var eiginlega aldrei þögn, foreldrar mínir spiluðu plötur í stofunni, harmonikutónlist, óperur, kóra og eldri dægurlög og bý ég vel af þeirri reynslu. Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/ niðurhalið sem þú keyptir þér? Man það nú ekki en fyrsta svona alvöruplatan, að mér fannst, sem ég keypti var Dinosaur Swamps með hljómsveitinni The Flock. Hún var búin að vera marga mánuði til sölu hjá Adda Blöndal og Mæju í gömlu bókabúðinni. Síðan komu plötur með Santana, Yes, Jethro Tull og fleirum. Svakalega var gaman – alltaf nýtt frábært efni. Þó skömm sé að þá man ég ekki eftir að hafa keypt nema þrjá íslenskar plötur um æfina. Magic Key með Náttúru, Whats Hidden There með Svanfríði og Lifun með Trúbrot. Hvaða græjur varstu þá með? Fékk mér dýrindis Dúal hjá Itta sem mér fannst alltaf svolítið lint sound úr og fékk mér svo Nordmende græjur sem blöstuðu niður allan Öldustíg. Ég bjó á Hólavegi 20. Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf eða fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Fékk aldrei plötu í jólagjöf, held ég. En fyrstu lögin voru If I Fell og Things We Said Today af A Hard Day's Night plötu Bítlanna. Eftir það var bara ekki aftur snúið. Ég meira að segja man hvernig veður var, hvar ég var staddur í íbúðinni heima og hvaða mat mamma var að elda þegar ég heyrði fyrst í Bítlunum, þó án þess að hafa hugmynd um hverjir þetta voru. Það bara gerðist eitthvað! Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Það eru sérstaklega fjögur lög: Bohemian Rhapsody, Smoke on the Water, Stairway to Heaven og Hotel California. Allt mjög góð lög – bara eitthvað svona overdós. Ef maður kemur inn í Guitar Center í Ameríkunni þá er gjarna listi upp á vegg þar sem stendur EKKI spila þessi u.þ.b. 10 lög og merkilegt nokk þessi lög eru öll á þessum lista. Þessi listi er til að vernda geðheilsu afgreiðslumanna. Uppáhalds Júróvisjónlagið? Birds með Anouk. Annars er varla hægt að finna annan eins Júróvision skúnk eins og mig. Er jafnvel til í að fara að skúra frekar en þurfa að fylgjast með júró. Ég sagði JAFNVEL að skúra. En þá bara voðalega lítið gólf. Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Fengi einhvern annan til að velja. Ég hef aldrei verið góður discotekari. Ekki viss um að Gentle Giant eða King Crimson kæmi neinum öðrum en mér í fíling. Þú vaknar í rólegheitum á sunnu-dagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Close to the Edge með Yes nú eða plötuna Tapestry með Carol King. Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Tæki konuna mína með, en hvert og til að heyra hvað veit ég ekki. Jú, kannski á tónleika með Alison Krauss og bandinu hennar, helst í USA. Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst kominn með bílprófið? Kasettum með hljómsveitunum Marhall Tucker Band, The Band, Yes og Traffic. Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mikil áhrif á þig? Hefur aldrei dreymt um að vera annar en ég er. Pabbi var harmonikuleikari og hafði gríðarleg áhrif á mig sem ég bý að alla tíð. Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Sennilega Close to the Edge með Yes og íslensk Magic Key með Náttúru. toppurinn Eins og er er ég með playlista með Diana Krall sem er í miklu uppáhaldi hjá mér: Devil May Care. Popsicle Toes Í ve Got You Under My Skin The Best Thing For You Do It Again Lets Face the Music and Dance DIANA KRALL Það er bara verst hvað hún Diana mín á leiðinlegan mann (Elvis Costello). Flóttamenn, innflytjendur og nýjungar í mennta- málum í brennidepli Vinabæjarmót í Skagafirði Þriggja daga vinabæjarmót var haldið í Skagafirði í síðustu viku. Mótið sóttu um 30 manns frá hinum Norðurlönd- unum og komu gestirnir í Skagafjörð á mánudagskvöldið í síðustu viku. Vinabæirnir sem um ræðir eru Espoo í Finnlandi, Köge í Danmörku, Kristinstad í Svíþjóð og Kongsberg í Noregi. Mótið stóð til fimmtudags og var dagskráin þétt skipuð. Mótið hófst á þriðjudagsmorgun í Húsi frítímans, þar sem Sigríður Svavarsdóttir forseti sveitarstjórnar bauð gesti vel- komna. Síðan voru flutt erindi um nýsköpun í menntun og ungmennaráð og umræður á eftir milli þeirra þjóða sem eru virkir þátttakendur í samstarf- inu. Eftir hádegisverð á Kaffi Krók var farið í Hóla, þar sem gestirnir dvöldu fram eftir degi og síðan snæddur kvöldverður á Drangey restaurant. Á miðvikudaginn funduðu bæjarstjórarnir í Árskóla kl. 9 og héldu í kjölfarið stuttan blaða- mannafund. Þar kom m.a. fram að vinabæirnir gætu lært mikið hver af öðrum, þó þeir væru mjög ólíkir að stærð þá ættu þeir ýmislegt sameiginlegt, mun meira en sýndist í fyrstu. Allir sögðust fulltrúarnir hafa lært eitthvað gagnlegt í ferðinni sem þeir tækju með sér til baka. Stefán Vagn Stefánsson, for- maður Byggðaráðs Sveitarfél- agsins Skagafjarðar, sagði jafn- framt að samstarfið væri ekki síst gagnlegt fyrir Skagafjörð sem gæti mikið lært af hinum bæjunum þó þeir væru um- talsvert fjölmennari. Þaðan var síðan haldið í Verið og m.a. flutt erindi um móttöku flóttamanna og inn- flytjenda. Þangað mætti sérfræð- ingur í málefnum innflytjenda hjá Velferðarráðuneytinu. Eftir hádegi var farið að Reykjum á Reykjaströnd þar sem gestum bauðst að sigla í Drangey eða fara útsýnisferð um fjörðinn og ylja sér í Grettislaug á eftir. Að því loknu var hátíðarkvöld- verður í Frímúrarasalnum. Nokkrir makar voru með í för og var ýmislegt í boði fyrir þá meðan bæjar- og sveitarstjórnar- menn funduðu. Skoðuðu þeir m.a. gamla bæinn í Glaumbæ, fóru á skotsvæði Ósmanns og skoðuðu sig um í Hofsósi og fóru í sund þar. Gestirnir létu vel af dvöl sinni í Skagafirði, sögðu náttúruna stórfenglega og mót- tökurnar góðar. Vinabæjarmótin eru haldin árlega, til skiptis í bæjunum fimm. Þá er einnig hefð fyrir öðrum samskiptum þeirra á milli, svo sem með heimsóknum grunnskólanem- enda. /KSELagt upp í Drangeyjarferð. MYND: KSE Frá vinstri: Wenche Grinderud frá Kongsberg, Stefán Vagn Stefánsson frá Svf. Skagafirði, Jouni J. Sarkijarvi frá Espoo, Sigríður Svavarsdóttir frá Svf. Skagafirði, Dora Olsen frá Köge (fyrir framan Sirrý) Henrik Laybourn frá Köge, Heléne Fritzon frá Kristianstad (fyrir fram Henrik) Kjell Gunnar Hoff frá Kongsberg og Christel Jönsson frá Kristianstad. MYND: KSE

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.