Feykir - 19.12.2013, Síða 14
14 Feykir 48/2013
Sveitastelpan í
óperuhúsinu í Stuttgart
Helga Rós Indriðadóttir söngkona í Lýtingsstaðahreppi
VIÐTAL
Kristín Sigurrós Einarsdóttir
Helga segist hafa verið að syngja
frá því að hún man eftir sér.
„Fyrsta uppákoman sem ég man
eftir, þá var ég að syngja fyrir
smiði þegar ég var fjögurra ára
heima í sveitinni. Þannig að ég
var bara alltaf syngjandi og hafði
líka rosalega gaman af því að
leika og vera á sviði. Sú þriðja í
systraröðinni og alltaf að leita
eftir athygli. Ég íhugaði það
þegar ég var komin í fram-
haldsskóla, mig langaði svolítið
að verða leikari. En maður var
hræddur svo mikið með ströng-
um inntökuprófum í leiklistar-
skólann, þannig að kjarkurinn í
sveitastelpunni var kannski ekki
nógur.“ Helga segir það svo hafa
þróast þannig þegar hún hélt
áfram söngnáminu að hún fékk
að leika. „Þegar ég kem á óperu-
sviðið þá er það bara leikhús af
bestu gerð.“
Helga minnist þess að hafa
komið fram og sungið í barna-
skóla frá sjö ára aldri. Um það
leyti var Tónlistarskóli Skaga-
fjarðar stofnaður og kennsla
hófst á hans vegum í skólum
héraðsins. Fór Helga þá strax að
læra á píanó og hélt því áfram
allan grunnskólann. Eftir það
hélt hún suður á Akranes og lauk
stúdentsprófi af tónlistarbraut
þar sem tónlistarhlutinn var
kenndur við Tónlistarskólann
þar í bæ. Systir hennar og
móðursystir bjuggu báðar á
Akranesi og naut hún góðs af því.
Auk þess að vera í söngtímum
hélt hún áfram að læra á píanó og
segir píanónámið hafa komið sér
vel í söngnum í gegnum tíðina
sem og í tónlistarkennslunni sem
hún stundar í dag.
„Eftir að ég fór að læra söng
hefur fyrsta uppákoman trúlega
verið á Akranesi, á vegum tón-
listarskólans þar. En kannski er
eftirminnilegast þegar við sung-
um fyrst hérna fyrir norðan. Þá
liðlega tvítug. Þá komum við
einmitt saman þrjú af okkur sem
erum að fara að syngja núna á
milli jóla og nýárs, ég og Margrét
Stefáns og Sigurjón, og við
sungum á jólatónleikum
Rökkurkórsins. Það var svolítið
sterkt að vera búinn að vera að
læra og koma heim og sýna
aðeins hvað við kynnum. Maður
var náttúrulega ægilega feiminn
og stressaður, en þetta var mjög
gaman svona eftir á.“
Eftir stúdentsprófið lá leiðin
til Reykjavíkur. „Ég var svo
praktísk að ég fór í Tónlistar-
skólann í Reykjavík og fór í tón-
menntakennaradeild, mér fannst
ég þurfa að vera með einhver
réttindi. Ég hélt áfram söngnámi
þar og þá fer ég til Sieglinde
Kahmann, þá breyttist þetta og
fór að verða alvarlegra nám. Svo
lýk ég þessu tónmenntakenn-
aranámi og prófaði að kenna
tónmennt einn vetur, það var
ekkert auðvelt, 23 ára að koma
inn í bekk einu sinni í viku. Eftir
þetta ákvað ég að stefna að því að
taka einsöngvarapróf og þá lá
einhvern veginn beint við að taka
líka söngkennaraprófið, ég var
búin með svo mikinn grunn í
tónmenntakennaranáminu.“
Helga segir að hérna heima
hafi námið byggst á almennri
þjálfun þar sem nemar læra að
syngja margar tegundir tónlistar,
ljóð, óratóríu- og óperuaríur.
„Námið er þannig byggt upp að
ef fólk fer í gegnum þessi stigspróf
sem eru hér þá lærirðu í rauninni
að geta flutt mismunandi stíl-
tegundir tónlistar.“ Sérhæfingin
kom því seinna inn, eftir að
Helga hélt utan til náms.
Haustið eftir námslok við
Tónlistarskólann í Reykjavík hélt
Helga utan, til Stuttgart í Þýska-
landi, þar sem hún fór í óperu-
skóla við Tónlistarháskólann.
„Ég var svo heppin að vera tekin
þar inn. Þessi skóli var sérstaklega
spennandi vegna þess að þeir
voru með eigið lítið leikhús og
vinnan í óperuskólanum fólst í
því að setja upp sýningar þar.
Mitt fyrsta hlutverk þar var
Poppea í Krýningu Poppeu eftir
Monteverdi. Það voru líka ýmis
önnur fög, við lærðum t.d.
skylmingar, leiklist og allt sem
tengist þessu; það var mikið
söngnám, undirleikstímar, fram-
burður og slíkt. Ég tók líka tvö ár
við ljóðadeild skólans þar sem
áherslan var lögð á þýska ljóðið
og hefur það komið sér mjög vel
líka þar sem það er gjörólíkt að
syngja tónleika þar sem þú hefur
ekki búninginn eða hlutverkið til
að skýla þér á bak við eins og í
óperuuppfærslunum.“
„Eftir tvö ár fóru að koma út-
sendarar frá óperunni í Stuttgart
að leita að nýju, ungu fólki og ég
var komin með samning eftir tvö
ár í skólanum og var komin með
vinnu um vorið, tvö lítil hlutverk
í Krýningu Poppeu eftir Monter-
verdi. Síðan kemur það upp
óvænt að þau vantar í eitt hlut-
verk í Rínargullinu eftir Wagner.
Þetta var og er rosalega harður
heimur, sú kona sem átti að
syngja þetta þótti bara ekki valda
hlutverkinu og þá var henni bara
hiklaust vísað frá og annar tek-
inn inn í staðinn. Þarna var ég
bara heppin. Ég byrjaði í janúar,
miklu fyrr en til stóð og mjög
óvænt. Það var byrjað að æfa á
sviðinu og ég stekk inn í það.
Þetta var ekki mikið hlutverk
sönglega en þó nokkrar kraft-
miklar innkomur. En sviðsetn-
ingin var þess eðlis að við vorum
mikið á sviðinu sem var góð
þjálfun í leiklistinni. Það var
ótrúlegt ævintýri að byrja, með
öllu þessu fólki. Maður var búinn
að vera að fara í óperuna og
hlusta, sitjandi uppi í rjáfri í
ódýrustu sætunum og horfa
niður á þetta stóra svið og þessa
hljómsveit ofan í gryfjunni og
vera svo kominn hinum megin.
Þetta hafði maður varla látið sig
dreyma um í sínum leyndustu
draumum,“ segir Helga.
Tíu ár í Þýskalandi
Helga segir að tækifærin hafi
komið fljótt, enda sé gríðarlega
mikið um að vera í tónlistarlífi í
borginni, margar hljómsveitir,
við allar kirkjur eru sett upp verk
fyrir kór, hljómsveit og einsöngv-
ara og því hafi fljótt farið að
koma „gigg“ upp í hendurnar. Í
kjölfar fyrsta hlutverksins fékk
Helga fastráðningu við óperu-
húsið og var þar í átta ár og söng
um 50 sýningar á ári í um fimm
til sex mismunandi verkum.
„Þarna var mikil áhersla lögð á
að nota þetta fastráðna fólk, þetta
var ekki svona stjörnuleikhús. Ég
held að hafi gert þessu listformi
mjög gott, að það var alltaf
þrautþjálfað fólk, sérstaklega af
því það var alltaf svo ofboðsleg
áhersla á leikinn og dramatúrg-
íuna. Þetta hefur verið umdeilt,
Þjóðverjarnir eru svo framsæknir
í sviðssetningum á óperum og
sumum finnst þessar nútíma-
uppfærslur eyðileggja verkin.
Það má auðvitað segja að það sé
mjög vandasamt að setja gamlar
óperur upp í nútímauppfærslu
en þeim tókst ágætlega upp,
svona yfirleitt, enda fengnir
toppleik-stjórar til starfa en þeir
voru ráðnir fyrir hvert og eitt
stykki,“ segir Helga, sem fékk
þarna heilmikinn skóla í leiklist,
auk söngsins. „Það krefst mikillar
þjálfunar að þurfa síðan auk
leiksins að syngja með stjórnand-
Helga Rós er fædd á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki 22. júní 1969 og uppalin á
Hvíteyrum í Lýtingsstaðahreppi hinum forna. Þar bjuggu foreldrar hennar, þau
Indriði Sigurjónsson og Rósa Björnsdóttir, með blandaðan búskap. Helga gekk í
skóla á Steinsstöðum, nema síðasta árið í grunnskóla þegar hún var í heimavist
í Varmahlíð. Hún er næstyngst í hópi fjögurra systra, en systurnar heita Eydís
Þorbjörg, Margrét Heiður og Berglind. Helga er nú snúin aftur í Skagafjörðinn
og á sitt sveitaafdrep í litlu húsi skammt frá Hvíteyrum sem heitir Háabrekka, en
er einnig með annan fótinn í Varmahlíð hjá vini sínum, Magnúsi Sigmundssyni.
Hann rekur þar fyrirtækið Hestasport sem er rótgróið fyrirtæki í ferðaþjónustu
og sér Helga m.a. um leiðsögn á þýsku og ensku í hestaferðum fyrirtækisins. Hún
er barnlaus en Magnús á tvö uppkomin börn, þau Andres og Ingu Katrínu.
Ásgeir, Sigurjón Helga Rós og Margrét.