Morgunblaðið - 20.07.2018, Qupperneq 19
19
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 20. JÚLÍ 2018
Andalíf Endur á Tjörninni kunna vel að meta bíllausar götur enda má gjarnan sjá þær á vappi í nágrenninu. Þegar þær fara yfir Suðurgötu bíða jafnt ökumenn sem gangandi átekta.
Hari
Þessi fyrirsögn gæti allt eins
staðið í forsetaúrskurði um skip-
an ráðuneyta í ríkisstjórn Íslands.
Það er alls ekki ætlan greinarhöf-
undar að bæta það sköpunarverk,
miklu heldur að fjalla um upplifun
af menningu og listum á þessu
sumri og ef til vill nokkuð aftur í
tímann.
Menning er allt það sem gert er
af mönnum. Menning getur verið
léleg, jafnvel slæm ef kastað er til
höndum. Þannig verður um-
gengni fólks á útihátíð birtingarmynd menning-
ar, stundum lágmenningar eða sorphauga-
menningar. Fólk, sem er viti sínu fjær af
vínneyslu, ber vínmenningu dapurt vitni. Það er
einnig hægt að lesa menningarástand í fyrir-
tækjum á veggjum. Olíufélag með myndir af
bensíndælum á veggjum lýsir þröngsýni og
skammsýni og dapurri menningarsýn. Fisk-
vinnslufyrirtæki, sem brýtur upp veggrými
með mynd og lætur þann sem gengur um hugsa
eitthvað nýtt og gera betur en áður hefur verið
gert, er menningarfyrirtæki.
Hér á landi hefur það löngum tíðkast að neita
staðreyndum í menningu, vísindum og listum ef
það hefur komið sér illa að viðurkenna það sem
vel er gert.
Vísindi í fiskiðnaði
Að ekki sé talað um að fiskvinnslufyrirtæki,
sem vinnur fisk á annan veg en áður hefur verið
gert, kann að vera vísindafyrirtæki. Framfarir
verða fyrir tilverknað vísinda. Vísindi eru
stunduð í fyrirtækjum og rannsóknarstofum.
Það kann að vera lengra í árangur vísinda í
rannsóknarstofum en í fyrirtækjunum, en úr-
vinnsla fyrirtækja byggist oftast á vinnu, sem
unnin hefur verið í rannsóknarstofum. Þannig
er vinnsla á þorski hjá Vísi hf. í Grindavík
byggð á vísindum, rétt eins og
vinnsla á uppsjávarfiski í Vest-
mannaeyjum. Vélar taka orðið
fram augum og höndum manns-
ins.
Listin að gera vel
List er allt það sem vel er gert.
Þannig er bakari, sem bakar gott
brauð, listamaður. Sá sem byggir
vandað og fallegt hús er listamað-
ur. Húsagerð lýsir menningar- og
efnahagsástandi betur en margt
annað, það kann að vera að raf-
orkunotkun sé betri hagvísir á
efnahagsástand. Svo er einnig í klæðagerð.
Sagt er að Sigurður skólameistari hafi fyrir-
gefið góðum námsmanni það að yfirgefa skól-
ann til að nema klæðskeraiðn, því þá muni fata-
mennt þjóðarinnar fara fram. Menn geta
jafnvel haft þá kenningu að vatn sé gott.
Húsagerðarlist
Það er ekki leyfilegt að byggja ljót hús þegar
efnahagsástand er gott. Þannig er unun að fara
um Þingholtin í Reykjavík og skoða bygging-
arlist frá þeim tíma þegar borgarastéttin er að
verða til í Reykjavík. Þar eru mörg góð sýn-
ishorn um „funkishús“. Svo eru einnig gömul
hús í Vesturbænum, sem eru arfleifð skútuald-
ar og togaraaldar. Síðast en ekki síst verður að
minna á verkamannabústaðina við Hringbraut.
Þar átti að gera vel og af metnaði úr litlum efn-
um og það tókst. Fjölbýlishúsið á horni Löngu-
hlíðar og Miklubrautar er annað skýrt dæmi
um metnað í húsagerð.
Hinar frjálsu listir
Um liðna helgi fór sá er þetta ritar á tvenna
tónleika. Hinir fyrri voru í tónlistarhúsinu
Hörpu þar sem ungt fólk víða að úr heiminum,
auk unga fólksins hér heima, kom saman til að
leika tónverk meistara klassískrar tónlistar.
Unga fólkið, frá 11 ára aldri til 28 ára, lék eins
og englar á strengi og blásturshljóðfæri. 11 ára
einleikari á píanó og 18 ára einleikari á fiðlu
léku eins og þau hefðu áratuga reynslu af þess
háttar leik. Það var hrein unun að hlýða á leik-
inn.
Í lok viku tónlistarhátíðar í Hafnarborg í
Hafnarfirði sungu ungar söngkonur, aðeins
eldri en þau sem léku í Hörpu, perlur íslenskra
sönglaga. Enn er verið að skapa nýjar perlur
því ein aría var úr óperunni Ragnheiði. Gamli
popparinn úr Hljómum er orðinn klassíker.
Þannig er haldið áfram að skapa nýjar perlur
og gersemar.
Þar voru einnig á veggjum nokkur portrett.
Það var skelfileg myndlist.
Framlög til menningar, vísinda og lista
Sá er þetta ritar hefur um langt skeið látið
sig menningu, vísindi og listir varða. Á þeim
tíma sem hann gegndi störfum í almannaþágu á
Alþingi reyndi hann að beita sér, oft með tak-
mörkuðum árangri, fyrir framgangi menning-
ar, vísinda og lista.
Þannig er að þegar illa árar telja menn að
fyrst beri að skera niður menningu, vísindi og
listir auk mannúðar, því ekkert af þessu verði í
askana látið!
Svo er alls ekki. Vísindin hafa skilað sér í
fiskvinnslu. Menningin hefur skilað sér í góðu
mannlífi, jafnvel minnkað þörf fyrir geðheil-
brigðisþjónustu. Menning getur verið geðbót.
Vísindi hafa skilað sér í heilsufari fólks.
Það er ekki aðeins að opinberir aðilar þurfi að
koma að menningu, vísindum og listum. At-
vinnulífið hefur ríkar skyldur við menningu,
listir og vísindi.
Þannig hefur ferðaþjónustan ríkar skyldur til
að menningarástand sé greininni til sóma. Tón-
listarhátíðir á landsbyggðinni efla menningu og
mannlíf. Þess sér merki í höfuðborginni á gaml-
ársdag í Hallgrímskirkju þar sem orgel, tromp-
etar og páka leika hátíðarhljóma um áramót.
Menning, vísindi og listir eru ekki þurfaling-
ar, enda þótt ekki sé hægt að markaðsvæða
greinarnar að fullu. Bókmenntir þurfa styrk til
að halda bókmennta- og ljóðahátíðir. Virðis-
aukaskattur hefur ekkert að segja í því efni.
Klassísk tónlist þarf styrk, því aðgangseyrir
dugar vart. Skal ég þó glaður greiða aðeins
meira fyrir aðgöngumiðann. Bakarinn þarf ekki
styrk til að baka gott brauð.
Það er nefnilega svo að unga fólkið, sem
gerði vel á tónleikunum á laugardaginn, stend-
ur sig einnig vel í almennu námi. Það gerir ög-
unin.
Nærvera
Þeir viðburðir, sem sá er þetta ritar sótti,
voru þokkalega sóttir. Þó voru sæti fyrir fleiri
en þá sem vildu mæta. Aðeins einn þjóðkjörinn
fulltrúi mætti á tónleika unga fólksins. Það var
menntamálaráðherrann. Skal það þakkað og
vekur væntingar um stuðning. Fyrrverandi fé-
lagar mínir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins
mæta fremur þar sem fólk í Sjálfstæð-
isflokknum kemur saman en þar sem meg-
inhluti kjósenda mætir. Það er engin furða að
Flokkurinn hefur aðeins 16 þingmenn.
Nema að því góða fólki þyki það ljótt að sinna
nokkrum hlut, sem er fallegur!
Eftir Vilhjálm Bjarnason » Fyrrverandi félagar mínir í
þingflokki Sjálfstæðis-
flokksins mæta fremur þar
sem fólk í Sjálfstæðisflokknum
kemur saman en þar sem meg-
inhluti kjósenda mætir. Það er
engin furða að Flokkurinn hef-
ur aðeins 16 þingmenn.
Vilhjálmur Bjarnason
Höfundur var alþingismaður.
Menning, vísindi og listir