Morgunblaðið - 01.12.2018, Síða 14

Morgunblaðið - 01.12.2018, Síða 14
14 LAUGARDAGUR 1. DESEMBER 2018 Fullveldi Íslands H vað felst í því að vera fullvalda ríki? Hugtakið skreppur jafn- harðan undan skilgreiningum en mikilvægi þess fyrir almenning er fyrst og fremst tengt trú og hug- arástandi þeirra borgara sem telja sig full- valda, frjálsa og sjálfstæða til að ráða sínum ráðum – frekar en að vera upp á bænaskrár komnir sem þegnar útlends konungs. Þessi til- finning hefur svipuð áhrif og þegar ungmenni axla loks ábyrgð á eigin lífi og fjármálum um leið og þau stofna heimili og stinga sér til sunds í skuldasúpunni. Verstu tölvuleikja- nördar og samfélagsmiðlahenglur umbreytast á snöggu augabragði í ábyrgt fjölskyldufólk sem hneykslast á ungdómnum nútildags – eft- ir að þau skrá sig út af Hótel mömmu og pabba. Trú á eigin getu Reiknimeistarar höfðu reiknað það út að full- veldi Íslands árið 1918 myndi aldrei borga sig, ekki frekar en lýðveldið árið 1944; þeir sömu reikningshausar eru enn að fá sömu útkomuna fyrir Færeyinga og Grænlendinga. Svo fá- mennar þjóðir geti ekki stjórnað sér sjálfar. Að vísu er einn og einn úrtölumaður enn á meðal okkar sem tekur undir þessi sjónarmið, bendir á að við höfum aldrei ráðið við að byggja stöðugleika og norrænt velferðarsam- félag heldur alltaf reddað okkur á fjárhags- legum flótta með gjaldþrotum og einu löngu gengissigi. Á móti kemur að verðbólgutíminn skapaði atvinnu og velmegun í landinu sem skilaði íslenskum almenningi í fremstu lífs- kjararöð á heimsvísu með menningar-, íþrótta- og menntalífi sem ætti ekki að vera mögulegt skv. neinum jarðneskum reiknistokki í landi með liðlega 330 þúsund íbúa. Þessi hagfræðilega nálgun réð ekki við að taka mikilvægustu stærðina með í dæmið: trú fólks á að það réði sér nú sjálft og þyrfti að horfast í augu við þá ábyrgð sem því fylgdi. Ef sjálfstætt fólk vildi að eitthvað gerðist í sínu lífi yrði það að gera það sjálft og gæti ekki beðið eftir því að kóngurinn sendi því aðréttu. Þau sem boðuðu þessa trú gátu rakið hug- myndaþráðinn sem þau spunnu aftur til Arn- gríms lærða, sem reis öndverður gegn nei- kvæðum skrifum útlendinga um okkar landsmenn með því að vísa til hinnar glæstu fortíðar og menningarlegu gullaldar á miðöld- um sem gat af sér þær frægu sögur og kvæði sem heimsbyggðin hefði ekkert til að jafnast við. Og það sem meira var, allt þetta var skrif- að á því íslenska máli sem landslýðurinn talaði ennþá og mikið af sögunum sagði frá upphafi mannlífs og helstu görpum, kvenskörungum og tíðindum sem hér urðu á meðan þjóðin var ennþá frjáls á sínum þjóðveldistíma – áður en hún gekkst undir ok Noregskonungs og síðan Dana. Glæst sigurganga Rómantíkin og Fjölnismenn blésu mjög í glóð þessa hugmyndabáls og Jónas Hallgrímsson sneri landsmönnum endanlega til hinnar nýju trúar með kvæðum á borð við Gunnarshólma og Ísland um fornöldina þegar hetjur riðu um héruð. Helgistaðir um allt land, byggðir á fornsögunum, greyptust inn í vitund þjóðar- innar og sannfærðu hana um að hún ætti sér sameiginlegan fjársjóð og fornaldarfrægð sem dygði til innspýtingar á nýrri öld – ekki ósvip- að því og þegar reynt var að endurvekja þessa stemmningu með náttúrvalskenningunni um útrásarvíkingana löngu síðar. Enda þótt útrásaruppvakningurinn hafi ekki náð að ganga aftur nema í örfá ár bendir ýmislegt til þess að enn sé útbreidd meðal þjóðarinnar sú trú að hún bæði þori, geti og vilji. Íslensk ungmenni hlaupa enn út á rit- listarbrautina full sjálfstrausts um að þau séu að fást við eitthvað sem skipti máli og hafi langþróað listrænt verkfæri í tungunni. Sú sannfæring skilar sumum þeirra í verðlauna- og tilnefningarsæti alþjóðlegra bókmennta- verðlauna sem ætti aftur að vera óhugsandi miðað við höfðatölu; að ekki sé talað um íþróttalandsliðin og þá sögumenn sem hafa brotið kvikmyndina undir list sína. Sigurganga þeirra er glæstari en bæði Arngrím og Jónas gat órað fyrir. Trúin flytur fjöll Áhrif hinnar rómantísku trúar í þessu efni eru alveg óháð þeirri staðreynd að nú á dögum er enginn skortur á fræðimönnum sem hafa margreynt að fletta ofan af því að þessi sögu- skoðun sem hér hefur verið rakin sé bara róm- antískur tilbúningur og að einhver ótil- greindur veruleiki hafi verið annar. En veruleikinn, hvort sem er í samtímanum eða fortíðinni, er alltaf hugmyndafræðilegur til- búningur, frásögn sem við setjum saman úr at- vikum dægranna, og við höfum töluvert svig- rúm – þó ekki sé það algjört – til að trúa þeirri frásögn sem við viljum um veruleikann og lifa samkvæmt henni. Ímyndunin er raunveruleg, eins og haft er eftir Albert Einstein. Fornritin komu smám saman út í aðgengi- legum útgáfum á nítjándu öld og í upphafi þeirrar tuttugustu og þá tók fólki meira að svíða að handrit þessara merku texta skyldu hafa verið flutt úr landi á dögum Brynjólfs biskups Sveinssonar og Árna Magnússonar. Við hvert skref í átt til sjálfstæðis undan Dönum, frá stjórnarskránni 1874, heima- stjórninni 1904, fullveldinu 1918 og loks lýð- veldisstofnuninni 1944, kom upp sú krafa að nú væri komið að því að þessar tvær frjálsu þjóðir skiptu sínu búi eins og hver önnur hjón gera við skilnað. Það sem „við“ höfðum lagt í búið ættum við rétt á að hafa með okkur heim þegar við tækjum stjórn okkar mála í eigin hendur; skjöl úr dönskum söfnum og ekki síst gullaldarhandrit fornbókmenntanna sem voru ýmist varðveitt í Konungsbókhlöðu, þau sem Íslendingar höfðu sent konungi samkvæmt hans valdboði, eða í Árnasafni, þau sem Árni hafði keypt fyrir eigið aflafé og konu sinnar Mette eða gleymt að skila og ánafnað háskól- anum eftir dauða sinn í ársbyrjun 1730 – þegar safnið var sennilega enn óupptekið í kistum og kössum eftir brunann mikla haustið 1728 og Árni hélt að miklu meira hefði glatast en reyndist vera. Krafan um handritin Við fullveldið magnaðist krafan um að fá hand- ritin heim svo mjög að á þriðja áratugnum voru ýmis skjöl loks send til Íslands og von- uðust Danir til að málið væri þar með úr sög- unni. Góðu heilli hélt Bjarni M. Gíslason kröfukyndlinum logandi í Danmörku, taldi ekki nóg að gert og fór vítt og breitt um Dan- mörku með stuðningi lýðháskólahreyfingar- innar að afla þeirri hugmynd fylgis að Danir eftirlétu Íslendingum helstu dýrgripina úr dönskum handritasöfnum: handrit hinna ís- lensku fornsagna sem geymdu sögu og minn- ingar Norðurálfu betur en nokkur önnur rit. Hér heima var krafan um handritin heim sjálf- sögð í hugum flestra en það var ekki fyrr en eftir lýðveldisstofnunina að fólk fann virkilega fyrir því að skilnaðurinn var ekki um garð genginn – vegna þess að aðalatriðið stóð ennþá útaf í búskiptunum; handritin. Íslandsklukka Halldórs Laxness var senni- lega mikilvægasta trúboðsritið á þessum tíma; hún kom út þegar þörfin var hvað mest fyrir að styrkja sjálfsmynd þessarar örþjóðar við ysta haf með því að leyfa henni enn og aftur að velta sér upp úr fornaldarfrægðinni, mikilvægi starfs Arnas Arneusar við handritasöfnunina og ást hans á Íslandi sem lesendur gleyptu í sig í gegnum Snæfríði Íslandssól og allt hið upphafna tal um hið íslenska. Baráttan harðnar Sú trú styrktist að sjálfstæðið yrði ekki að fullu endurheimt fyrr en handritin kæmu aftur heim og hinn pólitíski þrýstingur frá Íslandi birtist hvað skýrast í því að sendiherra Íslands í Danmörku var sóttur í norrænudeildina við Háskólann; Sigurður Nordal prófessor var kvaddur til að taka að sér starfið í Kaup- mannahöfn og hans helsta verkefni skyldi vera handritamálið. Þrátt fyrir mikla andstöðu fræðimanna og ýmissa annarra í Danmörku við þá hugmynd að sú ófullburða útnáraþjóð sem hér byggi fengi til sín dýrgripi sem hún réði ekkert við að varðveita, hefði ekki mannafla til að rannsaka eða búa um svo sómi væri að – auk þess sem samgöngur fyrir er- lenda fræðimenn væru erfiðar að komast í handritin – þá efldist skilningur almennings í Danmörku á réttmæti þessarar kröfu. Stjórn- málamenn fylgdu almenningsálitinu og sam- þykktu á danska þinginu 1961 og 1965 að þau handrit sem hefðu verið skrifuð á Íslandi um íslensk efni skyldu send aftur heim. Utan við þessa skilgreiningu féllu krúnudjásnin: Kon- ungsbók Eddukvæða um guði og hetjur nor- rænna og germanskra þjóða og Flateyjarbók með sögum Noregskonunga og alls kyns tengdum frásögnum sem teygðu sig um allt áhrifasvæði norska stórkonungdæmisins. Með þrjósku og þverlyndi í langvarandi störu- keppni tókst Íslendingum að knýja fram að þessi tvö handrit kæmu heim líka. Loks var kveðið á um það að handritin ættu sig sjálf en þessi tvö ríki ábyrgðust að varðveita þau með því að fela sérstökum Árnastofnunum innan vébanda háskóla landa sinna að sjá um út- færsluna svo fullur sómi væri að. Andstæðingar þessa pólitíska gjörnings stefndu niðurstöðunni fyrir danska dómstóla á þeirri forsendu að það væri ekki á valdi stjórn- málamanna að ráðstafa þessum dýrgripum úr landi en á útmánuðum 1971 kvað Hæstiréttur Danmerkur loks upp þann úrskurð að þingið hefði þetta vald og skömmu síðar var flaggað í hálfa stöng við Konungsbókhlöðuna í Kaup- mannahöfn þegar Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók í tveimur bindum voru færðar um borð í varðskipið Vædderen sem sigldi með þær til Íslands. Síðasta vetrardag lagði Vædderen að bryggju í Reykjavíkurhöfn og danskir sjóliðar báru tvö fyrstu handritin á land að viðstöddum samanlögðum íslenskum almenningi sem átti heimangengt. Hitt fólkið horfði upp til hópa á viðburðinn í fyrstu beinu útsendingu íslenska sjónvarpsins utan húss í lotningarfullri lýsingu Magnúsar Bjarnfreðs- sonar. Á hafnarbakkanum steig Jóhann Haf- stein forsætisráðherra í pontu og lét hrópa ferfalt húrra fyrir Dönum, að hafa ákveðið að skila okkur handritunum og í meðfylgjandi handarsveiflu svifu allar leifar af Danahatri úr íslenskri þjóðarsál upp í himingeiminn. Þetta varð síðasti dagur hins langa danska vetrar í Íslandssögunni. Við vorum loksins orðin full- valda og sjálfstæð þjóð. Áhuginn beinist annað Nú, nærri fimmtíu árum síðar, hefur stemn- ingin dofnað fyrir því að við þurfum að sýna umheiminum að hér búi frjáls og fullvalda þjóð með menningarminjar á heimsvísu. UNESCO hefur að vísu skrifað upp á það en þjóðin lætur sér fátt um finnast og horfir annað eins og sést best á því hvað hola íslenskra fræða hefur gap- að lengi upp í himininn þótt nú berist fregnir af að húsið margboðaða rísi nú senn. Fræði- menn hafa kappkostað að tala niður heimilda- gildi sagnanna og rýna fremur í það hvernig nokkrum manni datt í hug að trúa þessu skröki og hampa geðröskuðum fornköppum. Afsökunin er að þjóðin hafi verið í rómantískri trúarvímu. Eftir stendur að sú sjálfsmynd sem var byggð upp á grunni þessara fornrita var nógu sterk til að lyfta hér því Grettistaki sem þurfti til að koma fátækustu þjóð Evrópu til sjálfsbjargar. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon Fullveldið og hlutverk handritanna Handritin hafa lengi verið tengd fullveldi Íslands, og myndaðist milliríkjadeila milli Íslands og Danmerkur á 20. öldinni um örlög þeirra. Morgunblaðið bað Gísla Sigurðsson, rannsóknarprófessor við Árnastofnun, um að rita hugvekju um þátt handritanna í fullveldi Íslands fyrr og síðar. Helge Larsen, menntamálaráðherra Danmerkur, afhendir hér Gylfa Þ. Gíslasyni mennta- málaráðherra Flateyjarbók, með orðunum „Vær sá god, Flatøbogen“ hinn 21. apríl 1971. ’ Hér heima var krafan um hand- ritin heim sjálfsögð í hugum flestra en það var ekki fyrr en eftir lýðveldisstofnunina að fólk fann virkilega fyrir því að skilnaðurinn var ekki um garð genginn.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.