Morgunblaðið - 01.12.2018, Síða 33
LAUGARDAGUR 1. DESEMBER 2018 33
Fullveldi Íslands
Ljósmynd/Hörður Sveinsson
Gæfusmiðir
S
káldið Einar Bragi orti í Báruljóði:
Lítill kútur – lék í fjöru – og hló,
báran hvíta – barnsins huga – dró.
Langrar ævi – yndi og vos – á sjó,
báran svarta – bylti líki – og hló.
Í þessu áhrifaríka ljóði lýsir skáldið vel
nöprum veruleika Íslendinga langt fram á
okkar daga og sýnir hvað við erum lítil og
máttvana gagnvart náttúruöflunum; jafnvel
þeim sömu og eru undirstaða lífsafkomu okk-
ar.
Á sama tíma og þau fæða okkur, klæða og
seiða til sín í fegurð sinni, geta þau breyst í
ófreskju í einu vetfangi, hrifsað til sín líf okkar
eða kvalið seigdrepandi dauðdaga; skilið ást-
vini eftir berskjaldaða og agnarsmáa.
Með tímanum hefur mannskepnan lært að
búa í haginn; hagnýta tækni, þannig að náttúr-
an fer ekki jafn óblíðum höndum um okkur í
amstri dagsins; en um leið höfum við gengið
svo nærri þolmörkum hennar á mörgum svið-
um að risastór skuggi hvílir yfir öllu mannkyn-
inu. Eitt brýnasta verkefni okkar er að endur-
skoða algerlega umgengni um náttúruna,
þannig að við stefnum ekki tilvist mannkyns
og lífríkis, eins og við þekkjum, í voða.
Við Íslendingar þurfum að afla nýrrar þekk-
ingar, vera varkár, nýta landið okkar skyn-
samlega með sjálfbærum hætti. En einnig að
búa þannig um hnútana að við getum tekið
þátt í verkefnum, sem eðli þeirra vegna krefj-
ast fjölþjóðlegs samstarfs. Það er nauðsynlegt
til að tryggja fullveldi okkar og styrkja það til
framtíðar.
Getum tryggt mannsæmandi lífskjör
En á meðan náttúran getur verið duttlunga-
full og stundum miskunnarlaus er menningin
verk okkar sjálfra. Skipting efnahagslegra og
félagslegra gæða, skólar, öruggt húsnæði og
heilbrigðisþjónusta eða auðlindastýring eru
t.d. ekki náttúrulögmál – þar erum við sjálf
okkar gæfu smiðir.
Við verðum því að hafa getu til að takast á
við grundvallarverkefni samtímans. Með
skynsamlegri samneyslu getum við tryggt
hverjum einasta íbúa landsins mannsæmandi
lífskjör og með nýrri stjórnarskrá fest þessi
og önnur grundvallarréttindi enn betur í sessi.
Við þurfum líka að gangast við ábyrgð okk-
ar sem manneskjur og muna hvaðan við kom-
um. Það er of stutt síðan að Íslendingar gátu
ekki brauðfætt börn sín og flúðu þúsundum
saman vestur um haf í leit að betra lífi, til þess
að við getum litið undan nú, þegar milljónir
manna eru á flótta undan fátækt, stríði og
loftslagsógnum.
Enn mikið verk að vinna
Hundrað ára afmæli fullveldis Íslands er
vissulega merkilegur áfangi í sögu þjóðar sem
lifði í árhundruð, ekki aðeins af náttúrunni
heldur einnig þrátt fyrir hana. Það er full
ástæða til að fagna þessum merku tímamótum
og hugsa hlýtt til forfeðra okkar sem hafa með
fórnfýsi, ódrepandi baráttuanda og bjartsýni
að vopni gert okkur kleift að búa við þær að-
stæður sem við gerum í dag. Jafnframt hvílir á
okkur sú skylda að skila komandi kynslóðum
landinu í jafn góðu, og helst betra ástandi en
við tókum við því.
Nú þegar við höfum komið ár okkar vel fyrir
borð verður nánasta framtíð að snúast um að
tryggja öllum réttmæta hlutdeild í gæðum
landsins. Þrátt fyrir að Ísland sé í dag 11. auð-
ugasta þjóð í heimi hefur okkur ekki tekist
það. Við lifum hvorki á meðaltölum né vísitöl-
um og á meðan þúsundir barna lifa enn við
skort og stórir hópar eiga erfitt með að ná
endum saman er mikið verk að vinna.
Fullveldi þjóðar er vissulega dýrmætt og
eitthvað til að gleðjast yfir en fölnar óneitan-
lega ef við getum ekki sýnt hvoru öðru virð-
ingu og traust og tryggt öllum möguleika á að
lifa við öryggi og reisn alla ævi.
LOGI EINARSSON, FORMAÐUR SAMFYLKINGARINNAR
’
Nú þegar við höfum komið
ár okkar vel fyrir borð verður
nánasta framtíð að snúast
um að tryggja öllum réttmæta
hlutdeild í gæðum landsins.
Greinin er unnin úr ræðu sem flutt
var á hátíðarfundi Alþingis 18. júlí.