Morgunblaðið - 01.12.2018, Blaðsíða 31
LAUGARDAGUR 1. DESEMBER 2018 31
Fullveldi Íslands
É
g get ekki ímyndað mér Ísland
öðruvísi en frjálst og fullvalda.
Samt er í raun svo stutt síðan
veruleikinn var allt annar hér á
landi. Margra alda undirokun er-
lendra ríkja setti mark sitt á þjóðlífið og
sjálfsmynd okkar, en undir því oki kraumaði
samt löngunin og þörfin til að vera sjálf-
stæð. Að ráða okkur sjálf, án afskipta ann-
arra, sama hvað sú ákvörðun kynni að hafa í
för með sér.
Við vorum ein fátækasta þjóð Evrópu og
bjuggum meðal annars við lélegan húsakost.
Það kom ekki í veg fyrir að við byggðum vel
yfir menningararf okkar, því einhvers staðar
blundaði vissan um að það væri mikilvægt
að „þjóðin reyni að varðveita þann andlega
auð, sem hún hefir fengið í arf frá umliðnum
öldum, og reyni að leiða góða andlega
strauma frá umliðna tímanum inn í nútím-
ann og ókomna tímann,“ eins og sagt var í
umræðum á þingi þegar tillagan um að reisa
Safnahúsið við Hverfisgötu var lögð fram ár-
ið 1894. Tilefnið var að minnast 50 ára af-
mælis endurreisnar Alþingis með myndar-
legum brag. Þetta var mikið fyrirtæki og
ekki óumdeilt, enda tók það tímann sinn að
undirbúa bygginguna. Frá því tillagan kom
fram og byggingin reis hafði Ísland fengið
heimastjórn og uppkastinu, fyrsta frum-
varpinu til sambandslaga verið hafnað, en
þar þótti Íslendingum ekki nógu langt geng-
ið við að tryggja stöðu og réttindi landsins.
Nefna má, til marks um hversu stórt var
hugsað á þessum tíma, að byggingarfram-
kvæmdin kostaði sem svarar til um tæplega
20% af tekjum ríkissjóðs árið 1909, árið sem
húsið var tekið í notkun. Ef sama hlutfalli
yrði varið til byggingarinnar nú, myndi það
þýða um 170 milljarða króna útgjöld. Til
samanburðar má nefna að heildarkostnaður
við nýjan Landspítala verður um 80-100
milljarðar.
Stórhugurinn skilaði okkur lengra
En sennilega hefur það verið slíkur stór-
hugur sem hefur skilað okkur lengra en bú-
ast mætti við, miðað við hina frægu höfða-
tölu. Útlendingar furða sig nefnilega oft á
því hvernig svona smáþjóð fari að því að
vera sjálfri sér næg og í raun svo miklu
meira en það. Ég held að enginn ætli að
halda því fram að þetta átak sem við þurft-
um að gera til að komast á þennan stað hafi
verið auðvelt. Það var heldur ekki það sem
Íslendingar í upphafi 20. aldar gerðu ráð
fyrir, en vissan um að árangurinn af erfið-
inu myndum við uppskera sjálf, sem þjóð
meðal þjóða, hvatti áa okkar áfram.
Og við höfum uppskorið. Þetta land skar-
ar fram úr í lífskjörum. Okkur hefur tekist
á einungis öld að fara frá því að vera bláfá-
tæk í að verða ein best stæða þjóð álfunnar.
Við höldum uppi þjónustu, mennta- og
menningarstarfsemi sem sæmir milljóna
þjóð og eigum framsækið, fjölbreytt og
öflugt atvinnulíf. Þetta er ekkert minnihátt-
ar afrek, þegar litið er til baka á þær að-
stæður sem Íslendingar bjuggu við fyrir
einungis einni öld. Atvinnuhættir voru fá-
breyttir og við treystum alfarið á landbúnað
og fiskveiðar. Aðrar atvinnugreinar vógu lít-
ið í þjóðarbúskapnum.
Gátum brugðist hratt við aðstæðum
Ég hitti í vikunni erlendan fjármálaráðherra
sem vildi fræðast um það hvernig Ísland
hefði rifið sig upp úr kreppunni eftir fall
bankanna. Ég sagði eins og er að þar hefði
margt unnið með okkur, ekki síst það að
hafa sjálfstæðan gjaldmiðil sem hefði aukið
samkeppnishæfni landsins þegar við þurft-
um mest á því að halda. Hann hefði unnið
með sveigjanlegum vinnumarkaði og svo
hefði ferðaþjónustan verið hvalreki. En fyrst
og fremst hefði þetta snúist um það að geta
brugðist hratt við aðstæðum og tekið sjálf-
stæðar ákvarðanir sem á margan hátt voru
þvert á ráðleggingar og kröfur stórþjóða og
alþjóðastofnana. Hugsanlega má segja að
það hafi ekki verið án áhættu, en það var
áhætta sem við tókum sjálf ákvörðun um að
axla. Rétt eins og þegar langafar og lang-
ömmur okkar ákváðu í lok þessa erfiða árs,
1918, að það væri þess virði að halda út í
óvissuna, frjáls og fullvalda, með lýðveldið
innan seilingar.
BJARNI BENEDIKTSSON, FJÁRMÁLARÁÐHERRA OG FORMAÐUR SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Frjáls og fullvalda
’
Ég held að enginn ætli að halda
því fram að þetta átak sem við
þurftum að gera til að komast á
þennan stað hafi verið auðvelt.
Það var heldur ekki það sem
Íslendingar í upphafi 20. aldar
gerðu ráð fyrir, en vissan um að
árangurinn af erfiðinu myndum við
uppskera sjálf, sem þjóð meðal
þjóða, hvatti áa okkar áfram.