Morgunblaðið - 01.12.2018, Qupperneq 29

Morgunblaðið - 01.12.2018, Qupperneq 29
LAUGARDAGUR 1. DESEMBER 2018 29 Fullveldi Íslands hundrað árum. „Við höfum frá fyrsta degi mótað fullveldi okkar og lagað það að nýjum straumum, aukið það hér, deilt því þar. Þessu munum við halda áfram. Árið 1918 þótti það órjúfanlegur hluti okkar fullveldis að við lýstum yfir ævarandi hlutleysi í ófriði. Þannig yrði fullveldið tryggt, að við stæðum utan hugsanlegs ófriðar og átaka í heim- inum. Í síðari heimstyrjöldinni hurfum við frá þessu í verki, og nánast í orði líka. Eftir lýðveldisstofnun og lok seinna stríðs var það fyrst órjúfanlegur hluti sjálfstæðis okkar að hér yrði ekki her á friðartímum. Svo uxu viðsjár í heiminum og meirihluti þings og ugglaust samfélagsins í heild komst að þeirri niðurstöðu að við yrðum að endur- skilgreina fullveldið, að fullveldi og sjálf- stæði gæti staðist þótt hér væri erlendur her og við aðilar að varnarbandalagi.“ Sú niðurstaða var þó ekki fengin án átaka og gat af sér ýmsar áskoranir. „Menning- arlegt fullveldi okkar fólst í því að vernda ís- lenska tungu fyrir erlendum áhrifum, meðal annars með baráttu gegn því að erlent sjón- varp flæddi yfir land og lýð.“ Guðni bætir við að eflaust myndi þeim sem leiddu þá baráttu vera um og ó núna, þegar erlent af- þreyingarefni streymir óheft um netið. „Samt getum við sagt við okkur sjálf að menningarlegt fullveldi okkar er tæpast í voða. 21. öldin er öld hnattvæðingar og sí- aukinna samskipta og þá dugar ekki að óttast útlönd og áhrif þaðan. Þjóð með sjálfstraust mætir bara slíkum áskorunum og öðrum, og stendur sterkari á eftir.“ Umburðarlyndi er lykillinn Talið berst í þessu samhengi að stöðu ís- lenskrar tungu, sem vegur svo þungt í menningararfi okkar. „Ég er raunsær og bjartsýnn á framtíð íslenskrar tungu. Við verðum einfaldlega að una því að málið mun þróast eins og það hefur alltaf gert,“ segir Guðni. Engu að síður mæti Íslendingar nú nýjum áskorunum. „Þá sérstaklega í heimi tækninnar, þar sem við getum í sífellt ríkari mæli talað við tæki og tól og gefið þeim skipanir, en eins og sakir standa ekki á ís- lensku. Þetta er einfaldlega viðfangsefni sem við þurfum að leysa.“ Þá þurfi einnig að hafa í huga að íslenskt samfélag hafi breyst á undanförnum árum. „Hér búa þúsundir manna sem vilja læra ís- lensku en gera það auðvitað ekki í einu vet- fangi, þurfa aðstoð við það og munu tala með hreim og gera mistök eins og við hin gerum reyndar líka ef út í það er farið. Gagnvart þessum Íslendingum þurfum við að vera umburðarlynd. Við skulum taka undir orð veðurfræðingsins frá Þýskalandi þegar hann kvaddi þá í kútinn sem kvörtuðu undan erlendum hreim hans með því að segja: „Þeir skilja sem vilja.“ Í því felst okkar umburðarlyndi, enda reiðum við okk- ur á það þegar við förum til útlanda og töl- um til dæmis dönsku með okkar sterka ís- lenska hreim,“ segir Guðni. „Þannig að ég óttast ekki framtíð ís- lenskrar tungu, hún er í okkar höndum. Við megum ekki pína okkur eða fyllast svart- nætti yfir einhverri ímyndaðri og glataðri gullöld íslenskunnar. Sú var aldrei raunin, er ekki raunin og verður ekki raunin. Aftur á móti ber okkur gera það sem í okkar valdi stendur til þess að íslensk tunga vaxi og dafni.“ Guðni segir að ein leið til þess sé til dæm- is að tryggja að merkingar og heiti séu á ís- lensku frekar en ensku. „Hingað til Bessa- staða streymir fjöldi ferðamanna dag hvern og þeir finna staðinn þó að hvergi standi á skilti: „Presidential residence“.“ Guðni bend- ir á að ferðamennirnir komi hingað til þess að kynnast bæði íslenskri náttúru og ís- lenskri menningu og íslenskar merkingar séu hluti af þeirri menningu, þó að sjálfsögð kurteisi sé að skilti og heiti séu líka á ensku þegar þess þyki þörf. En hvernig sér Guðni fyrir sér að Ísland verði að hundrað árum liðnum? „Mín von og trú er að Ísland verði þá áfram frjálst og fullvalda ríki, lýðveldi í hópi annarra ríkja á alþjóðavettvangi þar sem alþjóðalög eru virt, mannréttindi í heiðri höfð og náið samstarf milli þjóða, eftir þörfum og óskum hvers og eins. Ég vona og trúi að heilbrigð ættjarð- arást búi þá í brjósti fólks sem verði eins ólíkt og það er margt, og hér muni ríkja frelsi til orðs og æðis í samfélagi sem ein- kennist af samkennd, samvinnu og samúð. Ég er bjartsýnn fyrir hönd okkar Íslend- inga og allra landsmanna. Framtíðin er í okkar höndum. Auðvitað vitum við aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér en forðumst ótta og tortryggni, biturð og lítt grundaða fortíðarþrá. Það er mun betra að búa sig undir óræða framtíð með von og sjálfstraust í brjósti.“ Guðni segist aðspurður hafa velt nokkuð í ræðu og riti fyrir sér þeim mun sem felst í fyrra starfi hans sem sagnfræðings og nú- verandi embættisskyldum hans, sér í lagi þegar kemur að túlkun sögulegra við- burða. „Það er nánast skrifað í starfslýs- ingu þjóðhöfðingja hvarvetna að þeim beri að vera bjartsýnir og horfa á það sem sam- einar fólk frekar en það sem sundrar því. Um leið ber öllum sagnfræðingum og þeim sem vinna í hinu svonefnda fræða- samfélagi að vera gagnrýnir í hugsun og láta sig engu varða hvað valdhöfum þykir henta hverju sinni.“ Guðni segist sann- færður um að hægt sé að gera hvort tveggja. „Við getum verið gagnrýnin en bjartsýn um leið. Þótt við bendum á það sem miður hefur farið og fer enn í okkar samfélagi, og þótt við bendum á að við eig- um ekki alltaf sameiginlega hagsmuni, getum við líka reynt að finna okkar sam- eiginlegu þræði, sameiginlegan vilja til betra samfélags.“ Guðni tekur líka dæmi úr heimi íþróttanna. „Ég er mikill áhuga- maður um íþróttir og hef sagt við suma kollega mína í fræðunum að enginn geti áttað sig á heilbrigðri ættjarðarást nema sá eða sú hafi farið á landsleik, staðið í stúkunni með löndum sínum, kyrjað þjóð- sönginn, fengið gæsahúð og fundið tár á hvarmi.“ Stuðningur við landslið Íslands er því að mati Guðna gott dæmi um það hvernig ættjarðarást getur verið samein- andi afl þótt hafa beri í huga þann mun sem sé á leik og alvöru lífsins. „En sönn ættjarðarást á ekkert skylt við þjóðrembu eða gort. Dramb er falli næst, það ættum við nú að hafa lært. Sönn ættjarðarást á að sameina okkur í stuðningi við hvert annað, í umburðarlyndi og víðsýni. Sönn ættjarð- arást felur í sér virðingu fyrir náttúru landsins og menningararfi. Hún gerir okk- ur kleift að skilgreina okkar sjálfstæði og þjóðerni þannig að við getum tekið vel á móti þeim sem hingað flytjast til að vinna og láta gott af sér leiða, vera fullgildir samfélagsborgarar þótt þeir geti ekki rak- ið ættir sínar til Egils Skallagrímssonar eða Auðar djúpúðgu, innflytjenda síns tíma.“ Sönn ættjarðarást sameinar Morgunblaðið/Jón Sen Guðni segir að lýðveldisstofnunin 1944 hafi að mörgu leyti rist dýpra í þjóðarsálinni en fullveldisheimtin 1918.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.