Morgunblaðið - 01.12.2018, Blaðsíða 40

Morgunblaðið - 01.12.2018, Blaðsíða 40
40 LAUGARDAGUR 1. DESEMBER 2018 Fullveldi Íslands ásamt sex öðrum ræðum, sem íslenskir menntamenn fluttu gegn Sovét-Íslandi næstu árin, fram til 1958. Skrifa ég formála og skýr- ingar, og er bókin aðgengileg ókeypis á Net- inu. Aðra ræðuna í bókinni flutti Gunnar Gunnarsson undir yfirskriftinni „Vestræn menning og kommúnismi“ á Heimdallarfundi í nóvember 1954. Gunnar hafði þá getið sér meiri frægðar erlendis en nokkur annar ís- lenskur rithöfundur. Rakti hann dæmi um yf- irgang ráðstjórnarinnar eftir stríð og taldi Ís- lendinga njóta heiðurs og trausts með aðild að Atlantshafsbandalaginu. Næst efndi Heim- dallur til fundar um umsvif kommúnista í ís- lensku menningarlífi vorið 1955, og þar héldu Hagalín, séra Sigurður Pálsson í Hraungerði og Kristmann Guðmundsson rithöfundur ræð- ur, sem líka birtast í þessari bók. Hagalín brá upp mynd af Sovét-Íslandi, eins og það yrði eftir valdatöku kommúnista, og studdist við reynsluna í Mið- og Austur-Evrópu. Séra Sig- urður Pálsson skýrði, hvernig kommúnismi gengi gegn hugmyndum kristinna manna um almenn mannréttindi. Kristmann Guðmunds- son furðaði sig á því, að kommúnistar ættu meira fylgi að fagna á Íslandi en annars staðar á Vesturlöndum. Sjöttu ræðuna í þessari bók flutti skáldið Sigurður Einarsson í Holti á Heimdallarfundi vorið 1956, skömmu eftir sögulegar uppljóstranir í Rússlandi um Stalín og stjórnartíð hans. Rifjaði hann háðslega upp lofsöngva íslenskra stalínista um hinn látna harðstjóra. Sjöundu ræðuna hélt Davíð Stef- ánsson frá Fagraskógi á héraðsmóti Sjálfstæð- isflokksins á Austurlandi sumarið 1958. „Enn eru til menn, sem hylla harðstjórana,“ mælti Davíð. „Ennþá stynja þjóðir undir hern- aðaroki, föðurlönd eru gerð að fangabúðum, frelsishetjur hengdar að húsabaki.“ Ræðurnar sjö voru allar fluttar í Kalda stríðinu, sem geisaði frá valdaráni komm- únista í Tékkóslóvakíu 1948 til hruns Berl- ínarmúrsins 1989. Þetta stríð stóð ekki milli tveggja stórvelda, heldur um það, hvort vest- ræn lýðræðisríki ættu að veita fyrirhugaðri heimsbyltingu kommúnista og landvinningum Rússa viðnám. Á sama hátt snerust stjórn- máladeilur á Íslandi ekki um, hvort hér ætti að vera varnarlið, heldur hvort hið íslenska ríki, sem stofnað hafði verið 1. desember 1918, tryggði fullveldi sitt með þátttöku í vörnum vestrænna þjóða. Tómas Guðmundsson orðaði þetta skýrt á fullveldisdaginn 1. desember 1954: „Það er fjarstæða ein, sem kommúnistar og reyndar fleiri vilja telja mönnum trú um, að höfuðklofningurinn í þjóðmálum sé nú milli þeirra, sem fylgjandi eru hersetu, og hinna, sem henni eru andvígir. Mörkin eru þvert á móti milli þeirra, sem vilja efla og styrkja lýð- ræði og frelsi landsmanna, og hinna, sem hneppa vilja allar þjóðir í fjötra kommúnism- ans.“ Með herverndarsamningnum við Bandarík- in sumarið 1941 hófst það, sem kalla mætti „Bandarísku öldina“ í sögu Íslendinga. Tveir aðrir mikilvægustu áfangar á þeirri braut voru aðild að Atlantshafsbandalaginu vorið 1949 og varnarsamningur við Bandaríkin sumarið 1951. Nú höfðu Íslendingar í fyrsta og eina skiptið í sögu sinni eignast voldugan bakhjarl. Þess vegna gátu þeir, eftir að þeir voru lausir undan samningi Dana og Breta frá 1901, fært fiskveiðilögsöguna út fjórum sinnum þrátt fyr- ir harðvítuga andstöðu Breta í öll skiptin. Til að selja fisk nutu þeir líka góðs af auknu við- skiptafrelsi um heim allan. En eftir hrun kommúnismans í Rússlandi töldu Bandaríkja- menn með réttu eða röngu ekki lengur þörf á varnarliði á Íslandi og virtust líka gera ráð fyr- ir, að Ísland gæti sótt stuðning til grannríkja sinna í Norðurálfunni. Þetta reyndist rangt. Frá því að Bandaríkjamenn lögðu þegjandi og hljóðalaust niður herstöðina á Miðnesheiði haustið 2006, hefur Ísland átt fáa vini, eins og berlega kom í ljós í bankahruninu tveimur ár- um síðar. „Ég lýt hátigninni, en stend á réttinum“ Höfundarnir sjö, sem eiga ræður í bókinni Til varnar vestrænni menningu, skírskota til hinnar sterku þjóðernisvitundar, sem bar landsmenn áfram í andstreymi liðinna alda og fann sér stjórnmálafarveg í stofnun fullvalda ríkis 1. desember 1918. Þjóðrækni þeirra var hins vegar ekki þjóðremba, enda hafa Íslend- ingar aldrei beitt aðrar þjóðir ofbeldi. Stolt þarf ekki að vera dramb. Flestir ráðamenn þeirrar litlu þjóðar, sem varð fullvalda í skammdeginu fyrir hundrað árum, hafa fylgt fordæmi Staðarhóls-Páls, sem kraup forðum fyrir konungi með öðrum fæti, en stóð í hinn og sagði: „Ég lýt hátigninni, en stend á rétt- inum.“ Þeir hafa verið raunsæir, en um leið fastir fyrir. Jón Sigurðsson vissi vel, þegar skilja átti að fjárhag Íslands og Danmerkur, eins og gert var 1871, að Danir myndu ekki samþykkja útreikninga hans á því, hvað þeir skulduðu Íslendingum eftir margra alda óstjórn. En hann vildi ekki þiggja ölmusu, heldur fá skaðabætur, sem talist gætu rétt- mætar. Og þegar Kristján IX. konungur bauð Jóni í höll sína eftir að hafa skrifað undir stjórnarskrána 1874, bjóst hann líklega við því, að gestur sinn myndi lýsa yfir sérstakri ánægju. En Jón sagði aðeins kurteislega: „Þetta er góð byrjun, yðar hátign.“ Þegar Kristján X. jós skömmum yfir Íslendinga á ríkisráðsfundi í Kaupmannahöfn haustið 1913, stóð Hannes Hafstein Íslandsráðherra upp, kvaðst ekki geta setið undir þessum orðum um þjóð sína og gekk út. Sneri hann aftur á fund- inn, eftir að danskir ráðherrar höfðu krafist þess, að konungur bæði hann afsökunar. Er- lendir samningamenn tóku líka til þess, hversu fast þeir Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson héldu jafnan á hagsmunum Íslendinga, en þeir fóru með utanríkismál hvor á eftir öðrum á hinu örlagaríka tímabili frá 1944 til 1953. Það er því undrunarefni, hvernig íslenskir ráðamenn lyppuðust niður fyrir útlendingum fyrstu árin eftir bankahrunið, beygðu bæði hné ólíkt Staðarhóls-Páli. Að frumkvæði þá- verandi ríkisstjórnar og Seðlabanka hafði í neyðarlögunum frá 6. október 2008 verið leit- ast við að takmarka ábyrgð og skuldbindingar íslenska ríkisins vegna fyrirsjáanlegs falls bankanna. En sú ríkisstjórn, sem tók við í febrúarbyrjun 2009, flýtti sér að gera hroða- legan samning þá um sumarið í hinni svoköll- uðu Icesave-deilu við Breta, sem hefði meðal annars falið í sér, að þeir hefðu getað gert fasteignir íslenska ríkisins erlendis upptækar og lagt hald á íslensk skip í breskum höfnum og íslenskar flugvélar á breskum flugvöllum, teldu þeir um vanefndir að ræða, en úr ágrein- ingi áttu breskir dómstólar að skera. Svo virt- ist sem Íslendingar héldu ekki lengur uppi fullvalda ríki, heldur væru sigruð þjóð. Mér til nokkurrar undrunar studdi þorri samkennara minna í Háskóla Íslands samninginn. En í ljós kom, að Íslendingar voru ósigraðir á sálinni, og felldu þeir þetta afsal fullveldisins eftir- minnilega í þjóðaratkvæðagreiðslu á útmán- uðum 2010. Guldu aðeins 1,8% kjósenda jáyrði við samningnum. Þá reyndust Bretar allt í einu vera reiðubúnir að gera miklu hagstæð- ari samning, þótt svo færi að lokum, að er- lendir dómstólar úrskurðuðu, eins og eðlilegt var, að íslenska ríkið hefði ekki borið fjár- hagslega ábyrgð á viðskiptum einkaaðila. Sigurvegararnir hafa ekki skrifað söguna Hvað skýrir undanlátssemi þeirra, sem völdin höfðu árin 2009-2013? Hvers vegna höfðu þeir ekki sama sjálfstraustið og hinn þögli, en stolti mannfjöldi, sem stóð við Stjórnarráðs- húsið 1. desember 1918? Sú væri kaldhæðni sögunnar, ef ein skýringin skyldi vera, að þeir teldu sig ekki lengur hafa þann volduga bak- hjarl, sem Bandaríkin voru fram til 2006, því að ráðherrarnir í ríkisstjórn þessara ára komu allir upphaflega úr Alþýðubandalaginu nema forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir (að undanteknum tveimur utanflokkamönn- um, sem sátu í eitt ár). Alþýðubandalagið, arf- taki Sósíalistaflokksins, hafði alla tíð fjand- skapast við Bandaríkjamenn. En ef til vill er önnur skýring fólgin í þeirri þversögn, að sig- urvegararnir skrifuðu ekki söguna, eftir að Kalda stríðinu lauk með fullum sigri vestræns lýðræðis. Nú í nokkra áratugi hafa arftakar þeirra kommúnista og sósíalista, sem ráku Heimskringlu og Mál og menningu fyrir er- lent fé, reynt í kennslubókum og yfirlitsritum, iðulega með opinberum stuðningi, að móta hug þeirra kynslóða, sem hafa verið að vaxa úr grasi. Þeir hafa markvisst gert lítið úr sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og þjóðernisvit- und, jafnframt því sem þeir hafa reynt eftir megni að koma í veg fyrir umræður um ódæði kommúnismans, sem kostaði samkvæmt Svartbók kommúnismans hundrað milljón mannslíf á tuttugustu öld. Háskóli Íslands var stofnaður á hundrað ára afmæli Jóns Sigurðs- sonar, svo að æskulýður landsins gæti lesið ís- lenskar bókmenntir, ekki danskar, numið ís- lensk lög, ekki dönsk, lært íslenska sögu, ekki danska. En ég veit af eigin raun, að þar eru allnokkrir, sem tala jafnan niður land og þjóð og mæla ekki lengur á íslensku, heldur ensku og jafnvel belgísku. Við útfærslu fiskveiði- lögsögunnar í fjórum áföngum 1952-1976 stækkaði Ísland út á við. En Ísland þarf líka að stækka inn á við, og það gerist aðeins, ef við, sem nú lifum, slítum ekki sálufélaginu við þær þrjátíu og fimm kynslóðir, sem byggðu landið á undan okkur. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon Í ræðu á fjölsóttum Heimdallarfundi í nóvember 1954 leiddi Gunnar Gunnarsson rök að því, að hið fullvalda íslenska ríki ætti samleið með öðrum vestrænum lýðræðisríkjum innan Atlantshafs- bandalagsins. Saman yrðu þau að verjast ógninni úr austri. Spegillinn birti skopmynd af því, þegar Guðmundur G. Hagalín og Kristmann Guðmundsson sögðu helsta áróðursmanni kommúnista, Kristni E. Andréssyni, til syndanna á Heimdallarfundi 1955.’ Þjóðrækni höfundanna sjö var ekki þjóðremba, enda hafa Íslendingar aldrei beitt aðrar þjóðir ofbeldi. Stolt þarf ekki að vera dramb. ’ Ísland þarf líka að stækka inn á við, og það gerist aðeins, ef við, sem nú lifum, slítum ekki sálufélaginu við þær þrjátíu og fimm kynslóðir, sem byggðu landið á undan okkur. Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.