Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 16.09.2015, Blaðsíða 15

Fréttir - Eyjafréttir - 16.09.2015, Blaðsíða 15
15Eyjafréttir / Miðvikudagur 16. september 2015 Sigurlaug Birna Leudóttir, eða Silla eins og hún vill láta kalla sig, ólst upp í Eyjum en flutti héðan þegar hún var 16 ára til þess að fara í MH og hefur hún meira og minna verið að heiman síðan þá. Silla útskrifað- ist af málabraut MH vorið 2011 og tók sér ársfrí eftir það. Á meðan hún stundaði námið í MH reyndi hún eins og hún gat að ná sér í reynslu til að komast nær markmiðum sínum, sem er vinna við leiklist og kvikmyndir. Hún vann meðal annars á RIFF, Reykjavík International Film Festival og lærði í Leiktækni- skóla Þorsteins Bachmanns og Magnúsar Jónssonar. Leiðin lá svo til Manchester þar sem hún lærði BA (Hons) spænsku og kvikmyndafræði í University of Manchester. Silla hætti eftir fyrsta árið þar sem hún fann að þetta var ekki fyrir hana og kom aftur heim til Eyja. Móðir Sillu er Lea Oddsdóttir, forstöðukona á Hraunbúðum og fór Silla að vinna þar og safna sér pening til að komast í Vancouver Film School, handritsgerðardeildina. Rétt fyrir brottför ákvað hún að skella sér á spunanámskeið, sem Dóra Jóhanns- dóttir, leikkona, var með. Silla segir að hún hafi gaman af því að gera hluti sem að reyni á og komi henni út úr þægindarammanum. Hugrekki Silla hefur alltaf haft ótrúlega mikinn áhuga á leiklist. Uppruna- legi draumurinn var alltaf að verða leikkona. Eftir að hún útskrifaðist úr MH og hélt út til Manchester til þess að læra spænsku og kvik- myndafræði, fann hún að það var ekki það sem hún vildi. Ákvað að koma heim þrátt fyrir að ekki væru allir sáttir við þá ákvörðun hennar. „Þegar ég horfi til baka átta ég mig á því að ég fór út meira fyrir aðra en sjálfa mig. Til þess að fara „öruggari“ leiðina í lífinu, segir Silla og er ánægð að hafa verið hugrökk og hlustað á hjarta sitt. Sumarið 2013 fór Silla svo á undirstöðunámskeið í handritsgerð sem Jón Atli Jónasson var með. Þar kolféll hún fyrir handritsgerðinni sem kom henni ekkert á óvart þar sem hún segist alltaf hafa verið að skrifa fyrir sjálfa sig. Silla vissi af Vancouver Film School þar sem hún var búin að vera að horfa til leiklistarnámsins þar. En ákvað svo að sækja um í handristgerðardeildina eftir hvatningu frá sínum nánustu. Mikil vinna á bak við eina fimm mínútna mynd Námið er árs diplómanám í handritsgerð, þar sem þremur árum er pakkað í eitt. Árinu er skipt niður í sex annir og bara nokkurra daga frí á milli anna. Fyrstu önnina eru nemendum kennd undirstöðuatriðin í skrifunum og svo er þeim bara hent í djúpu laugina og þeir verða að skrifa sitt fyrsta handrit að kvikmynd í fullri lengd á þremur vikum. Á fjórðu önninni fá nemendur svo að velja hvort þeir vilja einbeita sér að kvikmyndum eða sjónvarpi, en fyrir það eru allir búnir að skrifa handrit að sjónvarpsþætti. Silla valdi að einbeita sér að kvikmynd- um og skrifaði því annað handrit að kvikmynd í fullri lengd á meðan þeir sem völdu sjónvarpið fóru í það að þróa sínar eigin sjónvarpsþátta- raðir. Á fjórðu og fimmtu önninni gera nemendur sína eigin stuttmynd. Þeim var skipt upp í fimm manna hópa, allir hóparnir fengu 1000 Kanadadollara og svo var allt keyrt í gang. Silla segir að það sé alveg ótrúlegt hversu mikil vinna, sérstaklega pappírsvinna, fari í það að framleiða eina fimm mínútna mynd. „Ég horfi á kvikmyndir í allt öðru ljósi eftir þessa reynslu. Myndin sem ég framleiddi heitir Unqualified (Vanhæf) og er ádeila á karlrembu og kvenfyrirlitninguna sem finnst víða ennþá, sérstaklega á vinnustöðum. Við erum að senda stuttmyndina á kvikmyndahátíðir þannig það verður gaman að sjá hvað gerist,“ sagði Silla. Þarft að vera góður penni „Færnin sem þarf að hafa fyrir þetta nám er fyrst og fremst að vera góður penni,“ segir Silla en hún komst að því í náminu, að það þarf svo miklu meira en að kunna bara að skrifa ef fólk ætlar sér að ná langt í þesssum bransa. Silla segir þetta snúast rosalega mikið um gott skipulag, sérstaklega þegar fólk er með mörg verkefni í gangi í einu. Það besta sem Silla lærði er að handritið sem er verið að skrifa er í raun og veru aldrei tilbúið. „Þú vonar bara að þú yfirgefir það á réttum tíma.“ Mikilvægt, segir Silla, er að skilja egóið eftir heima þegar verið er að fara í gegnum handritið. „Þú verður að átta þig á því að það er ekki verið að dæma þig persónulega, að skrifin þín skilgreina þig ekki sem manneskju. Það sem þú skrifar verður eftir á blaðsíðunni. Það á líka um skrifin eins og allt annað, þetta snýst um æfinguna. Að skrifa eitthvað á hverjum degi og gefa sjálfum sér svigrúm til að skrifa eitthvað alveg ömurlegt og læra af því,“segir Silla. Erfiðara að eiga við LÍN heldur en að komasat að í skólanum Aðspurð um hvernig sé að komast í þennan skóla segir Silla að aðsóknin í skólann sé mjög mikil og ekki allir komist inn. Hún sagðist hafa haft ótrúlega gott forskot með því að vera búin að taka námskeiðið hjá Jóni Atla. Eftir það námskeið fór Silla að leika sér að því skrifa handrit að gamanþætti ásamt handriti að stuttmynd. Hún notaði þau handrit svo til þess að setja saman ferilskrána sína, „portfolioið“ ásamt umsókninni. „Það sem var erfiðast við allt ferlið var náttúrulega að fá lánið sam- þykkt hjá LÍN. En það er nú bara fastir liðir eins og hjá öllum námsmönnum sem læra úti,“ segir Silla. Karllægur bransi en framtíðin björt „Þetta er bransi hvítra karlmanna,“ segir Silla þegar hún er spurð út í kynjahlutfallið í bransanum og skólanum. „Það hefur einungis ein kona unnið Óskarinn fyrir leik- stjórn, Kathryn Bigelow fyrir The Hurt Locker árið 2010. Auðvitað er munur á bandaríska og evrópska iðnaðinum en meiri hluti kvik- mynda er með karlmann sem aðalsöguhetju. Fleiri og fleiri leikkonur, sérstaklega í Hollywood, tala um kynjamisréttið í iðnaðinum, allt frá launamismun upp í það hvernig spurningar leikarar og leikkonur fá bæði á rauða dregl- inum og í viðtölum. Hjá konum snýst það allt of oft um líkamann. Þetta er nú vonandi samt eitthvað aðeins að breytast með mjög ákveðnum konum eins og Lenu Dunham og Amy Schumer,“ segir Silla. Þetta er nú ekki slæmt í skólanum að ví er Silla segir. Í bekknum hennar var svipaður fjöldi af strákum og stelpum. Það kom henni einnig skemmtilega á óvart hvað það eru margar stelpur að læra handritsgerð. Forréttindi Silla valdi aðallega Kanada út af skólanum en hún var líka að skoða skóla í Danmörku. Hún vissi að VFS var með rosalega gott orðspor og Vancouver er líka oft kölluð Hollywood Norðursins þar sem mikið er tekið af sjónvarpsþáttum og kvikmyndum þar. Svo fannst henni líka spennandi að flytja á alveg nýjan stað þó svo að mömmu hennar hafi fundist hún aðeins of langt í burtu. „Hún spurði mig líka hvort ég gerði það viljandi að fara alltaf lengra og lengra að heiman, hvort það væri til að vera viss um að það kæmi enginn í heimsókn.“ Silla segir lífið í Kanada hafa verið dásamlegt en það komu dagar þegar hún var alveg við það að panta sér far heim. Sérstaklega þegar erfið- lega gekk að skrifa, en á heildina litið telur hún að árið hefði ekki getað verið betra. Hún kolféll fyrir borginni sem hún segir vera fullkomna blöndu af stórborg og glæsilegri náttúru. Henni þykja það algjör forréttindi að fá að vakna á hverjum degi í svona fallegri borg og eltast við draumana. Jafn vinalegir og Eyjamenn Silla segir að það sé mikill munur á Kanada og Íslandi, en munurinn sé ekki yfirþyrmandi. Staðalímyndin um Kanadabúa, að þeir séu vingjarnlegir, er 100% sönn að hennar mati. Silla segir að stundum hafi hún ekki átt orð hvað þeir voru til í að gera fyrir hana, ekki ólíkt Eyjamönnum. Silla segist skilgreina Vancouver sem hina fullkomnu blöndu af Bandaríkjunum og Evrópu. „Það er náttúrulega allt miklu ódýrara þar heldur en hérna heima þó svo að Vancouver sé dýrasta borg Kanada. Menningin í Vancouver er líkari Bandaríkjunum en Íslandi. Það er rosalega mikið lagt upp úr íþróttum og er íshokkí þjóðaríþróttin. Það sem ég elskaði mest var að ég gat hoppað á tónleika hjá stærstu tónlistar- mönnum án þess að það kostaði hand- og fótlegg.“ Frí og að koma sér á framfæri Næst á dagskrá hjá Sillu er tveggja vikna frí á Spáni með fjölskyldunni til þess að ná sér niður eftir þetta krefjandi ár. Eftir það fer hún svo að vinna í ferilskránni til að senda út og reyna að skapa sér nafn hérna heima. „Menntunin er nú til lítils gagns ef maður nýtir sér hana ekki,“ segir hún. Aðspurð um drauminn segir Silla að hann sé að vera búin að koma sér vel inn í kvikmyndaiðnaðinn, bæði hérna heima og úti. London og Los Angeles heilla hana ótrúlega mikið þannig hún reiknar með að hún verði á öðrum hvorum staðnum. „Ég tel það vera skyldu mína sem ungrar konu að reyna að bæta stöðu kvenna innan iðnaðarins með því að skrifa þau kvenhlutverk sem ég vil sjá á stóra skjánum. Í staðinni fyrir að kvarta bara undan að þau vanti, þannig að, ætli ég fari ekki bara að fara að drífa í því.“ Silla segist líka alltaf hafa haft mikinn áhuga á sálfræði og af hverju við erum eins og við erum. „Það er aldrei að vita nema ég elti þann áhuga með því að skrifa bók þar sem ég lifi mig inn í hugarheim persónanna þar sem það er ekki í boði í handritsgerðinni. Svo er aldrei að vita nema maður ákveði að bregða sér fyrir framan mynda- vélina eða jafnvel í leikstjórastól- inn,“ segir Silla að lokum. Sigurlaug Birna :: Lærði handritsgerð í Kanada :: Stefnir hátt í kvikmyndaheiminum: Þetta er bransi hvítra karlmanna og þarf að rétta hlut kvenna :: Ánægð að hafa verið hugrökk og hlustað á hjarta sitt :: Lífið í Vancouver dásamlegt Sara SjöFn GrETTiSdÓTTir sarasjofn@eyjafrettir.is Silla segir að það sé mikill munur á Kanada og Íslandi, en munurinn sé ekki yfirþyrmandi. Staðalímyndin um Kanadabúa, að þeir séu vingjarn- legir, er 100% sönn að hennar mati. Silla segir að stundum hafi hún ekki átt orð hvað þeir voru til í að gera fyrir hana, ekki ólíkt Eyjamönnum. Silla segist skilgreina Vancouver sem hina fullkomnu blöndu af Bandaríkjunum og Evrópu. „Það er náttúrulega allt miklu ódýrara þar heldur en hérna heima þó svo að Vancouver sé dýrasta borg Kanada. Menningin í Vancou- ver er líkari Bandaríkjunum en Íslandi. Það er rosalega mikið lagt upp úr íþróttum og er íshokkí þjóðaríþróttin. Það sem ég elskaði mest var að ég gat hoppað á tónleika hjá stærstu tónlistarmönnum án þess að það kostaði hand- og fótlegg.“ ”

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.