Morgunblaðið - 10.09.2019, Page 13
Bogi Þór Arason
bogi@mbl.is
Þing Bretlands var sent heim í fimm
vikur í gærkvöldi eftir að tillaga
Boris Johnson forsætisráðherra um
að efnt yrði til kosninga 15. október
var felld í annað skipti. Bretadrottn-
ing hafði samþykkt tillögu forsætis-
ráðherrans um að þinginu yrði lokað
til 14. október.
Neðri deild þingsins samþykkti í
gær ályktun þar sem hún krefst
þess að stjórnin birti öll skjöl varð-
andi áætlun hennar um undirbúning
útgöngu Bretlands úr Evrópusam-
bandinu án samnings. Einnig var
mælst til þess að stjórnin birti upp-
lýsingar, m.a. tölvupósta frá ráð-
gjöfum, um þá ákvörðun Johnsons
að senda þingið heim. Ályktunin var
samþykkt með 311 atkvæðum gegn
302 en er ekki lagalega bindandi.
Tveir þriðju allra þingmanna
neðri deildarinnar, eða 434 þing-
menn, þurftu að samþykkja tillögu
forsætisráðherrans um að flýta
kosningum en hún fékk einungis 293
atkvæði, en 46 þingmenn greiddu
atkvæði á móti. Fyrr um daginn
höfðu leiðtogar stjórnarandstöðu-
flokkanna samþykkt að styðja hana
ekki. Þeir sögðust ekki vilja kosn-
ingar fyrr en eftir leiðtogafund
ESB-ríkjanna 17. og 18 október.
Samkvæmt brexit-lögum, sem þing-
ið samþykkti í vikunni sem leið, ber
forsætisráðherranum að óska eftir
því á fundinum að útgöngu Bret-
lands úr sambandinu verði frestað
um þrjá mánuði, eða til 31. janúar,
náist ekki nýtt samkomulag um
hana. Johnson hefur sagt að hann
myndi frekar vilja „liggja dauður í
skurði“ en að óska eftir því að brexit
verði frestað. Stjórnarandstaðan
hefur varað forsætisráðherrann við
því að hann geti átt fangelsisdóm yf-
ir höfði sér brjóti hann lögin.
Ekki víst að ESB bjóði frestun
Breskir fjölmiðlar sögðu í gær að
stjórn Johnsons væri að leita leiða
til að tryggja brexit 31. október án
þess að brjóta lögin. Breska ríkis-
útvarpið kvaðst hafa heimildir fyrir
því að stjórnin væri meðal annars að
ræða þann möguleika að biðja eitt-
hvert ESB-ríki um að beita
neitunarvaldi sínu gegn frestun á
brexit. Leiðtogar allra aðildarríkja
Evrópusambandsins þurfa að sam-
þykkja hana.
Stjórn Johnsons er einnig sögð
íhuga þann möguleika að senda leið-
togum ESB-ríkjanna formlega
beiðni um að útgöngunni verði frest-
að, eins og kveðið er á um í nýju lög-
unum, en senda síðan annað skjal
þar sem fram komi að breska stjórn-
in sé ekki hlynnt frestuninni.
Sumption lávarður, fyrrverandi
dómari í hæstarétti Bretlands, sagði
í viðtali við breska ríkisútvarpið að ef
stjórnin gerði þetta væri það brot á
lögunum. „Það að senda bréfið og
reyna síðan að vinna gegn því er aug-
ljóst brot á lögunum að mínu mati,“
sagði hann.
The Telegraph kvaðst hafa heim-
ildir fyrir því að stjórnin væri að
kanna þennan möguleika. „Fyrir
liggur bréf sem þingið hefur mælt
fyrir um og þarf að senda… Kemur
það í veg fyrir að forsætisráð-
herrann geti sent Evrópusamband-
inu önnur skjöl? Ég tel svo ekki
vera,“ hefur blaðið eftir heimildar-
manni sínum. „Ef til vill væri hægt
að senda pólitíska útlistun, útskýr-
ingu á stefnu stjórnarinnar. Taka
þarf skýrt fram að hún óski eftir
frestun, en við megum ekki gleyma
því hvaða skref kemur næst. Þegar
þetta hefur verið gert spyrja Evr-
ópuríkin hvers vegna Bretland vilji
frestun. Hvað ef stjórnin segði að við
hefðum ekki neina ástæðu til að
fresta brexit?“
Blaðið benti á að Jean-Yves Le
Drian, utanríkisráðherra Frakk-
lands, sagði um helgina að eins og
staðan væri núna myndu Frakkar
ekki styðja frestun á brexit. „Við vilj-
um ekki ganga í gegnum þetta á
þriggja mánaða fresti,“ sagði hann.
The Telegraph hafði eftir heimildar-
manninum að breska stjórnin teldi
líklegt að leiðtogar ESB-ríkjanna
myndu ekki bjóða Bretum frestun á
brexit.
Telur að samkomulag náist
Johnson átti í gær fund með Leo
Varadkar, forsætisráðherra Írlands,
í fyrsta skipti frá því að hann varð
forsætisráðherra Bretlands 24. júlí í
stað Theresu May sem sagði af sér
eftir að breska þingið hafði þrívegis
hafnað brexit-samningi hennar við
ESB. Johnson er andvígur umdeildu
ákvæði í samningnum, svonefndri
„baktryggingu“, sem á að hindra að
komið verði á landamæraeftirliti
milli Írlands og Norður-Írlands.
Hann vill að ákvæðið verði fellt
niður. Stuðningsmenn ákvæðisins
segja að það sé nauðsynlegt til að
koma í veg fyrir að Brexit grafi und-
an samningnum sem náðist árið 1998
til að koma á friði á Norður-Írlandi
eftir átök sem kostuðu um 3.500
manns lífið. Andstæðingar samn-
ingsins segja hins vegar að ákvæðið
geti orðið til þess að Bretland þurfi
að vera áfram í tollabandalagi ESB
til frambúðar.
Johnson kvaðst í gær telja að sam-
komulag næðist við ESB-ríkin um
aðra leið til að tryggja að landamæri
Írlands og Norður-Írlands yrðu opin
og án eftirlits. Varadkar kvaðst vera
„opinn fyrir öðrum kostum“ en sagði
að þeir þyrftu að vera „raunhæfir“.
„Við höfum ekki enn fengið slíkar til-
lögur,“ bætti hann við.
Varadkar hefur léð máls á þeirri
málamiðlunarlausn að „baktrygg-
ingin“ nái aðeins til Norður-Írlands.
Flokkur norðurírskra sambands-
sinna, DUP, sem styður stjórn
Íhaldsflokksins, er andvígur þeirri
lausn og segir að ekki komi til greina
að Norður-Írland lúti öðrum reglum
en England, Skotland og Wales.
Þingið sent heim í fimm vikur
Stjórnarandstaðan í Bretlandi felldi tillögu Johnsons um að gengið yrði til kosninga 15. október
Stjórnin leitar leiða til að tryggja útgöngu úr ESB 31. október án þess að brjóta ný brexit-lög
AFP
Írsku landamærin rædd Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, á
blaðamannafundi í Dublin fyrir fyrsta fund þeirra frá því að Johnson komst til valda fyrir tæpum sjö vikum.
Bercow boðar afsögn
» John Bercow, forseti neðri
deildar breska þingsins, sagði í
gær að hann hygðist láta af
embætti 31. október.
» Bercow hefur verið forseti
þingdeildarinnar í tíu ár og var
fyrst kjörinn á þing fyrir Íhalds-
flokkinn árið 1997.
» Brexit-sinnar hafa gagnrýnt
Bercow harðlega og sakað
hann um að hafa farið á svig
við reglur þingsins til að tor-
velda brexit.
FRÉTTIR 13Erlent
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 10. SEPTEMBER 2019
SMÁRALIND
www.skornirthinir.is
Verð 14.995
Stærðir 36-41
Flex&Go
Í Flex&Go skóna er notað
hágæða leður sem og
náttúruleg efni, sem
gerir það að verkum
að skórnir falla vel
að fætinum og
eru einstaklega
þægilegir.
Bandamenn Vladimírs Pútíns Rúss-
landsforseta misstu mikið fylgi í
borgarstjórnarkosningum í Moskvu
á sunnudaginn var en héldu þó
meirihluta sínum í borginni. Þeir
misstu um þriðjung sæta sinna,
fengu 25 sæti af 45 en voru með 38.
Yfirvöld í Moskvu höfðu meinað
mörgum stjórnarandstæðingum að
bjóða sig fram og það varð til þess að
tugir þúsunda manna tóku þátt í
mótmælum í borginni fyrr á árinu.
Stjórnarflokkurinn Sameinað
Rússland er orðinn svo veikur í
Moskvu að allir fulltrúar hans buðu
sig fram sem óháðir frambjóðendur
til að reyna að leyna tengslum sínum
við hann. Stjórnarandstöðuleiðtog-
inn Alexej Navalní og stuðnings-
menn hans birtu nöfn fulltrúa
stjórnarflokksins og hvöttu Moskvu-
búa til að kjósa þann frambjóðanda
sem væri líklegastur til að sigra
bandamann stjórnvalda í Kreml.
Kommúnistaflokkurinn jók fylgi sitt
mest, fékk þrettán sæti, átta fleiri en
í síðustu kosningum. Frjálslyndi
flokkurinn Jabloko og vinstriflokk-
urinn Réttlátt Rússland fengu þrjú
sæti hvor. Á meðal þeirra sem náðu
ekki endurkjöri var Andrej Met-
elskí, forystumaður Sameinaðs
Rússlands í höfuðborginni.
Sameinað Rússland var stofnað
árið 2001 til að styðja Pútín forseta
en vinsældir flokksins hafa minnkað
mjög í Moskvu síðustu ár vegna
efnahagsstöðnunar og versnandi
lífskjara. Flokkurinn hélt þó flestum
sætum sínum í öðrum borgar-
stjórnum, meðal annars Pétursborg,
og sigraði í öllum sextán héraðs-
stjórakosningum sem fóru fram á
sunnudag. Talsmenn stjórnarflokks-
ins sögðu niðurstöðu kosninganna
almennt vera sigur fyrir hann en
stjórnmálaskýrendur telja líklegt að
stjórnvöld í Kreml hafi áhyggjur af
fylgistapi bandamannanna í
Moskvu. bogi@mbl.is
AFP
Andstæðingur Kremlverja Alexej
Navalní greiðir atkvæði í Moskvu.
Bandamenn Pútíns
misstu mikið fylgi
Héldu meirihluta sínum í Moskvu