Morgunblaðið - 20.11.2019, Page 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 20. NÓVEMBER 2019
Jólahlaðborð
Hólshraun 3 · 220 Hafnarfjörður · Símar: 555-1810, 565-1810 · Netfang: veislulist@veislulist.is · www.veislulist.is
Nú gefst þér tækifæri til að gleðja starfsfélaga,
fjölskyldu og vini með konunglegum kræsingum frá Veislulist
Starfsfólk okkar leggur sig fram um að gera stundina fallega með
úrvals veitingum og persónulegri og góðri þjónustu.
Örlítil handskrifuð bók eftir enska
rithöfundinn Charlotte Brontë, vart
stærri en eldspýtustokkur, var seld
á uppboði í París fyrir 600 þúsund
evrur, um 82 milljónir króna.
Brontë skrifaði bókina, sem ber
heitið The Young Men’s Magazine,
árið 1830 þegar hún var 14 ára
gömul. Í sögum bókarinnar er
fjallað um ímyndaðan heim sem
hinar þrjár Brontë-systur sköpuðu
og kölluðu Glass Town.
Kaupandinn er Brontë Society og
snýr handritið litla „heim“, því það
verður verður sýnt í Brontë Parso-
nage Museum á fyrrverandi heimili
Brontë-systranna þriggja í Ha-
worth í Jórvíkurskríri. Brontë Soc-
iety bauð einnig í bókina þegar hún
var boðin upp árið 2011 en þá bauð
einkaaðili betur. Nú stóðu samtökin
að áheitasöfnun meðal almennings
og söfnuðu nægu fé til að hreppa
gripinn.
Charlotte Brontë skrifaði sex
slíkar bækur á þessum tíma, fimm
eru enn til og hinar fjórar þegar
varðveittar á safninu.
Ljósmynd/Aguttes
Smárit Titilsíða bókarinnar sem Charlotte Bronte samdi árið 1830.
Smárit Charlotte
Brontë fer heim
82 milljónum kr. safnað fyrir bók
Böðvar Páll Ásgeirsson
bodvarpall@mbl.is
Lífgrös og leyndir dómar: Lækn-
ingar, töfrar og trú í sögulegu ljósi
er ný bók Ólínu Kjerúlf Þorvarðar-
dóttur þjóðfræðings. „Þetta er í
rauninni bók um þjóðfræði lækning-
anna. Þekkingarfræðina aftan úr
öldum og til samtímans má segja,“
segir Ólína. „Í bókinni eru upplýs-
ingar um elstu íslensku lækninga-
ráðin, sem mörg hver voru furðuleg
og fjarstæðukennd en önnur hafa
staðist tímans tönn,“ bætir hún við.
„Ég kynntist þessu viðfangsefni
þegar ég var að skrifa doktors-
ritgerðina mína um brennuöldina,
það er að segja galdramálin á Íslandi
á 17. öld. Þá skoðaði ég öll galdramál
sem komu fyrir í dómabókum Al-
þingis og áttaði mig á því að í lang-
flestum tilvikum var verið að dæma
fólk á bálið fyrir lækningaviðleitni.
Það virtist ekki vera gerður mikill
greinarmunur á lækningum og
galdri á þessum tíma og óljóst hvar
skilin lágu,“ segir Ólína.
Hún segir þetta hafa orðið til þess
að hún fór að kynna sér betur efni
gamalla lækningabóka. „Ég vildi
skoða hvernig þessi þekkingar- og
hugmyndasögulegu tengsl voru og
sú athugun varð til þess að elstu ís-
lensku lækningahandritin rak á
fjörur mínar. Meðal þeirra er rit
sem varðveitt er í Árnasafni og ég
tel að rekja megi beint til Hrafns
Sveinbjarnarsonar, merkasta læknis
þjóðveldisaldar. Hingað til hafa
lækningar Hrafns einungis verið
þekktar af frásögnum í sögu hans,
en nú gæti verið komið fram gagn
sem sýnir hvaða þekkingargrunn
hann hafði,“ segir Ólína.
„Með því að lesa þau og bera þau
saman við seinni tíma heimildir sé ég
hvernig þekkingin þróaðist frá því
að vera innfluttur þekkingararfur
frá Evrópu, þar sem helst er getið
um erlendar jurtir, yfir í að verða
innlend þekking á íslenskum lækn-
ingagrösum.“
Spurð segist Ólína aðallega skoða
íslenska þekkingu og fræði í bókinni.
„Ég lít þó líka til eldri fortíðar og út
fyrir landsteina áður en lækningar
koma við sögu okkar Íslendinga.“
Viðauki við bókina er viðamikill og
þar má finna allar íslensku lækn-
ingajurtirnar sem þekkust frá því að
land byggðist og fram á 18. öld
ásamt upplýsingum um náttúru-
steina og annað sem talið var að
kæmi að notum. Þá segir Ólína bók-
ina aðgengilega fyrir jafnt fræði-
menn sem almenning, enda sé hún
skrifuð með báða hópana í huga.
Engin töfralausn við neinu
– Er mikilvægt að fólk þekki
þessa sögu?
„Já, ég held að það sé mjög nauð-
synlegt fyrir nútímamanninn, sér-
staklega núna þegar við erum að
átta okkur á því á 21. öld að vísindin
eiga kannski ekki svar við öllu. Að
einhverju leyti þurfum við að hverfa
aftur til heildrænni aðferða í heil-
brigðismálum en við gerðum til
dæmis mestalla 20. öldina þegar við
héldum að það væri til pilla við öllu.“
Ólína segir að með bókinni hafi
hún viljað brúa bilið milli gamallar
þekkingar og nýrrar. „Til að mann-
kynið geti þróast í farsælar áttir
þurfum við að horfa til fortíðar og
skilja hvernig þekking okkar er til
orðin, á hverju hún byggir.“
Hún bætir við að þó að vísindin
hafi að ýmsu leyti snúið baki við
eldri hugmyndafræði hafi fortíðin á
vissan hátt vitjað okkar á ný. Fólk sé
í ríkari mæli að átta sig á gildi þess
að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl og
góðar matarvenjur og skoða hvaða
ráða það geti sjálft gripið til áður en
ráðist er í róttæk læknisfræðileg
inngrip.
„Þetta var það sem Hippókrates
boðaði á sinni tíð. Mér finnst eins og
augu fólks séu að opnast fyrir því að
hefðin og nútímavísindin þurfi að
ganga hönd í hönd.“
Morgunblaðið/Hari
Fræði Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir fjallar um þjóðfræði lækninganna í
bókinni Lífgrös og leyndir dómar: Lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi.
Ekki til pilla við öllu
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir hefur skrifað bók um
þjóðfræði lækninga hér og skoðar þróun lækningafræða
Einlæg saga af konu áfimmtugsaldri sem tekurþá drastísku ákvörðun aðskilja birtist í Tilfinn-
ingabyltingunni. Sagan er raunsæ
og leiðir lesandann í gegnum sorg-
legt en frelsandi ferli.
Auður hefur ekki farið í felur með
það að þótt bókin sé skáldsaga sé
hún sprottin upp úr skilnaði höf-
undar. Það skilar sér vel til lesand-
ans að þarna sé um einhvers konar
afhjúpun að ræða og sú afhjúpun
veitir sögunni aukna dýpt.
Í bókinni er mikið rætt um ber-
skjöldun og skömm og aðal-
persónan gerir vel heppnaða tilraun
til þess að horfast í augu við
skömmina, sem fylgir skilnaði, áföll-
um í æsku og öðru, og segja henni
að hypja sig.
Bókin færir lesandann nær þess-
um veruleika skilnaðarins sem ótal
Íslendingar hafa
gengið í gegnum.
Hver skilnaðar-
saga er eflaust
einstök en það er
auðvelt að ímynda
sér, án þess að
vera fráskilin
kona á fimmtugs-
aldri, að í bókinni
sé margt að finna sem aðrir sem
hafa gengið í gegnum svipað tengi
við. Auður lýsir sammannlegum
þáttum og reynslu með hrein-
skilnum hætti og snertir þannig við
lesandanum.
Höfundur spyr áleitinna spurn-
inga um stofnunina hjónaband, hver
ertu án þess sem þú hefur verið
með í 18 ár? „Kannski er hjónaband
virkjun á náttúrunni í manni. En
hver er maður þegar virkjunin
brestur?“ Svarið er einfalt og Auður
ber það á borð fyrir lesandann. Þá
er maður brostin stífla sem flæðir
út um allt.
Er það svo slæmt? Það er alla
vega ekki niðurstaða bókarinnar.
„Stofnunin hjónaband getur um-
breyst í tálsýn þess sem við viljum
vera; tjáningin svo mikil þjáning að
það verður að beisla hana svo stofn-
unin fái haldið,“ segir í bókinni, og
þá er nú skárra að vera brostin
stífla en stofnun.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Höfundurinn „Bókin færir lesandann nær […] veruleika skilnaðarins sem
ótal Íslendingar hafa gengið í gegnum,“ segir um bók Auðar Jónsdóttur.
Brostin stífla
skárri en stofnun
Skáldsaga
Tilfinningabyltingin
bbbbn
Eftir Auði Jónsdóttur.
Mál & menning, 2019. Innb., 246 bls.
RAGNHILDUR
ÞRASTARDÓTTIR
BÆKUR