Feykir


Feykir - 11.10.2017, Page 8

Feykir - 11.10.2017, Page 8
upp úr sósunni lét hún gott heita. Heldur vansælir klárar voru bundnir á streng sem tíðkaðist víða og fram voru dregnir þrír sem voru langt frá því að teljast fjörhestar, en öruggir. Reiðverin voru ákaf- lega fábrotin og þegar við vildum láta lengja í ístöðunum vandaðist málið sem endaði með því að Arnór reið með annað hnéð við höku en hitt öllu neðar. Til fylgdar reið hinn átta ára Toumool með og sá kunni öll trixin í bókinni, hvatti okkur til dáða og hrósaði þegar við átti. Til eru rannsóknir sem styðja að upphaflega sé íslenski hesturinn m.a. kominn frá Mongólíu. Sé svo hefur hrossaræktinni hér heima fleygt nokkuð fram a.m.k. hvað ganghæfni varðar. Klaustrið er innst í dalbotni þjóðgarðsins en hvarvetna í dalnum gat að líta mikla uppbyggingu tengda ferðamönnum, bæði hefðbundar tjaldbúðir með hinum hringlaga hirðingja- tjöldum, Gerum eða Júrtum en einnig nokkur hótel. Okkur var svo tjáð að fjárfestar, margir hverjir erlendir væru að byggja þarna spilavíti og ala þá von að dalurinn verði gerður að skattaparadís. Það vakti einnig athygli okkar hve víða gat að líta hálf- karaðar yfirgefnar byggingar, jafnvel heilu blokkirnar, bæði til sveita og í höfuðborginni. Tjáði heimildarmaður okkar að sjötíu prósent framkvæmda væru ekki kláraðar vegna fjár- skorts eða minnkandi áhuga fjárfesta. Hjarðmennska er enn ríkjandi meðal bænda og af og stundum á veginum mátti sjá búpening á beit. Geitur, fé, og nautgripi allt í bland, kæruleysilega búhætti sem hálf eyðilögðu fríið fyrir Arnóri lausagöngulöggu Skaga- fjarðar. Stóð gengu laus með graðhesti í og allvíða voru hryssur í hafti sem þá voru mjólkaðar, en í matvörubúðum var í sömu hillunni kapla-, kúa- og kamelmjólk fáanleg. Hjarðhegðum kindanna var eftirtektarverð, héldu sig í þéttum hópi og bitu nánast allar til sömu áttar, væntanlega einhver eðlisviðbrögð vegna rándýra. Kínamúrinn hápunkturinn Frá Ulaanbatur til Peking fórum við með kínverskri lest þar sem aðbúnaður var heldur verri en í þeirri rússnesku svo fá lúxusvandamál komu upp. Þannig hagar til að klósett eru í báðum endum vagnanna og að notkun lokinni er stigið á fótstig sem sendir frálagið beint niður á teinana nema rétt á meðan stansað er, þá eru salernin læst. Þar sem sporbreidd teinanna er önnur í Kína varð langur stans á landamærunum bæði vegna vegabréfaskoðunar en aðallega vegna þess að skipta þurfti um hjólabúnað undir vögnunum. Því vorum við lítt sofin er komið var að morgni til Peking eftir m.a. ferð í gegnum Gobi eyðimörkina. Mannhafið, niðurinn og hitinn tóku á móti okkur af fullum þunga enda bera tuttugu milljónir íbúa borgarinnar sig yfir með ákaflega fjölbreyttum hætti. Við þrönga hliðargötu, svokallaða Hutong götu, fund- um við farfuglaheimilið okkar en Hutong er á kínversku hljóðið sem heyrist þegar steini er kastað í brunn. Þessar þröngu hliðargötur eru því eins og síminnkandi gárur út frá miðju torginu þar sem brunnurinn stóð. Margt var að sjá í Peking þessa sex daga sem við dvöldum s.s. Forboðna borgin og að sjálfsögðu Torg hins himneska friðar sem áhrifamikið er að heimsækja. Hápunktur ferðarinnar var samt vafalítið skoðunarferð að Kínamúrnum sem teygir sig 9000 km um landið, þar af 6500 manngerðir. Mannvirki sem tók fleiri aldir að reisa og liðast um hæstu fjallatoppa þar sem við komum að honum. Frá Peking flugum við svo til baka með viðkomu í Kænugarði og Berlín þar sem Guðrún hýsti okkur í tvær nætur áður en haldið var heim síðasta spölinn af 25.000 km, fjórum vikum eftir brottför úr Varmahlíð. Ferðina skipulögðum við sjálf ef frá eru talin miðakaupin í lestina sem þýsk ferðaskrifstofa sá um. Töluverðan undirbúning þarf vissulega til, því t.d. þarf að útvega vegabréfaáritanir og bólusetningar í tíma. Allt sem lagt var upp með stóðst. Flug og gististaðir sem allir voru vel staðsettir en misgóðir eins og gengur. Ferðabók Lonely Planet er nauðsynleg biblía og snjallt er að verða sér úti um síma og netkort í hverju landi. Engum varð misdægurt og ferðin í alla staði vel heppnuð. Gunnar Rögnvaldsson, Arnór Gunnarsson og Guðrún Jónsdóttir Nei, þetta er ekki á Öxnadalsheiðinni. Hefði Gengis Kan sigrað með þessum í liði? Fuglatemjarinn? Vonandi eltir hann Gunnar ekki í æðarvarpið. Laugardagur í Peking. Hér þarf miðið að vera rétt. Hádegismaturinn. Heima er best. Fyrsta og eina staupið í ferðinni. 8 38/2017

x

Feykir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.