Feykir


Feykir - 19.09.2018, Blaðsíða 9

Feykir - 19.09.2018, Blaðsíða 9
Frelsistilfinningin grípur bæði hesta og menn Aðspurður segir Haukur að hjá mörgum sé þetta örugglega hápunkturinn á árinu og bæði á Blönduósi og í sveitunum í kring sé frátekin gisting nánast árið fyrirfram. „Þetta lengir túratímabilið, eins og hjá mér, og það er auðveldara að selja þetta því þetta er svona viðburður. Þetta er svolítið spes, meira en bara venjuleg hestaferð. Það er bara ein brottför sem er svona á ári, og ein Víðidalstungurétt en við förum kannski átta eins túra yfir sumarið. Margir eru búnir að prófa þetta allt saman. Svo förum við í fjársmölun líka hérna fram að Auðkúlurétt, það er líka alveg rosalega skemmtilegt, þá ríðum við hér fram á Auðkúluheiðina og fáum að reka niður Sléttárdalinn með höfðingjunum þarna, 10-12 þúsund kindur. Þetta er stærsta fjárréttin hér um slóðir.“ Haukur segir að margir þeir sem koma í stóðréttarferðirnar með honum eigi hest frá Íslandi. Þeim þyki gaman að sjá þeirra náttúrulega umhverfi og finnst þetta alveg magnað. „Og ég held þetta sé nú dýrmætt fyrir okkur líka upp á hestasöluna og eins það að við höldum okkur við það að leyfa hestunum að vaxa upp í svona stóru og víðáttumiklu umhverfi, í frelsinu sko. Frelsið gefur þessu sjarma og fólki finnst þetta alveg meiriháttar að sjá hvernig hrossin lifa þarna. Það er stór punktur í þessu líka og það heillar útlendingana. Þetta er þessi fjallasalur og það grípur um sig þessi frelsistilfinning. Maður finnur það líka á reiðhestunum. þeim finnst gaman að vera þarna, þetta er svona opið og frjálst þarna. Hvernig finnur maður það? Þeir verða svona vakandi og finnst þetta skemmtilegt, þeir sjá líka í lausu hrossin og lifna allir við. Þetta er svona fjölbreytt og skemmtilegt og þeir verða voða kátir að vera í þessum félagsskap og veðrast allir upp þegar stóðhrossin koma, gamlir geldingar þeir tjúnnast allir upp og halda að þeir séu ægilegir töffarar, ungir folar á ný. Þetta er eins og með okkur kallana, það er gaman að því,“ segir hestamaðurinn Haukur sposkur að lokum áður en hann heldur aftur út í hesthús að gera klárt fyrir hestaferð helgarinnar. Er þetta langur dagur? „Já, já, fullur dagur alveg. En það er mikið verið að stoppa og menn eru bara á einum hesti, kannski erum við með nokkra aukalega. Það er riðið dálítið og svo er stoppað og horft í kringum sig og sagðar sögur. Fyrir miðjum dal er rétt þar sem hrossunum er safnað saman og tekið gott hlé um miðjan daginn, svona milli 12 og 2. Það heitir Kirkjuskarð.“ Hægt er að keyra inn að réttinni í Kirkjuskarði og þangað koma mjög margir akandi á laugardeginum og taka þátt í gleðinni þar. Þaðan er svo haldið áfram niður í Skrapatungurétt þar sem er réttað á sunnudeginum. Haukur segir að fjöldi hrossanna sem verið er að smala sé breytilegur eftir árum. Áður hafi örugglega verið þarna um þúsund hross en þeim hafi fækkað mikið síðustu ár. „Það er nú eitt og annað sem veldur því, kannski að stórir hrossaeigendur eins og afi minn, Haukur á Röðli og fleiri reka ekki lengur á afrétt. Svo eru menn bara með hrossin sín heima, sumar merar þurfa að vera heima út af blóðtöku til dæmis. Þessu hefur heldur fækkað en það eru þarna alltaf einhver hundruð ennþá. Svo erum við að fara með hóp í Víðidalinn í byrjun október. Það eru býsna mörg hross þar, fleiri en í Skrapatungurétt.“ Hvernig er tilhögunin á þeirri ferð hjá þér? „Þá leggjum við af stað héðan á miðvikudegi og ríðum út í Sveinsstaði og svo næsta dag í Dæli sem er í Víðidalnum. Á föstudegi, það er aðaldagur- inn, þá ríðum við fram á heiðina með bændunum þar og fylgjumst með og fáum að taka þátt í að reka hrossin til baka. Svo er stóðréttin þar á laugardegi. Það er mikið mannlíf í kringum þetta líka og þessir útlendingar mínir hafa gaman af því að vera í kringum það, sjá alla þessa skrítnu bændur og kalla og kellingar sem eru svoldið svona orginal,“ segir Haukur glettnislega. Við víkjum aftur talinu að smöluninni á Laxár- dalnum. „Þetta er rosalega fjölmennur reiðtúr þarna á laugardeginum,“ segir Haukur, „margir hópar sem mæta og sameinast svo þarna á laugardaginn og líka alls konar prívat fólk sem er að koma og hitta fjölskyldu og vini. Svo er fullt af fólki sem er að smala þannig að þetta er býsna fjölmennur reiðtúr, kannski hátt á þriðja hundrað manns þarna á laugardeginum og það er náttúrulega svaka stemning í því, sungið og sprellað þarna uppi á Kirkjuskarði.“ Og pelinn látinn ganga? „Já, já, pelinn látinn ganga og svona,“ segir Haukur en bætir við aðspurður að það sé samt ekki nema bara svona passlegt fyllerí. „Það er orðið miklu, miklu minna. Þetta er bara svona fjölskyldufólk og krakkar og bara skemmtileg fjölskyldustemning.“ Og skiptir engu máli hvernig veðrið er? „Jú, auðvitað spilar það inn í, þetta verður allt miklu léttara og þægilegra í góða veðrinu en oftast höfum við nú verið býsna heppin. Það er oft mjög gott veður í september eins og er búið að vera núna. Það er svolítið pirrandi fyrir þá sem eru að sjá um þetta að þurfa að galla allan mannskapinn og svona. En yfirleitt er fólkið mjög vel útbúið líka, það eru allir klárir og það eru margir sem eru búnir að koma oft. En þetta er aldrei eins náttúrulega, það er það sem gerir þetta líka skemmtilegt fyrir okkur sem erum að standa að þessu, þetta verður aldrei nein rútína í þessum bransa.“ En nú er rekið í rétt á laugardegi og ekki réttað fyrr en á sunnudegi. Mætir fólk vel á sunnudaginn líka? „Já, já, það er ágætis mæting,“ segir Haukur. „Það er verið með uppákomur þarna líka. Sumir eru að selja hestana sína þarna og bjóða eitthvað. Svo eru fínar kaffiveitingar hjá kvenfélaginu, það stendur svo vel að þessu fólkið þarna og það er náttúrulega allt gert í sjálfboðavinnu. Svo er farið í einhverja leiki og gert eitthvert sprell. Þetta er mjög skemmtilegur staður.“ Haukur segir að útlend- ingarnir sem komi í réttar- ferðirnar hjá honum séu upp til hópa vanir knapar þó þeir hafi kannski litla eða enga reynslu af smölun en margir Íslendingarnir geti verið þaulvanir smalar. Stundum þurfi að snúast í kringum hrossin þó þau séu yfirleitt mjög auðræk og þegar þau séu komin upp á dalinn viti þau flest hvert þau eigi að fara. „Það er gaman að fylgjast með, maður sér þau svona í fjarlægð þarna í fjöllunum. Þetta er gríðarlega fallegt svæði líka, Í Strjúgsskarði. Frá vinstri: Hildur og Auður, systurdætur Hauks og Lilja, dóttir Hauks, lengst til hægri. MYND ÚR EINKASAFNI Hvíldarstund í Strjúgsskarði. MYND ÚR EINKASAFNI Laxárdalurinn,“ segir Haukur. „Ef þú vilt kynnast einhverju ekta dæmi á Íslandi þá mætir þú í stóðrétt. Það er fullt af fólki sem stílar inn á að taka þátt í þessu á einhvern hátt án þess að vera eitthvað á kafi í hestamennsku. Og fyrir Íslendingana líka er þetta bara svona ekta viðburður og mannlíf og skemmtilegt. Þetta er gaman að þessu fyrir mig og aðra sem eru í þessum ferðabransa, þessi jákvæðni hjá samfélaginu að taka allt þetta fólk með því auðvitað er þetta ákveðið álag á þessi raunverulegu smala- og réttarstörf en það er ótrúlega mikil jákvæðni og allir eru voðalega kátir og liprir í kringum þetta og tilbúnir að byggja allt upp í kringum þetta.“ Hestar og menn við eyðibýlið Kárahlíð í Laxárdal. MYND ÚR EINKASAFNI Séð heim að Hvammi í Vatnsdal. MYND: FE 35/2018 9

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.