Feykir


Feykir - 12.12.2018, Blaðsíða 9

Feykir - 12.12.2018, Blaðsíða 9
Hér birtast tvö erindi frá málþingi nemenda í Varmahlíðarskóla og Grunnskólans austan Vatna er haldið var á afmælisfagnaði í tilefni af 100 ára fullveldi Íslands og bar yfirskrift-ina Fullveldi – frelsi – lýðræði – hvað er nú það? Þrjú erindi birtust í síðasta tölublaði Feykis en tvö þau síðustu munu birtast í næsta blaði. /FE Erindi flutt á málþingi í Varmahlíð Fullveldi – frelsi – lýðræði – hvað er nú það? Við Íslendingar erum mjög lánsöm og heppin að búa hér á Íslandi þar sem við erum mjög framarlega eða fremst í mörgum jafnréttismálum. Samkvæmt stjórnarskránni eru allir jafnir fyrir lögunum og njóta mannréttinda án tillits til kyns, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, kynþáttar, fjárhagsstöðu fjölskyldu eða stöðu á nokkurn hátt, karlar og konur skulu hafa jafnrétti í öllum efnum. Hljómar vel ekki satt? En ekki er það þannig í öllum löndum þar sem konur mega eða geta ekki menntað sig, í mörgum löndum er jafnvel litið niður til manns ef maður er samkynhneigður, hefur annað litaraft eða lélega fjárhagsstöðu. Árið 2017 hafði Ísland verið fremst sjö ár í röð í könnun jafnréttismála Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, af 144 löndum hefur Ísland verið efst í að valdefla konur og númer eitt í að koma í veg fyrir launamisrétti sem ríkisstjórnin gerir kröfu um að gerist árið 2022. Samt sem áður er ekki nema tæpur þriðjungur kvenna í forstjórastöðum hér á landi og enn færri í stjórn fyrirtækja. Ísland hefur ekki alltaf verið opið fyrir samkynhneigðu fólki, baráttan var mikil en nú tekur íslenska þjóðin vel á móti því og flestir eru fordómalausir gagnvart því, eins og það ætti að vera alls staðar. Síðan 1990 hefur fjöldi laga tekið gildi varðandi samkynhneigð sem gerir Ísland að vingjarnlegu og næstum fordómalausu landi gagnvart samkynhneigðu fólki. Það er ennþá ójafnrétti og mikið sem þarf að bæta í alltof mörgum löndum, samfélögum og líka hér á Íslandi. Við þurfum að fræða yngri kynslóðina um að allir ættu að vera jafnir og allir ættu að vera umburðarlyndir gagnvart öðrum, jafnvel þó einhverjir séu öðruvísi en þeir sjálfir. Í samfélögum þar sem jafnrétti ríkir hlýtur hamingja að vera meiri því fordómar ættu að vera í lágmarki en þar sem ójafnrétti ríkir er fólki ekki frjálst að hafa eigin skoðun á lífsstíl, trú og fleiru, þar hlýtur hamingjan að vera minni. Lýðræðissamfélög hljóta að ala af sér hamingjusamara fólk en til dæmis í einræðisríki. Mér finnst að löndin sem eru eftir á í jafnréttismálum ættu að taka Ísland til fyrirmyndar því við erum með gott skólakerfi, tökum vel á móti samkynhneigðu fólki, konur hafa kosningarétt og við höfum mikið frelsi til að gera og vera það sem við viljum. Þótt það sé auðvitað margt sem við eigum eftir að bæta þá erum við samt framarlega í jafnréttismálum og ættum að vera þakklát og stolt að vera Íslendingar. Lýðræði þýðir að allir hafi réttindi, sínar eigin skoðanir og að þú getir verið þú sjálfur án þess að eiga á hættu á að verða fyrir aðkasti annarra í samfélaginu eða stjórnvalda. Eydís Eir Víðisdóttir 10. bekk Grunnskólanum austan Vatna Íslenskur þjóðfélagsþegn Konur hafa gengið langan veg í átt að jafnrétti í stjórnmálum og þó er Ísland mjög framarlega hvað það varðar. Fyrsta íslenska kvenfélagið var stofnað árið 1885 og settu þær strax á stefnuskrána: kosningarétt kvenna. Þær söfnuðu 2.348 undirskriftum út af áskorun til Alþingis um að samþykkja kosningarétt kvenna. Síðan var Kvenréttindafélag Íslands stofnað 1907 og heyrðist þá mikið í röddum kvenna um kröfu til kosningaréttar. Alþingi samþykkti stjórnarskrár- breytingu 1914 sem fól í sér að vinnumenn og konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt til Alþingis. Aldurstakmarkið átti að minnka á hverju ári þar til 25 ára takmarkinu yrði náð. Engin önnur þjóð í heiminum hafði haft aldursákvæði í kosningalögum. Reykvískar konur fögnuðu með miklum hátíðahöldum á Austur- velli engu að síður. Árið 1916 var síðan kosið í fyrsta skiptið eftir nýju lögum. Þá bættust í hópinn 12.050 konur. Þá höfðu um 52% kvenna 25 ára og eldri kosningarétt. Árið 1920 setti Alþingi síðan lög sem færðu öllum 25 ára og eldri kosningarétt, óháð kyni og atvinnu. Með því voru konur og vinnumenn með sömu réttindi og „karlmenn”. Ingibjörg H. Bjarnadóttir var fyrst kvenna kosin til Alþingis árið 1922. Auður Auðuns var fyrst kvenna til að verða borgarstjóri í Reykjavík. Hún var einnig fyrst kvenna til að verða ráðherra þegar hún sat sem kirkju- og dómsmálaráðherra. Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kvenna til að verða kjörin forseti og fyrst kvenna í heiminum til að vera kosin forseti í lýðræðislegum kosningum. Jóhanna Sigurðardóttir fyrst íslenskra kvenna í ríkisstjórn sem forsætisráðherra. Við íslenskar stelpur erum svo heppnar að eiga svona sterkar og flottar konur sem ruddu brautina fyrir okkur síðustu hundrað árin, þær börðust fyrir réttlæti og hættu ekki fyrr en þær fengu það. En af hverju er kosningaréttur kvenna mér hugleikinn? Jú, það er vegna þess að Ísland fékk fullveldi fyrir 100 árum og varð sjálfstætt ríki fyrir 74 árum síðan. Ísland er lýðræðisríki og meginstoðir lýðræðisríkja er sjálfstæði einstaklingsins sem þýðir að ekki megi þröngva skoðunum upp á hann og hin stoðin er jafnrétti hans; að allir eigi að hafa sömu möguleika á að hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta fólkið í samfélaginu. Þar kemur að kosningaréttinum. En hvernig er staðan hjá okkur í dag? Í dag er þó enn óréttlæti milli kynjanna og því enn mikilvægt að vinna að bættum kjörum kvenna í samfélaginu. Enn þann dag í dag fá konur ekki jafn mikið borgað og karlar fyrir sömu verk og enn eru ójöfn kynjahlutverkin í ýmsum störfum samtímans. Í dag eru 24 konur á Alþingi af 63. Af átta hæstaréttardómurum er ein kona. Í skólakerfinu var kynjahlutfall kennara 81% konur og 19% karlar árið 2014. Í fyrra var atvinnuþátttaka kvenna 76% en karla 86%. Af hverju ætli það sé? Samkvæmt Hagstofunni er hlutfall kvenna í framkvæmdastjórastöðum ansi lágt eða 22% í litlum fyrirtækjum en 10% í stórum fyrirtækjum. Af hverju ætli það sé? Að sama skapi eru fleiri konur með háskólamenntun en karlar. Sumstaðar ríkir enn mikið kynjamisrétti. Sérstaklega í stjórnmálum. Í sumum löndum hafa konur enn engan kosningarétt og í sumum löndum er skólaganga ekki greið stúlkum. Íslendingar eru því heppin þjóð og því hvet ég allt ungt fólk til að taka þátt í að móta samfélagið okkar. Kosningaþátttaka ungs fólks jókst sem betur fer bæði í síðustu alþingiskosningum og sveitarstjórnakosningum. Ég ætla að ljúka þessu á orðum Kofi Annas: „Enginn maður fæðist sem fyrirmyndarborgari, ekkert ríki fæðist sem lýðræðisríki. En í báðum tilvikum er um að ræða ferli sem er í stöðugri þróun. Ungmenni verða að taka þátt í því allt frá fæðingu.“ Anna Sif Mainka 10. bekk Grunnskólanum austan Vatna Konur í stjórnmálum á Íslandi Nemendur Varmahlíðarskóla flytja frumsaminn leikþátt sem kallaðist 17. júní. MYNDIR: FE 47/2018 9

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.