Bændablaðið - 17.01.2019, Qupperneq 8
Bændablaðið | Fimmtudagur 17. janúar 20198
FRÉTTIR
Fulltrúar Bændasamtaka Íslands
og stjórnvalda hafa skrifað undir
samkomulag um endurskoðun
á samningi um starfsskilyrði
sauðfjárræktarinnar. Viðræður
bænda og fulltrúa ríkisvaldsins
hófust 20. ágúst síðastliðinn og hafa
því staðið í rúma fjóra mánuði.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar
síðan búvörusamningar voru
gerðir árið 2016. Endurskoðunin,
sem nú lítur dagsins ljós, er
ætlað að sníða þá vankanta af
sem voru á samningnum og
bregðast við þeim forsendubresti
sem sauðfjárbændur hafa orðið
fyrir í sinni framleiðslu. Verðfall
á afurðum og gengisþróun hafa
leikið greinina grátt síðustu
misseri.
Markmið samkomulagsins er
meðal annars að stuðla að auknu
jafnvægi framboðs og eftirspurnar
á markaði með sauðfjárafurðir og
skapa verkfæri til þess að takast
á við sveiflur í ytra og innra
umhverfi greinarinnar. Áhersla
er lögð á að auðvelda aðlögun
að breyttum búskaparháttum eða
nýrri starfsemi með sérstökum
aðlögunarsamningum. Þær breytingar
sem gerðar eru á samningnum kalla
ekki á aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.
Styrkir grundvöll
sauðfjárræktarinnar
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs-
og landbúnaðarráðherra, sagði við
undirritun samkomulagins að það
myndi styrkja grundvöll íslenskrar
sauðfjárræktar. „Sérstaklega er
ánægjulegt að stuðlað verður að
meira jafnvægi milli framboðs
og eftirspurnar á markaði með
sauðfjárafurðir en það hefur verið
einn helsti vandi greinarinnar
undanfarin ár. Jafnframt má nefna þá
ánægjulegu breytingu að við veitum
bændum meira frelsi með sérstökum
aðlögunarsamningum til að nýta
tækifæri framtíðarinnar – bændum
og neytendum til heilla.“
Verkfæri til að takast á við sveifur
„Í samkomulaginu koma inn
ferlar til að takast á við sveiflur í
rekstrarumhverfi sauðfjárræktarinnar,
það er mikilvægt,“ segir Oddný Steina
Valsdóttir, formaður Landssamtaka
sauðfjárbænda. Hún segir jafnframt
að dregið verði úr framleiðsluhvata
stuðningsgreiðslna. „Eftir sem
áður er stefnt að því að jafna stöðu
bænda sem starfa innan samningsins
og draga úr kostnaði greinarinnar
af kerfinu. Þá eru samningsaðilar
sammála um mikilvægi þess að
ná fram hagræðingaraðgerðum
innan afurðageirans, að því marki
verður áfram að vinna. Ég tel að
þær breytingar sem samkomulagið
felur í sér sé jákvætt skref sem muni
styðja við aukna verðmætasköpun
afurða. Þá er einnig ánægjulegt
að samhliða þessu samkomulagi
hefur ríkisstjórnin ákveðið að hefja
kolefnisverkefni í samstarfi við
sauðfjárbændur. Gæði, fagmennska
og heilnæmi er aðalsmerki okkar
sauðfjárbænda og á þeim styrkleikum
ætlum við að byggja til framtíðar,“
segir Oddný Steina.
Aðlögunarsamningar gerðir við
bændur
Heimilt verður að gera
aðlögunarsamninga við bændur sem
tilbúnir eru að hætta eða draga úr
sauðfjárbúskap og reyna fyrir sér í
nýrri starfsemi. Framleiðendur geta
óskað eftir að gera slíka samninga til
ársins 2022.
Breytingar verða gerðar á
fyrirkomulagi beingreiðslna,
gripagreiðslur falla út og hlutföll til
einstakra verkefna breytast. Markmið
þeirra breytinga er að draga úr
vægi greiðslna sem tengdar eru við
framleitt kjötmagn eða gripafjölda.
Heildarfjárhæð greiðslna hvers árs
verður sem áður samkvæmt gildandi
samningi en áhersla er frekar lögð á
stuðning sem er síður hvetjandi til
offramleiðslu.
Markaður fyrir greiðslumark
Stofnsettur verður markaður fyrir
greiðslumark sem verður í höndum
Búnaðarstofu Matvælastofnunar.
Greiðslumark verður innleyst og boðið
til sölu á innlausnarverði ár hvert.
Heimilt er að gefa ákveðnum hópum
framleiðenda forgang á kaupum á því
greiðslumarki sem boðið verður til
sölu hverju sinni.
Framleiðslujafnvægi
Í samkomulaginu er ákvæði sem ætlað
er að stuðla að framleiðslujafnvægi
á sauðfjárafurðum. Fjárhæðum
samkvæmt þeim lið verður ráðstafað
ef bregðast þarf við breytingum á
framboði og eftirspurn á markaði.
Það verður m.a. gert með því að
efla markaðsfærslu sauðfjárafurða
og greiða sérstakar uppbætur fyrir
slátrun áa til fækkunar. Þá verður
komið á fót svokallaðri innanlandsvog
sem skilgreinir þarfir og eftirspurn
innanlandsmarkaðar eftir kindakjöti.
Ásetningshlutfall verður lækkað
úr 0,7 í 0,6 frá og með 1. janúar
2020. Jafnframt er gerð sú breyting
að ráðherra verður heimilt að
endurmeta hlutfallið árlega að
fenginni tillögu framkvæmdanefndar
búvörusamninga, með tilliti til
innanlandsvogar og þróunar
á framboði og eftirspurn
sauðfjárafurða. Í núgildandi samningi
er ásetningshlutfallið ákveðið í
lögum.
Samstarf við sauðfjárbændur um
kolefnisjöfnun
Samhliða undirrituninni var tilkynnt
að ríkisstjórnin hefði samþykkt
að gengið verði til samstarfs við
sauðfjárbændur á árinu 2019 um
kolefnisjöfnun greinarinnar. Unnið
verður að þróun og innleiðingu
verkefnisins á grundvelli þeirra
tillagna og greininga sem fram hafa
komið. Verkefnið verður vistað í
umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
og unnið í samstarfi við atvinnuvega-
og nýsköpunarráðuneytið.
Næsta endurskoðun árið 2023
Endurskoðun sauðfjársamnings
fer fram næst árið 2023. Þá verður
fyrst og fremst horft til þess
hvernig framleiðsla sauðfjárafurða
og afkoma í greininni hefur þróast
og hvernig markmið samningsins
og þess samkomulags sem nú er
gert hafa gengið eftir. Einnig skal
skoða þróun í bústærð, fjölda búa
eftir svæðum og fjárfjölda í landinu.
Þá skal endurskoða býlisstuðning,
bæði fjárhæðir og þrep.
Sérstök bókun var gerð í
samkomulagið þar sem lögð
er áhersla á að mikilvægt sé að
ná fram aukinni hagræðingu í
greininni og að kannað verði hvort
sláturleyfishafar geti átt samstarf
um afmarkaða þætti í starfsemi
sinni.
Í viðaukum samkomulagsins
er fjallað með nákvæmari hætti
um aðlögun að nýrri starfsemi til
sveita, fyrirkomulag beingreiðslna
og þróun afurðaverðs og fjárfjölda.
Samkomulagið var undirritað
með fyrirvara um samþykki Alþingis
á nauðsynlegum lagabreytingum og
samþykki félagsmanna LS og BÍ í
atkvæðagreiðslu sem haldin verður
á næstu vikum.
Kynningu á samkomulaginu
er að finna á vef BÍ og LS, www.
bondi.is og www.saudfe.is. Að auki
verða kynningarfundir auglýstir á
næstunni og eru bændur beðnir
að fylgast með upplýsingasíðum
bænda á netinu. /TB
Bændur og ráðamenn skrifa undir endurskoðaðan sauðfjársamning:
Ætlað að stuðla að auknu jafnvægi
í framleiðslu kindakjöts
– Bændum gert kleift að minnka umsvif. Kallar ekki á aukin útgjöld ríkissjóðs
Samkomulagið var undirritað í fjármálaráðuneytinu á föstudaginn var. Frá vinstri: Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður
endurskoðunarhóps, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra, Sindri
Sigurgeirsson, formaður BÍ og Oddný Steina Valsdóttir, formaður LS. Mynd / TB
Inn- og útflutningur á kjöti:
Miðað er við nettóvigt í
öllum tilvikum
Nokkur styr hefur staðið um
umreikning á tollkvótum þegar
rætt er um „ígildi kjöts með beini“
eða beinlausa vöðva. Það hefur þótt
skjóta skökku við að innflutningur
hefur verið reiknaður án beina
en útflutningur á kindakjöti með
beini. Í bréfi frá atvinnuvega-
og nýsköpunarráðuneytinu sem
sent var Félagi atvinnurekenda
um áramótin, kemur fram að hér
eftir verði miðað við nettóvigt af
öllu kjöti við útreikning tollkvóta.
Í tillögum starfshóps sem
þáverandi sjávarútvegs- og
landbúnaðarráðherra skipaði og
hafði það hlutverk að kanna áhrif
tollasamnings við ESB kom meðal
annars fram „ … að við útreikning
á magni tollkvóta við innflutning
verði miðað við ígildi kjöts með
beini, í samræmi við alþjóðlegar
skuldbindingar“. Þessum áformum
mótmælti Félag atvinnurekenda
(FA) í bréfi til ráðuneytisins þann
7. maí á síðasta ári. Vísaði félagið
í að hvergi væri kveðið á um að
tollfrjálsir innflutningskvótar fyrir
kjötvörur skuli miðaðir við kjöt
á beini. Í umfjöllun um málið í
Morgunblaðinu á sínum tíma var
fullyrt að ef þessi reikniregla yrði
ofan á þýddi það að tollkvótarnir
myndu nýtast ver og þriðjungi minna
kjöt flutt inn án tolls en ella hefði
orðið. Í bréfi FA var því spurt hvaða
reiknireglum ráðuneytið hygðist
beita við umreikning tollkvóta og
á hvaða grunni þær voru byggðar.
Íslenskt kindakjöt reiknað með
beini inn á innri markað ESB
Svar barst frá atvinnuvega- og
nýsköpunarráðuneytinu 28.
desember sl., eða tæpum 8
mánuðum eftir að bréf FA var sent
til ráðuneytisins. Á svarinu má skilja
að hér eftir verði miðað við nettóvigt
á kjöti en ekki umreiknað í „ígildi
kjöts með beini“. Ráðuneytið bendir
á að í eldri tollasamningi, sem nýi
samningurinn hafi leyst af hólmi,
hafi ávallt verið miðað við nettóvigt
kjöts. Þar segir: „Ekki voru gerðar
athugasemdir við það af Íslands
hálfu en bent á mikilvægi þess að
samræmis væri gætt í útreikningi
einstaka afurðategunda í kvóta
og að ekki væri mismunað milli
kjöttegunda. Framkvæmd ESB
við innflutning á kindakjöti hafði
hins vegar verið með þeim hætti að
reiknistuðli (1,67) var beitt þannig
að bein voru reiknuð inn í vigtina
og þar með gekk hraðar á kvótann.“
ESB búið að breyta reglunni
Í bréfi ráðuneytisins til FA segir
að íslenskir embættismenn hafi á
sínum tíma vakið athygli á því að
þessi framkvæmd hafi orðið til
þess að íslenskir útflutningsaðilar
hafi þurft að taka til baka sendingar
með tilkostnaði. Í bréfinu segir
orðrétt: „Málið hafði því verið til
skoðunar vegna þessa en nú nýlega
fengust þær upplýsingar að þessari
framkvæmd hefur verið breytt og
er nú miðað við nettóvigt í öllum
tilvikum. Þar af leiðandi gerir
ráðuneytið ekki ráð fyrir því að svo
stöddu að framkvæmdinni verði
breytt frá því sem verið hefur hvað
varðar ofangreint.“
Kom útflytjendum á óvart
Samkvæmt heimildum Bænda-
blaðsins kom þessi breyting
útflytjendum spánskt fyrir sjónir.
Sláturleyfishafar hættu nokkrir
útflutningi á kindakjöti í nóvember
þar sem útflutningskvótinn var
fullnýttur. Dæmi eru um að
útflytjendur hafi þurft að koma
íslensku kjöti fyrir í frystigeymslum
erlendis, til að bíða nýs kvótaárs,
með ærnum tilkostnaði. Það hefði
ekki þurft hefði kjötið verið reiknað
með sambærilegri reglu og hefur gilt
um annað kjöt en íslenskt kindakjöt
hingað til. /TB
Endurskoðun sauðfjársamnings og kvótakerfi í mjólk:
Atkvæðagreiðslur meðal
bænda fram undan
Í kjölfar endurskoðunar sauð-
fjársamnings og ákvæðis í
búvörusamningum um kosningu
meðal mjólkurframleiðenda
um framtíð kvótakerfis í
mjólkurframleiðslu munu
Bændasamtök Íslands boða til
tveggja atkvæðagreiðslna meðal
bænda á næstu vikum. Nákvæmar
dagsetningar liggja ekki fyrir enn
sem komið er.
Sauðfjársamningur
Í auglýsingu sem birt er í
Bændablaðinu á blaðsíðu 45
segir um atkvæðagreiðslu um
sauðfjársamning að hún fari fram
með rafrænum hætti í febrúar og /
eða í mars næstkomandi. Boðað
verður til atkvæðagreiðslunnar með
formlegum hætti með auglýsingu
í Bændablaðinu sem kemur út
þann 14. febrúar nk. Þá verða
allar upplýsingar um framkvæmd
atkvæðagreiðslunnar kynntar.
Kosningarétt hafa einstaklingar sem
eru félagsmenn í Bændasamtökunum
og/eða Landssamtökum sauð-
fjárbænda og eru jafnframt með
virkt bú í skýrsluhaldi BÍ. Í
aðdraganda atkvæðagreiðslunnar
verða haldnir kynningarfundir sem
auglýstir verða síðar. Samningurinn
sjálfur er aðgengilegur á vef BÍ,
bondi.is og LS, saudfe.is, ásamt
kynningarmyndbandi þar sem farið
er yfir helstu atriði.
Kvótakerfi í mjólkurframleiðslu
Í samningi um starfskilyrði
nautgriparæktarinnar sem
undirritaður var árið 2016 var kveðið
á um að atkvæðagreiðsla skyldi fara
fram meðal mjólkurframleiðenda
við endurskoðun samningsins árið
2019 um það hvort kvótakerfi í
mjólkurframleiðslu skuli afnumið
frá og með 1. janúar 2021.
Atkvæðagreiðslan mun fara fram
með rafrænum hætti og áformað er að
hún fari fram í febrúar. Kosningarétt
hafa allir mjólkurframleiðendur
án tillits til félagsaðildar. Hver
innleggjandi hefur eitt atkvæði og
kosningarétt hafa jafnt lögaðilar
og einstaklingar. Framkvæmd
kosningarinnar, reglur og annað sem
snýr að atkvæðagreiðslunni verður
kynnt nánar þegar nær dregur. Boðað
verður til atkvæðagreiðslunnar með
formlegum hætti í Bændablaðinu 31.
janúar næstkomandi. /TB