Bændablaðið - 17.01.2019, Síða 12
Bændablaðið | Fimmtudagur 17. janúar 201912
FRÉTTIR
Samdráttur í sauðfjársæðingum um 40% frá 2016:
Staðan grefur undan starfsemi
sæðingastöðvanna
– Slæmar fréttir fyrir kynbótastarfið
Í samantekt Eyþórs Einarssonar,
ábyrgðarmanns í sauðfjárrækt
hjá Ráðgjafarmiðstöð land-
búnaðarins (RML), um nýliðna
sauðfjársæðingavertíð, kemur
fram að samdráttur hafi orðið í
sauðfjársæðingunum annað árið
í röð.
Samkvæmt yfirliti Eyþórs
er samdrátturinn á milli síðustu
tveggja ára um 18 prósent og frá
2016 er hann um 40 prósent, mestur
á Suðurlandi og Vesturlandi.
Eyþór birti niðurstöður sínar
á vef RML á dögunum þar sem
fram kemur að nokkuð ljóst sé að
þeir erfiðleikar sem greinin stóð
frammi fyrir eftir að afurðaverð
hrundi haustið 2017 hafi haft bein
áhrif á umsvif ræktunarstarfsins
og þar með neikvæð áhrif á
rekstur sæðingastöðvanna. Til
lengri tíma geti sú staða dregið úr
kynbótaframförum og segir Eyþór
að snúa þurfi vörn í sókn.
Minni tími aflögu hjá bændum
„Ástæður fyrir því að það dregur
úr sauðfjársæðingum geta verið
nokkrar en að öllum líkindum
fyrst og fremst afleiðing af
stöðunni í greininni. Í fyrsta lagi
er framleiðslan heldur að dragast
saman. En það sem vegur kannski
þyngra er að margir hafa hreinlega
ekki tíma til að sinna þessu, því
þeir hafa bætt við sig aukinni
vinnu til að mæta tekjutapinu og
því minni tími aflögu til að sinna
sauðfjárbúinu. Þá eru einhverjir
sem eru hreinlega að skera niður
allan kostnað,“ segir Eyþór.
Framtíð sauðfjársæðinga í hættu
„Framfarir í sauðfjárrækt hafa að
miklu leyti verið drifnar áfram í
gegnum sæðingarnar. Það má því
leiða að því líkur að ef þátttaka
í þeim minnkar mun hægja á
framförum. Markmið kynbótanna
er að rækta gripi sem skila meiri
arði, fé sem hefur getu til að skila
sem mestum afurðum af sem
bestum gæðum. Það getur því verið
vafasamur sparnaður, sértaklega
fyrir bú sem á talsverð sóknarfæri
í því að bæta afurðirnar, að skera
niður í kynbótastarfinu.
Þá hlýtur einnig að verða
óhagkvæmara að reka sæðinga-
stöðvarnar ef það verður mikill
samdráttur í notkun sæðinga
og verður það líklega talsverð
áskorun á næstunni að halda úti
öflugri sæðingastarfsemi. Ef til
þess kemur að þurfi að hækka
sæðingagjöldin til að standa undir
rekstrinum má ætla að það dragi
enn frekar úr þátttökunni og því
þarf væntanlega að fara vandlega
yfir það hvernig við getum sem best
staðið vörð um þetta mikilvæga
starf sem stöðvarnar sinna,“ segir
Eyþór enn fremur.
Drjúgur frá Hesti vinsælastur
Sá hrútur sem fékk mesta notkun
þennan veturinn var Drjúgur 17-
808 frá Hesti en úr honum voru
sendir út 2.020 skammtar. Þetta
er nokkuð meiri notkun en 2017
þegar sendir voru 1.835 skammtar
úr hrútnum Mávi 15-990 frá
Mávahlíð. Næstflestir skammtar
voru útsendir úr Durt 16-994 frá
Hesti, eða 1.685 skammtar. Af
kollóttu hrútunum var mest sent
út af sæði úr Guðna 17-814 frá
Miðdalsgröf, 955 skammtar.
Í yfirferð Eyþórs tiltekur hann
nokkra hrúta sem hafa verið í
notkun en ákveðið hafi verið að
að fella eða búið er að fella með
tilliti til aldurs, heilsu og notkunar;
Kölski 10-920, Borkó 11-946,
Kraftur 11-947, Malli 12-960, Brúsi
12-970, Klettur 13-962, Bergsson
14-986 og Drangi 15-989.
Vinsælustu sæðingahrútarnir
með 1.000 skammta eða meira
• Drjúgur 17-808 frá Hesti
(2.020 skammtar)
• Durtur 16-994 frá Hesti (1.685
skammtar)
• Fáfnir 16-995 frá Mýrum 2
(1.571 skammtar)
• Klettur 13-962 frá Borgarfelli
(1.450 skammtar)
• Fjalldrapi 15-805 frá Hesti
(1.135 skammtar)
• Gunni 15-804 frá Efri-Fitjum
(1.120 skammtar)
• Tvistur 14-988 frá Hríshóli
(1.080 skammtar)
• Mávur 15-990 frá Mávahlíð
(1.060 skammtar)
• Spakur 14-801 frá Oddsstöðum
(1.025 skammtar)
/smh
Drjúgur 17-808 frá Hesti var vinsælastur í nýliðinni sauðfjársæðingavertíð.
Eyþór Einarsson er ábyrgðarmaður
í sauðfjárrækt hjá RML. Mynd / RML
Fyrsta fræið sem spírar á tunglinu.
Garðyrkja í geimnum:
Fyrsta fræið spírar
á tunglinu
Kínverjar hafa gert
tilraun með að láta fræ
spíra um borð í tungl-
flauginni Chang´e-4
sem lenti fyrir skömmu
á dökku hlið tunglsins
sem snýr frá jörðu.
Fræið sem um ræðir
og plantan sem upp af
því vex er bómullarplanta
og um leið fyrsta plantan
sem ræktuð er á tunglinu.
Fræ annarra tegunda sem
Kínverjar sendu til tunglsins eru
einnig farin að sýna fyrstu merki
um að fara að spíra.
Tunglflaugin Chang´e-4, sem
nefnd er í höfuðið á kínverskri
tunglgyðju, er fyrsta tunglfarið til
að lenda á þeirri hlið tunglsins sem
snýr frá jörðu. Á þeirri hlið er alltaf
myrkur og nístingskuldi.
Tilgangur Chang´e-4 leið-
angursins er að rannsaka yfirborð
tunglsins á þeirri hlið sem fæstir
hafa séð og að gera tilraunir með
ræktun plantna í lokuðu rými
tunglfarsins. Þrátt fyrir að rýmið
sem er ætlað til ræktunartilraunanna
sé ekki stærra en skúringarfata sem
er 16 sentímetrar í þvermál og 18
á hæð er þar auk bómullarfræja
að finna repju- og kartöflufræ og
plöntu sem kallast gæsamatur,
egg silkiorma og ger. Auk vatns
og jarðvegs.
Gangi allt eftir munu plönturnar
framleiða súrefni fyrir silkiormanna
og silkiormarnir áburð sem gerið sér
um að brjóta niður fyrir plönturnar
þannig að úr verði lítið en sjálfbært
vistkerfi svo lengi sem plönturnar fá
ljós og yl frá tunglfarinu.
Áður hafa verið gerðar tilraunir
með að rækta salat um borð í
alþjóðlegu geimstöðinni sem er
á sveimi umhverfis jörðina og
árið 2015 smökkuðu geimfarar
á fyrsta salatinu sem ræktað var í
geimnum. Rannsóknir sýna einnig
að þörungar hafa lifað í 530 daga
utan á geimstöðinni.
Rannsóknir á ræktun plantna og
matvæla í geimnum eru liður í því að
geta sent mönnuð geimför í langar
geimferðir sem taka mörg ár, áratugi
og jafnvel aldir.
Tilraunir Kínverja með líf á
tunglinu eru líklega merkilegustu
rannsóknir sem gerðar hafa verið
í geimnum frá því að Bandaríkja-
mönnum tókst að lenda mönnum
á tunglinu. Satt best að segja hef
ég aldrei verið eins spenntur fyrir
neinum rannsóknum síðan þá. /VH
Chang´e-4 og rannsóknarökutæki geimfarsins
á tunglinu.
Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar:
Telur úthlutun byggðakvóta
vera algjörlega óviðunandi
Atvinnu-, menningar- og kynn-
ing ar nefnd Sveitarfélagsins
Skaga fjarðar hefur mótmælt
harðlega niðurstöðum úthlutunar
byggða kvóta fyrir fiskveiðiárið
2018–2019.
Niðurstaða atvinnuvega-
og nýsköpunaráðuneytis hvað
Skagafjörð varðar, að því er fram
kemur í bókun nefndarinnar,
er að úthluta aðeins 15
þorskígildistonnum til Hofsóss
og 70 þorskígildistonnum til
Sauðárkróks. Nefndinni hefur borist
rökstuðningur ráðuneytisins fyrir
úthlutuninni.
Í bókun nefndarinnar segir að
niðurstaðan sé með öllu óásættanleg
hvað varðar úthlutun til Hofsóss
og ljóst að reglur um úthlutun
byggðakvóta mæta engan veginn
tilgangi þess að úthluta byggðakvóta
til byggðarlaga sem standa höllum
fæti, s.s. eins og til Hofsóss. Það
punktakerfi sem úthlutað er eftir
horfi aftur til síðustu 10 ára og mæli
samdrátt aflaheimilda og vinnslu
á þeim tíma en taki í engu tillit til
þess samdráttar sem orðið hefur
fyrir lengri tíma en 10 árum.
970% samdráttur á 8 árum
„Má því ætla að reglur
sjávarútvegsráðuneytisins geri ráð
fyrir að annaðhvort hafi sjómenn
gefist upp á þessum tíma eða þá
að ástandið hafi lagast með öðrum
hætti, en alls ekki að ástand geti
verið óbreytt eða verra en áður eins
og í tilfelli Hofsóss, sérstaklega
þegar horft er til úthlutunar byggða-
kvóta til Hofsóss, en úthlutun
byggðakvóta fiskveiðiárið 2010–
2011 var 145 þorskígildistonn
en nú fiskveiðiárið 2018–2019
einungis 15 þorsksígildistonn, eða
samtals 970% samdráttur á 8 árum,“
segir í bókun nefndarinnar vegna
úthlutunar byggðakvótans.
Atvinnu-, menningar- og
kynningarnefnd skorar á
sjávarútvegs- og landbúnaðar-
ráðherra að breyta reglum um
úthlutun byggðakvóta á þann hátt
að tekið verið tillit til lengri tíma og
fleiri aðstæðna en núverandi reglur
kveða á um. Mikilvægt sé að reglur
um byggðakvóta séu raunverulega
sniðnar að því markmiði að styðja
við byggðir sem standa höllum fæti
vegna breytinga í sjávarútvegi.
/MÞÞ
Enginn rembingur í körlunum
„Ég hef fengið frábærar viðtökur,
það er enginn rembingur í
körlunum, það vilja allir hjálpa
mér og gefa mér góð ráð, þetta
er bara frábært,“ segir Guðrún
Arna Sigurðardóttir, sem tók
nýlega við starfi mjólkurbílstjóra
hjá MS á Selfossi.
Guðrún er fyrsta fastráðna
konan í starfi mjólkurbílstjóra
hjá fyrirtækinu. Hún er þriðji
ættliðurinn í fjölskyldunni til
að gerast mjólkurbílstjóri en
pabbi hennar, Sigurður Júníus
Sigurðsson, er mjólkurbílstjóri
hjá MS Selfossi og afi hennar,
Sigurður Óskar Sigurðsson
heitinn, keyrði mjólkurbíl hjá
Mjólkurbúi Flóamanna. Þá má
geta þess að mamma Guðrúnar,
Hjördís Gunnlaugsdóttir, sér
um matinn fyrir starfsmenn
MS á Selfossi og eiginmaður
Guðrúnar, Sigþór Magnússon, er
líka mjólkurbílstjóri hjá MS.
/MHH
Guðrún Arna kann vel við sig í starfi mjólkurbílstjóra og segir sérstaklega
gaman að heimsækja kúabændur og sækja mjólkina til þeirra. Mynd / MHH