Bændablaðið - 17.01.2019, Síða 37

Bændablaðið - 17.01.2019, Síða 37
Bændablaðið | Fimmtudagur 17. janúar 2019 37 Erfðabreytt hör Á níunda áratug síðustu aldar var þróað erfðabreytt yrki af líni sem fékk nafnið 'Triffid' í höfuðið á mannætuplöntunum í bók John Wyndham's, The Day of the Triffids frá 1951. Saga spunalíns Lín er mjúkt, slétt og svalt viðkomu og þægilegt í klæðnað og sængurfatnað. Efnið verður mýkra við þvott en hætta er á að línþræðirnir brotni sé efnið alltaf brotið á sama hátt. Fita sest auðveldlega í efnið eins og oft má sjá á skyrtukrögum. Lín krumpast auðveldlega þar sem teygja hörþráðanna er lítil og þeir dragast ekki saman sé teygt á þeim. Náttúrulegur litur líns er gulhvítt og út í grátt. Hvítt lín fæst með því að láta efnið liggja í klór. Elstu minjar um líntrefjar, sem þekktar eru, fundust í helli í Georgíu árið 2009. Trefjarnar eru taldar vera frá því 36 þúsund árum fyrir upphaf okkar tímatals og elstu textílminjar sem vitað er um. Auk handritanna, Dauða- hafshandritanna, sem fundust í Qumran-hellunum í Ísrael árið 1946 fundust þar líndúkar sem talið er að hafi verið ætlað að verja handritin og krukkurnar sem þau voru í fyrir skemmdum. Lín var sennilega fyrst tekið til ræktunar í Mið-Austurlöndum á svæði sem kallast Frjósami hálfmáninn og stundum nefnt vagga menningarinnar. Fræ sem eru stærri en fræ villtra línplantna sýna að lín var ræktað fyrir níu þúsund árum skammt frá þar sem Damaskus, höfuðborg Sýrlands, er í dag. Fornminjar sýna ræktun á líni í Sviss og Þýskalandi fyrir um fimm þúsund árum í Kína og Indlandi rúmum fimm þúsund árum. Hör var ræktað og spunnið í þráð í Mesópótamíu til forna og notað í klæði valdastéttarinnar og presta. Þess er getið í súmversku ljóði þar sem sagt er frá tilhugalífi guðsins og gyðjunnar Iananna og Tammús sem svipar á ýmsan hátt til Adams og Evu í sköpunarsögu Gamla testamentisins. Tammús er getið í Esekíel 8:14. „Því næst leiddi hann mig að inngangi norðurhliðsins að húsi Drottins. Þar sátu konur og grétu Tammús. Og hann sagði við mig: „Sérðu þetta, mannssonur? En þú munt sjá enn meiri svívirðingar en þessar.“ Myndir af línjurtinni er að finna á veggjum mustera frá Egyptalandi til forna og múmíur, meðal annarra faraó Ramses annar og Tut Ankh Amon, voru vafðar í línklæði áður en þær voru lagðar í steinkistur og grafhýsi sín. Fönikíumenn stunduðu viðskipti með lín frá Egyptalandi til borga við Miðjarðarhafið og Rómverjar ófu það í segl. Rómaveldi setti á sínum tíma reglur um gæði líns til vefnaðar og línolíu af heilsufarsástæðum og Rómverjar fluttu plöntuna með sér norður um Evrópu í landvinningaferðum sínum. Árið 789 kom út lögbók í Frakklandi þar sem er að finna reglur um framleiðslu á líni og línspuna til textílgerðar. Bayeux-refillinn sem sýnir orrustuna um Hastings 1066 var saumaður samkvæmt pöntun Odo biskups af Bayeux, hálfbróður Vilhjálms sigursæla. Talið er að refillinn, sem er 70 metra langur og 50 sentímetra breiður og gerður er úr ofnu líni, hafi verið saumaður í nunnuklaustri á Englandi. Á reflinum er aðdragandi orrustunnar og orrustan sjálf sýnd í formi myndasögu og því auðskiljanleg almenningi þess tíma. Sólkonungurinn Loðvík 14. gekk dag og nótt í nærfötum sem klædd voru mjúku líni. Árið 1685 veitti sami Loðvík Húgenottum, sem vildu endurbætur á mótmælendatrú í Frakklandi í anda Kalvíns, lagalegt leyfi til að iðka trú sína í landinu. Í framhaldi af því yfirgáfu mörg þúsund vefarar sem aðhylltust lúterskan gallikanisma, að konungurinn væri æðsti maður kirkjunnar, landið og fluttu til Belgíu, Hollands, Þýskalands og yfir Ermarsundið til Bretlandseyja. Flæmingjaland eða Flandur, þar sem nú er norðurhluti Belgíu, var á miðöldum miðstöð viðskipta með lín í Evrópu. Lín barst snemma til Norður-Ameríku með landnemum frá Evrópu en ræktun þess þar dróst saman með tilkomu bómullarræktunar. Krínólínur, eða kjólagrindur, voru í tísku í tíð Loðvíks 16., 1754–1793. Undir grindunum voru konurnar iðulega klæddar undirkjólum sem voru ofnir úr líni og hrosshárum og krínólínan trégrind til að gera kjólana bomsameiri. Heitið krínólína er samsett úr latnesku orðunum crinis sem þýðir hár og linum eða lín. Napóleon fyrsti lofaði þeim sem fyrstur væri að hanna línspunavél milljón franka í gulli í verðlaun árið 1810. Tilgangur verðlaunanna var að efla franskan spunaiðnað. Það tók uppfinningamanninn Philippe de Girard tvo mánuði að leysa þrautina. Girard var sannfærður um að hljóta verðlaunin og tók stórt lán til að tryggja sér einkaréttinn og hefja framleiðslu spunavélarinnar. Honum til óláns riðaði ríki Napóleons til falls um svipað leyti og endaði Girard af þeim sökum í skuldafangelsi. Fornleifarannsóknir benda til að ræktun á hör hafi verið stunduð á dönsku eyjunni Bornholm í Eystrasalti 800 fyrir Krist og víðar í Skandinavíu. Línvinnsla var stóriðnaður í Kaupmannahöfn undir lok nítjándu aldar. Við upphaf tuttugustu aldar var Rússland stærsti framleiðandi líns í heiminum og með um 90% markaðshlutdeild. Ræktun á líni og öðrum trefjaplöntum til textílgerðar dróst verulega sama á síðustu öld með tilkomu gerviefna eins og nælons. Línþræðir eru þrisvar sinnum sterkari en bómullarþræðir af sama sverleika. Auk þess að hafa vera nýtt til vefnaðar voru búin til reipi, garn og bogastrengir úr líni. Línpappír er notaður til að rúlla tóbak í sígarettur, í tepoka og ýmiss konar síur. Á Írlandi og víðar í Evrópu voru línstrá notuð í stráþök og línþræðir snúnir í kertaþræði og riðnir í net. Bandaríkjadalir eru 75% bómull og 25% lín. Íslenskir seðlar eru gerðir úr sérstökum seðlapappír sem er úr hrábómull samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands og viðkoma þeirra því ólík venjulegum pappír. Hörfræ og línolía Hörfræ má mala í mjöl og vinna úr þeim línolíu sem er með elstu gerðum af matarolíu sem þekkist. Úr línolíu eru meðal annars unnin fæðubótar- og fúavarnarefni, olíumálning og gólfefni eins og línoleumdúkar og olían er notuð til sápugerðar. Hrat úr línolíuframleiðslu og hálmur er nýttur sem fóður fyrir jórturdýr, kanínur og fiska. Grikkir til forna töldu hörfræ með hunangi og pipar kynörvandi og línolía hefur verið notuð sem sleipiefni við samfarir og er reyndar enn undirstöðuefnið í mörgum unaðsolíum. Samkvæmt kínverskri læknisfræði hreinsa hörfræ lungu, nýru og þarma og auka raka innyflanna, dekkja blóð og leysa loft úr líkamanum. Þau eru einnig sögð góð við harðlífi, þurri húð og hárlosi. Belgíski málarinn Jan van Eyck þróaði notkun á línolíu sem grunnefni í olíumálverk á 15. öld með því að blanda henni ásamt valhnetuolíu saman sem bindiefni með litarefnum. Hörfræ eru 40% olía og rík af omega-3 fitusýrum og vel æt og sögð holl en ráðlagt er að drekka mikið af vatni með neyslu þeirra. Á Indlandi eru fræin borðuð ristuð með soðnum hrísgrjónum og salti. Hörfræ geymast vel í kæli eða lokuðu íláti við stofuhita. Nafnaspeki Ættkvíslarheitið Linium er gamalt heiti á líni og skylt forngríska heitinu linón. Enska orðið fyrir kvennærföt, nærur og brjóstahöld, lingerie er dregið linen og orðin líning í klæðnaði og line eða lína eru af sama stofni. Tegundarheitið usitatissimum þýðir að það megi gjörnýta plöntuna. Á kínversku kallast lín ya ma zi, alas á nepölsku, allasi á sanskrít, á indversku tisi eða alsi, lin á frönsku, lein eða flacks á þýsku, lino á ítölsku og spænsku, linho á portúgölsku og flax á ensku. Á dönsku kallast plantan hør og hørum á færeysku. Heitið hör er elsta þekkta nafn plöntunnar á íslensku en heitið lín er einnig þekkt. Hör er fornt norrænt nafn en uppruni þess er óviss en hugsanlega dregið af harra sem þýðir lítill sekkur. Hörn er annað nafn á hörgyðjunni Freyju. Lín sem tákn og í trú Hör er tákn þjóðþings Norður- Írlands og eitt af þremur plöntum í merki hæstaréttar landsins ásamt þistli og rós. Lín er þjóðarblóm Hvíta-Rússlands. Samkvæmt Opinberunarbók Jóhannesar klæðast englar Drottins lín en þar segir í 15:6. „Englarnir sjö, sem höfðu plágurnar sjö, gengu þá út úr musterinu klæddir hreinu, skínandi líni og gyrtir gullbeltum um brjóst.“ Í 22 kafla 11. versi Fimmtu Mósebókar segir: „Þú skalt ekki klæðast fatnaði sem ofinn er úr tvenns konar efni, ull og hör.“ Í Orðskviðum 31:22 Gamla testamentisins nýjustu útgáfu Biblíunnar á íslensku segir: „Hún býr sér til ábreiður, klæðnaður hennar er úr baðmull og purpura. Í ensku úrgáfu sömu orðskviðu er talað um lín en ekki bómull. Í Guðbrandsbiblíu er talað um silki en lín í Viðeyjarbiblíunni og baðmull í þýðingunni frá 1981. Ætli efnið í ábreiðum og klæðnaði konunnar verði ekki nælon í næstu þýðingu ef Guð lofar. Í einni af eldri útgáfunum af sögunni um Þyrnirós stingur prinsessan sig á grófri línhespu en ekki snældu. Ræktun Samkvæmt ráðgjöf Landbúnaðar- háskóla Íslands um línrækt bendir flest til að best sé að sá líni hér á landi seint í apríl eða í byrjun maí. Sá skal grunnt fljótlega eða strax eftir að jarðvegurinn hefur verið unninn og valta yfir þar sem fræið þarf góða jarðvegssnertingu til að spíra vel. Æskilegt sáðmagn er 120 kíló hektara sem gefur 1100 til 2000 plöntur á fermetra. Kjörsýrustig er milli 6 og 7. Ráðlagt áburðarmagn er 450 kíló af Græði 5 á hektara. Við sáningu snemma í maí má búast við blómgun í seinni hluta júlí. Plöntur eru komnar með sterka þræði 30 til 40 daga eftir fullblómstrun. Rykkja má hvenær sem er eftir það. Við rykkingu er plantan dregin upp úr moldinni, en ekki slegin. Ef seint er rykkt má búast við að fræ hafi þroskast og það fræ má nýta. Lín á Íslandi Ræktun líns var algeng í norðanverðri Evrópu og í Skandinavíu um það leyti sem Ísland var numið og nokkuð um ræktun þess hér á landi fyrst eftir að búseta hefst eins og örnefni gefa til kynna. Í Húnavatnssýslu er að finna Línakradal og til er Línekrudalur í túni að Sólheimum í Vestur- Skaftafellssýslu. Við Bergþórshvol í Rangárvallasýslu er spilda sem kallast Línakrar. Ef til vill hefur þurr línhálmur verið notaður til að kveikja elda þar á bæ í eina tíð enda er þurrt lín eldfimt og talað um að eitthvað brenni eins og lín í loga. Auk þess eru tvær Líneyjar í Breiðafirði. Það hefur fundist línfrjó í öskulagi frá Heklugosi 1104 við Skálholt og línhekla sem notuð var til að kemba lín sem haugfé. Ókembt lín var undið saman í vöndul til geymslu og kallað brúða. Í bréfi Vísa-Gísla til Magnúsar sonar síns 1670 segir Gísli frá ræktunartilraunum sínum og nefnir að hann rækti meðal annars bygg, kúmen, hör og hamp og er vitað að plönturnar spruttu ágætlega hjá honum. Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar voru gerða tilraunir með línræktun hér á landi. Ræktunin fór meðal annars fram á Bessastöðum á Álftanesi og á Hvanneyri. Hluti uppskerunnar var sendur til Danmerkur þar sem gæði línsins voru rannsökuð. Línið frá Hvanneyri var metið sæmilegt en mjög gott frá Bessastöðum. Úr Bessastaðalíninu var meðal annars ofinn dúkur sem var og er ef til vill enn á altari Bessastaðakirkju. Snemma á þessari öld reisti fyrirtæki sem kallaðist Feyging ehf. línverksmiðja í Þorlákshöfn. Stærstu eigendur Feygingar ehf. voru Orkuveita Reykjavíkur, Ölfushreppur, Eignarhaldsfélag Suðurlands og Byggðastofnun. Uppsetning verksmiðjunnar dróst talsvert og bændur ræktuðu fyrir hana hör á hundruðum hektara í þrjú ár áður en verksmiðja var sett af stað. Bændur pökkuðu líninu í rúllur og um tíma voru til yfir tíu þúsund línrúllur í landinu. Starfsemi fyrirtækisins fór fljótlega í þrot og ekkert varð af línvinnslunni í Þorlákshöfn þrátt fyrir þann mikla kostnað sem lagður var til starfseminnar. Spunalín, Linium usitatissimum, er fyrsta plantan sem maðurinn ræktaði til textílgerðar. Úr plöntunni er einnig unnin jurtaolía. Líndúkur sem fannst ásamt Qumran- handritunum við Dauðaha ð árið 1946. Krínólínur, eða kjólagrindur, voru í tísku í tíð Loðvíks 16. Línakrar á Bretlandseyjum.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.