Bændablaðið - 12.09.2019, Page 12
Bændablaðið | Fimmtudagur 12. september 201912
FRÉTTIR
Framleiðnisjóður landbúnaðarins
mun brátt heyra sögunni til
– á að sameinast nýjum Matvælasjóði ef frumvarp nær fram að ganga
Í meira en hálfa öld hefur
Framleiðni sjóður landbúnaðarins
verið nýsköpunar- og framfar a-
sjóður greinarinnar. Hann kann
brátt að heyra sögunni til verði
frumvarp sem nú er í smíðum að
veruleika á haustþinginu.
Hlutverk sjóðsins er að veita
styrki til nýsköpunar og þróunar í
landbúnaði á Íslandi og eru verkefnin,
sem notið hafa stuðnings, afar
fjölbreytt. Sjóðurinn styrkir hagnýt
rannsókna- og þróunarverkefni á
vegum stofnana, félaga og annarra
aðila innan þróunargeirans, ýmis
fræðslutengd verkefni, sem og
verkefni á vegum bænda sem lúta að
nýsköpun og þróun á bújörðum. Um
fjármuni til Framleiðnisjóðs er samið
í rammasamningi Bændasamtaka
Íslands og ríkisins.
Nýr Matvælasjóður
Nú er í smíðum lagafrumvarp
í atvinnuvega- og nýsköpunar-
ráðuneytinu er varðar stofnun nýs
Matvælasjóðs. Hinum nýja sjóði er
ætlað að taka til starfa 1. janúar 2021.
Gert er ráð fyrir að Framleiðnisjóður
renni inn í þennan nýja sjóð og að
árið 2020 verði því síðasta starfsár
sjóðsins. Framleiðnisjóður annast
í dag umsýslu með Þróunarfé
búgreinanna og Markaðssjóði
sauðfjárafurða, en ekki er gert ráð
fyrir að þeir fjármunir falli undir hinn
nýja Matvælasjóð.
Ekki er ljóst hvaða aðila verður
falin umsýsla með styrkveitingum af
Þróunarfé og úr Markaðssjóði, eftir
að Framleiðnisjóður verður lagður
niður.
Stefnt er að því að leggja fram
frumvarp um Matvælasjóð nú á
haustþingi. Einnig stendur til að
vinna að stefnumótun fyrir hinn nýja
sjóð. Frumvarpið hefur ekki verið
gert opinbert og því liggur ekki fyrir
hverjar verkefnaáherslur hins nýja
sjóðs verða.
Mikilvægt að áherslur
verði kynntar sem fyrst
Að sögn Elínar Aradóttur, formanns
stjórnar Framleiðnisjóðs, er enn ekki
ljóst hvort allir þeir verkefnaflokkar
og/eða efnissvið sem notið hafa
stuðnings Framleiðnisjóðs falli undir
verksvið hins nýja Matvælasjóðs.
Stjórn Framleiðnisjóðs hefur nokkrar
áhyggjur af því að t.d. hagnýt
rannsókna- og þróunarverkefni m.a.
á sviði skógræktar og landnytja, ýmis
verkefni sem tengjast framþróun
ráðgjafarþjónustu fyrir bændur og
margvísleg fræðslutengd verkefni
muni mögulega ekki verða á
starfssviði sjóðsins.
„Framleiðnisjóður hefur einnig
um árabil gegnt mikilvægu hlutverki
í byggðalegu samhengi, sér í lagi
í tengslum við styrkveitingar til
nýsköpunarverkefna á vegum
bænda. Innan þessa verkefnaflokks
eru margvísleg atvinnuskapandi
verkefni sem mörg hver hafa lítið
með matvæli að gera, en uppbygging
margvíslegrar ferðaþjónustu er þar
langalgengasta viðfangsefnið,“ segir
Elín.
Hún leggur áherslu á að í ljósi
þess hversu fjölbreytt verkefni hafa
notið stuðnings hjá Framleiðnisjóði
sé mikilvægt að sem fyrst verði
upplýst um áherslur hins nýja sjóðs,
svo ólíkir hagsmunaaðilar geti kynnt
sér málið og aðlagað sig að breyttu
stuðningsumhverfi.
„Leita þarf allra leiða til að
aðgengi að fjármagni til mikilvægs
þróunarstarfs í greininni verði áfram
tryggt,“ bætir Elín við.
Starfið með hefðbundnu
sniði 2020
Forsvarsaðilar Framleiðnisjóðs eru
nú að undirbúa starf sjóðsins árið
2020, en meginhluti starfsins fer
fram fyrri hluta árs. Stefnt er að
því að áherslur og tímasetningar
umsóknarfresta verði með svipuðum
hætti og á árinu 2019.
Umsóknarfrestur fyrir rannsókna-
og þróunarverkefni á vegum
stofnana, félaga og annarra aðila
innan þróunar geirans verði um
miðjan nóvember 2019, en auglýst
verður eftir styrkumsóknum með
fyrirvara um fjárveitingar Alþingis
á fjárlögum 2020.
Líkt og undanfarin ár er stefnt að
því að afgreiða umsóknir um styrki
til rannsókna- og þróunarverkefna í
lok febrúar á nýju ári.
Umsóknarfrestur um styrki til
nýsköpunarverkefna á bújörðum á
vegum bænda verður væntanlega
undir lok janúar 2020 og stefnt
að því að ljúka afgreiðslu í byrjun
apríl. /HKr.
Framtíðartækifæri íslensks landbúnaðar liggja m.a. í eflingu ræktunar. Framleiðnisjóður hefur á undanförnum
áratugum stutt ötullega við þróun kornræktar á Íslandi. Mynd / Framleiðnisjóðu
Sveitarstjórnir Skagabyggðar og Skagastrandar:
Mótmæla lögþvinguðum sameiningum
Sveitarstjórn Skagabyggðar
hefur sent frá sér ályktun þar
sem hún mótmælir harðlega
öllum hugmyndum um
lögþvingaðar sameiningar
sveitarfélaga á Íslandi og
hvetur ráðamenn til að
virða hagsmuni íbúa og
sjálfsákvörðunarrétt í eigin
málefnum.
Þetta kemur fram í umsögn
sem sveitarstjórn hefur gert
við tillögu til þingsályktunar um
stefnumótandi áætlun ríkisins í
málefnum sveitarfélaga. Þar segir
einnig að sameining sveitarfélaga
verði að gerast á forsendum
þeirra sem um ræðir en ekki með
valdboðum að ofan.
Umsögnin er í takt við bókun
sveitarstjórnar Skagastrandar
frá því í ágúst síðastliðnum.
Skagstrendingar bentu þar á
að sameining sveitarfélaga
gæti verið bæði ákjósanleg og
skynsamleg en hún þyfti að gerast
á forsendum þeirra sem þátt tækju.
Samkvæmt Hagstofu Íslands búa
95 í Skagabyggð og hefur íbúum
fjölgað um sjö frá 1. desember 2018.
Íbúafjöldi á Skagaströnd er 473 og
hefur fjölgað um 14 síðastliðna tíu
mánuði. /MÞÞ
Í sumum grunnskólum í Norðurþingi er rík hefð fyrir samstarfi við bændur
og ræktendur á nærsvæði skólanna. Á myndinni er Öxafjarðarskóli.
V-listi Vinstri grænna og óháðra í Norðurþingi:
Ekki á stefnuskránni að draga úr
neyslu kjöts í skólamötuneytum
V-listi Vinstri grænna og óháðra
í Norðurþingi hefur ekki á
stefnuskrá sinni að leggja til
samdrátt á neyslu kjötvara
í skólamötuneytum sveitar-
félagsins. Þetta taka fulltrúar
listans fram í tilkynningu á
Facebook-síðu sinni og að gefnu
tilefni.
Miklar umræður hafa undanfarið
verið um skólamötuneyti en
grænkerar á Íslandi hafa sent
sveitarfélögum áskorun og beint því
til þeirra að draga úr kjötmáltíðum.
Fram kemur í tilkynningu Vinstri
grænna í Norðurþingi að almennt
hafi rekstur skólamötuneyta í
Norðurþingi gengið vel undanfarin
ár og í sumum þeirra sé rík hefð fyrir
samstarfi við bændur og ræktendur á
nærsvæði skólanna um öflun fyrsta
flokks fæðis til matargerðar.
Skoða möguleika á úrbótum
Einnig kemur fram í tilkynningunni
að V-listinn í Norðurþingi muni á
næstunni taka til umræðu á sínum
vettvangi möguleika til frekari
úrbóta og þá til að mynda með því
að draga úr notkun og innkaupum
matvæla sem útheimta flutning um
langan veg. Einnig verði horft til þess
að auka notkun og innkaup matvæla
sem fáanleg eru og framleidd á
umhverfisvænan og mannúðlegan
máta í nágrenni skólanna. V-listafólk
vill enn fremur draga úr matarsóun
og tryggja valkosti fyrir ólíkar þarfir
og óskir fjölskyldna/nemenda. /MÞÞ
Frá Skagaströnd. Mynd /HKr.
Bláskógabyggð:
Fimm tilboð bárust í
ljósleiðaravæðingu
Nýlega voru opnuð tilboð hjá
Verkfræðistofunni Eflu á Selfossi
í ljósleiðaravæðingu Bláskóga-
byggðar.
Framkvæmdir hefjast í haust og
á þeim að vera lokið um miðjan
október 2020, sem sagt eitt ár í
verktíma. Reiknað er með um 250
tengistöðum, heimili, fyrirtæki o.fl.
Eftirfarandi tilboð bárust í verkið;
• SH leiðarinn 210.886.304 kr.
• Jón Ingileifsson ehf.
247.729.804 kr.
• BD vélar ehf og Ketilbjörn ehf.
296.963.343 kr.
• Þjótandi ehf. 232.528.644 kr.
• Austfirskir verktakar ehf.
363.518.945 kr.
Kostnaðaráætlun verksins hljóðar
upp á 265.807.516 krónur. /MHH
Innflutningsbann á hundum
frá Noregi vegna sjúkdóms
Í tilkynningu frá Matvælastofnun
segir að borist hafi fréttir
af alvarlegum veikindum af
óþekktum orsökum í hundum í
Noregi. Talsverður fjöldi hunda
hefur veikst og samkvæmt síðustu
upplýsingum er talið að á annan
tug hunda hafi drepist en þeir
gætu verið fleiri.
Matvælastofnun hefur tekið
ákvörðun um að heimila ekki
innflutning hunda frá Noregi þar
til nánari upplýsingar um orsök
veikindanna liggja fyrir.
Samkvæmt frétt NRK í Noregi
sl. sunnudag höfðu þá hundar í 14
fylkjum þegar veikst. Fjögur nýjustu
tilfellin voru í Møre, Romsdal,
Vestfold, Buskerud og Nordland
og var þá þegar búið að aflífa einn
þeirra hunda, en annar hafði drepist
af sjúkdómnum. Á milli 500.000
og 600.000 hundar eru taldir vera
í Noregi.
Blóðug uppköst og niðurgangur
Helstu einkenni sjúkdómsins eru
blóðug uppköst og niðurgangur.
Norska dýraheilbrigðisstofnunin
ásamt norsku matvælastofnuninni
(Mattilsynet) vinnur nú að greiningu
í samráði við dýralæknaháskólann í
Noregi og þá dýraspítala sem hafa
haft veika hunda til meðhöndlunar.
Fjöldi sýna hefur veri tekinn til
rannsóknar og fjórir hundar hafa
verið krufnir. Flest tilfellin hafa
komið upp í Ósló og nágrenni.
Um er að ræða mjög bráð veikindi
sem dregur hundana til dauða á
u.þ.b. sólarhring, jafnvel þrátt fyrir
mikla meðhöndlun. Þó eru dæmi um
hunda sem sýna vægari einkenni og
virðast hafa komist yfir veikindin.
Grunur beinist að smitefnum svo
sem veirum og bakteríum en þegar er
búið að útiloka rottueitur og smit af
völdum salmonellu en hvort tveggja
getur valdið einkennum sem hér um
ræðir. Engin merki eru um að eitrað
hafi verið fyrir hundunum. Ekki
hefur verið útilokað að orsökina
sé að finna í umhverfisþáttum eins
og fóðri, hundanammi og slíku, en
ekkert bendir heldur til þess. Verið
er að afla upplýsinga hjá eigendum
þeirra hunda sem veikst hafa.
Norska matvælastofnunin mælir
með að hundaeigendur haldi hundum
sínum aðskildum frá öðrum hundum
og nú þegar hefur fjölda námskeiða,
móta, sýninga og annarra samkoma
þar sem hundar koma við sögu verið
aflýst í Noregi. Hundaræktarfélögin
í Svíþjóð og Danmörku hafa
bannað þátttöku hunda frá Noregi
á sýningum, keppnum o.fl.
Engar upplýsingar um
orsök sjúkdómsins
Matvælastofnun hefur upplýst
innflytjendur sem hugðu á
innflutning hunda frá Noregi í næstu
viku um ofangreinda ákvörðun. Þar
sem engar upplýsingar liggja fyrir
um orsök sjúkdómsins né heldur
meðgöngutíma hans þá er litið svo
á að áhættan af innflutningi hunda
frá Noregi á þessari stundu sé
óásættanleg. /MAST/HKr.