Ljósmæðrablaðið - aug. 2020, Qupperneq 9
9LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2020
Konan var deyfð og gerður spangarskurður, fyrst var hann
ekki nógu stór, svo var hann dýpkaður og þá kom barnið út í
einum rembing kl 23:49, lítil stúlka. Þegar spangarskurðurinn
var gerður var klippt á æð og ég hélt í smá stund að myndi líða
yfir mig þegar ég sá bununa úr æðinni standa upp í loft en ég
náði að halda mér uppi. Mér fannst líka mjög erfitt að heyra
hljóðið þegar spöngin var klippt en þá varð ég líka að halda
mér uppi því konan var að nota hendina á mér til að spyrna í í
rembingnum. Eftir fæðingu barnsins þurfti að byrja á að loka
fyrir æðina sem hafði óvart verið klippt á og ég var ekki lengi
að bjóðast til að hlaupa fram í ísskáp að sækja xylocain með
adrenalíni, aðallega til að ég gæti fengið ferskt loft og smá kók
að drekka til að halda mér gangandi.
Þegar fjölskyldan var búin að eiga tíma og drengurinn
búinn að fara á brjóst, með aðstoð ljósmóður var ákveðið að
skoða rifuna. Mér leið alls ekki vel að sjá þessa rifu, það var
mjög heitt inn í herberginu og ég varð að fara úr peysunni til
að reyna koma í veg fyrir að það myndi líða yfir mig. Rifan
var fyrstu gráðu rifa og einnig voru smá rifur á labiu. Hún var
saumuð ca. 4 spor og ég hélt vasaljósinu á rifunni á meðan
ljósmóðirin saumaði. Ég átti smá erfitt með að horfa á þetta
en reyndi að gera mitt besta og halda þessu ljósi. Ljósmóðirin
var sífellt að reyna að beina ljósinu á réttan stað. Ég átti mjög
erfitt með að halda ljósinu eins og hún vildi hafa það, þar sem
það var að líða yfir mig. Ég settist bara niður reglulega og
horfði á litla fallega drenginn sem var nýfæddur. Loksins var
saumaskapurinn búinn og mér fór loksins að líða aðeins betur.
Barnsfæðing er alltaf mögnuð kraftaverkastund, en fyrsta
fæðingin sem við upplifum fellur okkur líklega seint úr minni.
Ljósmæðranemarnir sem nú ljúka sínu fyrsta ári í náminu
fengu flestar tækifæri til að upplifa fyrstu barnsfæðinguna utan
hátæknisjúkrahúss, í samfelldri þjónustu á fæðingarstað sem
konan hafði valið sér.
Fékk símtal um 03 um að það væri fjölbyrja á leiðinni á
fæðingarstað að eiga. Ég skýst af stað og verð vitni að fyrstu
fæðingunni minni sem var mögnuð. Konan stóð sig svo ótrúlega
vel. Fæðingin tók stuttan tíma og fljótlega fæddist flottur 17
marka strákur. Ég var að skrá niður tímasetningar og annað
og sækja það sem vantaði á meðan á fæðingunni stóð. Þetta
var svo ótrúlega fallegt og ég fór næstum því að gráta. Konan
vann sig svo fallega í gegnum þetta með aðstoð frá maka.
Ljósmæðurnar gerðu „lítið“, sem var fallegt að fylgjast með,
þær leiðbeindu konunni en mín upplifun var sú að þetta væri
100% á forsendum konunnar.
Það er stór stund þegar ljósmæðranemi tekur á móti sínu fyrsta
ljósubarni og fengu þær að upplifa þessi merkilegu tímamót á
fyrstu önninni í náminu.
Ljósmóðirin skoðar konuna og segir við hana að þarna sé barn
að koma. Ég var svo hissa og átti sjálf alls ekki von á því að
þessi fæðing væri að ganga svona hratt og hafði það alls ekki
á tilfinningunni. Ljósmóðirin bað mig um að hringja í aðra
ljósmóður sem var einnig á vaktinni og biðja hana um að koma
í Björkina til að aðstoða við fæðinguna. Þegar ég hringi í hina
ljósmóðurina spyr hún hvort hún eigi að drífa sig eða hvað. Aftur
- met ég stöðuna töluvert öðruvísi en sú sem var á staðnum og var
viss um að konan ætti eftir að rembast heillengi og segi að þetta
sé frumbyrja og allt að ganga vel. En ljósmóðirin á staðnum
tekur þá við tólinu og segir henni að drífa sig þar sem þessi
kona sé að koma okkur á óvart. Ljósmóðirin rétt nær að mæta á
staðinn og biður mig um að fara í hanska, sitja nálægt konunni
og koma við kollinn þegar hann kemur fram til að reyna aðeins
að hægja á. Ég hlýði auðvitað öllu sem hún segir og treysti henni.
Konan kemur sér fyrir í uppréttri stöðu á fjórum fótum í rúminu
og rembist nokkrum sinnum áður en gullfallegt stúlkubarn kemur
öll út í einum rembing. Ég hafði nánast engan tíma til að grípa
barnið en reyndi þó eftir bestu getu með hjálp ljósmóður að koma
barninu í fang móðurinnar. Ég var öll út í legvatni eins og annað
þarna í kring enda kom litla daman, fyrsta ljósubarnið mitt, með
hraði rétt yfir klukkan 06.
LOKADAGBÓKIN SKRIFUÐ RÉTT FYRIR SKRIF-
LEGU OG MUNNLEGU EMBÆTTISPRÓFIN
Ljósmóðurnemarnir í síðast klíníska námskeiðinu lýsa reynslu
sinni á ólíkan hátt en svara játandi spurningunni: er ég tilbúin til
að útskrifast? Allir fjalla þeir um hvernig öryggi, þekking þeirra
og færni jókst með tímanum, m.a. með yfirsetu í fæðingum og
í sambandinu sem þeir mynda við konurnar og maka þeirra í
gegnum barneignarferlið. Það er fróðlegt og skemmtilegt að lesa
hvernig frásagnir þeirra sem eru að ljúka námi kallast á við þeirra
sem eru að byrja:
Næsta önn var spennandi og lærði ég svo ótrúlega mikið og
hratt að ég áttaði mig ekki á því sjálf fyrr en ég skrifa þessa
greinargerð. Minningar um og tilfinningar til þeirrar fyrstu
fæðingar sem ég tók virkan þátt í eru mér ljóslifandi. Þegar ég
horfi til baka þá átta ég mig á því hversu langt ég var frá þeirri
list sem ljósmóðurfræðin er og hversu mikið ég hef breyst innan
þeirra veggja sem kona fæðir. Ég gerði í raun og veru margt
sem maður lærir að ljósmóðir eigi alls ekki að gera í fæðingu.
Truflaði konuna með mörgum spurningum, reyndi að finna lausn
á þessum náttúrulegu verkjum og var innst inni nokkuð óróleg.
Með tímanum mótaðist ég, gekk í gegnum nokkra karaktera,
prufaði mig áfram og þróaðist. Þeim umsjónarljósmæðrum
sem mér voru úthlutað höfðu mikla trú á salutogenesis og
því hef ég náð að aðgreina hið eðlilega frá frávikum. Ég
stefni að því að veita samfellda þjónustu fyrir hraustar konur
í eðlilegri meðgöngu sem ljósmóðir og því hefur uppeldið og
hugmyndafræðin frá mínum umsjónarljósmæðrum verið kjörið
fyrir mig. Ég hef alltaf verið mjög spurul og forvitin manneskja
og á mínum námstíma var ég dugleg að sanka að mér sögum
frá reyndum ljósmæðrum, spyrja út í fallegustu og erfiðustu
stundirnar á þeirra ferli, hvaða reynslu þeim fannst mikilvæg
að fá fyrir útskrift og svo framvegis. Ég lærði ofboðslega margt
af þessum sögum...
Í byrjun þótti mér óhugsandi að finna ró í hjartanu í krefjandi
yfirsetu. Að þurfa að framkvæma flókin verk, eins og að setja upp
elektróðu eða tappa af blöðru í miðjum rembingi og þannig... En
hægt og rólega hefur orkan sem fór í að hafa áhyggjur af slíkum
verkum minnkað - ró hefur færst yfir og mér finnst ég hafa náð
að færa fókusinn á konurnar. Jafnvel veiku konurnar, sem eru
tengdar við allt mögulegt og ómögulegt, mér finnst ég vera farin
að sjá þær fyrir snúrunum. Og greiningunum. Fókusinn er að
víkka og samhengið að nást.
Fjarkennsla með 2. ári: umræða um lokadagbókina.