Ljósmæðrablaðið - ágú. 2020, Blaðsíða 29
29LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2020
einnig breytt. Þaðan voru stólar fjarlægðir svo það væri ekki hægt að
sitja of nálægt næsta manni auk þess sem fundarherbergi var nýtt sem
kaffistofa svo allir hefðu nægt rými í hádegishléi. Erfiðasta breytingin
innan heilsugæslunnar var þó hólfun ritara og læknaritara. Þar sem ekki
var hægt að skipta þeim í teymi voru ritararnir lokaðir af inni á sínum
skrifstofum. Þangað mátti enginn koma inn og þeir máttu ekki fara þaðan
út nema til þess að fara á salerni. Þeir nýttu klósett í kjallara hússins sem
fáir nota og borðuðu saman inni í sínum litlu vistarverum. Ritararnir
lýstu því sjálfir sem þeim liði eins og fiskum í fiskabúri, því aðeins var
hægt að ræða við þá og ,,horfa“ á þá í gegnum glerið sem skilur þá frá
skjólstæðingunum.
Álagið á þessum tíma var mikið. Það var erfitt að halda utan um
mæðraskoðanir svona margra kvenna á hverjum degi og hræðslan að
missa af einhverju, rugla einhverjum saman eða jafnvel gleyma einhverju
var til staðar. Það var einnig erfitt að vera sú sem var heima, því sú vissi
hvernig ástandið var á heilsugæslunni en fannst hún lítið geta hjálpað.
Það bætti ekki úr skák þegar hluti af öðru teyminu var sett í sóttkví sem
gerði það að verkum að í stað þess að skipta um hlutverk eftir eina viku
þurfti sama ljósmóðirin að vera í húsi tvær vikur í röð og hin að vinna
heima í tvær vikur.
Helsta áskorunin er varðar covid-19 faraldurinn að mínu mati var að
vera alltaf með allar upplýsingar á hreinu. Daglega komu tölvupóstar
og tilkynningar á „workplace“ með nýjustu upplýsingum, ýmist frá
heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eða Landspítalanum. Dágóður tími
fór því í að lesa nýjustu upplýsingar, greina hismið frá kjarnanum og
leggja það helsta á minnið. Og þrátt fyrir að ófrískar konur hafi alla jafna
margar spurningar á reiðum höndum urðu þær enn fleiri á þessum tíma.
Þær veltu meðal annars fyrir sér hvort þær væru í meiri hættu en aðrir á
að smitast, möguleikanum á smiti yfir til barnsins, hvort þær og makinn
mættu halda áfram að mæta til vinnu og hvort þær ættu að taka börn
sín úr leikskóla eða skóla á meðan það versta gengi yfir. Flestar höfðu
þó mestar áhyggjur af því hvort maki mætti fara með þeim í sónarskoð-
anir eða vera með þeim í fæðingu. Fæðingin var þó umtalsvert meira
áhyggjuefni en sónarskoðunin. Þrátt fyrir áhyggjur, vonbrigði og erfiða
tíma sýndi hver og ein kona þessu ástandi skilning.
Það var ekki fyrr en 25. maí að allt starfsfólk heilsugæslunnar kom
saman til vinnu. Teymisvinnunni var lokið og starfið að færast í eðlilegra
horf. Við ljósmæðurnar höfðum þó fengið leyfi til þess að vera báðar
í húsi um tveimur vikum áður þar sem okkur þótti álagið ekki boðlegt
lengur. Sú sem tilheyrði heimateyminu mætti til vinnu án þess að ræða
við annað starfsfólk og fór út úr húsi í hádegi til þess að nærast. Vann
sína vinnu en hélt sig til hlés að öðru leyti. Við sáum ekki fram á að
geta sinnt öllum okkar skjólstæðingum með einungis aðra ljósmóðurina í
húsi. Og þvílíkur léttir sem það var.
Covid-19 breytti mörgu og segja má að starfi heilsugæslunnar hafi
verið kollvarpað á stuttum tíma. Faraldurinn kenndi okkur að sníða
stakk eftir vexti, breyta því sem þurfti að breyta og vinna saman að settu
markmiði. Við lærðum að hægt er að nýta símaviðtöl í ýmislegt og er
ég sannfærð um að í framtíðinni sé hægt að nýta símann betur en áður.
Minnka samskipti, draga úr umferð, einfalda lífið. Covid-19 hefur hins
vegar sett mark sitt á meðgöngu skjólstæðinga okkar og aukið kvíða
þeirra og áhyggjur. Faraldurinn hefur einnig haft áhrif á aðkomu feðra
að meðgönguverndinni, sett þá til hliðar og í aukahlutverk. Aukahlutverk
sem ég tel að þeir hafi ekki verið sáttir við að vera í. En nú horfir til betri
vegar og vonandi kemur ekki til þess að við lendum í viðlíka aðstæðum
aftur.
Anna Guðný Hallgrímsdóttir
Anna Guðný horfir á skjáinn og gefur upplýsingar og ráð.
Við tökum á móti ýmis konar efni, rannsóknum og reynslusögum um áhrif faraldursins á okkar skjólstæðinga,
hvernig við getum mætt breytingum og veitt góða heildræna þjónustu samkvæmt þörfum hvers og eins;
ekki síst innflytjenda og þeirra sem eru minni máttar, á flótta eða eiga við andlega vanlíðan og fíkn að stríða.
Upplifanir og hugleiðingar ljósmæðra um líf og starf á covid-19 tíma, skipta máli, hvaða lausnir hafa verið notaðar,
helstu hindranir, breytingar á þjónustu og vinnuálagi. Umfjöllun um aðstæður, líðan mæðra, feðra og fjölskyldna
þeirra er nauðsynleg, hvað við höfum lært, hvernig verður framhaldið og hvað eigum við að gera til að
undirbúa okkur ef hríðin kemur aftur og aftur?
Best er að senda efni og fyrirspurnir til ritstjóra á netfangið: olofol@hi.is
ORÐSENDING TIL LJÓSMÆÐRA
Ljósmæðrablaðið vill gjarnan fjalla áfram um og halda til haga heimildum um áhrif covid-19
faraldursins á líf barnshafandi kvenna og fjölskyldna þeirra, starf ljósmæðra og skipulag
heilbrigðisþjónustu.