Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.03.2020, Page 15
Sjónvarpið, þótt þetta séu ólíkir miðlar. Við
Ómar gerðum okkur alltaf grein fyrir því en
samt var þetta allt í góðu enda Ómar frábær
náungi. Oftar en ekki myndaði hann mig að
fljúga yfir eldgosi og öfugt, upp á viðmiðið,
sem er svo mikilvægt á myndum sem þessum.“
Datt út úr flugvélinni
Ragnar rifjar upp flugið þegar þeir Ómar
flugu ofan í gíginn í Gjálp undir Vatnajökli
1996. Gjálpargosið var einstætt í sinni röð þar
sem jarðvísindamönnum gafst í fyrsta sinn
tækifæri á að fylgjast með átökum elds og íss
og myndun móbergsfjalls inni í stórum jökli.
„Við lentum fyrstir á fjallinu og ég vildi gefa
því nafnið Darri í höfuðið á syni mínum, eins
og hann hafði beðið mig um þegar við vorum
úti í fótbolta þegar kallið kom, og stakk niður
flaggi því til staðfestingar. Það hlaut annað
nafn síðar. Samkomulagið var að Ómar myndi
stíga fyrstur á fjallið en þegar ég var á leið út á
fótstigið til að taka mynd af honum vildi ekki
betur til en að ég flæktist í sætisólinni og datt
niður á jörðina. Ég varð því óvart fyrsti mað-
urinn til að koma á fjallið í Gjálp. Fyrirgefðu,
Ómar!“
Í Kröflugosunum flaug Ómar einu sinni svo
nálægt eldinum að hann bað Ragnar, sem var
á svæðinu á annarri flugvél, að kíkja undir
hana. „Eru hjólin nokkuð farin?“
„Á hvaða vél ertu, Ómar? kallaði ég. Nú er
ég kominn á Píu, Frúin er eitthvað slöpp, svar-
aði Ómar um hæl og átti við TF-PIA.“
Meðan mest gekk á í Kröflu var Ragnar
ásamt fleirum í hálfan mánuð fyrir norðan til
að fylgjast með og senda efni suður. Um næstu
mánaðamót brá honum í brún þegar hann opn-
aði launaumslagið; fékk aðeins 6 krónur út-
borgaðar.
„Það hafði borist einhver áfengisreikningur
sem launadeildin dró af okkur sem vorum
þarna að störfum. Seinna um daginn hringdi
Örn Jóhannsson, fjármálastjóri Árvakurs, síð-
an í mig og sagði mér að koma og sækja launin
mín. Þeir vissu að sökin væri ekki mín, þar
sem ég drykki ekki.“
Ragnar rifjar upp fleiri ógleymanleg verk-
efni, svo sem þegar hann myndaði Reagan og
Gorbatsjov í Höfða 1986, að ekki sé talað um
snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri 1995. Enn
var Ragnar á vettvangi snjóflóðs á Flateyri
fyrr á þessu ári og var það síðasti stóri mynda-
þáttur hans sem birtist í blaðinu.
Norðurslóðir í fjörutíu ár
„Í seinni tíð þykir mér mjög vænt um blað-
aukann um norðurslóðir sem við höfum gefið
út á haustin í tengslum við ráðstefnuna Hring-
borð norðurslóða undanfarin sjö ár. Það er eitt
af því mest gefandi sem ég hef gert og í sögu-
legu samhengi trúi ég því að þau blöð komi til
með að lifa. Þau hafa verið mikilvægt innlegg í
umræðuna um norðurslóðir; viðfangsefnin og
möguleikana sem þar blasa við.“
Ragnar hefur myndað lífið á norðurslóðum í
um fjörutíu ár. Hann kom fyrst til Grænlands
sem aðstoðarflugmaður í sjúkraflugi, sem
hann fór stundum í með félögum sínum, til að
öðlast meiri flugreynslu. Í því flugi björguðu
þeir litlu barni og komu á sjúkrahús. „Ég var
ekki farinn að velta loftslagsbreytingum fyrir
mér á þeim tíma enda umræðan ekki mikil.
Smám saman fór ég hins vegar að sjá hvað er
að gerast og að mynda yrði líf veiðimannanna
á Grænlandi áður en það yrði um seinan. Sum
þorpanna sem ég myndaði til að byrja með eru
nú farin í eyði. Þetta ynd-
islega fólk er að reyna
ótrúlegar veðurfarsbreyt-
ingar á eigin skinni og
heimurinn þarf að vita
hver staðan er. Það hefur
orðið mín köllun.“
Ekki er langt síðan
Ragnar kom á fót bóka-
forlaginu Qerndu, ásamt
Heiðari Guðjónssyni og
Einari Geir Ingvarssyni,
sem gefur nú út bækur
hans. „Það er frábært og
gefandi að vinna með þeim.
Ótrúlega hugmyndaríkir
menn og langt á undan sinni samtíð.“
Á þessu ári er væntanleg bók þar sem græn-
lenski sleðahundurinn er í forgrunni; mögnuð
skepna sem gert hefur veiðimönnunum kleift
að búa á Grænlandi og draga fram lífið við
þessar erfiðu aðstæður. Einnig er í deiglunni
vegleg bók sem helguð verður norðurslóðum í
sinni fjölbreyttust mynd; löndunum átta og
fólkinu sem hér býr.
„Ég byrjaði að mynda norðurslóðir á undan
flestum öðrum en núna eru sumir komnir fram
úr mér í þeim skilningi að þeir hafa haft meiri
tíma og meiri peninga til að sinna þessu starfi.
Sumir synda jafnvel í sjóðum sem ég hef eng-
an aðgang að. Af einhverjum ástæðum styrkja
Íslendingar ekki ljósmyndun; sjálfur hef ég
sótt fjórum sinnum um starfslaun listamanna,
til að geta einbeitt mér að því sem ég tel skipta
máli, en alltaf verið synjað.“
Hann þagnar stutta stund. Horfir svo í aug-
un á mér.
„Það þarf hins vegar að drepa mig til þess að
ég tapi þessum leik. Ég ætla mér að ljúka
þessu lífsverki mínu með stæl og þess vegna
stekk ég út í laugina núna. Innst inni veit ég
nefnilega að ég get gert þetta betur en aðrir
sem hafa verið að mynda þarna. Flestir eru
bara að mynda fljótandi ísjaka; ég er að mynda
fólkið. Það á skilið tækifæri og von í framtíð-
inni.“
Með sting í hjarta
Þess vegna segir hann nú skilið við sitt gamla
blað. „Ég geng út af Morgunblaðinu með sting
í hjarta. Ég hef verið meira þarna en heima hjá
mér undanfarin 44 ár og þykir ofboðslega
vænt um blaðið. Ég hef fórnað öllu fyrir Morg-
unblaðið og er stoltur af mínu framlagi gegn-
um tíðina. Get með góðri samvisku sagt að ég
hafi gefið allt í þau verkefni sem mér voru falin
eða ég tók mér fyrir hendur. Ég kveð góða vini
með söknuði en maður veit aldrei hvað maður
á langt eftir í starfi, kannski fimmtán til tutt-
ugu ár, þannig að nú set ég önnur verkefni á
oddinn.“
Hver er staða fréttaljósmyndarinnar í sam-
tímanum?
„Hún á undir högg að sækja, svo vægt sé til
orða tekið. Margir bestu fréttamenn sögunnar
hafa verið ljósmyndarar; menn þora að vera þar
sem byssukúlur fljúga til að ná sínum myndum.
Nægir þar að nefna James Nachtwey og Don
McCullin. Maður sér ekki flottari greinar en eft-
ir þá. Að ekki sé talað um Mary Ellen Mark.
Efni af þessu tagi sést varla lengur og ég óttast
að fréttaljósmyndin sem miðill sé í raun alveg
búin. Mikið þarf að gerast til að hún nái sama
flugi og við vorum á þegar
best lét. Ég get ekki séð að
það sé neinn skilningur á
þessu lengur; í stað þess að
vera aðalatriðið, þegar það á
við, er ljósmyndin alltof oft
orðin uppfylling í blöðum.
Það er þyngra en tárum taki
að horfa á starfið sem ég
elskaði út af lífinu hreinlega
hverfa. Það er ekki lengur
til. Bókin og sýningar eru að
taka við.“
Hann segir sér líða eins
og að hann hafi samið Let It
Be og Yesterday en fái bara
að spila Gvend á Eyrinni, „með fullri virðingu
fyrir honum. Mig langar að spila mín eigin lög.“
Í þessu samhengi hvetur hann unga og upp-
rennandi blaðamenn til að sýna sér eldri og
reyndari mönnum virðingu og hlusta á það
sem þeir hafa að segja. „Það vantar stundum
upp á virðinguna, öfugt við það sem þekktist
þegar ég var að byrja.“
Ekki sparka boltanum út af!
Ragnar gerir sér fulla grein fyrir því að dagblöð
berjast víða fyrir lífi sínu, enda samkeppnin um
lesendur og auglýsendur aldrei verið harðari en
nú á tímum samfélagsmiðla. „En höfum eigi að
síður í huga að enginn vinnur leik með því að
sparka boltanum alltaf út af. Blöð verða að
halda ákveðnum grunngæðum; fyrir hvern
áskrifanda sem hverfur á braut er mörgum
sinnum erfiðara að fá nýjan í staðinn. Sam-
félagið þarf að skilja að dagblöðin þurfa að vera
til. Við getum ekki bara lesið nærbuxnagreinar
á Facebook. Þetta Kim Kardashian-heilkenni
er alveg galið. Konan er fræg fyrir að vera fræg
og meðan kastljósið beinist stöðugt að henni sit-
ur annað á hakanum. Börn deyja úr hungri
vegna þess að þau komast ekki lengur að. Ég er
ekki að segja að þessar glysfréttir eigi ekki rétt
á sér en hver heilvita maður hlýtur að sjá að
hlutföllin eru snarbrengluð.“
Á þessum tímamótum óskar Ragnar Morgun-
blaðinu alls hins besta. „Samskiptin við núver-
andi ritstjóra, Davíð Oddsson og Harald Johann-
essen, hafa verið góð og við áttum góðan fund
eftir að ég sagði starfi mínu lausu þar sem þeir
þökkuðu mér vel fyrir samstarfið og sögðu að ég
yrði alltaf velkominn. Ég er búinn að þekkja
Davíð lengi; man fyrst eftir honum standandi á
kassa niðri í bæ að tala við kjósendur, þegar
hann var nýbyrjaður í pólitík. Ég óska þeim og
öllum á Morgunblaðinu góðs gengis í baráttunni
sem framundan er. Þið eruð með eitt öflugasta
vörumerki Íslandssögunnar í höndunum og
þjóðin þarf á Morgunblaðinu að halda.“
Í góðum félagsskap í sjónum við Scoresbysund, meðan
efnis var aflað fyrir blaðauka um norðurslóðir.
Ragnar á flugi á TF-MBL
síðari í einu af fjölmörg-
um Skaftárhlaupum.
Ljósmynd/Axel Sölvason
Ragnar og Árni Johnsen blaðamaður á eintrénungi á eldfjallinu
Krakatá sem sprakk í loft upp árið 1887.
’Við getum ekki baralesið nærbuxnagreinará Facebook. Þetta KimKardashian-heilkenni er
alveg galið. Konan er fræg
fyrir að vera fræg og með-
an kastljósið beinist stöð-
ugt að henni situr annað
á hakanum. Börn deyja úr
hungri vegna þess að þau
komast ekki lengur að.
Í leysingaflóði á Suðurlandi. Vaða þurfti upp
undir handakrika til að ná góðri mynd.
8.3. 2020 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15