Feykir


Feykir - 21.08.2019, Side 9

Feykir - 21.08.2019, Side 9
Á Félagsleikum Fljótamanna, sem haldnir voru um verslunarmannahelgina, var efnt til ýmissa viðburða, m.a. morgunverðarfundar um félagssögu Fljóta. Meðal þeirra sem þar töluðu var Örlygur Kristfinnsson, oft kenndur við Síldarminjasafnið á Siglufirði. Erindi hans nefndist Bakkabræður og áhrif þeirra í nútímanum. Þar fjallaði hann um þá bræður sem Fljótamenn og sagði nokkrar sögur af mögulegum afkomendum þeirra. Í pokahorninu geymdi hann magnaða sögu sem fáir, ef nokkur í salnum, hafði áður heyrt. Þar segir frá því að Bakkabræður hafi verið frumkvöðlar í saltfiskviðskiptum við Spánverja og annað óvænt leynist í sögunni. Feykir fékk góðfúslegt leyfi Örlygs til að birta söguna, sem ekki hefur birst á prenti fyrr. Sögurnar af Bakkabræðrum eru fjórtán í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar en nýlega fannst í Þjóðskjalasafni Spánar í Madríd rituð frásögn sem um aldir hafði lifað á vörum spænskra fiskimanna. Og spyrja má hvort ekki sé þar kominn efniviður í 15. Bakkabræðrasöguna. Fjallar hún um það hvernig fyrstu fiskviðskipti Spánverja og Íslendinga byrjuðu. Þessi forna munnmælasaga er talin hafa verið skráð um miðja 19. öld en gleymst og grafist uns rykið var dustað af henni nýlega. Í henni má ráða í margt sem snertir bræðurna á Bakka þótt sagan fjalli fyrst og fremst um það sem að Spánverjunum laut. Þarna kemur við sögu örnefni sem tengist sjávarbökkum neðan Bakkabæjar og er skammt ofan við uppsátur og naust þeirra Bakkabræðra. Þarna á bakkanum er bolli nokkur eða hvilft þar sem enn má greina leifar af grjóthleðslu í kring. Mun staðurinn hafa verið nefndur Bakkahvilft - en fleiri útgáfur örnefnisins hafa verið við lýði. En í þessari lág söltuðu þeir þorskafla sinn. Svolítið grjótbyrgi hlóðu þeir í kring til varnar lágfótu og strekktu húðina af Brúnku yfir fiskstabbann. Saltið snöpuðu þeir í fyrstu af spönskum skipum sem þeir hittu fyrir á Fljótagrunni. En brátt jukust samskiptin við Spánverjana og urðu að beinum viðskiptum eftir fáein sumur þegar saltþörfin jókst á Bakka og bræðurnir fóru að leggja fram alls kyns prjónles í skiptum fyrir þessa nauðsynjavöru sem saltið var. Og er nú komið að kjarna sögunnar Einhverju sinni síðla sumars gerðist sá óvenjulegi atburður að spænsk dugga lagðist að akkerum skammt undan Bakkafjöru og hóuðu skipverjar til kunningja sinna í landi sem reru óðara út í skipið. Með bendingum og einföldu látbragði var Bakkabræðrum komið í skilning um að ördeyða væri á miðunum og sama og ekkert hefði aflast. Skemmst er frá að segja að bræðurnir fluttu allan vetrar- og vorfisk sinn úr láginni til skips og munu það hafa verið einar fjórar ferðir á Bakkabátnum. „Hér fáið þið saltfiskinn góða úr henni Bakkalág okkar“ - kölluðu þeir einum rómi, Gísli Eiríkur og Helgi „Que?“ - spurði þá dugguskipstjórinn. „Bakkalág, góurinn – hvergi verkast betri saltfiskur en í henni Bakkalág! ”Comprendo!” Tóku nú þeir spænsku gleði sína og greiddu fyrir fiskinn með dýrindis suðrænum matföngum og þremur rauðvínskútum auk nokkurs silfursjóðs. Þegar fram liðu stundir varð þetta að árlegu vinamóti þarna utan Bakkafjörunnar og fóru æ fleiri fiskimenn úr Fljótum að taka þátt í fisksölunni – með skreið og saltfiski. Þannig æxlaðist það að meðan Bakkabræðrum entist líf og heilsa dugði þeim spönsku að nefna Bakkalág til þess að hin árlegu og ærlegu saltfiskviðskipti þeirra og Fljótamanna færu fram. Hér má varpa fram þeirri kenningu að á þennan veg hafi Bakkabræður komið á fyrstu saltfiskviðskiptunum milli þjóðanna tveggja – auk þess að þarna varð til veraldarinnar þekkasta nafn á saltfiskinum: bacalao! – og þannig gætir áhrifa Bakkabræðra í nútímanum langt út í hinn stóra heim um alla framtíð – eða svo lengi sem þorskur verður úr sjó dreginn og saltaður og etinn! Ath. - rétt er að taka fram að engar áreiðanlegar heimildir eru fyrir hendi um ofangreinda frásögn - höf. FIMMTÁNDA BAKKABRÆÐRASAGAN Saltfiskviðskipti við Spánverja í Bakkabræðragöngunni endurtók Örlygur Kristfinnsson söguna um Bakkabræður frá morgunverðarfundi deginum áður. MYND: PF Hátíð á Skaga Vel heppnað málþing um Jón Árnason Með misjafnri velþóknun tóku landsmenn á móti þjóðsögunum 1862, sem æ síðan hafa verið kenndar við safnara sinn, Jón Árnason, en málþing var sl. laugardag norður á Skagaströnd á afmælisdegi Jóns. Hann fæddist á prestsetrinu Hofi 17. ágúst 1819. Hátíðin hófst með messu í Hofskirkju klukkan 11, þar sungu kirkjugestir sálmana með organistanum, Hugrúnu Sif og sr. Bryndís Valbjarnardóttir lagði út af biblíutextanum og gildi þjóðsagnanna sem voru óneitanlega í sviðsljósinu á þessum merka afmælisdegi. Eftir messu afhjúpaði oddvitinn í sveitinni, Dagný Rósa Úlfarsdóttir á Ytra-Hóli, söguspjald um Jón Árnason við félagsheimilið Skagabúð. Þar voru svo gestum boðnar veitingar, dýrindis kjötsúpa og kaffi á eftir. Landsbókasafn - Háskólabókasafn stóð fyrir þessum veitingum og veglegri afmælisveislu um nónbil í Fellsborg, þá var hlé á málþinginu þar sem fluttir voru fyrirlestrar um þjóðsögur, söfnun þeirra og gildi. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson flutti fyrsta erindið á málþinginu í Fellsborg, Rósa Þorsteinsdóttir, Kristján Sveinsson og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir fluttu þá sína fyrirlestra, en Örn Hrafnkelsson, sagnfræðingur á Landsbókasafninu, stjórnaði þinginu. Þar voru tónlistar- atriði undir stjórn Hugrúnar Sifjar, sem gestir þökkuðu vel og nutu eins og fyrirlestranna en kl. 16.30 var komið að afhjúpun minnisvarða undir Spákonufellshöfða. Guðni forseti afhjúpaði þar mynd listamannsins Helga Gísla- sonar af Jóni og útskýrði verk sitt fyrir gestunum. Klukkutíma síðar var opnuð í bókasafninu í Gamla kaupfélagshúsinu kynning á starfi og ævi Jóns, þar var Ingibjörg Steinunn Sverris- dóttir landsbókavörður sem bauð síðan gestum léttar veitingar þar á staðnum. Nefndarmönnum, tón- listarmönnum og fyrirlesurum bauð síðan Landsbókasafnið til kvöldverðar í Fellsborg þar sem góð gleði ríkti fram eftir kvöldi. Að sunnudagsmorgni var ganga um Spákonu- fellshöfða og fleiri sögustaði í þorpinu með leiðsögn Ólafs Bernódussonar. Myndir af hátíðinni má sjá á ljósmyndavef Árna Geirs Ingvarssonar. Ingi Heiðmar Jónsson Mynd: Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson við minnismerki Helga Gíslasonar af Jóni Árnasyni. Mynd af forseti.is 31/2019 9

x

Feykir

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.