Vesturbæjarblaðið - des. 2020, Síða 20

Vesturbæjarblaðið - des. 2020, Síða 20
20 Vesturbæjarblaðið DESEMBER 2020 Fyrir skömmu kom út bókin Klettaborgin eftir Sólveigu Pálsdóttur rithöfund. Bókin geymir minningarsögur hennar, m.a. úr Vesturbænum, en Sólveig er alin upp á Kvisthaga. Klettaborgin hefur fengið þá umsögn að vera einlæg, falleg, skemmtileg og fræðandi. Vesturbæjarblaðið fékk leyfi til að birta einn og hálfan kafla úr bókinni. „Ég biðst afsökunar“ Einn dag snemma vors, þegar ég var komin á fimmtánda ár og nemandi í Hagaskóla, stálumst við nokkrir nemendur eitt sinn sem oftar í frímínútum eða í hádeginu út í litla verslun sem var til húsa í lítið niðurgröfnum kjallara við Furumel. Ég var fyrst til að fá afgreiðslu og keypti appelsín sem ég drakk í gegnum lakkrísrör eða öllu heldur þambaði til að ná að skila glerinu aftur í búðina og hlaupa til baka áður en hringt var inn. Þar sem ég gekk um stéttina með gosið og beið eftir hinum sá ég að fólk hafði safnast saman á litlu túni framan við Víðimel, sunnan við Hringbraut 45. Ég vissi að Þórbergur átti heima í þessari blokk og mig grunaði að mannsöfnuðurinn tengdist honum. Kannski var hann dáinn? Án þess að láta vini mína vita hljóp ég af stað. Mér varð strax ljóst að þetta var hátíð en ekki sorgarstund því að innan skamms kvað við lúðrablástur og heil skrúðganga bættist í hópinn. Mannfjöldinn var kominn til að fagna 85 ára afmæli skáldsins og þau hjónin komu út á svalir og veifuðu fólkinu. Ég stóð þarna á túninu fullkomlega heilluð. Þórbergur var ein af stjörnum lífs míns og sá eini sem jafnaðist á við hann var Stevie Wonder. Ég held að ég hafi misst af einni og hálfri kennslustund. Síðustu tveir tímarnir voru handavinna sem ég sá lítið eftir. Samt var kennarinn ágætur og verkefnin mun skynsamlegri en þau sem við vorum látnar vinna í Melaskóla. Við lærðum á saumavélar og fengum að sauma á okkur gallapils sem voru í skárra lagi. En í síðasta tíma fyrir Þórbergsafmælið hafði hugur minn verið allt annars staðar og ég þess vegna saumað saman þann hluta á pilsinu sem á að vera opinn fyrir fæturna. Ég mun aldrei gleyma augnaráðinu sem kennarinn sendi mér og nú hafði ég sem sé bætt um betur og skrópað í tíma. Ég bankaði á dyrnar sem voru opnaðar eftir nokkra stund. Saumakennaraaugu horfðu ásakandi á mig. „Afsakaðu, hvað ég er sein,“ sagði ég. „Sein? Þetta kallast skróp!“ „Ég biðst afsökunar.“ „Hvar varstu?“ Ég tafsaði eitthvað um Þórberg Þórðarson en uppskar aðeins enn undarlegra augnaráð en ég hafði fengið vikunni áður. Það fór ekki á milli mála að hún áleit mig eitthvað einkennilega. „Upp til skólastjóra með þig, beinustu leið.“ Þetta var í fyrsta og eina skiptið á allri minni skólagöngu sem ég fékk slíka refsingu. Ég drattaðist upp á aðra hæð skólans og lét vita af mér á skrifstofunni. Mér var sagt að bíða frammi þar til kallað yrði á mig. Það leið dágóð stund og mér leið hreint ekki vel. Að tilheyra ekki Eftir langa setu á skrifstofuganginum opnaði Björn skólastjóri loks dyrnar og vísaði mér inn. Jakkafötin höfðu aldrei farið honum jafn fullkomlega, hárið á honum ekki verið jafn stífgreitt, gleraugun aldrei beinni á nefinu eða slaufan oddhvassari. Þungur á brún sagði hann mér að setjast. Sjálfur fékk hann sér sæti við veglegt skrifborð. „Hvað hefur þú þér til málsbóta?“ Ég hikaði. Horfði út og suður. Hverju átti ég að ljúga að honum? Gat ég sagst hafa meitt mig? Nei, varla. Ég hafði gengið óhölt inn um dyrnar og var hvergi með sár. Hvað átti ég að segja? Þetta var svo asnalegt að líklega myndi hann aldrei trúa mér en í einhverju stresskasti lét ég vaða. Sagði sannleikann. Að ég hefði stolist út í búð, séð allt þetta fólk og komist að því að meistari Þórbergur ætti afmæli. Það voru ræður, sungið og mikið klappað og ... og ... og ég bara gleymdi mér ... Björn horfði út um gluggann. Skóladagurinn var búinn og nemendur streymdu út á stéttina fyrir utan. Stelpur og strákar með axlarsítt hár og útkrotaðar gráar hliðartöskur úr striga hangandi yfir öxlina, á mörgum þeirra var stórt „peace“-merki. Skólastjórinn stóð upp, togaði í jakkann og lagfærði slaufuna án þess að þyrfti. Svo rétti hann mér höndina. „Ég hef heyrt ýmislegt verra en þetta,“ sagði hann og brosti út í annað. Í næsta handavinnutíma laumaðist ég til að kíkja í kladdann, þegar kennarinn sá ekki til, og sá þá að búið var að breyta stóra S-inu, sem stóð fyrir skróp, í M fyrir mætingu. (Klettaborgin bls.172 -175) „Ég biðst afsökunar“ Sólveigu Pálsdóttur rithöfundur. Kápa bókarinnar Klettaborgin. - eftir Sólveigu Pálsdóttur Sendu inn þína hugmynd á hverfidmitt.is HUGMYNDA SÖFNUN 787hugmyndir hafa orðið að veruleika

x

Vesturbæjarblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vesturbæjarblaðið
https://timarit.is/publication/1114

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.