Skessuhorn - 11.11.2020, Blaðsíða 22
MIÐVIKUDAGUR 11. NóVeMBeR 202022
Vísnahorn
Jóhann Pétur Guðmunds-
son, eða Jói í Stapa, er nú
nýlátinn. Varla held ég að
sé á nokkurn hallað þó
sagt sé að Jói hafi verið
einn alsnjallasti og hraðkvæðasti hagyrðing-
ur landsins. Sem dæmi má nefna þessa nokk-
uð þekktu stöku Jóa sem fæddist þegar maður
spurði hann að því hvort hann væri þessi Jói
vakri. Svarið kom um leið án hiks:
Ég er lúinn, liðaslakur,
lífið sjaldan miskunn gaf.
Ég hef aldrei verið vakur
og verð það tæpast héðan af.
Annars var Jói fæddur í Grundargerði í
Skagafirði 1924 og uppalinn víðsvegar um
Skagafjörð og um tíma í Svartárdal í Húna-
vatnssýslu enda voru foreldrar hans sárfátæk
og fluttu oft eins og títt var á þeim árum. Að-
eins tvítugur réðst hann í að kaupa jörðina
Stapa sem hann var lengst kenndur við. Mest
til að foreldrar hans hefðu einhverja stað-
festu. Var þá reyndar ekki orðinn fjárráða en
faðir hans vottaði og var það látið gott heita
og hafðist allt saman. Jói bjó nokkuð lengi í
Stapa en stundaði einnig smíðar víða um hér-
aðið og reyndar í öðrum landsfjórðungum.
Hestamennskan fylgdi honum lengi svo sem
fleiri Skagfirðingum og áttræður í hestaferð
norður Sprengisand yrkir hann:
Áfram ríð ég ótrauður
öllu hafna grandi
yndi er að vera áttræður
uppi á Sprengisandi.
Af æskuglóðum ennþá brenn
þó um mig napurt svelji.
Ég er raunar ungur enn
árin mörg þó telji.
Æskufjör í æðum leynist
enn má þungum huga lyfta.
Meðan andinn ungur reynist
árin litlu máli skipta.
Jói gaf út tvær bækur með kveðskap sín-
um. „Axarsköft“ og „Ný axarsköft“ og um þá
bókaútgáfu varð þessi til:
Hæfileika Guð mér gaf
af göfgum vilja sínum
en langmest þekktur er ég af
Axarsköftum mínum.
Kvæðamannafélagið Iðunn fór lengi vel og
fer trúlega enn sumarferðir og á ferð þeirra
um Vestfirði 1995 var komið við í smáverslun
þar sem flest nafngreinanlegt var til sölu jafnt
ætt sem óætt en uppröðun fremur óskipuleg
svo sem Jói lýsti:
Á Barðaströndu búið var
býsnavel að mörgu leyti
helst til átu er hafður þar
harðfiskur og koppafeiti.
Rétt um nírætt verður þessi til:
Áhyggjur ég engar hef
ýmsar gefast bætur
meðan ég get stuðlað stef
og stend í báða fætur.
Og ætli þessi sé ekki á líkum aldri:
Á góðri stund í glöðum ræðum
greinlega á það treysti
að úr sálar gömlu glæðum
geti hrokkið stöku neisti.
Þeir voru góðvinir Jói og Ingi Heiðmar
Jónsson og stóðu saman fyrir fyrstu hagyrð-
ingamótunum sem haldin voru hér um nokk-
urra ára bil í landsfjórðungunum og Reykja-
vík til skiptis. en í Stafnsrétt voru þeir staddir
þegar Ingi Heiðmar greip upp vasabók sína
og bað Jóa að beygja sig svo hann gæti skrifað
vísu í bókina og Jói orti á meðan:
Á einu snöggu andartaki
andinn hrífst í réttarblænum
var á mínu bogna baki
bókuð vísa í einum grænum.
Annað sinn voru þeir félagar ásamt Séra
Hjálmari Jónssyni á leið suður á einhvern
mannfögnuð. Líklega á Landbúnaðarsýn-
ingu á Selfossi og ræddu um vísur svo sem lík-
legt var. Meðal annars um Beinakerlingar og
Beinakerlingavísur og Heiðmar að reyna að
koma saman vísu í þeim anda þegar Jói segir:
Stakan smellin léttir lið
og ljúft að fellur muna
en Heiðmar brellinn bjástrar við
beinakellinguna.
Fjarri var þó að ferskeytlur og gamanmál
væri eina formið sem Jói í Stapa tamdi sér og
hér kemur brot úr kvæðinu Konan við vask-
inn:
Hljóð og prúð við vaskinn hún stundir
margar stóð
í stafla háa diskum og hnífapörum hlóð
með vinnulúnar hendur sem vatnshlaupnar
og bláar
voru eftir störfin – en hvíldarstundir fáar.
Aldrei fær hún þakkir þó erfið leysi störf
og eigi sjaldan næði þó hvíldar hafi þörf.
Öllum þykir sjálfsagt hún verkin þrotlaust
vinni
verði fljót að svara og öllu kvabbi sinni.
Hún hefur margar stundir við þvottabalann
þreytt.
Þvegið, snyrt og undið og hverjum bletti
eytt.
Hún hefur oft á gólfi með klút í hendi kropið
af kappi vætt og skrúbbað en sviti af enni
dropið.
Þó vissulega væri gamansemin ekki ein-
ráð í kveðskap Jóa má hún þó að ég tel heita
ríkjandi þáttur. eitt sinn bar svo við að tík
frá Vindheimum fór að venja komur sínar að
Varmalæk og eftir einhverjar umræður þeirra
granna, Sigmundar á Vindheimum og Sveins á
Varmalæk, um siðsemi hunda náði Sveinn tík-
inni og batt vísu við hálsband hennar. Tveim-
ur dögum seinna kom hundurinn á Varmalæk
heim í Vindheima og fór að huga að tíkinni
þannig að Sigmundur ákvað að launa í sömu
mynt. Náði hundinum og fékk Jóa til að gera
svarvísu sem sett var um háls á hundinum sem
var svo hastað á þannig að hann tók til fót-
anna heim:
Í vísu þú vitnar um fundinn
það verður ei talið neitt grín,
að öfunda aumingja hundinn
þú ættir að skammast þín.
eins og fyrr var að vikið voru foreldrar Jóa
í töluvert tíðum búferlaflutningum meðan
hann var barn og unglingur og meðal ann-
ars bjuggu þau um tíma í Svartárdalnum. Um
veru sína þar sagði Jói:
Misjafn reynist manna vegur,
margt fær skapað andinn slyngur.
Mér fannst ég bara merkilegur
meðan ég var Húnvetningur.
Við höfum nú farið fram og aftur um kveð-
skap Jóa heitins og ætli við endum ekki þátt-
inn á vorljóði eftir hann með þeirri fullvissu
að alltaf vori og birti á ný:
Raddirnar hljóðna, foldin fagnar,
friði er hjúpar bæ og sveit.
Vindblær kyrrist, þytur þagnar
því er hljótt í skógarreit.
Ríkir kvöldsins kyrrð og blíða,
kliður þagnar, allt er hljótt.
Þokuslæður léttar líða
lauga grös um sumarnótt.
Með þökk fyrir lesturinn,
Dagbjartur Dagbjartsson
Hrísum, 320 Reykholt
S 435 1189 og 849 2715
dd@simnet.is
Að öfunda aumingja hundinn - þú ættir að skammast þín!
Félag sauðfjárbænda í Dölum hélt
í haust sína árlegu ljósmyndasam-
keppni. Þemað í ár samkvæmt face-
book síðu félagsins var „hinir marg-
rómuðu hrútar, fullorðnir, miðaldra
og/eða ungir.“ Voru félagsmenn
hvattir til þess að gramsa í göml-
um myndum eða taka nýjar og vera
með í skemmtilegri keppni. Jafn-
framt segir á síðunni: „Þú hefur tvo
sólahringa til stefnu, þar sem það
er þoka á fjöllum og lélegt skyggni
til smalamennsku þá er einmitt
rétti tíminn til að sjæna hrútana
sína og stilla þeim upp í mynda-
töku.“ Til stóð að úrslit yrðu gerð
kunn á haustfagnaði félagsins sem
átti að halda síðustu helgina í októ-
ber. Vegna veirunnar sem plagar nú
heimsbyggðina, fjöldatakmarkana,
tveggja metra reglu og algjörrar
óvissu um hvernig ástandið yrði var
haustfagnaðinum hins vegar frest-
að svo og sviðaveislu, grillveislu og
balli. Þær þrjár sem stóðu uppi sem
sigurvegarar voru Dagný Karls-
dóttir í Ási í fyrsta sæti, Gyða Lúð-
víksdóttir í Brautarholti í öðru sæti
og Sigrún Hanna Sigurðardóttir
á Lyngbrekku í þriðja sæti. Vinn-
ingsmyndirnar má sjá með frétt-
inni. Fleiri myndir má sjá á face-
book síðu félagsins. frg
Birta úrslit í ljósmyndasamkeppni
Félags sauðfjárbænda
3. sæti: Sigrún Hanna Sigurðardóttir, Lyngbrekku. Kollóttir hrútar eru að mínu
mati oft vanmetnir. Þessi mynd minnir okkur líka á hve vinalegir hrútar geta verið
og hvað börn geta átt falleg sambönd við dýrin. Ég sé ekki betur en að báðir brosi
á þessari mynd. Ljósm. Sigrún Hanna Sigurðardóttir.
1. sæti: Dagný Karlsdóttir, Ási. Skemmtileg mynd þar sem fallegir litir fléttast
saman. Tignarlegur framtíðar höfðingi sýnir myndatökumanni áhuga. Maður
þarf ekki endilega að vera stór til að tekið sé eftir manni, smá mosi og fjallgrös í
ullinni til merkis um lífsreynsluna hingað til. Ljósm. Dagný Karlsdóttir.
2. sæti: Gyða Lúðvíksdóttir, Brautar-
holti. Sumarleg og hlý mynd. Það sést
að það væsir ekki um þennan. Bara
með því að horfa á myndina finnur
maður grasilm og daufa ullarlykt
læðast í gegn. Vinalegur hrútur kíkir
á myndatökumann og lætur sér ekki
bregða. Ljósm. Gyða Lúðvíksdóttir.