SÍBS blaðið - feb. 2020, Blaðsíða 4

SÍBS blaðið - feb. 2020, Blaðsíða 4
4 SÍBS-blaðið Loftgæði geta haft áhrif á heilsu og vellíðan og því er mikilvægt að gæði lofts séu tryggð. Í þessari grein verður farið yfir helstu áhrifaþætti loftgæða innandyra. Áhrif slæmra loftgæða á heilsu og samsetningu innilofts. Sérstaklega fjallað um raka- skemmdir, orsakir, úttektir og fyrirhyggju í þeim efnum. Að lokum verður farið yfir mikilvægi efnisvals. INNILOFT OFT MENGAÐRA EN ÚTILOFT Í fyrstu hljómar það ef til vill undarlega en ef við hugsum okkur betur um, segir það sig sjálft: inniloft getur verið marg- falt mengaðra en útiloft. Við opnum gluggann til að hleypa inn fersku útilofti, ekki öfugt. Inniloft á ávallt uppruna sinn í útilofti og því eru loftgæðin inni alltaf að einhverju leyti háð ástandinu utandyra hverju sinni. Húsin okkar mynda nærumhverfi okkar að mestu og því er afar mikilvægt að innivist sé góð og ekki heilsuspillandi. Góð innivist felst í mörgum þáttum eins og loftgæðum, lýsingu, hljóðvist, öryggi, rúm- og fagurfræði. ÁHRIFAÞÆTTIR INNILOFTS, LOFTGÆÐA Inni í byggingum geta loftgæðin verið eins mismunandi og byggingarnar eru margar. Loftgæði ráðast af þeim efnivið sem notaður er í byggingar og fólkinu sem þar dvelur. Einnig þeim ögnum, efnum, lofttegundum, örverum og lífverum sem fyrir- finn ast hverju sinni innandyra. Hver manneskja á sitt eigið örverumengi og það sama má segja um hvert hús, en hægt er að auðkenna hús með loftgæðum þess og örverum. Örverur, bæði slæmar og góðar, fylgja okkur hvert sem við förum og í byggingum má rekja ,,slóð“ þeirra einstaklinga sem hafa þar viðveru hverju sinni. Uppruni flestra þeirra baktería sem finnast innandyra má rekja til fólks og gæludýra. Sú tækni að geta DNA raðgreint ryk í húsum hefur gefið okkur margfalt meiri upplýsingar en áður var hægt að fá með eldri aðferðum. Með því að taka DNA sýni má sjá að ræktun á agarskálum gefur okkur í raun afar takmarkaðar upplýs- ingar um hvaða örverur raunverulega má finna. Þess vegna vitum við nú betur en áður að örverumengi bygginga er flókið vistkerfi sem verður til við samspil útilofts, staðsetningar, ástands, virkni byggingar og notenda (Adams R ofl, 2016). Agnir og efni koma frá þeim húsbúnaði, byggingarefnum og efnasamböndum eins og meindýraeitri, eldtefjandi efnum og rokgjörnum lífrænum efnum sem notuð eru við heimil- ishald eða rekstur. Þessi efni gufa úr efnum eða húsbúnaði og safnast saman í innilofti. Ef við loftum ekki reglulega út getur styrkur þeirra valdið okkur óþægindum og jafnvel veikindum. Þessi mengun, agnir eða efni eru næstum aldrei sýnileg. HELSTU HEILSUFARSEINKENNI ÞAR SEM LOFTGÆÐUM ER ÁBÓTAVANT Einkennin sem koma hér fram eru almenn og algeng en þau tengjast viðveru í ákveðnu húsnæði, koma oftast fram mörg í einu og geta verið langvarandi. Einstaklingsbundið er hvaða einkenni koma fram hverju sinni: • Slímhúðareinkenni, þurrkur, eymsli, bólgur: augu, nef og háls • Astmi, mæði eða ofnæmiseinkenni • Tíðari og verri öndunarfærasýkingar eða einkenni frá loftvegum • Þreyta og flensulík einkenni • Minnistruflanir og erfiðleikar við einbeitingu • Meltingartruflanir eða ógleði • Höfuðverkir eða aðrir verkir • Húðvandamál • Truflun í ónæmiskerfi • Munur á óþægindum og veikindum Það er aldrei hægt að gera öllum til geðs sem dvelja saman í híbýlum. Ávallt eru 5-10% einstaklinga sem finna fyrir ein- hverjum óþægindum, til dæmis vegna dragsúgs, kulda, hita eða vegna þess að loft er þurrt. Mikilvægt er að rugla ekki saman þægindastigi fólks og veikindum. Þegar fólk veikist getur það misst úr vinnu, tapað vinnuþreki og misst þrótt. Hjá þessum hópi verða sýkingar tíðari, flensulík einkenni ríkjandi, verkir, þreyta og önnur ein- kenni eða kvillar sem skerða lífsgæði. Greinilegur munur er á milli óþæginda og veikinda. RAKASKEMMDIR OG MYGLA Í vestrænum löndum þegar loftgæði eru verulega slæm og veikindi til staðar sem tengja má við ákveðið húsnæði, má í flestum tilfellum rekja það til rakaskemmda. Þess má geta hér að samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni er aukin áhætta fyrir heilsu að dvelja í rakaskemmdu húsnæði (WHO, 2009). Engu að síður eru aðrir þættir mikilvægir eins og áður er getið og verður betur farið yfir. Þar sem byggingar verða fyrir vatns- eða rakaálagi sem leiðir til rakaskemmda má reikna með vexti rakasækinna örvera (myglu, baktería og geislabaktería), aukinni útgufun frá byggingarefnum, ögnum og afleiðuefnum eins og eitur- efnum (t.d. mycotoxin, endotoxin). Einnig má búast við að öragnir (nanoparticles) losni frá byggingarefnum og örverum. Að halda húsum þurrum er einn veigamesti þátturinn í því að halda loftgæðum ásættanlegum, ásamt því að hafa þau hrein og tryggja regluleg loftskipti. Byggingar skemmast í flestum tilfellum eða í 80% til- fella vegna veðrunar, raka, grotnunar og niðurbrots. Orsakir rakaskemmda og myglu í byggingum má rekja til hönnunar, verklags við framkvæmdir, efnisvals, tjóna, notkunar og skorti á eðlilegu viðhaldi. Uppruni vatns getur verið frá úrkomu, regni eða snjókomu, jarðvatni, byggingarraka, frá lögnum eða vegna notkunar. Loftgæði innandyra Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir líffræðingur B.Sc., Eflu verkfræðistofu Grein

x

SÍBS blaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SÍBS blaðið
https://timarit.is/publication/1222

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.