Morgunblaðið - 06.07.2020, Qupperneq 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 6. JÚLÍ 2020
Dalvegi 16c | 201 Kópavogur | Sími 568 6411 | rafvorur@rafvorur.is
Amerísk heimilistæki
rafvorur.isRAFVÖRUR ehf
Þvottavélar
og þurrkarar
sem taka
10-17 kg
Hlutleysi sem róttækni
Í upphafi stefna Birtingsmenn
riti sínu gegn íhaldssamri list-
stofnun og listskilningi sem öðrum
þræði á rætur í þjóðernispólitísk-
um hugmyndum sjálfstæðisbarátt-
unnar. En tímaritinu er enn frem-
ur stefnt gegn pólitískri mettun
menningarumræðunnar, þar sem
listamenn eru dæmdir á (flokks)
pólitískum forsendum og sú krafa
er hávær að listamenn verði að
taka afstöðu. Í fyrstu yfirlýsingum
þeirra um ritið
– og í því sjálfu
– er pólitísk rót-
tækni því ekki
efst á blaði, að
minnsta kosti
ekki í hefð-
bundnum skiln-
ingi. Þó að það
hljómi þver-
stæðukennt má
segja að pólitísk róttækni Birt-
ingsmanna komi ekki síst fram í
andpólitískri viðleitni þeirra.
Birtingsmenn leggja mikla
áherslu á að ritið sé ekki flokks-
pólitískt og jafnvel ópólitískt; að
það eigi „fyrst og fremst að vera
vettvangur fyrir rökræður um
menningarmál án stjórnmálal[egs]
tillits – það er algjörlega óháð öll-
um stjórnmálasamtökum“ eins og
Thor segir í endursögn sinni á
ræðu sem hann hélt á blaða-
mannafundi 4. febrúar 1955 þar
sem Birtingur var kynntur til sög-
unnar. Birtingsmenn áttu oft eftir
að þurfa að verja þessa afstöðu
sína. Nokkrum dögum eftir að
fyrsta heftið kom út birtist til að
mynda nafnlaus grein í Vísi með
fyrirsögninni „Ósvífin auglýsing
kommúnista í útvarpinu“ þar sem
deilt er hart á Björn Th. Björns-
son fyrir að hafa í listamannaþætti
sínum í útvarpinu kvöldið áður
auglýst „tímarit eitt, sem telur sig
fjalla um listir og kommúnistar
standa að“. Thor svarar með at-
hugasemd í Vísi tveimur dögum
seinna, kveðst ekki vilja álykta að
blaðamaðurinn hafi aldrei séð ritið
sem hann skrifaði um en neyðast
til að efast um lesgreind hans því
að „fremst í ritinu sé ávarp eða
stefnuyfirlýsing frá útgefendum
þess þar sem upplýst er að það sé
óháð öllum stjórnmálasamtökum“
enda ætli hann að þess sjái víða
stað í ritinu. Þykir honum blaða-
maðurinn „örveitull á heitið
„kommúnisti“ af misjöfnu tilefni“
en hann ætli ekki að ræða stjórn-
málaskoðanir þeirra sem standi að
Birtingi, það væri flókið mál enda
séu honum þær miskunnar, fyrir
utan að þær komi „málinu bók-
staflega ekkert við“. Fyrir neðan
athugasemd Thors eru birt við-
brögð ritstjóra Vísis þar sem segir
– fyrst í ertnislegum tón – að fara
verði varlega í að kenna menn við
kommúnisma eða kalla þá komm-
únista vegna þess að með því sé
gengið allnærri æru manns: „En
engu að síður getur það ekki talizt
ósennilegt að aðstandendur fram-
anskráðs tímarits séu í ákaflega
nánum tengslum við kommúnista,
svo að ekki sé fastar að orði kveð-
ið, og mjög líklegt, að komm-
únistar þjappi sér fast saman um
þessa útgáfustarfsemi.“ 82
Viðbrögð Vísis voru ekki eins-
dæmi líkt og áður kom fram. Í
raun var ekki tekið mark á yfirlýs-
ingu Birtingsmanna um að rit
þeirra væri óháð pólitískum öflum.
Vafalítið hefur hún þótt óþarfur
útúrsnúningur eða til marks um
hortugheit í útgefendunum.
Kannski er ritstjóri Vísis að vísa
til þess að fyrsta heftið er prentað
í Prentsmiðju Þjóðviljans. Og satt
að segja stangast þessi yfirlýsing
á við ýmislegt sem Birtingsmenn
höfðu látið frá sér fara. Einar
Bragi var harður vinstrimaður,
hafði verið blaðamaður við Þjóð-
viljann og viðriðinn Landnemann
og Frjálsa þjóð. Jón Óskar hafði
einnig látið til sín taka í pólitískri
umræðu, meðal annars ort bar-
áttuljóð gegn veru hersins, en var
efasemdamaður, að eigin sögn.
Thor var af borgaralegum ættum
og hafði ekki haft sig mikið í
frammi á pólitískum vettvangi en
þó birt skáldskap í Tímariti Máls
og menningar. Hann var kannski,
ásamt Herði, óræðasta stærðin í
stjórnmálalegu tilliti. Hörður átti
aftur á móti eftir að hafa talsverð
hugmyndafræðileg áhrif með
skrifum sínum um byggingarlist
og skipulagsmál þar sem hann
boðaði nýja sýn á samfélagið í
anda Bauhaus (sjá kafla 6.2).
Birtingsmönnum var hins vegar
full alvara með yfirlýsingu sinni
um pólitískt „hlutleysi“. Öðrum
þræði kemur hún til vegna þess að
ráðist hafði verið að módernískum
skáldskap bæði úr herbúðum
vinstri og hægri manna. Í „Ávarp-
inu“ segir að „línutrúir flokkspálar
og pétrar haf[i] sent geira sína af
engu minni heift og fákænsku að
þeim [ungu brautryðjendunum]
heldur en aurasjúkir íhaldsmenn“
(1/1955, 1).
Deilurnar voru því ekki flokks-
pólitískar – að minnsta kosti ekki í
huga Birtingsmanna – heldur um-
fram allt listpólitískar. En með því
að segja Birting óháðan stjórn-
málasamtökum sköpuðu ritstjór-
arnir sér einnig sterkari vígstöðu
á menningarvettvanginum, ekki
hvað síst gegn Tímariti Máls og
menningar sem var orðið afar
voldugt. Það sést best á því að
borgaraleg öfl sáu sér ekki annað
fært en að bregðast við veldi þess.
Þetta sama ár er Almenna bóka-
félagið stofnað með Bjarna Bene-
diktsson, þáverandi menntamála-
ráðherra Sjálfstæðisflokksins, í
fararbroddi. Í fyrsta tölublaði Fé-
lagsbréfa Almenna bókafélagsins,
sem hófu göngu sína þetta ár, seg-
ir að félagið hafi það hlutverk að
sameina skáld sem „aðhyllast
lýðræðislega og frjálslynda stefnu
í menningarmálum og þjóð-
málum“. Almenna bókafélaginu er
beinlínis stefnt gegn veldi Máls og
menningar og gegn aðfluttum
kenningum, eins og það er orðað,
„þess efnis, að á fyrstu árum vís-
indalegra rannsókna hafi fundist
algild lögmál í þjóðfélagsfræðum“
svo sem Bjarni segir í „Ávarps-
orðum“ fyrsta heftis Félagsbréf-
anna. Hann talar um „einokun og
stöðvun sannleiksleitarinnar“.
Þetta sama ár hefur tímaritið
Stefnir göngu sína í breyttri mynd
í ritstjórn Matthíasar Johannessen
(f. 1930), Gunnars G. Schram
(1931-2004) og Þorsteins Thor-
arensen (1926-2006), sem allir
voru blaðamenn á Morgunblaðinu
á þessum tíma, en á það má líta
sem nokkurs konar svar við Birt-
ingi. Um var að ræða tímarit gefið
út af Sambandi ungra sjálfstæð-
ismanna, sem kom fyrst út 1950,
og hafði þá undirtitilinn Tímarit
sjálfstæðismanna. Nú fékk það
undirtitilinn Tímarit um stjórnmál
og bókmenntir en fékk seinna
meðal annarra undirtitilinn Tíma-
rit hægri manna um þjóðmál og
menningarmál. Í raun hljóp enn
meiri kraftur í baráttuna um vald-
ið á vettvangi fagurfræðilegrar og
hugmyndalegrar umræðu með
þessum útspilum menntamanna á
hægrivæng stjórnmálanna.
Óhætt er að kalla það róttæka
afstöðu hjá Birtingsmönnum að
lýsa yfir eins konar hlutleysi í
þessu pólitíska andrúmslofti. Þeir
leitast við að staðsetja sig á mær-
unum, fella girðingarnar og skapa
rými þar sem hin hefðbundnu átök
milli hægri og vinstri eru merk-
ingarlaus, óþörf. Með því að hafna
forsendum ríkjandi orðræðu um
listir og menningu ráðast þeir að
rótum valdakerfisins, aflanna sem
höfðu þegar hér var komið sögu
barist um forræðið yfir íslenskri
menningu um árabil og áttu eftir
að gera um nokkurt skeið. Þeir
vilja vera óræð pólitísk stærð.
Sjálfstæði þeirra er þó ekki mjög
afgerandi, að minnsta kosti ekki
fyrst um sinn. Jón Óskar segir frá
því að Birtingsmönnum hafi boðist
að Ragnar í Smára kostaði útgáfu
tímaritsins og það kæmi út á veg-
um Helgafellsútgáfunnar en þeir
hafnað því: „Við kusum heldur að
brjótast áfram af sjálfsdáðum og
vera alfrjálsir.“ Í dagbók Thors
27. september 1954 er greint frá
því að leitað hafi verið til Ragnars
um stuðning við ritið þegar í upp-
hafi og niðurstaðan hafi verið að
hann ætlaði „að kosta eitt experí-
ment með eitt hefti“. Rúmu ári
seinna, tíunda október 1955, er á
hinn bóginn að finna þessa færslu
án frekari skýringa: „Ógurlega er
Ísland leiðinlegt land, er það ekki.
Mikið voðalegir dilettantar eru hér
ráðendur á svonefndu menningar-
sviði. […] Ragnar í Smára ætlar
að fara laglega með okkur í Birt-
ingi. Hann sveik loforðið sem hann
gaf mér á laugard[aginn] um að
gefa skipun um að taka Birting til
prentunar.“ Ragnar var stuðnings-
maður hinna borgaralegu afla þótt
erfitt sé að setja pólitískan stimpil
á menningarstarf hans í heild
sinni. Birtingsmenn voru aftur á
móti einnig í nokkrum tengslum
við Þjóðviljann, málgagn sósíalista.
Öll hefti fyrstu þriggja áranna eru
prentuð í prentsmiðju Þjóðviljans
nema 2. hefti 1955 sem er prentað
í Víkingsprenti, að öllum líkindum
á kostnað Ragnars í Smára. Að
auki eru fyrstu misserin birtar í
Þjóðviljanum tilkynningar um
sölustaði og verð tímaritsins. Í
fyrrnefndri áskrifendaherferð árið
1957 var enn fremur hátt í tugur
auglýsinga um Birting í Þjóðvilj-
anum – einum blaða, eftir því sem
næst verður komist.
Birtingsmenn voru hópur valda-
lítilla manna innan íslensku
vinstrihreyfingarinnar eða í
tengslum við hana. Uppreisn
þeirra beinist einna helst gegn
menningarlegu forræði Máls og
menningar. Þeir finna sig í raun
knúna til þess að slíta sig frá ráð-
andi öflum í íslensku menningar-
lífi, sem höfðu haldið þeim í skefj-
um, til þess að vinna fagurfræði
sinni brautargengi. Deilurnar við
Hannes Sigfússon, sem vitnað var
til hér að framan, vitna um að
ekki voru allir tilbúnir til þess að
fara þessa leið, hvort sem ástæð-
urnar voru fagurfræðilegar,
hugmyndafræðilegar eða af öðrum
toga. Sigfús Daðason er annað
dæmi og einnig Matthías Johann-
essen. Báðir gerðu þeir sína fagur-
fræðilegu uppreisn innan menn-
ingarstofnana vinstri- og hægri-
manna, hinn fyrrnefndi í Máli og
menningu og hinn síðarnefndi á
Morgunblaðinu og að hluta til í
Stefni.
Tengsl Birtingsmanna við vax-
andi menningarveldi vinstrimanna
árin fyrir stofnun Birtings voru
mismikil og með ólíkum hætti. Af-
ar forvitnilegt er að lesa frásögn
Jóns Óskars af tilraunum sínum til
þess að semja sig að skoðunum og
skáldskaparfræðilegum viðmiðum
þessarar stofnunar, bæði með því
að breyta smásögu þannig að hún
yrði „innlegg í baráttuna“ og með
því að yrkja í hefðbundnu formi,
þvert gegn eigin sannfæringu og
smekk, til þess að fá skáldskap
sinn birtan hjá Kristni E. Andr-
éssyni í Tímariti Máls og menn-
ingar. Þegar kemur fram á sjötta
áratuginn verður Jóni og fleirum
æ ljósara að íhaldssöm viðhorf
ráði of miklu um stefnu Máls og
menningar og því verði að leita
annarra leiða til þess að upprenn-
andi straumar geti fundið sér far-
veg í menningarlandslaginu.
Tengsl hópsins við Mál og menn-
ingu eru þó aldrei alveg rofin. Jón
Óskar, Thor, Jóhann og Björn Th.
skrifa allir í tímarit útgáfufélags-
ins á meðan þeir starfa fyrir Birt-
ing. Jón Óskar er gefinn út hjá
Heimskringlu og Thor lofar ítrek-
að menningarstarf Kristins E.
Andréssonar í pistlum sínum,
meðal annars í fyrsta hefti Birt-
ings (1/1955, 21-22). Og Birtings-
menn komu víðar við. Verk þeirra
allra eru gefin út hjá Helgafelli,
útgáfufyrirtæki Ragnars í Smára.
Skáldsaga Björns Th. Björns-
sonar, Virkisvetur, er gefin út hjá
Menningarsjóði 1958. Um skeið
heldur Einar Bragi áfram að
skrifa í Þjóðviljann, einkum rit-
dóma. Að þessu leyti, sem svo
mörgu öðru, voru Birtingsmenn
mótsagnakenndir – eða kannski
séðir og raunsæir.
Tilvísunum er sleppt.
Tímaritið Birtingur og íslenskur módernismi
Bókarkafli | Tímaritið Birtingur, sem kom út á
árunum 1955-1968, gegndi lykilhlutverki við að
innleiða módernisma í íslenskar bókmenntir og
listsköpun. Í bókinni Opna svæðið rekur Þröstur
Helgason sögu tímaritsins og þeirra átaka,
pólitískra og listpólitískra, sem spruttu af því.
Mynd úr einkasafni Unu Margrétar Jónsdóttur
Módernistar Kjarnahópur Birtingsmanna, Einar Bragi, Hörður Ágústsson, Thor Vilhjálmsson og Jón Óskar.