Morgunblaðið - 25.11.2020, Qupperneq 24
24 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 25. NÓVEMBER 2020
Smiðjuvegi 4C | 200 Kópavogur | Sími 587 2202 | hagblikk@hagblikk.is | hagblikk.is
HAGBLIKK
Álþakrennur
& niðurföll
Þakrennurnar eru frá GRÖVIK VERK í Noregi
Þær eru einfaldar í uppsetningu
HAGBLIKK
Ryðga ekki
Brotna ekki
Litir á lager:
Svart, hvítt, ólitað, rautt
silfurgrátt og dökkgrátt
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Við þurfum að halda sögu Sigríðar
á lofti, hún er þjóðhetja og fyrir-
mynd sem talar skýrt inn í okkar
samtíma, nú þegar fólk er farið að
átta sig á hversu miklu máli
náttúruvernd skiptir. Sigríður var
kvenskörungur og hugsjónakona
sem skar sig úr fyrir baráttu sína og
þrautseigju. Hún var fædd á
nítjándu öld en á þeim tíma var
óvenjulegt að kona legði á sig mikið
erfiði til að berjast fyrir því sem hún
trúði á,“ segir Eyrún Ingadóttir
sagnfræðingur og rithöfundur sem
nýlega sendi frá sér sögulegu skáld-
söguna Konan sem elskaði fossinn,
en þar segir af Sigríði Tómasdóttur
í Brattholti sem barðist fyrir ná-
granna sínum og vini, Gullfossi, þeg-
ar til stóð að virkja hann.
„Ég hélt lengi vel að það væri
ekki hægt að skrifa þessa bók vegna
þess að mér fannst Sigríður svo sér-
stök manneskja að ég hafði áhyggj-
ur af að ég ætti erfitt með að fara
inn í hennar hugarheim. En þegar
ég fór af stað þá rann þetta fram.
Galdurinn er líka að fara ekki aðeins
inn í huga Sigríðar heldur líka ann-
ars fólks sem kemur við sögu og er
henni tengt. Þetta snýst um að gæða
fólk lífi og fara út fyrir sagnfræðina,
taka sér skáldaleyfi hvar sem það
hentar. Ég get mér til um ástæður
og allt í kringum þær, í því er meiri
skáldskapur en fólk gerir sér
kannski grein fyrir.“
Hún hefur fylgt mér lengi
Eyrún segir að sér finnist hún
hafa þekkt Sigríði lengi.
„Allt á þetta upphaf sitt í því að
ég skrifaði ritgerð haustið 1992 þeg-
ar ég var í sagnfræðinámi við Há-
skóla Íslands. Þá tók ég meðal ann-
ars viðtal við Eirík Tómasson í
Miðdalskoti, systurson Sigríðar.
Síðan skrifaði ég grein um Sigríði
sem birtist í Lesbók Morgunblaðs-
ins í desember 1993, og hún hefur
fylgt mér allar götur síðan. Það
bættust síðan við margar heimildir
nú enda er vefsíðan timarit.is mikill
fjársjóður.“
Innra með henni bjó óbilandi
afl sem knúði hana áfram
Eyrún segir að Sigríður hafi verið
óvenjuleg manneskja, einþykk og
félagsfælin.
„Hún var einræn og lítið fyrir at-
hygli. Hún fór lítið af bæ og hefur
eflaust verið á einhverju rófi, sem er
alls ekki löstur því fyrir vikið var
hún mjög fylgin sér og innra með
henni bjó óbilandi afl sem knúði
hana áfram. Hennar gjörðum fylgdu
heitar tilfinningar og drifkrafturinn
er aðdáunarverður. Hún fór hiklaust
sínar eigin leiðir gegn viðteknum
viðhorfum um hvað konur ættu að
gera á þessum tíma og hún er fyrsti
aðgerðasinninn í náttúruvernd hér á
landi. Sigríður var ekkert að velta
fyrir sér hvað öðrum fannst, hún
gerði það sem henni fannst hún
verða að gera. Hún hefur alveg vitað
að hún rækist illa í flokki og að öðr-
um hafi þótt hún sérstök, því hún
hefur þau orð um sjálfa sig í viðtali
sem tekið var við hana, að hún sé
„einræningi og ólán“.
Hún tuggði mat í hundinn
Eyrún segir að Sigríður hafi ekki
heldur fallið inn í kynhlutverk síns
tíma í hversdagslífinu.
„Hún var forkur og karlmanns-
ígildi til starfa. Ég veit að hún var
mest í útiverkum með föður sínum
sem hún var mjög hænd að. Til eru
margar hetjusögur af Sigríði, hún
gekk til dæmis á einum degi 60 ferð-
ir með hey á bakinu frá túni og heim
í hlöðu, þegar von var á rigningu.
Hún var ekki stór eða sterklega
byggð kona, líkt og margir gætu
haldið miðað við hennar afrek, held-
ur var hún fíngerð,“ segir Eyrún og
bætir við að það gleðji hana mikið að
fólk sé snortið yfir sögu hennar um
Sigríði, eins og hún hefur sett hana
fram í nýju bókinni.
„Ég sýni á henni margar hliðar,
til dæmis var Sigríður mikill dýra-
vinur, eins og títt er um næmt fólk.
Hún tuggði mat í gamla hundinn í
Brattholti þegar hann átti orðið erf-
itt með að éta og hún leyfði honum
að sofa uppi í rúmi hjá sér, sem ekki
tíðkaðist á þeirri tíð. Yfirleitt þegar
gestir komu í Brattholt þá byrjaði
hún á að gefa dýrunum að borða sem
komu með gestum, síðan gaf hún
mannfólkinu.
Sigríður var líka mjög listræn, til
eru fagrar teikningar eftir hana af
fuglum, hestum og blómum sem hún
gaf systrum sínum. Einnig er til
listilegur útsaumur eftir hana.“
Svik og slæm framkoma
Eyrún segist hafa velt mikið fyrir
sér hvers vegna Einar, fósturbróðir
Siggu, hafi komið illa fram við hana.
„Hann sveik loforð sem hann gaf
henni um það sem var henni kærast,
Gullfoss. Hann óð yfir hana, borgaði
henni ekki það sem honum bar fyrir
jörðina og hafði líka af henni ellilíf-
eyrinn. Þetta gerði hann, þessi
drengur sem var alla tíð umvafinn
og dekraður af fjölskyldunni í Bratt-
holti. Mögulega liggur skýringin í
erfiðri stöðu hans og annarra bænda
á þessum tíma, það var mikið von-
leysi í kjölfar mæðiveikinnar. Hugur
hans stóð heldur ekki til búskapar,
hann vildi frekar eignast bækur og
keypti mikið af þeim,“ segir Eyrún
og bætir við að til sé uppkast að
bréfi þar sem séra Eiríkur Þ. Stef-
ánsson, prestur á Torfastöðum og
vinur Sigríðar, skrifar Einari þar
sem hann talar máli hennar og segir
að Einar skuli átta sig á að það verði
skrifað um Sigríði og baráttu hennar
fyrir fossinum í framtíðinni.
„Þegar maður fjallar um fólk í for-
tíð þá er vandi að tala illa um það,
eins og Einar lendir í hjá mér. Ég
geng hins vegar skemur en ég hefði
getað og heimildir gáfu tilefni til.
Einari til málsbóta þá sá hann eftir
framkomu sinni í lokin,“ segir Eyrún
og bætir við að kaldhæðni örlaganna
sé sú að verðmætt bókasafn Einars
hafi brunnið.
Skiptir miklu máli að við
eigum okkar auðlindir sjálf
„Um aldamótin 1900 var Gullfoss
mjög afskekktur og margir vissu
ekkert hvar hann var. Það var ekki
fyrr en árið 1907 þegar kóngur kem-
ur að vegur er lagður alla leið í Bisk-
upstungur og brýr lagðar á erfið
fljót sem höfðu verið farartálmar
alla tíð. Þar sem kóngur stóð og virti
fyrir sér fegurð Gullfoss skálaði
hann með fyrirmennum Íslands fyrir
tilvonandi virkjanaframkvæmdum,“
segir Eyrún og tekur fram að við
getum ekki sett mælikvarða dagsins
í dag á fyrri tíma viðburði.
„Við megum ekki dæma heldur
spyrja: Hverju hefur fátæk þjóð efni
á? Ég hef farið til Namibíu þar sem
er mikið af auðlindum en þjóðin á
þær ekki, þær hafa verið seldar og
þjóðin sveltur. Afríku langar ekki að
taka við mengandi rusli okkar
Vesturlandabúa en þau hafa ekki
efni á að segja nei. Þannig er ör-
birgðin, hún setur mörk og fólk hef-
ur enga kosti. Ísland var eitt fátæk-
asta land Evrópu þarna í byrjun
aldar og við getum sannarlega þakk-
að Sigríði fyrir hennar baráttu, því
fyrir hennar tilstilli gerðu margir
sér grein fyrir því að sumir fossar
væru of góðir til að verða virkjaðir.
Það skiptir gríðarlega miklu máli að
við eigum okkar auðlindir sjálf.
Hvernig væri líf okkar í dag ef allir
fossar og vatnsföll hér á landi væru í
eigu erlendra aðila og allur arður af
þeim farið úr landi? Í byrjun tutt-
ugustu aldar var það raunhæfur
möguleiki.“
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Eyrún Hún segir að gjörðum Sigríðar hafi fylgt heitar tilfinningar og drif-
kraftur. „Hún fór hiklaust sínar eigin leiðir gegn viðteknum viðhorfum.“
Ég er einræningi og ólán
Sigríður í Brattholti var fyrsti aðgerðasinninn í náttúruvernd hér á landi Eyrún Ingadóttir
hefur skrifað sögulega skáldsögu um Sigríði sem var sérstök kona og aðdáunarverð fyrir festu sína
Ljósmynd/Frederick Howell/Mynd frá Þjóðminjasafninu
Einarðleg Sigríður tvítug í sauðskinnsskóm á hestbaki í heimahögum. Myndina tók Frederick Howell árið 1891.
Atvinna