Aðventfréttir - mar 2014, Qupperneq 4

Aðventfréttir - mar 2014, Qupperneq 4
4 Við tileinkum þetta fyrsta tölublað Aðventfrétta 2014 einingu. Innan kirkjunnar sem utan. Það gerast hlutir í söfnuðinum í dag sem eru þess megnugir að spilla einingu hans. En það er brýnt fyrir okkur að muna að andi sundrungar og flokkadrátta er verk andstæðings Guðs því hann kom til að eyða, sundra og tortíma. Það er athyglisvert að þegar menn standa á tunglinu og horfa niður á blá-græna jörðina okkar þá er hægt að sjá dökkar útlínur landmassanna, hin geysistóru hafsvæði, hina miklu fjallgarða. En þvers yfir skjannahvít Himalajafjöllin sést dökkt strik. Kínamúrinn. Það er að segja að úti frá geimnum er eingöngu sjáanlegt á jörðu það sem Guð hefur gert, nema eitt mannanna verk – múr. Okkur ætti ekki að undra þetta. Við höfum ávallt verið miklir smiðir aðskilnaðarmúra. Flestir þeirra hafa þó verið ósýnilegir berum augum eins og aðskilnaðarmúr milli kynþátta. En ekki allir. Og það sorglega er að kirkjan hefur oft á tíðum tekið virkan þátt. Þetta er í fullri andstöðu við höfuð og leiðtoga kirkjunnar sem kom til að sætta og sameina, ekki aðskilja: „Því að hann er friður okkar. Hann gerði heiðingja og Ísraelsmenn að einum, hann reif niður vegginn sem skildi þá að, fjandskapinn milli þeirra. Með lífi sínu og dauða afmáði hann lögmálið með boðorðum þess og skipunum til þess að setja frið og skapa í sér einn nýjan mann úr báðum“ (Ef 2.14,15). Þetta er frásögnin sem við þekkjum svo vel, um hina miklu sigurför Krists, um hvernig hann, með blóði sínu á krossi, vann sigur einingarinnar, ekki eingöngu kirkjunni til handa heldur og allri sköpun. Þessi ritningargrein (Ef 2.11-22) er einhver sú skýrasta og fyllsta í Ritningunni um það hvernig frelsunardauði Jesú er hinn eini sanni sameiningarmáttur fyrir hinn sundraða heim sem við lifum í, fyrir alheiminn allan. Efesus 4 hvetur okkur síðan sem innan kirkjunnar erum til lifa þessa dýrmætu einingu sem Jesús keypti með blóði sínu og Guð er að skapa fyrir heiminn allan. Eða með öðrum orðum: Takist okkur ekki að lifa þessa einingu meðal fólks Guðs jafnast það á við að við höfnun því að taka þátt í þeirri áætlun sem Guð hefur í heiminum. Þegar við lesum Efesus 4.1-16 sjáum við mynd af því samfélagi sem Guð áformaði innan kirkjunnar. Þetta er ekki samfélag sem aldrei er ósammála um neitt – einhver útópísk nýlenda eilífra „já-manna.“ Okkur er skylt að tala sannleikann í kærleika. Kirkjan á heldur ekki að vera samfélag einsleitninnar – þar sem allir eru eins, hljóma eins, hugsa eins. Efesus 4 er í raun mynd af ríkum fölbreytileika. Guð gefur kirkjunni margvíslegar gjafir og kallar sérhvern innan hennar til að sinna mismunandi hlutverkum. En þessi fjölbreytileiki sprettur úr einingunni. Við elskum öll og þjónum Jesú. Sameiginlegur grunnur okkar – einn Drottinn, ein trú, ein skírn, ein von – er mun víðari en sá munur sem á okkur er. Tilgangurinn með þessari einingu finnst í því sem hann myndar í okkur: Fullþroska, Krists fyllingu, ekki áfram hrakin fram og aftur af hverju sem er. Annar tilgangur með þessum þroska er að þegar þessi afmyndaði heimur sér eininguna í kirkjunni mun hann sjá mynd Jesú – hann mun sjá vaxtartakmark Krists fyllingar í okkur. Guð hefur komið því þannig fyrir að ef einhver spyr: „Hvernig er Jesús? Hver er Jesús? Er hann kærleiksríkur? Er hann góður? Er hann réttlátur? Er hann örlátur? Huggar hann hina undirokuðu? Mun hann takast á við undirokarann?“ – allt sem hann þarf að gera er að líta til kirkjunnar til að fá svar. Þá kemur Efesus 2 aftur inn í myndina. Þegar heimurinn lítur til kirkjunnar þá er sú mynd sem hann ætti að sjá af Jesú sú af frelsara sem sameinar, frelsara sem gerir vini úr óvinum bæði á láréttu og lóðréttu plani, frelsari sem kemur á friði milli manns og Guðs og manna í milli. Dauði Jesú er dauði sáttargjörðarinnar. Hann stofnar til einingar. Mættum við þannig ganga erinda Krists í heiminum og stuðla að einingu í anda hans og virða systkini okkar sem öll eru keypt dýrmætu blóði hans. Það er okkar hlutverk í krafti Heilags Anda. Eric Guðmundsson Ri ts tjó rn ar gr ei n

x

Aðventfréttir

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Aðventfréttir
https://timarit.is/publication/973

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.