Aðventfréttir - Mar 2014, Page 24

Aðventfréttir - Mar 2014, Page 24
24 Minningar Hjörtur Einarsson F. 31 desember 1918 D. 23. desember 2013 Hjörtur Einarsson lést í Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Silfurtúni í Búðardal, þann 23. des. s.l. Hann fæddist 31. des. 1918 í Neðri-Hundadal. Hann var elstur barna foreldra sinna, þeirra Einars Jónssonar, bónda í Neðri-Hundadal og Láru Lýðsdóttur frá Litla-Langadal á Skógarströnd, en þau voru, auk Hjartar, Vigdís, Guðmundur Hans, Kristín og Áslaug Birna. Þau hjónin Einar og Lára voru mikil höfðingshjón og var oft mjög gestkvæmt hjá þeim. Næturgestir voru tíðir. Einnig höfðu þau gamalmenni hjá sér og mörg börn dvöldu þar sumarlangt. Eitt fósturbarn, Friðjón Ágúst Vilhjálmsson, tóku þau Einar og Lára að sér 4 ára gamlan. Í þessu umhverfi ólst Hjörtur upp. Íslensk bændamenning var þá enn uppistaða þjóðmenningarinnar. Húslestrar og sagnahefð viðgekkst á bæjunum og fróðleiksþorsti sem svalað var að mestu með eigin grúski og lestri því ekki fór mikið fyrir skólagöngu barna á þeim tíma. Eina skólagangan sem Hjörtur naut var nokkurra vikna farskóli að vetri til. En bústörfin fylltu nær allar vökustundir unglingsáranna. Náttúruást og nærgætni í umgengni við dýrin voru honum í blóð borin. Um tíma á stríðsárunum vann Hjörtur fyrir sunnan, þá m.a. í Bretavinnunni svokölluðu. Árið 1948 réðst hann í byggingu nýs íbúðarhúss með föður sínum á bænum og þá smám saman tók hann við búinu. Með dugnaði og áræðni tóks honum að efla búreksturinn. Árið 1953 gerðust merkis hlutir í lífi Hjartar. Bóksali á vegum aðventista, Ólafur Önundsson, kom við í Hundadal. Og Hjörtur þóttist þekkja manninn úr draumi sem hann hafði dreymt nokkru áður. Svo fór að Hjörtur keypti bækur af Ólafi, og gott betur, því ævilangur vinskapur tókst með þeim og þegar Hjörtur heimsótti Ólaf og konu hans Bergþóru fyrir sunnan rakst hann á bráðmyndarlega uppeldissystur Bergþóru, Lilju Sveinsdóttur. Kærleikar tókust með þeim Hirti og Lilju og þau giftust 1956. Hjörtur tók skírn 22. mars 1958 og fylgdi aðventsöfnuðinum af trúmennsku upp frá því. Það hefur þótt tíðindum sæta að bóndinn í Neðri-Hundadal ánetjaðist „sértrúarsöfnuði“ og hefur það ekki verið alls kostar auðveld ákvörðun af hans hálfu. En þar sem ekki var aðventkirkja í nágrenninu sem þau hjónin gætu sótt urðu þau bæði dyggir kirkjugestir Kvennabrekkukirkju. Svo mjög svo að Hjörtur þjónaði sem meðhjálpari kirkjunnar um árabil og Lilja aðstoðaði við organleik þar sem og í mörgum öðrum kirkjum í nágrenninu í áratugi. Þeim hjónum varð fjögurra barna auðið. Þau eru Sigríður, fædd 1958, gift Helga Reynissyni. Þeirra börn: Reynir Örn, Hjörtur Már og Berglind Dögg. Sigursteinn, fæddur 1959, kvæntur Maríu G. Líndal. Þeirra börn: Guðmundur Líndal, Sigurdís Elísa Lilja og Sigríður Hjördís. Kristín Lára, fædd 1965, gift Jóhanni Hreggviðssyni. Synir þeirra: Daníel og Tómas Ingi. Þá Signý Harpa, fædd 1970, gift Axel Hafsteini Gíslasyni. Þeirra börn: Sindri Steinn og Hekla Dalrós. Börnin öll tóku snemma virkan þátt í bústörfunum í Hundadal. Á níunda áratugnum höfðu Sigursteinn og María alveg tekið við búrekstrinum en þá bjuggu þau Hjörtur og Lilja fyrir sunnan um tíu ára skeið. Árið 1994 keyptu þau jörðina Gröf og bjuggu þar í ein 6 ár. Því næst fluttust þau aftur um tíma í Hundadal og dvöldu einnig í um ½ árs skeið á Selfossi hjá Signýju og Axel og fluttu svo í Silfurtún í Búðardal árið 2007 þar sem þau hafa búið upp frá því. Hjörtur var um margt einstakur persónuleiki. Hann var einn þessara rammíslensku sveitahöfðingja sem eru nú orðnir fáir eftir á okkar tímum. Þetta spratt ekki hvað síst af ást hans á Íslandi, á sveitinni og menningunni sem henni tengist. Í frásagnasnilld sinni gat hann veitt af gnótt þekkingar sinnar á lifandi og grípandi hátt. Mörg okkar minnast atvika þar sem hann reis á fætur og hélt tækifærisræður, blaðlaust á nær skáldlegu máli, enda hagyrðingur góður. Svo var það áhugi hans á félagsmálum sem á stundum dró hann frá bústörfun- um. Það yrði langt mál að telja upp allar þær nefndir og stjórnir sem Hjörtur var þátttakandi í um lengri eða skemmri tíma. Líka innan aðventsafnaðarins höfum við notið þjónustu hans á félagslega sviðinu í stjórnum og ráðum. Einnig lét Hjörtur til sína taka á pólitíska sviðinu og barðist fyrir ýmsum þjóðþrifa málum svo sem endurbótum á veginum um Bröttubrekku. Þetta afrek umfram annað leiddi til þess að Hjörtur var útnefndur heiðursborgari Dalabyggðar 2005. En þessi alvörugefni maður var einnig hlýr, barngóður og yndislegur faðir og afi. Það var augljóst öllum sem til þekktu hve samrýmd þau voru, Lilja og Hjörtur. Heimili þeirra líktist um margt heimili foreldra hans, þeirra Láru og Einars. Margir nutu gestrisni hjá þeim og mörg, ekki síst borgarbörn, hafa notið þar ógleymanlegra sumardvala. Hér kveður maður sem hafði þjónað sínu samferðafólki, sáttur við Guð og menn og saddur lífdaga. Hann fékk að sofna rólega á heimili sínu. Þá er það að fyrirheit Guðs verða von barna hans að fyrir kraft frelsara þeirra verði þau kölluð fram úr dauðanum. Trúsystkinin og söfnuðurinn kveður með virðingu og þakklæti fyrir allt og vottar ástvinum samúð. Útför Hjartar fór fram frá PRENTSTOFAN HVÍTA ÖRKIN Útför frá Kvennabrekkukirkju föstudaginn 3. janúar 2013 Hjörtur Einarsson Fæddur 31. desember 1918 Dáinn 23. desember 2013 Aðstendendur þakka samúð og vinarhug og bjóða öllum viðstöddum að þiggja veitingar í Félagsheimilinu Árbliki, að athöfn lokinni. Athöfninni er útvarpað á FM 103,9 MHZ. Prestar: Séra Anna Eiríksdóttir Séra Eric Guðmundsson Organisti: Halldór Þórðarson Undirleikur við söng: Viðar Guðmundsson Einsöngvarar: Garðar Cortes, Snorri Hjálmarsson Viðar Guðmundsson Kór: Kirkjukór Dalaprestakalls Umsjón útfarar: Útfararstofa Vesturlands, Akranesi

x

Aðventfréttir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Aðventfréttir
https://timarit.is/publication/973

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.