Víðförli - 15.05.1983, Qupperneq 8
Séra Guðni Þór Ólafsson og Herbjört Pétursdóttir, bókasafnsfræðingur,
eru prestshjón að því forna frægðarsetri Melstað í Húnavatnssýslu og búa
þar ásamt börnum sínum sem væntanlega verða orðin fjögur við sumar-
komu.
„Ég hafði haldið því fram í guðfræðideildinni að enginn prestur ætti að
vera lengur en svo sem 5 ár í hverju kalli, en árið í preststarfinu hefur
kennt mér að sjá kosti þess að þjóna lengur á sama stað,“ segir sr. Guðni er
Víðförli hitti þau hjón á stuttri Reykjavíkurferð fyrir skemmstu.
„Hann Guðni er svo óþolinmóður að komast norður svo þetta verður eng-
inn stans hjá okkur hér syðra. Það eru svo mörg verkefni sem bíða,“ segir
Herbjört.
„ Já, mér finnst ágætt að koma suður og ljúka sínum erindum en best er
að vera þar sem maður tilheyrir þegar maður er í góðu formi," bætir sr.
Guðni við.
Heima á Melstað. Herbjört og séra Guðni Þór.
Peir eru stórhuga, Húnvetningar
Sr. Guðni Þór lauk guðfræðiprófi
árið 1979 og var síðan um 2ja ára
skeið við framhaldsnám í Erlangen í
Þýskalandi. Hann vígðist sem far-
prestur kirkjunnar og þjónaði Stykk-
ishólmsprestakalli í námsleyfi sr.
Gísla Kolbeins en var síðan kjörinn
sóknarprestur í Melstaðarprestakalli
í júlí 1982 en sr. Gísli hafði einnig
þjónað því kalli áður. Prestur hefur
ekki setið á Melstað í ein 7—8 ár og
reyndar hafði húsið þar verið mann-
laust um skeið áður en þau hjón flutt-
ust þangað.
„Það hafa margir sagt við okkur að
þeim þyki gott að sjá aftur ljós á
Melstað. Staðurinn hefur mikinn
sess í huga margra sóknarbarna því
að þarna hefur löngum verið setið
með mikilli reisn, enda jörðin af-
bragðs bújörð að mælikvarða eldri
tíma. Jón biskup Arason byggði jörð-
ina sr. Birni, syni sínum, og var hann
þekktur af því að velja sonum sínum
ekki kotin. Það voru ekki fáar ungu
stúlkurnar sem fengu mótun og
menntun hjá maddömunni á Mel-
stað en það er nú víst ekki búist við
því lengur," segir Herbjört og hlær
hressilega. „Við kusum að búa á
Melstað en ekki þar sem byggðin er
þéttari. Þetta er nú einu sinni prests-
setrið. Það hentar vafalaust ekki öll-
um að búa svona sér. Menn þurfa að
vera sæmilega sáttir við sjálfan sig
og una sér vel með sjálfum sér og sín-
um nánustu. En við kusum þetta að
yfirveguðu ráði. “
„Það er líka mikilvægt fyrir prest
að búa á kirkjustað," segir sr. Guðni
„að hafa helgidóm á hlaðinu sem er
griðland og dagleg áminning um
hver maður er og í hvers þjónustu. “
- Þið finnið ekki fyrir því að búa
afskekkt?
„Nei, það er nú eitthvað annað.
Við erum í þjóðbraut. Melstaður ligg-
ur í miðju prestakallinu og við
Norðurlandsbraut. Það er heldur að
aðalþéttbýlið í prestakallinu sé svo-
lítið útúr! Hinsvegar hef ég fengið
ágæta starfsaðstöðu á Hvamms-
tanga. Ég leigi þar herbergi í nýrri
þjónustumiðstöð sem hýsir líka
bókasafnið, rakarann, tannlækninn,
sýslumann, sem kemur vikulega, og
bókhaldsskrifstofu. Niðri er svo
verslun. Þetta er prýðilegt fyrir-
komulag og sparar fólki að fara alla
leið að Melstað því að ég er þarna
reglubundið. Húnvetningar eru
glaðsinna og sjá gjarnan það bros-
lega og þetta sambýli okkar hefur
orðið til að létta geðið á löngum vetri.
Þeir segja að þarna í húsinu fari
menn fyrst í rakarastólinn, síðan í
tannlæknastólinn og loks í skrifta-
stólinn. Nú stundum er haft á orði
að rakarinn hafi hendur í hári fólks,
tannlæknirinn vaði ofan í þá og
presturinn taki menn til bæna. En
fólki virðist nú líka þessar aðfarir all-
vel því að margt er þarna um
manninn. “
8 - VÍÐFÖRLI