Bæjarins besta


Bæjarins besta - 30.07.2015, Page 12

Bæjarins besta - 30.07.2015, Page 12
12 FIMMTUDAGUR 30. JÚLÍ 2015 Gæti komið sér vel að heita Snæfjörð ... Sérhvert mannsbarn á Ísafirði sem á annað borð er komið til vits og ára þekkir væntanlega eða kannast við manninn sem jafnan er kallaður Úlfar í Hamraborg. Margir vita að hann heitir Úlfar S. Ágústsson en talsvert færri vita líklega að hann heitir fullu nafni Úlfar Snæfjörð Ágústsson. Að baki Snæfjörðsnafninu liggja vissar ástæður sem hann áttaði sig ekki á fyrr en hann var orðinn fullorðinn. Móðir Úlfars hét Guðmundína Bjarnadóttir. Uppruni hans að öðru leyti er bæði sérstæður og flókinn og kannski viðkvæmt að ræða þau mál, segir hann. Þó að hann sé skráður Ágústsson er hann í rauninni Guðmundsson, og í móðurættina átti hann átti hann tvo afa, ef svo má segja. Frá hvoru tveggja verður greint í þessu viðtali. Við Úlfar ræddum saman 3. júlí, daginn þegar hann varð 75 ára. Það var ekki eina stórafmælið hjá þeim hjónum Ínu og Úlfari á þessu ári, því að hún varð líka 75 ára þann 24. janúar og 55 ára brúðkaupsafmæli (smaragðs- brúðkaup, næsta stig fyrir ofan gullbrúðkaup) áttu þau 13. febr- úar. Úlfar fæddist á Ísafirði og ólst upp í sárri fátækt. Um Íslands- bersa var sagt á sínum tíma eitt- hvað á þessa leið: Fjórum sinnum féll á kné, í fimmta skipti stóð hann. Úlfar hefur staðið í marg- víslegum rekstri mestan hluta ævinnar, tvisvar tapaði hann öllu sínu og stóð uppi stórskuldugur, en í bæði skiptin neitaði hann að fara í gjaldþrot heldur hét því að borga upp allar sínar skuldir. Og stóð við það. Hættur að vera leiðinlegur – Þegar þú lítur til baka yfir farinn veg, sem er orðinn nokkuð langur, ertu þá sáttur við tilver- una? „Bæði já og nei. Ég er að eðlis- fari mjög glaðsinna og hamingju- samur maður. Ég er það dagsdag- lega, en ég er alls ekkert ham- ingjusamur yfir því hvernig byggðarþróunin hefur verið hér í þessum kaupstað þar sem ég fæddist fyrir 75 árum og hef búið alla tíð.“ – Þú hefur nú talað um einmitt þetta í marga áratugi, sagt álit þitt í þessum efnum tæpitungu- laust, hvort sem einhverjum hefur líkað betur eða verr, og ekki alltaf verið mjög diplómatískur ... „Það er alveg hárrétt. Ég hef reynt að tala fólk til, en núna er ég hættur því. Bæði er ég orðinn of gamall og kalkaður og líka hef ég ekkert gaman af því lengur að vera leiðinlegur. Mér var alveg sama þó að einhverjum þætti ég leiðinlegur, bara ef ég taldi að málstaðurinn væri góður. Ég tel mig alltaf hafa verið að berjast fyrir góðum málstað.“ Mér finnst lífið alveg stórkostlegt undur – En þegar þú lítur yfir þinn persónulega veg að öðru leyti ...? „Í raun og veru finnst mér alveg ótrúlegt hvernig ég hef hjakkast í gegnum þetta líf. Fæddur við óskaplega fátækt. Þegar ég fædd- ist var pabbi orðinn veikur af einhvers konar lömunarveiki, sem enginn kunni að greina á þeim tíma. Hann var smátt og smátt að veslast upp í eitthvað kringum tuttugu og fimm ár þangað til hann dó,“ segir Úlfar. „En maður er nú alltaf að velta tilverunni fyrir sér, og í rauninni finnst mér hún dásamleg. Mér finnst lífið alveg stórkostlegt undur. Af hverju ætti lífið eigin- lega að vera betra en það er? Er það ekki nógu mikið sem skapar- inn hefur lagt upp í hendurnar á okkur? Eru það ekki bara undur að maður skuli yfirleitt vera til? Ættum við ekki að þakka ein- hverjum skapara, sem við vitum ekkert hvernig lítur út, að hafa gefið okkur þetta líf?“ Ég hef fengið að vera ég sjálfur – Vildirðu núna þegar þú lítur til baka að þú hefðir valið þér einhverja allt aðra leið í lífinu? Valið einhverja aðra atvinnu, fengist við eitthvað allt annað, að þú hefðir farið suður í stað þess að búa alla ævi á sama staðn- um hér fyrir vestan? Ertu sáttur þegar þú lítur til baka? „Já, ég er óskaplega sáttur við að ég skuli hafa komist upp með að fara þessa leið. Eins og ég sagði, þá kom ég úr mikilli fátækt, ég átti enga bakhjarla. Ég varð bara að treysta á sjálfan mig og Ínu gegnum lífið. Eiginlega það eina sem ég var ósáttur við sem ungur maður var að mér skyldi ekki vera ætlað að fara í mennta- skóla. Núna er ég aftur á móti guði þakklátur fyrir að hann skyldi hafa það af mér að fara í menntaskóla. Ég er alveg viss um að ég hefði aldrei orðið nema mjög lélegur viðskiptafræðingur ef ég hefði farið þá leið! Aftur á móti hefur mér yfirleitt lánast án nokkurrar menntunar að spila þokkalega úr mínum spil- um fyrir mig og mína. Ég hef fengið að vera ég sjálfur, og það er mér gríðarlega mikilvægt. Ég hef þó átt nokkra mentora á yngri árum, sem ég hef numið margt og mikið af. Þar má nefna Jóhann Snæfeld og konu hans Höllu í Hamarsbæli, Ágúst Leós húsbónda minn til margra ára og eiganda Neista ásamt Júlíusi Helgasyni. Líka má nefna Guð- mund Gíslason, Gumma í Damm- inum, sem kenndi mér sjómenn- sku ásamt bræðrunum Arnóri, Hermanni og Marinó Sigurðs- sonum, sem ég var með öllum samskipa á Má vertíðina 1958 til 1959.“ Amman og Jón og Bjarni Andréssynir – Segðu frá foreldrum þínum og uppruna. „Það er nú kannski talsvert viðkvæmt að tala um uppruna minn og ýmis atvik í kringum hann. Þessu ber nefnilega ekki saman við kirkjubækurnar. Amma mín í móðurættina, Jónína Ósk Guðmundsdóttir, var úr Bjarnarfirði á Ströndum. Að ég best veit og trúi sjálfur var hún sem ung stúlka eitthvað skot- in í frænda sínum sem hét Jón Andrésson og átti heima á næsta bæ, og varð ófrísk eftir hann. En þegar hún segir Jóni að hún sé þunguð af hans völdum, þá reynist hann nú ekki meiri karak- ter en svo, að hann stakk af frá henni hingað vestur á Ísafjörð og fór að vinna hér. Hann var hér verkstjóri og síðan atvinnurek- andi í fiskvinnslu. Bróðir hans, og þar með afabróðir minn, sem hét Bjarni Andrésson, aumkaði sig hins vegar yfir ömmu og tók hana að sér. Jón Andrésson, sem samkvæmt þessu var raunverulegur afi minn, eignaðist konu hér á Ísafirði og mannvænleg börn. Skilgetnar dætur Jóns og móðir mín voru nauðalíkar, en mamma var ekki eins lík yngri dóttur Bjarna, sem samkvæmt kirkjubókunum var alsystir hennar. Bjarni og Jónína amma mín eignuðust hins vegar engin börn saman. Þess má geta að þau voru systkinabörn.“ Feðurnir tveir „Þegar móðir mín vex úr grasi, þá kynnist hún hér á Ísafirði manni af Ingjaldssandi, ættuðum úr Aðalvík en fæddum á Flateyri, sem hét Ágúst Jörundsson. Þau felldu hugi saman og bjuggu sam- an í nokkur ár og áttu saman dótt- ur sem heitir Sigríður Ágústs- dóttir. Hér var mikil fátækt og mamma fór til ættingja sinna í Steingríms- firði til að vinna, og þar kynntist hún ungum manni sem hún þekkti reyndar aðeins frá Ísafirði, Guðmundi Guðna Guðmunds- syni. Hann var síðar nokkuð þekktur í verkalýðsbaráttunni í Reykjavík sem fulltrúi Sjálfstæð- isflokksins, en var sem ungur maður mjög róttækur í skoðun- um. Þessi kynni urðu til þess að þau eignuðust saman barn, og það barn er ég. Þannig var Ágúst Jörundsson ekki raunverulegur faðir minn þó að ég sé skráður sonur hans, heldur Guðmundur Guðni Guðmundsson. Þetta var alveg augljóst, því að við Guð- mundur vorum nauðalíkir bæði í útliti og karakter.“ – Hann hefur þá væntanlega verið nokkuð sérstæður karakter og gefinn fyrir að fara sínar eigin leiðir ... „Já, hann hefur áreiðanlega verið nokkuð sérstæður karakter. Það er ýmislegt merkilegt sem kom frá honum. Hann var mjög drífandi á Drangsnesi þau ár sem hann var þar barnakennari. Þar stofnaði hann stúku, leikfélag og verkalýðsfélag.“ Því má bæta við, að Guðmund- ur Guðni faðir Úlfar Ágústssonar var einnig fræðimaður og rithöf- undur. Meðal bóka frá hans hendi má nefna sögu Fjalla-Eyvindar. „Ég hef aftur á móti haldið mig við mína konu,“ segir Úlfar í fram-

x

Bæjarins besta

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.