Bæjarins besta - 03.11.2004, Síða 4
MIÐVIKUDAGUR 3. NÓVEMBER 20044
Færri komust að en vildu
Villibráðarkvöld SKG-veitinga á Hótel Ísafirði
„Besta veislan til þessa“, segir Trausti Már Grétarsson, hjá SKG-veitingum um hið árlega
villibráðakvöld fyrirtækisins sem haldið var á Hótel Ísafirði á laugardagskvöld. Salurinn
var fullsetinn og að sögn Trausta voru allir í skýjunum yfir vel heppnaðri veislu.
Að venju kenndi þar ýmissa grasa úr villtri náttúru Íslands. Má þar nefna hreindýr, gæs,
svartfugl, skarf, önd, lax, sjóbirting, sel og hrefnu svo eitthvað sé nefnt. Nú var annað árið
í röð boðið upp á nýveidda hrefnu en um árabil var einungis hægt að bjóða gestum hrefnu
sem sögð var veidd fyrir daga hvalveiðibanns.
Villibráðakvöldin hjá SKG-veitingum eru sérstök að því leiti að listamennirnir í eldhúsinu
sjá ekki einungis um að töfra fram ómótstæðilega rétti úr villibráðinni heldur hafa þeir
einnig aflað mestan hluta hráefnisins með veiðum sínum enda eru þeir með fengsælli
veiðimönnum á Vestfjörðum.
Veislustjóri var hinn síungi Ólafur Kristjánsson sem í eina tíð stjórnaði Tónlistarskóla
Bolungarvíkur og Bolungarvíkurkaupstað. Eins og alþjóð veit fer þar tungulipur maður
með afbrigðum.
Þá var einnig haldin samkeppni um bestu veiðisöguna. Sigurvegari var Guðmundur
Sigurvinsson og fékk hann fluguveiðistöng frá Hafnarbúðinni á Ísafirði að launum. Að
borðhaldi loknu lék hljómsveitin Eydís fyrir dansi til kl. 1 eftir miðnætti.
Að venju komust færri að en vildu og hefur því verið ákveðið að halda annað villibráðakvöld
þann 13. nóvember. Halldór Sveinbjörnsson tók myndirnar. – thelma@bb.is
44.PM5 12.4.2017, 10:464