Bæjarins besta


Bæjarins besta - 21.10.1998, Side 6

Bæjarins besta - 21.10.1998, Side 6
6 MIÐVIKUDAGUR 21. OKTÓBER 1998 Rúnturinn náði kringum jörðina Saga unga Ísfirðingsins sem vann fyrir sér með því að djúpsteikja pulsur á priki í ferðasirkus í Ástralíu og fékk sig fullsaddan af hrísgrjónaréttum í Austur-Asíu Heimshornaflakkarinn Auðunn Bragi Valdimarsson er um þessar mundir skipverji á togaranum Júlíusi Geirmundssyni. Honum veitir ekki af að þéna eins og hann getur, því að stefnan er að koma á fót gistiheimili í Portúgal. Það hyggst hann gera í félagi við unnustu sína, Kathleen Kardokas frá Bandaríkjunum (Kathy), en hún vinnur í rækjunni í Súðavík í sama skyni. Þau kynntust ekki á Vestfjörðum, ekki í Bandaríkjunum, heldur í Ástralíu, þar sem sumarið er á vetrum, bílstjórar þurfa að passa sig að keyra ekki á kengúrur og höfuðið á manni snýr niður. Auðunn Bragi er rétt rúmlega hálfþrítugur Ísfirðingur. Á sínum tíma var hann á rúntinum á Ísafirði eins og aðrir ungir menn – niður á höfn, upp að sjúkrahúsi, niður á höfn, upp að sjúkrahúsi o.s.frv., en svo stækkaði rúnturinn og náði að síðustu kringum jörðina og rúmlega það. Kathy og Auðunn Bragi með heiminn á milli sín. Þegar hann er spurður hvers vegna hann stækkaði rúntinn svona mikið, segir hann að það hafi í rauninni verið hrein tilviljun. „Örn Ægisson, félagi minn hérna á Ísafirði, átti kunningja úti í Los Angeles og ætlaði að skreppa til hans. Við vorum að snakka saman, hann stakk upp á að ég færi með og ég sló til. Ég var að vinna í rækjunni í Bakka í Hnífsdal og var eiginlega orðinn hundleiður á því. Ég sagði upp, seldi mótorhjólið mitt sem ég var nýbúinn að kaupa og bara fór.“ – Var það eitthvað merkilegt hjól? „Nei, það var bara venju- legur japanskur hrísgrjóna- brennari.“ Málari í Los Angeles – Hvenær var þetta? Svarið vefst fyrir Auðuni. „Það er orðið svo langt um liðið. Jú, ég var tuttugu og eins, svo að það eru um fimm ár síðan.“ Í Los Angeles fengu þeir félagar vinnu sem málarar hjá íslenskum málarameistara sem fluttist þangað fyrir eitthvað um þrjátíu árum. „Við unnum hjá honum í fimm mánuði, en það endaði með því að það var orðið lítið um verkefni hjá honum og þá fórum við á flakk. Við keypt- um okkur bíl og fórum upp til Montana og vorum þar yfir jól hjá íslenskri fjölskyldu sem Örn þekkti.“ – Þar hafa væntanlega verið talsverðar vetrarhörkur... „Já, frostharka og stillur miklu frekar en mikill snjór. Síðan ókum við suður og þræddum Miðvesturríkin og allt til Oklahoma, en þar þekkir Örn íslenskan flug- kennara. Þaðan sneri hann aftur heim til Íslands en ég fór aftur vestur til Kaliforníu. Mig langaði til þess að fara til Ástralíu, úr því að maður var byrjaður á þessu flandri. Ég keypti mér miða þangað og ætlaði bara að vera í mánuð.“ Fór að vinna í sirkus af því að kortið fraus – Af hverju Ástralíu? Af hverju ekki til Grænlands eða Panama? „Í fyrsta lagi er Ástralía hinum megin við miðbauginn og í öðru lagi er hún alveg hinum megin á hnettinum, ef miðað er við Ísland. Ef maður fer lengra, þá er maður kom- inn á leið heim aftur. Ég ætlaði bara að skreppa, fara svo aftur til Bandaríkjanna og síðan heim. En það vildi svo til þegar mánuðurinn var liðinn, að krítarkortið mitt fraus og ég stóð uppi peningalaus í Sydney. Ég þurfti að gista á farfuglaheimili og sá þar auglýsingu uppi á vegg um að það vantaði fólk til starfa hjá tívolí-flokki eða sirkus sem ferðaðist um austur- ströndina. Ég hringdi og fékk vinnu og þar var ég í sex mánuði, þannig að Ástralíu- dvölin varð sjö mánuðir. Þetta voru í rauninni nokkrir hópar saman sem ferðuðust um og settu upp allt sitt dót og tæki og héldu skemmtanir og sýningar.“ Pulsur á priki – Varstu trúður eða fim- leikamaður eða eldgleypir? „Neinei, ég var að vinna í matarvagni og seldi franskar og kjúklingabita og kók og djúpsteiktar pulsur á priki.“ – Pulsur á priki? „Það er kallað dagwood- dog. Maður stingur priki í endann á venjulegri pulsu, stingur henni í deig og djúp- steikir. Svo dýfir maður henni í tómatsósudunk og réttir kúnnanum.“ – Ég sé á myndinni hjá þér að þetta eru eldrauðar og fallegar pulsur eins og tíðkuð- ust hér á Íslandi á sínum tíma en voru svo bannaðar vegna litarefnanna... „Það hefur verið fyrir mína tíð. Það er í þessum pulsum úti eitthvert mystery-meat, eins og þeir kalla.“ – Ertu náttúrubarn eða altmúligmand í hverju sem er? Eða hafðirðu eitthvað fengist áður við málarastörf og mat- reiðslu? „Nei, aldrei. Ég vann bara það sem að höndum bar hverju sinni. Ég vil prófa allt. Þessi vinna í matarvagninum hjá sirkusnum var mjög fín. Ég fékk 200 ástralska dollara á viku (um tíu þúsund kall íslenskar) og frítt fæði og húsnæði.“ – Varstu í Ástralíu yfir sumarið? „Ég fór þangað í janúar og þá var þar hásumar. Við byrjuðum í Sydney, fórum þaðan til Melbourne og síðan til baka og alla leið upp austurströndina og til Cairns í Queensland. Það er mikill túristabær.“ Hitti konuna í Ástralíu – En þú hefur fengið fleira í Ástralíu en dollara, fæði og húsnæði... „Já, ég hitti konuna mína þar. Við erum reyndar ekki gift. Hún er frá Bandaríkj- unum, frá borg rétt fyrir utan Boston. Það vildi svo til að hún fékk líka vinnu hjá þessu sama karnival-fyrirtæki og líka eftir sömu auglýsingu á farfuglaheimili. Hún var á ævintýraferðalagi rétt eins og ég og langaði af einhverjum ástæðum til Ástralíu eins og mig. Þarna söfnuðum við okkur peningum til þess að geta haldið áfram ferðalaginu og ákváðum að ferðast um Austur-Asíu. Í rauninni var ég alltaf á leiðinni heim en hún ætlaði sér að ferðast um Asíu. Einn daginn spurði hún hvort ég vildi ekki bara koma með sér. Og ég gerði það. Ég átti miða til baka til Bandaríkj- anna þannig að hann datt niður dauður. En við vorum búin að vera lengur í Ástralíu en leyfilegt var, þannig að vega- bréfsáritunin var löngu fallin úr gildi. Við máttum bara vera þar í þrjá mánuði, en þeir voru orðnir sjö. Við gáfum okkur fram í útlendingaeftirlitinu og sögðum að við værum á leiðinni úr landi. Þá fengum við 24 tíma til að koma okkur úr landi og máttum ekki koma þangað aftur í eitt ár. Við fórum með rútu frá Brisbane til Darwin á norður- ströndinni og þaðan yfir til eyjarinnar Tímor í Indónesíu og flugum þaðan til Balí og voru þar góðan tíma. Síðan fórum við til Jövu og ferð- uðumst þar um.“ Ferðatöskur í staðinn fyrir björgunarvesti – Þið voruð ekkert að vinna í Indónesíu? „Nei. Það er mjög ódýrt að lifa þar. Eitt sinn vorum við átta eða níu daga í strandbæ á Jövu og fyrir okkur bæði kostaði dvölin þar hundrað dollara (sjö þúsund kall), gisting, matur og allt sem okkur langaði í. Við fórum svo til höfuð- borgarinnar Jakarta og þaðan með ferju til Singapore. Það er alveg ótrúlegt hvað þeir geta troðið miklu fólki í ferjurnar þar. Það var fólk bókstaflega allsstaðar. Enda eru ferju- slysin algeng í Austur-Asíu og nóg af hákörlum í sjónum. Við kíktum inn í stóran skáp sem var merktur sem geymsla fyrir björgunarvesti. Þar var ekkert nema ferðatöskur og engin björgunarvesti nokkurs staðar. Sem betur fyrir kom ekkert fyrir í þeirri ferð. Í Singapore hittum við bróður minn, Jón Smára. Hann flaug til Danmerkur, þaðan til Moskvu og síðan til Singa- pore.“ – Má skjóta inn í: Er öll fjölskyldan heimshornaflakk- arar? Össur bróðir þinn hefur líka farið víða... „Nei. Fjórði bróðirinn hefur verið alveg laus við þetta. En það má segja að það sem kveikti í okkur Jóni Smára hafi verið þegar við fórum með móður okkar í Evrópu- ferð í tíu mánuði. Þá sigldum við með Norrænu með bíl með okkur og fórum um Evrópu þvers og kruss og allt til Grikklands, þar sem við vorum í góðan tíma. Við sáum að það er hægt að gera fleira og á ódýrari hátt en að fara í sólarlandaferð í þrjár vikur og vera þar á hóteli.“ Hanoi Hilton „Frá Singapore fórum við með lestum upp til Malasíu og vorum þar í regnskóg- unum. Þaðan lá leiðin til Thailands og þar vorum við á eyju í mánuð í góðu yfirlæti áður en við fórum til Bangkok. Þar keyptum við okkur miða til Hanoi í Vietnam. Það var mjög athyglisvert að vera þar, ekki síst í ljósi Víetnam- stríðsins fræga. Við skoðuðum stríðsfangabúðirnar sem Am- eríkanarnir kölluðu á þeim tíma Hanoi Hilton. Það vildi svo einkennilega til, að ein- mitt þar á sama stað var verið að byggja raunverulegt Hilt- on-hótel þegar við komum. Þannig breytast tímarnir, og vonandi mannfólkið með. Frá Hanoi fórum við með lestum til Ho-Chi-Minh-borgar, sem áður hét Saigon. Þaðan flug- um við til Phnom Penh í Kambodíu og vorum þar í viku, og síðan aftur til Bang- kok í Thailandi. Þar skildust leiðir okkar Jóns Smára. Hann fór aftur heim en við Kathy flugum til Katmandu í Nepal og vorum þar í viku. Þá vorum við orðin dálítið þreytt á öllu baksinu og eiginlega útbrunn- in, enda búin að vera á ferða- lagi um Asíu í hálft ár. Við vorum farin að þrá Pizza Hut og hamborgarastaði og annað slíkt sem einkennir vestræna menningu, og frá Nepal flug- um við beint til Parísar.“ Hvítlauksbrauð í Indónesíu – Það hefur væntanlega verið mest um hrísgrjón á matseðlinum á þessu ferða- lagi... „Já, soðin hrísgrjón, steikt hrísgrjón, hrísgrjónasúpa... Það var ekki um margt að velja nema kannski McDonalds á helstu ferðamannastöðum. Í Indónesíu sáum við að vísu pizzu á matseðli, en það reyndist vera einhver brauð- hleifur með kjöttætlum ofan á. Við pöntuðum okkur líka hvítlauksbrauð, en það reynd- ist vera brauðsneið með hvít- lauksgeira ofan á! Vissulega má slíkt með nokkrum rétti kallast hvítlauksbrauð, þó að það hafi verið öðruvísi en maður á að venjast. Við gátum

x

Bæjarins besta

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.